Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Gerum sjómannadaginn betri
Frá sjómannadeginum 1993
Gerum sjómannadaginn betri og betri
Dagskrá sjómannadagsins 1993 var fjölbreytt og þátttaka var betri en undanfarin ár. Það er mjög mikilvægt fyrir Vestmannaeyjar sem aflmestu verstöð landsins að sjómannadagurinn fari fram með þeirri reisn sem honum ber. Því miður hefur það reynst svo að undirbúningur dagsins hefur lagst á fárra manna hendur og um árabil hefur reynst erfitt að hafa dagskrána með þeim takti og fjölbreytileika sem menn gjarnan vildu, en af miklum dugnaði hefur sjómanna¬dagsráð Vestmannaeyja undir forystu Stefáns Einarssonar rifið starfið áfram og svo var einnig sl. sumar. Kapp var lagt á að hafa góðan gang í dagskránni þannig að aldrei væri dauður punktur. Til dæmis á meðan kappróðrarbátarnir voru gerðir klárir fyrir næstu lotu var tekinn koddaslagur, sjóskíðasýning eða kappróður í fiskikörum. Þannig gekk dagskráin fljótt og örugglega fyrir sig og menn gerðu góðan róm að þessu fyrirkomulagi. Þá var einnig í Friðarhöfn sýndur nýi björgunarbúnaðurinn frá Sigmund þar sem mögulegt er að draga marga menn í einu á dráttartaug úr strönduðu skipi.
Á Stakkagerðistúni var sami háttur á, dagskráin gekk greiðlega fyrir sig, en hún hófst að lokinni sjómannamessunni í Landakirkju og athöfninni við minnisvarðann um hrapaða og drukknaða, en auðvitað skruppu menn í millitíðinni í sjómannadagskaffið í Alþýðuhúsinu. Ávarp dagsins flutti Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra, en að því loknu afhenti Einar J. Gíslason verðlaun og viðurkenningar dagsins og kynnir sjómannadagsins var Árni Johnsen. Á Stakkagerðistúni var ýmislegt til skemmtunar, reiptog sjómanna og landkrabba, kvenna og karla, leikir fyrir börn, danssýning undir stjórn Önnu Svölu Árnadóttur, Lúðrasveit Vestmannaeyja lék og Ungmennafélagið Óðinn aðstoðaði við dagskrána með skipulagningu leikja og fleira. Þá var brugðið á leik og sjómannadagskynnirinn ræsti út fólk meðal áhorfenda til þess að bregða á leik, ýmist í boðhlaupum, reiptogi eða dansi, og var skemmtilegt hvað fólk tók fúslega við „skipunum" sjómannadagskynnisins.
Talsvert var rætt um það meðal manna í sjómannadagsráði að skynsamlegt gæti verið að flytja dagskrána úr Friðarhöfn inn fyrir Nausthamarsbryggju. Öll hefðbundin atriði sjómannadagsins gætu hæglega fari fram þar og kosturinn er enn meiri nálægð við áhorfendur. Þá telja margir að það væri kostur að stytta vegalengdina sem kappróðrarbátarnir sigla og líklega væri það mjög hæfilegt að sigla bátunum á milli Bæjarbryggju og Básaskersbryggju með tilliti til þess að fá fleiri áhafnir til að taka þátt í keppninni. Vegalengdin, sem verið hefur undanfarin ár, langt utan af höfn og inn í Friðarhöfn, er ótrúlega erfið nema fyrir þrautþjálfaða ræðara og slíku er einfaldlega ekki til að dreifa um þessar mundir. Menn hafa því gjörsamlega sprungið á kappróðrinum, en með mun styttri vegalengd yrði leikurinn mun skemmtilegri og léttari fyrir alla sem taka þátt í honum. Þá er mjög auðvelt innan Nausthamarsins að vera með ýmis atriði sem þurfa mikla nálægð við áhorfendur, svo sem tunnuhlaup, jafnvel stutta hugleiðingu prests og margt fleira mætti telja. Að sjálfsögðu þyrfti að færa bátana af hátíðarsvæðinu á meðan dagskráin færi fram, þ.e. sunnan við Nausthamarinn er það auðvelt verk og sama er að segja austan við Básaskersbryggjuna.
Vonandi taka menn höndum saman um að gera sjómannadaginn hér heima í Eyjum betri og betri svo menn hafi góða skemmtun af verkefni sem er okkur mikil skylda og ábyrgð.
- á.j.