Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Háskóli Íslands í Eyjum
Ómar Garðarsson:
Stiklað á stóru í ævi Grétars Þorgilssonar
Barátta við ránardætur með sönginn í farteskinu
Þegar Sigmar, ritstjóri Sjómannadagsblaðsins, fór þessi leit við mig að ég tæki viðtal við Grétar Þorgilsson fannst mér það ekkert mál. Grétar er einn af litríkari skipstjórum Eyjaflotans á undanförnum áratugum. Einn þeirra sem fór sínar eigin leiðir og setti svip á lífið til sjós og lands í Eyjum. Eftir að hafa játað erindinu fór ég að fá smáeftirþanka, Grétar er jú tengdapabbi minn og þá var vandinn að gera viðtalið ekki að eins konar minningargrein. Ég gat auðvitað byrjað á því að segja frá fyrstu kynnum mínum af Grétari. Þau voru reyndar í gegnum síma. Ungur sveinstauli hafði fylgt heimasætunni heim eftir dansleik og hafði símanúmer hennar í farteskinu þegar hann kvaddi hana við dyrnar. Í næstu landlegu tók það sveininn langan tíma að telja í sig kjark til að hringja í númerið. Vitandi það að sennilega var heimilisfaðirinn líka í landlegu og því talsverð hætta á að hann svaraði í símann. Og auðvitað varð það raunin, Grétar svaraði, og eftir að hafa borið upp erindið heyrði sveinninn ungi að hann kallaði á heimasætuna á hinum enda línunnar en um leið var sungið fullum rómi, „Please realease me, let me go" sem þá tröllreið öllum vinsældalistum í flutningi Engilberts Humperdinks, vinsæls söngvara á þessum árum. Þetta gerði Grétar annaðhvort til að fæla sveininn í burtu eða hann var að stríða heimasætunni. Ég hef ekki haft burði í mér til að spyrja hann hvor var ástæðan en þarna fékk ég í fyrsta skipti að kynnast tveimur hliðum á Grétari, stríðninni og söngvaranum Grétari Þorgilssyni. Grétar hlaut í vöggugjöf forkunnarfagra og mikla söngrödd og hennar fengu gestir og gangandi að njóta á góðum stundum.
Á KVIKTRJÁM Á LEIÐ TIL LÆKNIS
Grétar fæddist árið 1926 í Vestmannaeyjum. Foreldrar hans voru Þorgils Þorgilsson og Lára Kristmundsdóttir. Var hann í miðju fimm bræðra, en hann fór sem barn í sveit og var þar að mestu til 16 ára aldurs. Lengst var hann á Hofi í Öræfum þangað sem hann átti ættir að rekja. Grétar líkaði vel í sveitinni og á margar góðar endurminningar þaðan. Hann hafði því nokkuð annan bakgrunn en flestir aðrir skipstjórar sem urðu samtíða honum. Hann var heldur ekki kominn af sjómönnum því Þorgils faðir hans vann alla tíð í landi og var hann sá eini af bræðrunum sem gerði sjómennsku að sínu ævistarfi.
Ein fyrsta minning hans úr sveitinni tengdist því að hann veiktist alvarlega, var varla hugað líf, óskemmtileg minning. En saga Grétars lýsir því vel hvernig það var að búa í sveitinni milli sanda allt fram yfir miðja þessa öld. Öræfin voru eins og eyland á meginlandinu, óbrúuð stórfljót á báða vegu, jökullinn í norðri og hafnlaus strönd í suðri. Einangrunin hefði náð að móta sérstætt mannlíf í Öræfunum engu síður en í Vestmannaeyjum og kannski ekki síst samkennd og hjálpsemi í garð náungans sem lýsir sér vel í sögu Grétars.
„Ég veiktist alveg heiftarlega annan veturinn sem ég var þarna. Ég lá á milli heims og helju í viku eða hálfan mánuð. Það var sagt að ég hefði verið með garnaflækju og þurfti ég bráðnauðsynlega að komast undir læknishendur. Ég var fluttur yfir skeiðarársand á kviktrjám, en kviktré voru milli tveggja hesta og á þeim lá ég. Fólk af flestum bæjum í sveitinni tók þátt í að flytja mig. Ferðin tók heilan dag og það hjálpaði til að á var norðanátt og frost og því lítið í vötnunum. Þessum áfanga ferðarinnar lauk í Kálfafelli í Fljótshverfi. Þangað kom föðurbróðir minn á bíl og sótti mig. Hann hét Páll Þorgilsson, leigubílstjóri, gífurlega skemmtilegur karl. Ferðin til Reykjavíkur tók tvo daga. Gistum við í Stóradal undir Fjöllunum á leiðinni til Reykjavíkur og eftir að við komum þangað var ég lagður inn á Landakotsspítala. Þar lá ég ábyggilega tvær eða þrjár vikur áður en ég var skorinn upp. Ég var svo bólginn að það var ekki hægt að skera mig fyrr. Eftir þetta kom ég heim til Eyja en fór fljótlega aftur í sveitina og var þar til 1942."
FYRSTU SPORIN TIL SJÓS
Grétar var þá 16 ára gamall. Hann mátti ráða hvort hann yrði áfram í sveitinni eða ekki. Hann valdi þann kostinn að fara til Vestmannaeyja og kom með Erlingi VE sem Sighvatur Bjarnason, skipstjóri og seinna forstjóri Vinnslustöðvarinnar, var með. Var Erlingur þá í flutningum á milli Eyja og Öræfa bæði vor og haust eftir að Skaftfellingur var seldur.
Strax eftir heimkomu fór Grétar á sjóinn. Hann réði sig á Hauk VE, 16 tonna bát, sem var undir stjórn Steina á Kirkjulandi. „Með honum reri ég á snurvoð um sumarið. Það voru ágætis karlar þarna um borð. Diddi í Bræðraborg var einn kallaður, Friðrik Friðriksson úr Þorlákshöfn, karl sem mér líkaði mjög vel við. Já, við vorum fjórir um borð og mér líkaði vistin vel. Ekki skemmdi að Steini var mikill aflamaður. Svo byrjaði ég á gömlu Voninni með Jóni í Mandal. Þá var verið að smíða nýju Vonina og fórum við yfir á hana árið eftir. Var ég á henni eina vertíð og eitt síldarúthald, sumarið 1944. Nýja Vonin var eitthvað um 60 tonn, með 160 ha Listervél. Ég man það. Guðmundur Vigfússon var skipstjóri, Daddi í Holti bróðir hans og Jón í Holti. Alveg fyrirmyndarmenn, náttúrlega, Jón nikk, kokkur, frægur maður hér og var m.a. á Herjólfi. Var í því að redda fyrir fólk hér hlutum úr Reykjavík. Þarna var líka Gísli í Héðinshöfða. Allt saman öðlingskarlar. Ég var langyngstur, hálfgerður peyi, en ég var aldrei látinn finna fyrir því. Við vorum á trolli á vertíðinni og fiskuðum einhver ósköp. Vonin var langstærsti báturinn í Eyjum í þessum klassa. Lá við að vera alvöru togari miðað við hina trollbátana sem voru flestir 20 til 30 tonn".
Í SJÁVARHÁSKA
Þegar Grétari er sagt frá þessu rifjast upp fyrir honum atvik á meðan þeir voru að bíða eftir nýju Voninni.
„Ég var ekkert að gera því Vonin átti ekki að byrja fyrr en í febrúar. Ég var beðinn um að fara nokkra róðra því vertíðarmennirnir voru ekki komnir. Einn þeirra var Jónas í Landakoti vinur minn og var ég sennilega beðinn um að róa fyrir hann. Sló ég til og það er í eina skiptið sem ég hef lent í sjávarháska. Við fórum á sjó í ágætu veðri og lögðum inn og vestur. Svo gerir líka þetta rosalega veður og við vorum í útilegu í eina tvo sólarhringa, eða meira. Vorum við jafnvel taldir af. Við náðum aldrei sambandi við land. Við vorum reyndar með talstöð en hún var biluð. Þeir stóðu sig vel karlarnir á meðan á þessum ósköpum stóð. Mér eru sérstaklega minnisstæðir Óli Fúsa, Týri í Bragganum og Markús á Ármóti sem var vélstjóri. Hann var ábyggilega alveg sérstakur maður. Þeir stóðu allan tímann í stýrishúsinu sem var ekki nema smákofi og engin upphitun. Þeir hundblautir og lak af þeim. Ég held að þeir hafi ekki vitað hvar við vorum en þegar aðeins birti til sáum við til lands. Vorum við þá staddir vestan við Eyjar. Við ætluðum að setja út bauju en þá vildi ekki betur til en svo að hún lenti vitlausu megin við vantinn og brotnaði þannig að ekkert gagn var að henni. Þetta var austanbál en auðvitað slotaði því veðri eins og öðrum. Og við komumst í land. Ég held að enginn annar bátur hafi lent í vandræðum í þessu veðri en mér er minnistætt hvað karlarnir stóðu sig vel við þessar erfiðu aðstæður."
Sjálfur segist Grétar hafa verið hálfsjóveikur. Reyndi þó að hella upp á kaffi en þrátt fyrir góðan vilja varð lítið úr uppáhellingunni.
UPP Á KANT VIÐ KANANN
Hernámið á stríðsárunum er mörgum Eyjamanninum í fersku minni og það átti eftir að hafa nokkur áhrif á lífshlaup Grétars. Hér voru Bretar og seinna Bandaríkjamenn eða Kanar eins og þeir voru kallaðir þá. í eitt skipti skarst í odda á milli ungra Eyjamanna og Kananna og í framhaldi fannst Grétari rétt að fara um tíma frá Eyjum. „Við vorum einu sinni að koma úr bíó, ég og Maggi felló, og fórum inn á Tótubar sem kallaður var. Hann var við Vestmannabrautina, í kjallaranum þar sem Raggi rakari er til húsa í dag. Við fengum okkur greip, sem var aðaldrykkurinn þá, og ætluðum svo heim. Þegar við komum út komu nokkrir Kanar aðvífandi og byrja að lemja okkur. Út úr þessu urðu feiknaslagsmál. Það kom fullt af liði til að hjálpa okkur. Elli Bergur var einn þeirra. Hann var rosalega hraustur og tók einn Kanann og hélt honum eins og tusku upp við Fell. Ég held að við höfum farið þokkalega út úr þessu," sagði Grétar og hélt hann að þar með væri málinu lokið enda höfðu þeir ekkert til saka unnið. Fór hann á sjóinn og var svo sem ekkert að hugsa um þetta atvik en fljótlega var hann kallaður fyrir. „Breti, Tómas hét hann, kom heim og spurði eftir mér. Hann talaði ágæta íslensku og var túlkur hjá Kananum. Mamma vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var hrædd um að sonurinn væri kominn í einhver vandræði. Hún átti að skila því til mín að tala við þennan Tómas þegar ég kæmi í land. Mamma lét mig fá skilaboðin og ég fór. Ég var spurður að því hvort ég hefði þekkt eitthvað af Könunum sem réðust á okkur. Við sögðumst þekkja eina tvo eða þrjá og þá vorum við spurðir að því hvort við vildum benda á þá. Þeir virtust líta þetta mjög alvarleg¬ um augum og að hermenn ættu ekki að komast upp með að ráðast á bæjarbúa. Þeir höfðu það sér þó til málsbóta að einhver hafði selt þeim landa og urðu þeir vitlausir af honum. Það eina sem við gerðum var að segja að þessir menn hefðu verið þarna en við vissum ekkert hvort þeir höfðu tekið þátt í slagsmálunum eða ekki, það voru svo margir þarna. Við vorum kallaðir fyrir aftur því þeir sem við bentum á vildu ekkert segja, neituðu að koma upp um félaga sína en skilaboðin sem við fengum seinna voru að þeir ætluðu að drepa okkur, ef þeir næðu í okkur."
Á VIT ÆVINTÝRANNA
Í og með til að forðast frekari uppsteit við Kanann fóru Grétar og Maggi til Reykjavíkur þar sem Grétar réði sig á togara. „Ég komst í tvo afleysingatúra á togaranum Venus og það var nú fyrir einhvern misskilning að ég hélt ekki áfram. Því miður, þetta var eitt besta plássið í togaraflotanum þá. Svo lenti ég á togara sem hét Hafstein. Þar kynntist ég vini mínum Guðmundi Ibsen. Við héldum að við værum komnir á græna grein, að vera komnir í alvörupláss á togara. Guðmundur kom frá Súgandafirði og ég frá Vestmannaeyjum, báðir að freista gæfunnar, og leigðum við okkur saman herbergi við Grjótagötu í Reykjavík. Guðmundur var lengi skipstjóri á mb. Sigurvon og var alltaf kenndur við hana. Var hann mikill aflamaður. Fiskað var í og vorum við sendir í siglingafrí en þá vildi ekki betur til en svo að króntappinn brotnaði og þar með var það ævintýri úti."
Eftir það lá leiðin m.a. til Keflavíkur og var Grétar á ýmsum togurum og bátum á Faxaflóasvæðinu. „Svo fór ég á togarann Faxa frá Hafnarfirði. Ég fór í siglingu á honum, einn eða tvo túra, sem kyndari. Það hélt ég að yrði mitt síðasta. Kolin voru svo vond að við lá að maður kæmist ekki í land fyrir þreytu en fljótlega eftir það lauk flækingnum á fastalandinu. Nýsköpunartogararnir, Bjarnarey og Elliðaey, komu til Eyja og réð ég mig á Bjarnareyna. Var þar í eitt eða tvö ár og fór svo nokkra mánuði árið 1950 til Norðfjarðar."
STELPAN FRÁ ÞINGHOLTI
Grétar segist hafa verið í mörgum plássum á þessum tíma en nú tók alvaran við. Hann kynntist Þórunni, dóttur Páls í Þingholti, og festu þau ráð sitt og hefur Tóta staðið með honum í gegnum súrt og sætt síðan. Þau eiga sex börn og barnabörnin eru komin vel á annan tuginn og eitt barnabarn hefur litið dagsins ljós.
„Ég fór að róa með tengdapabba og Kristni mági mínum, en þeir og Emil heitinn mágur leigðu þá Njörð en eftir fyrsta árið fórst Páll í flugslysi 31. janúar 1951. Hann var þá á leið til Reykjavíkur til að ná í Faxaborgina frá Reykjavík og ætluðum við að vera með honum. Báturinn var í smáklössun og ætlaði Páll að fara til Reykjavíkur og fylgjast með henni þegar slysið varð. „Páll var alveg sérstaklega skemmtilegur karl og mjög góður maður. Hann var allan þann tíma sem ég man eftir á trolli og rótfiskaði."
Skömmu eftir þetta leigðu Grétar og Kristinn vélbátinn Stellu frá Norðfirði og var það í fyrsta skipti sem Grétar kom nálægt útgerð. Þaðan lá leiðin til Palla á Reyni og var Grétar stýrimaður hjá honum en þá hafði hann nýlokið við Stýrimannaskólann. Í skólanum með Grétari voru m.a. Bjarnhéðinn Elíasson, sem var mikill vinur Grétars, Gaui á Miðhúsum og Gaui á Landamótum. „Við vorum ábyggilega einir 30 eða 40 í skólanum á þessum tíma. Margir merkismenn og skemmtilegir."
NOTUÐU OLÍU í BARÁTTU VIÐ BROTSJÓINA
Grétar byrjaði sinn skipstjóraferil á Sindra VE sem Fiskiðjan átti árið 1959. „Sindri var mjög góður bátur og góður trollbátur. Það var fjögurra sílindra Muntel í honum og hann hristist svo mikið að kaffikönnurnar sem héngu á snögum duttu niður og höldurnar urðu eftir á snögunum. En seinna var skipt um vél í honum úti í
Svíþjóð."
Grétar byrjaði á netum þegar hann tók við Sindra og rótfiskaði. „Eftir það vorum við á trolli og gekk okkur mjög vel allan tímann sem ég var með Sindra."
Á Sindra lenti Grétar í sögulegri siglingu haustið 1960. Pálmi Sigurðsson, frá Skjaldbreið, var skipstjóri í þessari ferð eins og fleirum á Sindra. „Á leiðinni út lentum við í alveg brjáluðu veðri á Færeyjabanka. Það var alveg óskaplegt veður. Við vorum með varaolíu í tunnum á dekkinu og stungum gat á þær. Dekkið var fullt af snurvoðartógum sem átti að selja úti. Þau losnuðu og héngu aftur af og vorum við heppnir að fá þau ekki í skrúfuna. Urðum við að skera þau frá bátnum. Við settum olíublautar dýnur utan á borðstokkinn. Að því loknu lensuðum við í rólegheitunum norður fyrir North Rolandsoy. Ýmislegt fór aflaga um borð, sjór komst í radarinn og fleira en þetta blessaðist allt."
Þarna gripu þeir til gamals ráðs, að nota olíu til að slá á brotsjóina og kannski varð það til þess að þeir komust heilir úr þessum hildarleik.
GYLFI VE
Næst tók Grétar Ver VE sem Fiskiðjan keypti frá Seyðisfirði og þaðan lá leið hans á Hamrabergið en þá var komið að því að hann keypti Gylfa VE. „Ég keypti Gylfann af Fiskiðjunni árið 1969 og átti hann til ársins 1979 þegar ég byrjaði á Herjólfi. Útgerðin á Gylfa gekk ágætlega en hann var ekki nógu góður trollbátur en ég hafði ekki yfir neinu að kvarta. Gylfi var mjög góður bátur en hann vantaði sennilega stærri vél."
Eina sjóferð fór ég með Grétari á Gylfa sem ég gleymi seint eða aldrei. Þegar gosið hófsf 23. janúar 1973 var ég búsettur á Seyðisfirði en ekki voru liðnir margir dagar þegar ég var kominn til Eyja til að aðstoða Grétar og fleiri sem ég þekkti í Vestmannaeyjum. Gylfi var í slipp þegar gosið hófst og hafði meðal annars verið sett á hann gat fyrir botnstykki. Eftir að negla hafði verið sett í gatið var báturinn sjósettur en hann var vélarvana og þar sem ekkert var hægt að gera fyrir hann í Eyjum var ákveðið að Goðinn slefaði honum til Njarðvíkur. Fór ég með Grétari þessa ferð. Með okkur var Guðmundur Stefánsson, sem þá var vélstjóri.
Lögðum við af stað að nóttu til í góðu veðri en spáin var ljót. Sóttist ferðin vel að Reykjanesi en þá var komið kolvitlaust veður af suðri og suðvestri. Goðinn var eins og skopparakringla á sjónum fyrir framan okkur enda sjórinn eins og í grautarpotti. Ekki leið manni rétt vel og ef ég hef einhvern tímann orðið hræddur til sjós þá var það þarna. Sjóirnir risu og hnigu allt í kringum okkur og hafði maður á tilfinningunni að þeir gætu skollið á okkur hvenær sem var. Engin vél var í gangi, ekki gátum við hitað okkur kaffi, lúkarinn lak og til að kóróna allt veltist björgunarbáturinn í þvottakarinu. Ekki var það til að bæta líðanina að vita af neglunni sem gat farið hvenær sem var. Ef ég hef einhvern tímann verið feginn að komast í var var það þegar við komumst fyrir Stafsnesið. Gylfinn stóðst þessa raun með prýði. Aldrei kom skvetta inn á hann, ekki einu sinni vikurinn, sem var á dekkinu, náði að hreinsast út.
ENNÞÁ TIL í AÐ TAKA LAGIÐ
Grétar hefur starfað með mörgum um ævina og komist vel af við þá flesta. „Ég er kannski einhvern veginn svoleiðis gerður að ég á mjög gott með að lynda við fólk. Ef einhver stendur upp úr af þeim sem ég hef kynnst um dagana þá er það kannski helst Bjarnhéðinn. Við vorum alla tíð miklir vinir og á meðan við rerum báðir höfðum við mikið samband. Bjarnhéðinn var alveg sérstakur maður og held ég skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst," segir Grétar en það eru einmitt orð sem margir geta notað þegar þeir lýsa Grétari sjálfum. Grétar starfar ennþá á Herjólfi og þó hann sé farinn að nálgast sjötugsaldurinn er honum ekkert farið að förlast.
Grétar fékk í vöggugjöf einstaka söngrödd og hennar hafa margir fengið að njóta á góðri stund. Og á árum áður sóttust margir eftir að taka með honum lagið á þjóðhátíðum. Þó Grétar hafi róast með árunum er hann enn til í að taka lagið. Reyndar er það við misjafnar undirtektir eiginkonunnar, en þó hún láti stundum í sér heyra held ég að hún hafi lúmskt gaman af karli sínum og ekki þarf hún að skammast sín fyrir sönginn.
Grétar fylgist vel með því sem er að gerast í kringum hann og lætur sér fátt mannlegt óviðkomandi og er alltaf tilbúinn að taka málstað þeirra sem eiga undir högg að sækja. Og ekki fer hann með veggjum þegar honum finnst hann þurfa að koma skoðunum sínum á framfæri, þá getur hvinið í mínum manni. En hvar hann er í pólitík veit ég ekki eftir aldarfjórðungs kynni, en oft hefur verið gaman að karpa við hann um pólitík og önnur mannanna mál og vonandi verður svo í mörg ár enn og tækifærin verði fleiri en hingað til.