Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Náttúrugripasafnið í Eyjum 30 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. september 2015 kl. 12:40 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. september 2015 kl. 12:40 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: '''Grímur Gíslason''' <big><big>'''Náttúrugripasafnið í Eyjum 30 ára'''</big></big><br> <big>'''Perla sem á sér fáar hliðstæður'''</big> Náttúrugripasafnið í Eyjum...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Grímur Gíslason

Náttúrugripasafnið í Eyjum 30 ára
Perla sem á sér fáar hliðstæður

Náttúrugripasafnið í Eyjum er 30 ára á þessu ári. Af því tilefni var afmælisdagskrá í safninu fyrir skömmu þar sem afmælisins var minnst. Stikklað var á stóru í sögu safnsins auk þess sem fyrirlestrar um starfsemi tengda safninu voru fluttir. Náttúrugripasafnið í Eyjum er einn af aðalviðkomustöðum ferðamanna í Eyjum og leggja þúsundir ferðamanna leið sína í það ár hvert, enda er safnið mjög áhugavert og skemmtilegt. Þar eru margar tegundir lifandi fiska í búrum auk fjölda uppstoppaðra fugla og dýra og einnig er þar merkilegt steinasafn.

Átök í upphafi
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum 5. júní 1964 tillögu meirihluta sjálfstæðismanna um að stofnaður yrði vísir að Náttúrugripasafni í Vestmannaeyjum þar sem einnig yrði safn lifandi fiska og sjávardýra. Þá samþykkti bæjarstjórn að ráða Friðrik Jesson kennara til að undirbúa stofnun safnsins og veita því síðan forstöð en Friðrik var manna fróðastur um náttúrufar Vestmannaeyja á þessum tíma. Af blaðagreinum í bæjarblöðunum í Eyjum frá þessum tíma má sjá að mikil pólitísk átök voru um þetta mál. Guðlaugur Gíslason bæjarstjóri var einn aðalfrumkvöðull að stofnun safnsins og fékk hann miklar ákúrur frá pólitískum andstæðingum sem töldu áform hans um safnið fráleit. Var jafnvel fullyrt að safn með lifandi fiskum yrði svo dýrt í uppsetningu og reksri að milljónir ferðamanna þyrfti til að standa straum af kostnaði við það. Þrátt fyrir þessi átök varð Náttúrugripasafnið að veruleika og hefur um árabil þótt einn af áhugaverðari stöðum til að sýna ferðamönnum sem sækja Vestmannaeyjar heim.

Handverk Friðriks Jessonar
Friðrik Jesson tók til starfa við undirbúning safnsins 1. september 1964 og átti allan veg og vanda af uppbyggingu þess. Friðrik hafði kynnt sér starfsemi slíkra safna erlendis sem hann nýtti sér við uppbyggingu safnsins í Eyjum.
Þó að margir væru vantrúaðir á að safni með lifandi sjávardýrum yrði komið á fót varð það samt að veruleika og snilli Friðriks í að stoppa upp fugla, fiska og önnur dýr sem komið var fyrir í safninu vakti strax eftirtekt. Náttúrugripasafninu var strax valinn staður í húsnæði sem Vestmannaeyjabær hafði eignast að Heiðarvegi 12 og er það þar enn til húsa, á efri hæð, en á neðri hæðinni er slökkvistöð bæjarins. Þröngt er orðið um safnið í húsnæðinu og á síðasta ári samþykkti bæjarstjórn að stefna að stækkun safnsins með því að flytja slökkvistöðina í annað húsnæði þannig að Náttúrugripasafnið fái allt húsið fyrir starfsemi sína. Friðrik Jesson starfaði við Náttúrugripasafnið í 26 ár, frá stofnun þess Til 24. janúar 1990 er hann lét af störfum. Eiginkona hans, Magnea Sjöberg, starfaði við hlið hans í safninu allan þann tíma en þau létu bæði af störfum sama dag. Friðrik og Magnea voru afar samhent hjón og Náttúrugripasafnið var þeirra sameiginlega starf og áhugamál. Sem dæmi um umhyggju þeirra fyrir safninu má nefna að þegar eldgosið braust út á Heimaey í janúar 1973 fóru þau Friðrik og Magnea ekki frá Eyjum. Þau bjuggu um sig og sváfu í safninu fyrstu vikurnar eftir að gosið hófst en urðu síðan að flytja náttstað sinn annað þegar bera tók á gasmengun í húsinu. Þau vildu ekki flytja safnið burt frá Eyjum og allan gostímann var allt óbreytt innandyra á safninu sem fyrr þótt flest önnur hús í Eyjum hefðu verið tæmd.
Friðrik gerði í gegnum árin ýmsar athuganir á náttúrulífi. Hann rannsakaði bæði fugla og fiska sem skráði ekki athuganir sínar heldur fræddi menn með orðum um það sem hann varð vísari. Friðrik hafði gaman af að miðla mönnum vitneskju sinni enda góður kennari og hafði starfað við kennslu til margra ára áður en hann hóf störf við Náttúrugripasafnið. Eitt af því sem Friðrik var fyrstur manna til að taka eftir var kynblöndun tveggja mávategunda, silfurmáfs og hvítmáfs. Hann fræddi menn um þessar athuganir sínar sem seinna skrifuðu fræðigreinar um það.

Aukið aðdráttarafl safnsins
Eftir gosið á Heimaey jókst ferðamannastraumur til Eyja mikið þar sem fólk kom til að skoða ummerki gossins en einnig lá leið flestra í Náttúrugripasafnið. Ummerki gossins hafa nú minna aðdráttarafl fyrir ferðamenn en áður og því má segja að mikilvægi Náttúrugripasafnsins hafi aukist því það er ein af þeim perlum sem ferðamenn sækjast í að sjá í Eyjum.
Árið 1986 var opnuð ný deild í safninu sem geymir steinasafn sem Sveinn heitinn Guðmundsson gaf safninu. Stærstur hluti safnsins eru skrautsteinar og hefur steinasafnið vakið mikla hrifningu gesta safnsins.
En Náttúrugripasafnið hefur ekki eingöngu haft þýðingu sem ferðamannastaður. Skólarnir í Eyjum hafa í æ ríkara mæli nýtt sér safnið til fræðslu fyrir yngri börnin. Þá hefur verið unnið að rannsóknarstörfum í safninu á líferni fiska, vaxtahraða þeirra og fleira. Í safninu hafa menn orðið vitni að náttúruundrum sem hafa varpað nýju ljósi á ýmislegt í líferni margvíslegra fiskitegunda.

Náttúruundur
Um hrygningu og atferli sumra tegunda fiska var lítið vitað fyrir tilkomu Náttúrugripasafnsins. Fjöldi fisktegunda hefur hrygnt í safninu og við það hafa menn orðið vitni að ýmsu í ástarlífi fiskanna sem ekki var vitað áður. Friðrik Jesson tók fyrstur manna eftir því, þegar hann fylgdist með loðnu í safninu um hrygningartímann, að hængurinn festir sig við hrygnuna meðan á pörun stendur en það höfðu menn ekki vitað áður.
En merkilegasta uppgötvunin á safninu er þó líklega hrygning og frjóvgun hjá steinbítnum en þar á sér stað innri frjóvgun með miklum tilþrifum fiskanna. Því atferli var fylgst með á safninu en áður var lítið vitað um hvernig frjóvgun hjá steinbítnum ætti sér stað. Þá hrygndi blágóma í safninu og er talið að menn hafi ekki annars staðar orðið vitni að hrygningu hennar.
Kristján Egilsson safnvörður hóf störf við safnið sem aðstoðarmaður Friðriks í júní 1988 en tók síðan við forstöðu þess er Friðrik lét af störfum. Ágústa, eiginkona Kristjáns, hefur einnig starfað við safnið en hún er dóttir Friðriks og Magneu, svo umönnun safnsins er enn í höndum sömu fjölskyldunnar.

Þorskrannsóknir í safninu
Meðal rannsókna sem unnar hafa verið á safninu, og er enn verið að vinna að, eru þorskrannsóknir sem þeir Kristján og Hafsteinn Guðfinnsson, útibússtjóri Hafrannsóknarstofnunar í Eyjum, hafa unnið að. Markmiðið með rannsókn þeirra er að veiða ungþorsk, merkja hann og ala í safninu í Eyjum og fylgjast með hegðun hans fyrir og eftir merkingu og lengdar og þyngdarmæla hann. Rannsóknir þessar hófust í desember 1993 og standa enn. Fiskarnir voru veiddir í gildrur við Eyjar og komið fyrir í safninu í Eyjum. Fylgst var með þeim og þeir síðan merktir og fylgst með atferli þeirra eftir það. Athygli vakti að sár komu á fiskana þar sem merkjum var komið fyrir og merkin vildu losna af fiskunum.
Fiskarnir hafa verið fóðraðir með sama sniði og gert hefur verið í safninu undanfarin ár. Gefið er á tveggja til þriggja daga fresti og magnið ræðst af því hversu vel fiskarnir taka fæðuna, þannig að ekki er gefið meira en fiskarnir éta. Nýting fóðurs hefur því verið mjög góð og er hægt að segja að 35-40% af fóðri hafi umbreyst í þorskþyngd. Þá hefur komið í ljós að vaxtarhraði fiskanna er mestur fyrstu mánuðina en fer síðan minnkandi. Þessar niðurstöður eru í samræmi við rannsóknir sem fram hafa farið annars staðar á þorski. Rannsóknum þessum á safninu í Eyjum er ekki lokið og verður haldið áfram.
Fyrirhugað er að nýta safnið enn frekar til rannsókna í framtíðinni. Reiknað er með samvinnu rannsóknarseturs Háskólans, sem samanstendur af Hafrannsóknarstofnun, sjávarútvegsdeild Háskólans og Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, og safnsins í frekari rannsóknum á næstunni og einnig er reiknað með að Náttúrustofa Suðurlands, sem verður í Eyjum, verði í nánum tengslum við safnið.

Stærra húsnæði nauðsynlegt
Kristján safnvörður segir að þröngur húsakostur standi safninu nú fyrir þrifum. Með auknu rými mætti koma fyrir stærri búrum fyrir fiska þannig að halda mætti lífi í fiskum sem ekki þrífast í svo litlum búrum sem eru nú til staðar, auk þess sem skemmtilegra sé að fylgjast með fiskum synda í stærri búrum. Gera mætti jarðfræði betri skil, t.d. í tengslum við steinasafnið, ef pláss skapaðist og einnig væri til í safninu flóra Vestmannaeyja frá því fyrir gos sem Gisella Jónsson, franskur líffræðingur sem var við blóma- og jurtarannsónir í Eyjum, gaf safninu, en sökum plássleysis væri ekki hægt að hafa það til sýnis frekar en annað sem snýr að gróðri í Eyjum.
Kristján segir að einnig mætti koma upp selaþró en auðvelt væri að hafa seli í kerum þar sem áratugareynsla væri fyrir slíku, bæði í Danmörku og Noregi, og þangað mætti sækja upplýsingar og reynslu í þeim efnum. Þá væri æskilegt að í safninu væri fyrirlestrasalur þar sem hægt væri að halda fyrirlestra og hafa myndasýningar bæði fyrir ferðamenn og einnig námsfólk.

Sjómenn vakandi fyrir safninu
Kristján segir Eyjamenn bera mikinn hlýhug til safnsins og sjómenn séu mjög vakandi fyrir að færa safninu alls kyns sjávardýr sem þeir fá enda hafi safnið fengið ýmis afbrigði og sjaldgæfar tegundir og verið með lifandi í búrum. En það eru ekki bara Eyjasjómenn sem hugsa hlýtt til safnsins því sjómenn annars staðar hafa gefið dýr til þess. Minnisstætt er þegar skipverjar á Guðbjörgu ÍS fluttu til lands kambháf sem fluttur var síðan með flugi frá Ísafirði til Eyja en þrátt fyrir ýmsar tilfæringar, m.a. að setja háfinn í afþrýstibúnað, tókst ekki að halda lengi í honum lífinu en hann er nú uppstoppaður á safninu í Eyjum. Kambháfnum, sem varð landsfrægur, var gefið nafnið Hávarður, en hann er eini fiskur þessarar tegundar sem vitað er að hafi komist lifandi á safn í heiminum enda er fiskurinn mjög sjaldgæfur og var sá sjötti sem vitað er til að veiðst hafi hér við land á öldinni.
Á samkomu í Náttúrugripasafninu fyrir skömmu var 30 ára afmælis safnsins minnst. Unnur Tómasdóttir, formaður menningarmálanefndar, flutti ávarp. Kristján safnvörður flutti erindi sem hann kallaði framtíðarsýn safnsins, Hafsteinn Guðfinnsson, útibússtjóri Hafrannsóknarstofnunar í Eyjum, sagði frá þorskrannsóknum á safninu og Gísli Óskarsson sagði frá myndatökum sínum í safninu. Á samkomunni afhenti Unnur þeim Sigurlaugu Jónsdóttur, ekkju Guðlaugs heitins Gíslasonar, og Magneu Sjöberg, ekkju Friðriks heitins Jessonar, blómaskreytingar í viðurkenningarskyni fyrir störf eiginmanna þeirra að uppbyggingu safnsins.

Safn fil mikils sóma
Náttúrugripasafnið í Eyjum er ein af perlum Vestmannaeyja, safn sem ekki á sér hliðstæðu hér á landi og þó víðar væri leitað. Hrein búr fiskanna vekja athygli þeirra sem safnið skoða því víða þar sem reynt er að halda fiskum í búrum verður sjór fljótt óhreinn. Ástæður þessa hreinleika er að finna í því að miklu magni af sjó er dælt í gegnum búrin. Borholur, þar sem sjó er dælt upp, eru við safnið og á hverjum sólarhring er 500 tonnum af sjó dælt úr holunum í gegnum fiskabúrin á safninu. Þá er uppsetning annarra muna á safninu, umgengni og umönnun öll starfsmönnum þess í gegnum tíðina til mikils sóma.