Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1995/ Verið hughraustir, það er ég

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. september 2015 kl. 11:35 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. september 2015 kl. 11:35 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sr. Jóna Hrönn Bolladóttir

,,Verið hughraustir, það er ég"

„Hann gekk með Galíleuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn. Hann sagði við þá: „Komið og fylgið mér, og ég mun láta yður menn veiða." Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum. Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans. Þeir voru á bátnum með Sebedeusi, föður sínum, að búa net. Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum." (Matt. 4, 18-22.) Veistu að lærisveinar Jesú munu vera fyrstu sjómennirnir í heiminum sem við vitum nöfnin á! Það leiðir því til þess að þessara sjómanna verður lengst og víðast getið af öllum þeim sjómönnum sem getið verður í sögu mannkyns. Það er nokkuð skemmtilegt, en það besta er að þar með hefur Kristur sjálfur sett sjómannastéttina í þá virðingarstöðu sem við getum ekki hnekkt. Það er allmerkilegt og forvitnilegt að velta fyrir sér af hverju hann valdi einmitt þessa menn. Ég hef alltaf álitið að það þyrfti nokkuð sérstaka skapgerð til að takast á við hafið og hættur þess. Og sú ályktun hefur styrkst í huga mér eftir að ég fluttist til Eyja og kynntist sögu og aðstæðum sjómanna. Kannski hefur Jesú þurft á mönnum að halda með sjómannslund, áræði, dirfsku og rósemi í hættum til að hefja starfið á akrinum. Jesús vandaði valið á lærisveinum sínum því að heila nótt var hann á bæn til föðurins um það hverjir væru verðugastir og hæfastir til að starfa með honum við boðun fagnaðarerindisins. Í upphafsorðum þessa greinarkorns segir frá því er Jesús fann lærisveininn Pétur sem hann líkti við klettinn sem hann vildi byggja söfnuð sinn á. Þar segir líka frá er hann fann lærisveininn elskaða, Jóhannes, sem hann fól móður sína á dauðastundu. (Jóh. 19: 25-27.) Þekkt er sagan af því er Jesús kom gangandi á vatninu til lærisveina sinna sem voru komnir langt frá landi og báturinn, sem þeir reru, lá undir áföllum og vindur var á móti. Jesús hafði sent þá á undan sér út á vatnið. En meðan þeir tókust á við öldurnar og vindinn hafði Jesús farið upp á fjallið að biðjast fyrir. Og þar hafa lærisveinarnir átt sess í fyrirbæn hans. (Matt. 14: 22-32.) Við skulum greypa þessa mynd í huga okkar: Sjómenn á hafi úti, báturinn kominn langt frá landi og liggur undir áföllum því að vindur er á móti. Og sá sem kenndi mönnum að leggja ótrauðir út á djúpið liggur á bæn til föðurins fyrir börnum sínum. Þannig fylgir hann skipinu í bæn. Og það minnir okkur líka á þá skyldu okkar að vera í fyrirbæn fyrir þeim sem sækja sjóinn. Ekki aðeins þegar þú heyrir í þungu briminu og verður ekki svefnsamt, og móðir hugsar til sonar, barn til föður eða kona til eiginmanns. Heldur stöðuglega. Því fyrirbænin er máttug og því verðum við að vera staðföst í henni. Máttur bænarhugsunarinnar er mikill. Það höfum við margoft reynt, og kannski aldrei betur en á síðastliðnum vetri. Samheldni og samhugur er máttur vegna þess að það hefur blessunaráhrif á þann sem hann beinist til því að hann verður sterkari í andanum. Það er vegna þess að fyrirbænin er af hreinni og óeigingjarnri hugsun og því dýrmætari en flestar aðrar bænir. Og þá er Guð að verki og þannig fylgjum við honum. Verum samhuga í bæn og styrkjum þannig hvert annað. Þá erum við á sama báti. Og Jesús kemur gangandi til okkar á vatninu og segir: „Verið hughraustir, það er ég."

Jóna Hrönn Bolladóttir, safnaðarprestur