Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Vélskólinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. september 2015 kl. 11:17 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. september 2015 kl. 11:17 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big>Guðmundur Elíasson</big><br> <big><big>Vélskólinn</big></big><br> Skólinn var settur þann 31.08. Á haustönn voru skráðir 11 nemendur á vélstjórnarbraut, þar a...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Elíasson

Vélskólinn

Skólinn var settur þann 31.08. Á haustönn voru skráðir 11 nemendur á vélstjórnarbraut, þar af voru 4 skráðir í vélavarðanám, 4 í 1. stig og 3 í annað stig. Vélavarðanámið tekur aðeins eina önn og útskrifuðust þeir nemendur allir um áramót með vélavarðaréttindi. Ef næg þátttaka fæst stendur til að bjóða aftur upp á vélavarðanám á næstu haustönn. Á vorönn stunduðu fjórir nemendur nám í fyrsta stigi og fjórir í öðru stigi.
Skólaárið 1990-1991 var frábrugðið undanförnum árum að því leyti að báðir þeir kennarar sem séð hafa um vélskólann hafa verið frá vinnu. Kristján Jóhannesson deildarstjóri var í eins árs endurmenntunarleyfi þar sem hann hefur m.a. kynnt sér vélstjórnarmenntun á Norðurlöndum og Karl Marteinsson sem séð hefur um verklega kennslu var frá vegna veikinda.

Í starfsvikunni, sem var 11. til 15. mars, var tekin upp sú nýjung að strákarnir í fyrsta stigi fóru í einn róður með ýmist botnvörpu- eða loðnuskipum. Þetta er hugsað sem einskonar starfskynning en ég tel að samvinna milli sjómannaskóla og atvinnulífsins sé nauðsynleg. Nemendur í öðru stigi, ásamt kennara, fóru aftur á móti til Akureyrar þar sem þeir fengu að æfa sig á vélarúmshermi sem Verkmenntaskólinn þar á. Farið var á fimmtudegi frá Vestmanneyjum og á föstudag, laugardag og sunnudag var verið 9 til 10 klst. á dag í herminum og frá kl. 08:00 til 10:00 á mánudagsmorgun en þá var farið í skipasmíðastöð Akureyrar til þess að skoða nýsmíðina Þórunni Sveinsdóttur VE. Um hádegi var svo farið frá Akureyri. Það er samdóma álit allra sem fóru í þessa ferð að vélarúmshermir bjóði upp á óþrjótandi möguleika sem kennslutæki og að nemendur hafi lært mikið á þessum stutta tíma. Mín skoðun er sú að vélskólinn sé bráðnauðsynlegur fyrir þetta byggðarlag og skömm væri að ef stærsta verstöð Íslands gæti ekki boðið upp á góða menntunaraðstöðu fyrir vélstjóra.

Undanfarin ár hefur þróunin verið sú að nemendum hefur farið fækkandi í vélstjórnardeild framhaldsskólans og ef snúa á þeirri þróun við er nauðsynlegt að nýja húsnæðið, sem vonandi verður tekið í notkun fljótlega, verði útbúið fullkomnum kennslutækjum eins og t.d. vélarrúmshermi. Ég vona að bæjaryfirvöld taki á þessum málum strax því ég tel að annars sé framtíð vélstjórnarmenntunar í Vestmannaeyjum í hættu.
Guðmundur Elíasson, véltæknifræðingur.