Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Síðasti geirfuglinn plokkaður

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. september 2015 kl. 10:25 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. september 2015 kl. 10:25 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: Lýður Ægisson:<br> <big><big>Síðasti geirfuglinn plokkaður</big></big><br> Hattinum hans [Guðjón Ármann Eyjólfsson|Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar]], skólastjóra St...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Lýður Ægisson:

Síðasti geirfuglinn plokkaður

Hattinum hans [Guðjón Ármann Eyjólfsson|Guðjóns Ármanns Eyjólfssonar]], skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík, var stolið mánudaginn 11. febrúar kl 09.30 GMT! Hatturinn er grár með tveimur hrafnsfjöðrum og einni geirfuglsfjöður. Geirfuglsfjöðrina fékk hann þegar hann var virkur í pólitíkinni í Vestmannaeyjum og vann fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þá var Geir Hallgrímsson formaður. Ármann ræskir sig að meðaltali á þriggja sek. fresti - líka upp úr svefni - og fer það ástand versnandi! (Sennilega er hann að pæla í því að tjá sig alvarlega um málið) Þjófurinn er vinsamlega beðinn að skila hattinum eins og skot, vegna þess að:

Ármanns fés er eins og nýtt
alveg horfið brosið blítt
-höfuðfatið fjöðrum prýtt
og fagurlega krupplað.
Hann átti þennan undrahatt
sem aldrei af hans skalla datt.
Nú höfuðskeljar skína glatt
því - skrautinu var hnuplað!

Já - útlit hans er orðið breitt.
Okkur finnst það frekar leitt
Þar sem fyrr var ginið gleitt
er gleði rúin lína.
Augun dofin - allt í steik.
Illa sofinn er á kreik.
Hann er eins og lík í leik
við líkkistuna sína.

Hári rúið höfuðið
- heilageymslan - nakið svið.
Bleika skinnið blasir við.
-Blaðurrifan frosin-
Kyssitauið kalt og strekkt.
Konan orðin ygld og svekkt.
Ástand verður ægilegt
ef ekki lifna brosin.

Að höfuðskrauti hefjum leit.
Hengjum þann sem í sig skeit
og ökum honum upp í sveit
undir torfu græna.
Fegrum gamla foringjann
svo fáist aftur líf í hann.
Tuktum þjófinn - Tatarann
og tökum hann til bæna.

F.h. þeirra sem þurfa að búa við þetta illa ástand.
Lýður Ægisson.

Foringinn
Guðjón Ármann Eyjólfsson

Margt er lífsins gaman grátt
greipt í þennan bragarhátt.
Núna vil ég að kveða kátt
um kaptein Saltaskóla.
Guðjón Ármann Eyjólfsson
ætti að vera í Pentagon
Því lexíum hann lon og don
lemur í villta drjóla!

Ólst hann upp í Eyjunum
-var einn af Eyjapeyjunum
sem magann strauk á meyjunum
um miðja öld í Dalnum.
Veiddi lunda-lagði net
-þótt leg'ðann engin aflamet...
Allar stundir lífið lét
lánið fylgja halnum.

Æskan leið við bryggjubrölt
bátaleiki og vélarskrölt.
-Farið var í fjörurölt
á fögrum ágústkvöldum.
Sonur er hann sómamanns
sem sigldi vítt um öldufans
og háði margan hrunadans
á hafsins bláu öldum.

Eyjólfur var aflakló
sem eitilharður sótti sjó
og ungan soninn undir bjó
ævistarfið mikla.
Þar lærð'ann handtök hröð og snör
sem hafa þarf við fiskifjör
hjá þeim sem hafa kaup og kjör
af kóðunum sem sprikla.

Ekki vildi Ármann þó,
á Íslandsmiðum stund sjó.
Hann ævistarf sitt undirbjó
úti í Danaveldi.
Í flota Hennar Hátignar
hóf'ann sig til menntunar
og bruddi í sig bækurnar
sem brjóstsykur að kveldi.

Lærdómsbrautir létt hann tróð
- þá leiftraði í augum glóð.
Líkt og pabbinn, vaskur vóð
og vandamálin leysti.
Vann sig upp í æðsta sess
Eyjólfssonur - vegna þess
að hann var skarpur skýr og hress
og skynseminni treysti!

En - hugurinn var heima við
hafnirnar og fiskimið.
Ármann skildi að ástandið
var ekki beint til sóma.
Að skerpa þyrfti í skólunum
skilninginn hjá drjólunum
sem horfa vildu úr hólunum
á hafsins silfur ljóma.

Afleiðing er öllum ljós.
Á hann skilið þökk og hrós.
Nú er sérhver dugga og dós
með drengi hans í brúnni.
Skipum stjórna menntamenn
sem miðin okkar tæma senn.
En - karlinn við það ólmast enn
að efla þá í trúnni!

Til minningar um Eyjaskáldin, Oddgeir, Ása í Bæ og Árna úr Eyjum

Ég vildi...
Á léttum öldum ljóðanna ég ræ
við ljúfan hljóm úr gítarstrengjunum
frá Oddgeir, Árna úr Eyjum og Ása i Bæ
-Ævintýrasöngvadrengjunum.

Það er sem kvikni líf í hverri laut
er lyftist hugur minn á þeirra fund.
Arfurinn - sem okkur féll í skaut.
Eyjalögin - kæta mína lund.

Ég veit þið eruð vinirnir í höfn
sem veittuð okkur söng við dalsins bál.
Skrifuð eru ykkar skáldanöfn
með skrautstöfum í huga minn og sál.

Fátæk væri Eyjasagan enn
ef ætti hún ekki þessi lög og ljóð.
Aldrei hafa í Eyjum lifað menn
sem eftir skildu ríkulegri sjóð.

Viðlag:
Sérhvert lag og sérhvert kvæði
var sem sól og léttur blær.
Ég vil nema þau í næði
og njóta- meðan hjarta mitt slær.

Ég vildi geta ráðið rúnirnar
í rökkrinu og talað ykkar mál.
Töfrum slegið tungumálið var
-Tónlistinni fylgdi Eyjasál.

Ég vildi geta samið svona ljóð
og söngva sem að lifa alla menn.
Um ævintýr og undurfögur fljóð
og ástina sem blossar hérna enn.

Lýður Ægisson.