Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Rukkað í bundnu máli

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. september 2015 kl. 11:34 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. september 2015 kl. 11:34 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Rukkað í bundnu máli</big></big><br> Svo sem flestum mun kunnugt sneri Lýður Ægisson sér að tónlistinni þegar hann hætti til sjós.<br> Raunar var hann búin...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Rukkað í bundnu máli

Svo sem flestum mun kunnugt sneri Lýður Ægisson sér að tónlistinni þegar hann hætti til sjós.
Raunar var hann búinn að hasla sér völl sem tón- og textahöfundur meðan hann stundaði sjósókn en eftir að hann kom í land hefur hann helgað því máli megnið af tíma sínum. Á síðasta ári kom út þriðja plata hans, Logadans. Margir fengu þá plötu send í pósti ásamt gíróseðli, þar á meðal sá er þetta ritar. Nú fór svo að gíróseðillinn gleymdist eða réttara sagt að það gleymdist að greiða seðilinn. Og í janúarmánuði kom síðan bréf frá útgefandanum, allsérstætt rukkunarbréf. Það er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.

Pæld íðí

Ég settist eitt sinn niður til að semja lög og ljóð.
Þau síðan fóru á plötu eftir mikið táraflóð.
Já - það kostaði mig svita og það kostaði mig tár
að koma þessu saman svo þér gæti liðið skár.

Á bak við svona skífu leynist mikið pex og puð.
Pælduíði - bara til að koma þér í stuð.
Tónlistin er heimur þar sem tilfinningin rís.
Á taugarnar er spilað þar til heilabúið frýs.

Það kostaði sko milljón bar að móta þetta plast.
Meitla í það tóna fyrir fullt og fast –
Vökunætur margar ég í stúdíói stóð.
Mig studdu ótal listamenn - ég vild ún yrði góð.

Svo hljóp ég beint í símann til að selja um borg og bý.
Sendi til þín eintakið - þú manst nú eftir því.... ?
Af símareiknings fjandanum nú ferlega ég styn.
Ég finn bara ekki greiðsluna frá þér minn kæri vin !!

Ég yrði ósköp feginn ef þú fyndir seðilinn
og færðir á minn reikning þúsundkrónubleðilinn.
Ég yrði ofsa glaður - já mig hlypi galsi í.
Ég gerði eitthvað dúndur sniðugt - þú mátt trúa því.

Ef þú hefur þegar þennan gíróseðil greitt
gerðu þá í máli þessu bara ekki neitt.
Vertu eins og Lýður hafi aðeins litið við.
Labbað inn í kaffisopa að Eyjamanna sið.

En - ekki væri verra ef þú vildir slá á þráð.
Velja símanúmerið sem hér er neðar skráð.
Það myndi bara losa okkur við alls kyns puð og pex.
Pælduíðí - síminn hér er þrír núll fimm núll sex.

L.Æ.vís. Byggðarenda 19, Reykjavík

Svona bréfi er tæplega hægt að láta ósvarað enda var haldið á pósthúsið strax næsta dag með umslag sem innihélt ávísun og eftirfarandi bréf:

Og pælið þér enn

Dagstund eina í þorrabyrjun þegar ég kom heim
þreyttur eftir vafstur og agg í störfum tveim.
Ber ég ekki augum bréfahrúguna
sem bíður mín á gólfinu fyrir innan lúguna.

Ekki var í hrúgunni margt sem gladdi geð,
gluggapóstur aðallega, rukkanir og veð.
Loksins kom þó eitt sem eitthvað öðruvísi var,
innihaldið augljóslega ekki reikningar.

Ánægður í skapi umslagið ég þríf,
opna það í skyndingu með grænum vasahníf.
Innihaldið gladdi bæði auga mitt og sál,
ágætlega kveðið og stuðlað bundið mál.

Ekki var þó frítt við að ég fyriryrði mig
er fékk ég þessi skilaboð - ég svikið hefði þig
um greiðslu fyrir tónaveislu grópaða í plast –
ég grýtti frá mér hnífnum í borðið nokkuð fast.

En til þess eru mistök að mega læra af þeim
og margumrædda greiðslu þér ég sendi bara heim.
Og til að hvorki hrjái þig nú gjald - né gengisfall
þá gúmma ég hér með tékka upp á
fimmtánhundruðkall.

Ef vísiterar þú minn gamli vinur eyjuna,
þá velkominn í kaffi á Boðaslóðina.
Og einhvern veginn held ég í heimsins skuldabáli
að það hljóti að ganga betur að rukka í bundnu máli.

Sigurgeir frá Þorlaugargerði