Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Minning látinna
Minning látinna
Á sjómannadegi minnast sjómenn í Vestmannaeyjum þeirra, sem á liðnu ári hafa horfið úr hópnum, og annarra þeirra, er staðið hafa nærri í dagsins önn.
Menn, sem settu svip á bæinn og athafnalífið hverfa á braut, en eftir stendur minningin og leitar á hugann, þegar litið er yfir farinn veg.
Þakkir eru þeim sendar í fáum línum, fyrir störfin og fyrir samfylgdina gegnum árin, — og fyrirbænir til fararheilla á óþekktar slóðir.
Sjómannadagsblaðið vill fyrir munn sjómanna í Vestmannaeyjum senda öllum þeim nær og fjær, sem um sárt eiga að binda, hugheilar kveðjur og minnast við horfna samferðamenn að leiðarlokum með ljóðlínum Jónasar, þar sem segir:
Halla þú, röðull,
höfði skínanda,
bráhýr, brosfagur
að brjósti ránar,
sæll og sólbjartur,
sem þá, er stefndir
bratta braut
á bogann uppsala.
Stefán Jónsson, Sléttabóli.
F. 7. maí 1893. — D. 27. mai 1976.
Þann 27. maí 1976 lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja Stefán Jónsson, Skólavegi 31. Það hús nefnist Sléttaból og var Stefán oft við það kenndur. Með honum er horfinn af sjónarsviðinu mætur maður og góður drengur, sem skilaði miklu ævistarfi í þágu lands og þjóðar.
Stefán á Sléttabóli var austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur 7. maí 1893 að Þiljuvöllum í Beruneshreppi. Foreldrar hans voru Jón Bjarnason bóndi þar og kona hans Antonía Stefánsdóttir
Hann var elsta barn þeirra hjóna, og eru nú tvö á lífi þeirra sjö systkina. Um fermingaraldur fluttist Stefán með foreldrum sínum að Steinaborg í sömu sveit og átti þar heima um skeið.
Skólaganga varð næsta lítil. Þó naut hann tilsagnar í reikningi, enda glöggur á tölur. Auk þess náði hann fallegri rithönd og skrifaði gott mál. Stefán var hagleiksmaður í eðli sínu og mun hafa lært nokkuð í þeim efnum, er hann vann um skeið hjá húsasmið á Seyðisfirði. Stefán var bráðger, framsækinn og dugmikill. Ungur að árum fór hann að stunda sjó, og var þegar 18 ára orðinn formaður á bát frá Hafnarnesi og fiskaði vel. Tekjurnar gengu til heimilisins að Steinaborg og styrktu þar veikan efnahag, og í framhaldi af því lagði Stefán sig fram um að hjálpa foreldrum sínum til að komast úr moldarkofunum og reisti hann timburhús á staðnum, er enn stendur.
Á páskadag, 20. apríl 1919, gekk Stefán að eiga eftirlifandi konu sína, Herdísi Ólafsdóttur frá Skála á Berufjarðarströnd. Það var gæfuspor í lífi Stefáns, enda hjónaband þeirra án skugga, þar til dauðinn skildi með þeim eftir 57 ára samveru. Einkadóttir þeirra, Stefanía, er gift Jóni Þórðarsyni báta- og húsasmíðameistara í Vestmannaeyjum.
Í fyrstu settust ungu hjónin að á Fáskrúðsfirði. En 1927 fluttu þau aftur í Berufjörðinn og tóku jörðina Núp, sem er ysti bær á ströndinni. Þar komu þau upp góðu og gagnsömu búi. Stefán var dýravinur og hafði á efri árum unun af að segja frá háttum þeirra og skrifaði auk þess sögur af þeim í Dýraverndarann. Jafnframt stundaði hann sjó á trillum og dró björg í bú. Þegar byr gaf, notaði hann segl, og kunni vel að haga þeim búnaði. Með köflum lagði Stefán sóknir fyrir hákarl, sem hann verkaði sjálfur.
Búskapartíð þeirra hjóna á Núpi voru fyrst og fremst kreppuárin, fjórði áratugur aldarinnar. Og þau hjón söfnuðu ekki í sjóði, fremur en flestir aðrir, þrát fyrir mikið vinnuálag. Hins vegar var jafnan gnægð matar í búri og hjalli. Kom það sér vel þar sem allmikill gestagangur var á Núpi á þeim árum.
Hafði Stefán mikla ánægju af að taka á móti gestum og ræða við þá, og ekki fjarri að hann viki að þeim ýsubandi eða hákarlsbita, án þess að sjá til launa. Auk búskapar, sem eins og fram hefur komið var bæði til sjós og lands, vann Stefán að smíðum. Af þeim verkum má nefna fjölda af róðrarbátum og trillum. Ennfremur vann hann að jarðarbótum, túnasléttun og ræktun.
Á seinni árum þeirra hjóna á Núpi urðu þau fyrir því mótlæti að eina óveðursnóttina féll skriða á túnið. Þetta áfall kom illa við bóndann og jarðarbótamanninn.
Stefán átti löngum örðugt með svefn, enda oft kominn að verki klukkan fimm að morgni og vann til kvölds. Þrátt fyrir mikið þrek var slíkt vinnuálag varla við hæfi. Átti hann við heilsubrest að stríða um skeið. Varð að ráði að þau hjón fluttu hingað til Vestmannaeyja árið 1947, en dóttir þeirra var þá sest hér að. Hér keyptu þau húsið Sléttaból og stækkuðu mikið. Síðan tók Stefán upp sín fyrri störf; stundaði sjó, eignaðist nokkrar kindur, ræktaði jarðarávexti og vann þó lengst af að smíðum meðan heilsa og kraftar leyfðu.
Þau Stefán og Herdís ólu upp tvo drengi: Gunnlaug Reimarsson, trésmíðameistara á Djúpavogi og dótturson sinn Stefán vélameistara hér í Eyjum.
Stefán var burðamaður, hár vexti og þrekinn eftir því. Framgangan var hógvær, svipurinn hýr og góðmannlegur. Hann var bókamaður, kunni vel að segja frá og var stundum glettinn í tilsvörum. Hann fylgdist vel með öllu, sem til framfara horfði, sérstaklega hvað áhrærði atvinnuvegina, en í því efni mundi hann tímana tvenna. Það er stundum talað um aldamótamenn, kynslóðina sem lifði hvern sigurinn af öðrum í frelsisbaráttunni og gróanda á mörgum sviðum þjóðlífsins. Sú kynslóð alheimti ekki daglaun að kveldi, heldur skilaði nokkru af sínu striti í lófa framtíðarinnar. Stefán var traustur liðsmaður í þeirri sveit og hlífði sjálfum sér hvergi „meðan fjörið þoldi", og hann fagnaði hverju framfaraspori til uppbyggingar í þjóðlífinu.
Þótt kynni mín og Stefáns yrðu ekki sérlega náin, verður hann mér minnisstæður. Hann var svo einlægur og hreinn í hugsun og viðkynningu, að mér fannst eins og honum hafi tekist að varðveita barnssálina og barnshjartað óvelkt frá upphafi til æviloka. Það var gott að vera í návist hans. Hann var drengur góður.
Svo vil ég að lokum þakka Stefáni á Sléttabóli fyrir samveruna, og votta ástvinum hans og vandamönnum samúð mína og konu minnar.
Halldór Jónsson frá Garðstöðum
F. 28. sept. 1908 — D. 4. júlí 1976
Halldór var fæddur að Löndum hér í Eyjum, sonur hjónanna Jóns Pálssonar frá Steinum undir A-Eyjafjöllum og Guðrúnar Eyjólfsdóttur, ættaðri úr Keflavík. Halldór var elstur barna þeirra, en 7 urðu þau systkinin.
Halldór varð snemma kvikur og knár. Ungur lærði hann sund í köldum sjónum og varð brátt ágætur sundmaður og sérstaklega duglegur að kafa. Kom oft fyrir að hann kafaði eftir hlutum, sem féllu í sjóinn við bryggjur, og sótti þá. Eitt sinn bar svo við, þá er Ólafur Ó. Lárusson héraðslæknir var að koma úr erlendu skipi, að hann missti silfurbúinn göngustaf sinn í sjóinn, þegar hann steig upp á Edinborgarbryggjuna. Menn reyndu að slæða stafinn upp, en það bar ekki árangur. Var þá leitað til Halldórs og brá hann fljótt við. Í annarri atrennu kom hann upp með stafinn og þótti það þá mikil þrekraun.
Garðsstaðafjölskyldan varð fyrir þeirri sáru sorg, þegar Halldór var um fermingu, að móðir hans andaðist. Við það tvístraðist heimilið að nokkru. En faðir hans var svo heppinn, að fá nokkru síðar í heimilið ágæta konu, Margréti Sigurþórsdóttur frá Gaddstöðum á Rangárvöllum. Gekk hún börnunum í móðurstað og sklldi ekki við heimilið fyrr en yfir lauk, og voru systkinin þá öll uppkomin.
Ungur að árum fór Halldór að stunda sjó. Strax og hann hafði aldur til sótti hann vélstjóranámskeið og lauk þaðan vélstjóraprófi. Var þar með lífsstarf hans ráðið. Halldór átti að baki yfir 40 vetrarvertíðir og oft heilu árin á sjónum, þegar hann hætti sjómennskunni tæplega sextugur að aldri. Hann var alltaf í góðum skiprúmum með ágætum aflamönnum og fékk þann vitnisburð, sem vélstjóri, að þar færi saman forsjálni, myndarskapur og framúrskarandi umgengni. Þar fylgdist jafnt að hagur útgerðar og öryggi áhafnar.
Þrítugur að aldri kvæntist Halldór eftirlifandi konu sinni, Ágústu Sveinsdóttur frá Seyðisfirði. Hún bjó manni sínum myndarlegt heimili, og eftir að þau eignuðust íbúðarhússitt, Byggðarholt við Kirkjuveg, voru þau samhent við að búa þar vel um sig til frambúðar. En það hús misstu þau undir hraun í eldgosinu. Eftir gosið keyptu þau húsið nr. 49 við Heiðarveg og þar voru þau búin að endurnýja sitt fyrra heimili, þegar Halldór veiktist og varð að fara á sjúkrahús. Og hér á sjúkrahúsinu andaðist hann 4. júlí 1976.
Þau Halldór og Ágústa eignuðust 5 börn og eru 4 þeirra á lífi, og búsett hér í Eyjum. Þau eru: Sveinn, vélstjóri og útgerðarmaður, kvæntur Þóru Birgit Bernódusdóttur; Gunnar, vélstjóri, kvæntur Jóhönnu Andersen; Þórunn, gift Halldóri R. Martinez og Grétar, vélstjóri, kvæntur Guðnýju Bóel Guðbjartsdóttur.
Halldór var á 15. ári, þegar hann gekk í Knattspyrnufélagið Tý, og hann var einn af stofnendum Vélstjórafélags Vestmannaeyja. í báðum þessum félögum reyndist hann ágætur liðsmaður til æfiloka.
Eftir að Halldór hætti sjómennsku gerðist hann starfsmaður Lifrarsamlags Vestmannaeyja, aðallega sem bræðslumaður. Reyndist hann í því starfi, sem öðrum, öruggur og ábyggilegur.
Í minningargrein, sem Einar J. Gíslason skrifaði í Morgunblaðið rétt fyrir jólin 1976, þar sem hann kveður Halldór, segir m. a.: „Æðrulaus og öruggur um miskunn og forsjá Drottins lagði Halldór í sína hinstu för, rétt eins og hann væri kallaður til skyldustarfa á hafi úti. Hann skildi við lífið í friði, sáttur við Guð og menn."
Með þessum fáu minningarorðum er Halldór kvaddur af félögum sínum og ástvinum hans sendar innilegar kveðjur.
Kristján Jónasson frá Múla
F. 28. júlí 1902. — D. 14. júlí 1976.
Hann var fæddur hér í Vestmannaeyjum, sonur hjónanna Margrétar Bjarnadóttur og Jónasar Jónssonar.
Foreldrar Kristjáns slitu samvistir, þegar hann var barnungur að árum og ólst hann upp hjá föður sínum og stjúpu, Kristínu Jónsdóttur, og stóð heimili þeirra að Múla hér í bæ. Hér óx Kristján úr grasi í náinni snertingu við það athafnalíf sem leiðir af sjósókn og hvers konar nýtingu sjávarafla. Naumast af barnsaldri byrjar hann sjálfur þátttöku í þeim atvinnuvegi, eins og þá var títt og talinn sjálfsagður hlutur, enda ekki í önnur hús að venda í þá daga.
Ungur gerðist Kristján sjómaður og varð hann vélstjóri á bátum hér í Vestmannaeyjum um langt árabil og allt þar til sjónin fór að bila svo að hann neyddist til að hætta á sjónum og leita vinnu í landi.
Störf sjómanna hafa ávallt verið áhættusöm og þarfnast fyllstu aðgæslu og samviskusemi. Og það var ekki lítið sem valt á gömlu mótoristunum á fyrri árum vélbátanna, þegar vélar allar og tæki voru mun ófullkomnari en nú gerist, og þörfnuðust nákvæmrar umönnunar og verkhyggni, blátt áfram til að haldast gangandi. Kristján Jónasson var slíkur maður í starfi að menn treystu honum, bæði vinnuveitendur hans og samstarfsmenn. Og haglæti hans og góðvild aflaði honum vináttu þeirra er honum kynntust.
Kristján sigldi öll síðari stríðsárin á Sæfellinu gamla. Þar var ógn dauðans sífellt nærri og hver stund gat orðið hin síðasta. Það voru ekki aðrir en kjarkmenni, sem lögðu í slíka atvinnu. Kristján var einn af þeim.
Fyrri kona Kristjáns var Sigrún Guðnadóttir og bjuggu þau í Múla. Þau skildu. Síðari kona hans var Jensína Jóhannsdóttir. Þau bjuggu fyrst í Reykjavík, en fluttust síðan hingað út til Vestmannaeyja og eignuðust helminginn í husinu Hjalteyri við Vesturveg, og þar átti Kristján síðan heimili fram að gosinu 1973, en Jensína lést 1963.
Kristján varð að þola það mótlæti að sjónin bilaði og ekki tókst að bjarga henni þrátt fyrir uppskurði og þriggja ára dvöl á sjúkrahúsum, og seinustu árin var Kristján því sem næst blindur. Að öðru leyti var Kristján heilsuhraustur alla tíð, þar til hann var heltekinn þeim sjúkdómi, sem á fáum mánuðum leiddi hann til dauða hinn 14. júlí síðast liðinn.
Kristján Gunnarsson frá Flötum 14 F. 17. júlí 1882 — D. 26. ág. 1976 Kristján var fæddur að Sperðli í V.-Landeyjum, sonur Gunnars Guðmundssonar og Ingveldar Jónsdóttur. Hann ólst upp í Fíflholtshjáleigu í V.-Landeyjum, yngstur 8 systkina. Þá var fátækt mikil og landlæg og oft þröngt í búi á stóru heimili. Lífið var þá ekki eintómur leikur hjá ungum dreng í föðurgarði. Þar þurfti vinnusemi og ýtrustu sparsemi til að þrauka oft langan og erfiðan vetur. En upp úr aldamótunum fer að rofa til. Vestmannaeyjar, sem hyllti uppi á fögrum sumardögum suður af Landeyjunum, verða eftirsóttur staður ungra manna og kvenna. Um tvítugsaldur fer Kristján að sækja sjó á vetrarvertíðum í Eyjum og hér ráðast örlög hans. Hér kynnist hann Helgu Jónsdóttur, ættaðri frá Grímsstöðum i Vestur-Landeyjum og kvænist henni 17. nóvember 1906. Þau stofna fyrst heimili að Múla, en lengst af eru þau í Laufási, eða þar til þau keyptu húsið að Flötum 14, þar sem Kristján átti svo heimili í nær hálfa öld. Kristján og Helga eignuðust tvö börn, Ragnheiði og Gunnar. En Gunnar lést árið 1939. Fyrstu árin hér í Eyjum starfaði Kristján við sjómennsku á vetrarvertíðum. Þegar kaupfélagið Bjarmi fór að fást við lifrarbræðslu og lýsisvinnslu, réðist Kristján til starfa þar, við bræðsluna að vetrinum en við utanbúðarstörf aðra tíma ársins. Svo þegar Lifrarsamlag Vestmannaeyja tók til starfa 1933 og litlu bræðslurnar voru lagðar niður, var ákveðið að starfsmenn þeirra hefðu forgang um vinnu hjá samlaginu. Kristján var einn af þeim. Hann vann aðallega við átöppun lýsis á tunnur, en þá var lýsið allt geymt og flutt út í tunnum, og við þann starfa var hann á meðan heilsan entist. Kristján var sérstaklega samviskusamur og trúr starfsmaður, sem ávallt var hægt að treysta. Nokkru eftir að hann hætti störfum bar svo við á aðalfundi Samlagsins, að formaður þess, Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður, komst svo að orði í ræðu, að velgengni Samlagsins væri mest því að þakka, að það hefði ávallt haft frábæra starfsmenn. Í framhaldi af ræðu formanns var minnst á, að tveir af fyrstu starfsmönnunum hefðu hætt störfum, annar vegna brottflutnings úr Eyjum, en hinn vegna þess að hann treysti ekki lengur sjálfum sér við að handleika hin nýju tæki við lýsisvinnsluna. Samlagið samþykkti að senda þeim hvorum kr. 5000 sem þakklætisvott. Annar þessara manna var Kristján. Þegar honum voru afhent heiðurslaunin, varð honum að orði, að þetta væri hæsta peningaupphæð sem sér hefði verið greidd í einu lagi á lífsleiðinni. Eftir að Kristján missti konu sína bjó hann áfram að Flötum 14 í skjóli dóttur sinnar Ragnheiðar og Ólafs tengdasonar síns, sem bjuggu í sama húsi. Kristján var hæglætismaður, en þó þéttur fyrir. Vildi öllum vel og tilbúinn að hjálpa ef því varð við komið. Heimilið og fjölskyldan var honum fyrir öllu. Hann var mikill heimilisfaðir, afi, langafi og langalangafi. Hann fylgdist af áhuga með afkomendum sínum og vildi þeim allt hið besta. Það var mikið áfall fyrir Kristján og fjölskyldvma, þegar Ólafur tengdasonur hans lést. Hann var Kristjáni ávallt sem besti sonur. Þegar eldgosið hófst, varð Kristján að yfirgefa heimabyggð sína eins og aðrir og gosárið dvaldi hann ásamt Ragnheiði í Reykjavík, á heimili dótturdóttur sinnar, Margrétar Ólafsdóttur og manns hennar Steindórs Hjörleifssonar leikara. Kristjáni var þá mjög farið að förlast. Eftir heimkomuna átti hann heima hjá Ragnheiði að Illugagötu 77, en Helga dóttir hennar ásamt manni sínum Eggerti og Kristjáni syni þeirra hjálpuðust að við að liðsinna þeim, þar til Kristján varð að fara á sjúkrahús, þar sem hann svo eftir þriggja mánaða dvöl lést 94 ára að aldri. Það var hans einasta sjúkrahússdvöl um ævina. Óðum fækkar þeim mönnum, sem hófu störf hjá Lifrarsamlagi Vestmannaeyja í mars 1934. Þó eru nokkrir eftir enn, hérnamegin við móðuna. Ég átti því láni að fagna síðar, að verða starfsfélagi margra þessara manna, m. a. Kristjáns í mörg ár. Frá þessum árum á ég eingöngu góðar minningar, sem ég bið Guð að launa og þakka fyrir með innilegum kveðjum. Páll Scheving.
Helgi Kristjánsson, vélstjóri.
F. 20. sept. 1904. — D. 9. sept. 1976.
Hann var fæddur í Ólafsvík og hét fullu nafni Helgi Thorberg Kristjánsson. Foreldrar hans voru hjónin Kristján Kristjánsson, bátasmiður frá Ytra-Skógarnesi á Snæfellsnesi og Helga Ingibjörg Helgadóttir frá Gíslabæ á Hellnum á Snæfellsnesi.
Helgi missti móður sína fárra vikna gamall. Var honum þá komið fyrir hjá föðurbróður sínum Gísla Kristjánssyni og Jóhönnu konu hans í Ytra-Skógarnesi í Miklaholtshreppi. Þar urðu hans æskustöðvar.
Sjómannsferill Helga hófst þegar hann var 17 ára gamall, og sjómennskan varð hans ævistarf, að vísu með nokkrum hléum. En í þeim hléum var hann þó við störf nátengd sjómennsku og sjávarafla.
Helgi Kristjánsson kvæntist 11. okt. 1930 eftirlifandi konu sinni, Kristínu Jónsdóttur Helgasonar bónda á Bjargi við Hellna. Þau Helgi og Kristín voru systkinabörn. Þau bjuggu fyrst á Akureyri, en fluttu til Siglufjarðar 1938. Þá var Siglufjörður miðstöð síldveiðanna við Norðurland og geysiöflug verstöð að öðru leyti. Helgi vann við síldarútveginn, fyrst sem vélstjóri á skipum og síðan sem vélstjóri hjá Síld¬arverksmiðjum ríkisins á Siglufirði. Hjá síldarverksmiðjunum starfaði hann frá 1944 — 1952, er síldin hvarf að mestu frá Norðurlandi.
Árið 1927 lauk Helgi mótornámskeiði Fiskifélags íslands, og rúmum áratug síðar hinu meira mótornámskeiði, og var vélstjórn hans aðalstarf upp frá því. Helgi var einn af stofnendum Mótorvélstjórafélags íslands á sínum tíma, en seinna var Vélstjórafélag Íslands stofnað upp úr því félagi.
Helgi Kristjánsson var einn þeirra manna, sem allt virtist leika í höndunum á. Hann hafði skarað fram úr við nám í vélfræðum og smíðum. Hann hafði þann sérstaka eiginleika til að bera, að geta einbeitt sér að lausn vandamála í þeim efnum, sem hann hafði áhuga fyrir. Og þar var vélfræðin í hávegum. Óþreytandi jók hann við þekkingu sína og las allt sem hann komst yfir um vélfræði og skyld efni. Þetta varð til þess að hann náði afar góðum tökum á fagi sínu og varð brátt þekktur sem úrtökuvélstjóri og eftirsóttur til starfa.
Vegna þekkingar sinnar og eðliskosta var Helgi Kristjánsson fenginn til að veita forstöðu fjölda mótornámskeiða víðs vegar um landið á árunum 1942 — 1957.
Í Vestmannaeyjum veitti hann forstöðu þremur námskeiðum, þ. e. árin 1949—50, 1950—51 og 1955—56, og útskrifaði hér fjölda vélstjóra sem síðar urðu vel þekktir á fiskiflotanum og víðar. Skólaspjöld tveggja námskeiðanna hér í Vestmannaeyjum eru birt í þessu hefti Sjómannadagsblaðsins.
Helgi Kristjánsson flutti til Reykja¬víkur 1952 og bjó þar síðan og í Kópavogi. Þaðan stundaði hann sjó hjá Skipaútgerð ríkisins og á varðskipunum og í þrjú ár var hann vélstjóri á togaranum Jóni Þorlákssyni. Seinustu árin var hann svo vaktmaður hjá Hafskip h. f.
Helgi átti við töluverða vanheilsu að stríða. Hann fékk til dæmis heilablóðfall ekki fimmtugur og lamaðist mikið. En honum tókst með dæmafáu þolgæði að ná starfskröftum á ný, og hann stundaði meira að segja sjó eftir það. Fyrir tveim árum bilaði heilsan svo alveg, og var hann síðan rúmliggjandi oftast nær, þar til hann lést.
Börn Helga og Kristínar eru fjögur. Þau eru öll gott fðlk og traust, eins og þau eiga kyn til.
Nú eru liðin ár og dagar síðan við vorum Helga Kristjánssyni samtíða á vélanámskeiðum hér í Vestmannaeyjum, þar sem hann sat með okkur yfir skólabókum, og með að minnsta kosti suma af okkur, ef svo mætti segja, á hnjánum. En við munum samt vel eftir honum. Maður eins og Helgi Kristjánsson gleymist ekki svo glatt þó árin líði hjá, eitt af öðru. Gamlir sjófélagar Helga skrifa í minningargrein um hann, að þeir muni minnast hans með sjálfum sér. Það var vel að orði komist. Mynd Helga Kristjánssonar er þeirrar gerðar að menn minnast hans fyrst og best með sjálfum sér, í látleysi og friðsemd, og kannski þeim mun betur sem lengra líður. Eigi að síður hefði okkur þótt það þunnur þrettándi, ef Sjómannadagsblað Vestmannaeyja hefði komið svo út á dánarári Helga Kristjánssonar, að þess væri hvergi getið að hann var hér um tíma og starfaði hér og eignaðist hér vini og kunningja, sem mátu hann mikils og munu minnast hans með virðingu og þökk til æviloka.
Helgi Kristjánsson lést sem fyrr segir þann 9. september s. l. og var borinn til moldar á afmælisdaginn sinn þann 20. september, þegar hann hefði orðið 72 ára.
Gamlir nemendur í Vestmannaeyjum.
Sigurður Ingibergur Magnússon.
F. 15. sept. 1956. — D. 25. sept. 1976.
Hann var fæddur hér í Vestmannaeyjum og hér ólst hann upp. Hann var yngstur fjögurra systkina. Foreldrar hans voru hjónin Lilja Sigurðardóttir og Magnús Jónsson vélstjóri, Hásteinsvegi 58.
Hann ólst upp að hætti annarra drengja hér í Vestmannaeyjum, í náinni snertingu við hafið og björgin, við fisk og fugl. Sigurður var ekki gamall, þegar hann fór fyrst að taka þátt í veiði- og fjallaferðum með góð um vinum og félögum. Hann varð leiðandi í gleði og gáska í þeirra hópi, og jafnframt eins og samofinn Eyjunum sínum og margbreytilegri náttúru þeirra.
Sigurður Ingibergur Magnússon hafði til að bera þá tilhneigingu, sem vel er þekkt hjá ungum mönnum í Vestmannaeyjum fyrr og síðar, að nánast sjá sína heimabyggð, eyjarnar og skerin og það líf sem þar er lifað, í gegn um allt sem þeir aðhafast heima og heiman.
Eftir að Heimaey hafði lent í eldgosinu var mikið gert til eflingar áframhaldandi byggð, þó útlitið væri ekki glæsilegt. Mikil verk voru unnin og miklum fjármunum offrað. Samt vitum við að það voru ekki þessi miklu störf, sem fyrst og fremst björguðu byggðinni í Vestmannaeyjum, heldur þessi blessaða tilhneiging, sem að framan er getið og oft er svo undarleg í augum ókunnugra. Sigurður Ingibergur var framarlega meðal fremstu í hópi þess unga fólks, sem á öralagatímum reisti sína heimabyggð úr öskustónni. Hann hafði ríkulega goldið fóstru sinni fósturlaunin, þegar kallið kom.
Vorið 1972 lauk Sigurður landsprófi frá Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum, og strax þá um haustið settist hann til náms í Menntaskólann við Hamrahlíð í Reykjavík. Eftir vetrardvöl í Reykjavík hætti hann námi þar og ákvað að halda áfram námi við Menntaskólann á Ísafirði.
Jón Baldvin Hannibalsson, skólameistari á Ísafirði, skrifaði í minningargrein um Sigurð í Morgunblaðinu 16. okt. 1976:
„Laugardaginn 25. september s. l. efndu nemendur Menntaskólans á Ísafirði til hópferðar norður í Jökulfirði. Ferðin var fyrst og fremst ætluð aðkomumönnum úr nemendahópi til þess að þeir mættu skynja betur það sérstæða umhverfi sem býr lífi þeirra hér umgjörð lengri eða skemmri tíma.
Sigurður var okkur ekki samferða í þetta skiptið. Hann stóðst ekki mátið þegar framundan var 4ra daga réttarleyfi, að halda heim til Eyja. Svo traustum böndum var hann bundinn sinni heimabyggð. Hann átti ekki afturkvæmt úr þeirri för. Þegar við stigum af skipsfjöl að kvöldi dags barst okkur sú fregn að báti Sigurðar hefði hvolft við Eyjar fyrr um daginn og hann drukknað.
Sigurður var rétt tvítugur að aldri. Hann settist í annan bekk Menntaskólans á Ísafirði haustið 1973. Fyrir upphaf þriðja námsárs varð hann fyrir svo alvarlegu slysi, að honum var vart hugað líf. Þá sýndi hann hvað í honum bjó. Hann safnaði kröftum á ný og lagði harðar að sér við námið. Á s. l. vetri lauk hann hvoru tveggja 3ja bekkjarprófi og rafvirkjanámi iðnskóla. Það var engan bilbug á honum að finna. Eftir var aðeins lokaáfanginn til stúdentsprófs í vor.
Lífsreynsla Sigurðar var slík að þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar náð óvenjulegum þroska. Hann var viðkvæmur og ör í lund; einlægur og opinskár í samskiptum sínum við aðra menn; atorkusamur og einbeittur að sinna sínum hugðarefnum. Hann var vel íþróttum búinn, enda valinn til kappleika fyrir hönd skóla síns. Listhneigður var hann — mynd¬skreytti m. a. skólablöð Menntaskólans og bæjarblöð hér og heima í Eyjum. Hann verður okkur öllum hugstæður, þeim sem hann þekktu." Atburðurinn við Brimurðina hinn 25. september s. l. er ekki fyrsta áfallið sem Vestmannaeyjar hafa þolað fyrir fangbrögðin við Ægi konung og verður varla það síðasta, því miður. Og ekki tjóar að deila við dómarann. En minningin um geðþekkan ungan mann lifir áfram.
Guðmundur Eyjólfsson frá Eiðum
F. 24. nóv. 1900 — D. 1. okt. 1976
Guðmundur var fæddur að Iðu í Biskupstungum, sonur hjónanna Eyjólfs Sveinssonar frá Stóruborg undir Eyjafjöllum og Sigríðar Helgadóttur frá Skálholti í Biskupstungum. Hann var yngstur ellefu barna þeirra. Nú er aðeins eitt þessara systkina eftir á lífi, Sígurður, búsettur í Reykjavík. Þegar Guðmundur var 12 ára fluttust foreldrar hans til Reykjavíkur og eignuðust þar heimili við Vesturgötuna. Eyjólfur faðir hans lifði ekki lengi eftir þetta, en Guðmundur var ávallt með móður sinni og vann henni allt þar til hann flutti til Eyja og stofnaði eigið heimili. Hann var því ungur, þegar hann þurfti að taka til hendinni við hvað sem bauðst. Fyrst var það við fiskþurrkun og sendilsstörf o. fl. Svo lá leiðin til sjós. Í siglingar fór Guðmundur um tvítugsaldur. Var hann á seglskipinu Huginn, sem sigldi með saltfisk til Spánar og með salt og fleira heim. Hann fór þangað margar ferðir og hafði frá mörgu að segja, frá Barcelóna, Ibiza og fleiri stöðum, sem þá voru ekki jafn fjölfarnir af íslendingum og nú er. Til Vestmannaeyja kom Guðmundur fyrst í einni af þessum ferðum og varð sú ferð örlagarík fyrir hann. Það var þá, sem hann kynntist fyrst konu þeirri, sem síðar varð lífsförunautur hans, Árnýju Árnadóttur frá Byggðarholti. Þau gengu í hjónaband á afmælisdegi Guðmundar, þá er hann varð 23 ára. Þau eignuðust nokkru seinna húsið Eiða, í næsta nágrenni við heimili tengdaforeldra hans, og þar bjuggu þau svo allan sinn búskap. Guðmundur og Árný eignuðust 6 börn og eru 5 á lífi. Börnin eru: Ólöf Stella, gift Róbert Arnfinnssyni leikara, búsett í Kópavogi; Sigurður, netamaður, kvæntur Kristínu Karlsdóttur, búsettur í Þorlákshöfn; Árni, vélstjóri, kvæntur Jónu Hannesdóttur, búsettur í Kópavogi; Ólafur, kennari, kvæntur Guðlaugu Jóhannsdóttur, búsettur á Húsavík; Anton, vélvirki, kvæntur Úlfhildi Úlfarsdóttur, búsettur í Reykjavík og Páll Valdemar, sem lést fárra mánaða gamall. Guðmundur stundaði alla vinnu, sem til féll, bæði til sjós og lands, fyrstu ár sín í Eyjum. Þá var atvinna oft af skornum skammti, sérstaklega að haustinu. En Guðmundur var laginn við að hafa eitthvað fyrir stafni. Meðal annars kom fyrir að hann ynni tíma og tíma á skósmíðaverkstæði, sem starfrækt var í nágrenni við heimili hans. Guðmundur var lagtækur og fórust honum öll verk vel úr hendi alla tíð, enda sérstakt snyrtimenni. Hann varð svo starfsmaður Lifrarsamlags Vestmannaeyja í áratugi, fyrstu árin að vetrinum til og vann þá við önnur störf á sumrin. T. d. var Guðmundur matsveinn á m.b. Gullveigu VE 331 sumarið 1947 á síldveiðum fyrir Norðurlandi, og var það hans síðasta sjómannsstarf. Seinni árin í Lifrarsamlaginu var hann kyndari, næturvörður og við lifrarmóttökuna um tíma. Guðmundur var barngóður maður og átti alla tíð létt með að vera í snertingu við börn. Hann var mikils metinn af frændfólki sínu-, og sérstaklega af systkinabörnunum, sem ávallt litu upp til hans sem stóra bróðurs, sem gott var að leita til ef eitthvað bjátaði á. Guðmundur varð fyrir mikilli lífsreynslu um það bil hann varð 18 ára. Það haust gekk spánska veikin í Reykjavik eins og í Eyjum. Guðmundur veiktist ekki, en var öllum stundum á þönum við að hjálpa öðrum, sem veikir voru. Hann var yfirleitt fáorður um þessa döpru daga og það erfiða starf, sem hann þá leysti af hendi. En þó bar við, að hann segði frá ógleym¬anlegum atburðum frá þeim dimmu dögum. Og Guðmundur átti eftir að kynnast betur veikindum og mótlæti á lífsleiðinni. Sjálfur veiktist hann í mjöðm og varð að þola spítalalegur og skurðaðgerðir. Kona hans veiktist af berklum og átti við langvarandi veikindi að stríða, þar til hún lést árið 1960. Guðmundur var aldrei samur maður eftir lát konunnar, gleði hans var brostin. Síðustu árin sem hann bjó að Eiðum, voru Sigurður sonur hans og Kristín þar til húsa. Þau byggðu sér svo hús að Grænuhlíð 20. Þangað flutti Guðmundur með þeim frá Eiðum, og bjó hjá þeim þar til gosið hófst og hann varð að flýja til lands. Þegar til landsins kom, tók Stella, einkadóttir Guðmundar, á móti honum, og hjá henni og Róbert var hann, þar til hann fór á Hrafnistu. Þar dvaldi hann síðustu árin og þar lést hann eftir skamma legu 1. október 1976. Þessi fáu minningarorð frá áratuga samstarfsmanni, eiga að flytja fyrirbænir og þakkir fyrir samveruna, ásamt góðum kveðjum til ástvina hans. Páll Scheving.
Ágiíst Ingi Guðmundsson, Háeyri
F. 20. okt. 1922 — D. 2. okt. 1976
Hann fæddist á Háeyri og ólst þar upp í foreldrahúsum. Foreldrar hans voru hjónin Jónína Sigurðardóttir og Guðmundur Jónsson, formaður og bátasmiður. Hann var fjórði í röð sex systkina. Árið sem hann fermdist varð hann fyrir því mikla áfalli að hrapa í Klifinu og meiðast svo mjög, að lengi var tvísýnt um líf hans. Að þessu slysi bjó hann mjög lengi; ef til vill æfilangt. Ungur fór Ingi á sjóinn, svo sem venja hefur verið um ungmenni hér. Og sumarið 1941 varð hann enn fyrir átakanlegri reynslu, er hann varð sjónarvottur að drukknun bróður síns, Hermanns. Ingi var þá 19 ára, en Hermann árinu eldri og nemandi í Kennaraskólanum. Slys þetta varð 17. júlí 1941 um borð í m.b. Sísí, sem var á dragnótaveiðum. Hermann flæktist í lykkju og var þá ekki að sökum að spyrja. Þennan bát, Sísí, voru þeir Háeyrarfeðgar með á leigu, því að á vertíðinni 1941 hafði Olga VE 239 lent í árekstri við enskan togara og farist. Einn ungur Eyjamaður fórst þá með Olgu. Guðmundur á Háeyri var hættur sjómennsku þegar þessir atburðir gerðust og var því ekki með Olguna í hennar seinustu ferð. Sem nærri má geta hafði drukknun Hermanns á Háeyri mjög djúpstæð áhrif á Inga, sem þurfti að horfa upp á þetta, án þess að geta nokkuð gert til hjálpar bróður sínum. Ingi var svo við ýmsa vinnu til sjós og lands. Hann stundaði sjó á mörgum bátum, bæði hér heima við og fyrir Norðurlandi. Á síldveiðum var hann á Þorgeiri goða með Júlíusi Sigurðssyni frá Skjaldbreið. Hann var duglegur verkmaður meðan heilsan leyfði. En hann var lengi vanheill. Á seinni árum stundaði hann helst ýmisleg störf við höfnina, skipavinnu og þess háttar. Á ungdómsárum sínum hafði Ingi á Háeyri brennandi áhuga fyrir knattspyrnu og var mjög góður liðsmaður þar. Og áhugi hans fyrir knattspyrnunni hélst alla tíð. Það var yndi hans að fara á „völlinn" og horfa á góða leiki. Ingi var hagur vel, og gerði margt smekklegra muna. Það veitti honum ánægju að föndra við þetta, eftir að hann var hættur vinnu. Enginn veit hvað undir annars stakki býr. Ágúst Ingi Guðmundsson féll út af Básaskersbryggju 2. október 1976 og drukknaði, 54 ára að aldri. Á. G.
Sigurður Eyjólfsson frá Háaskála.
F. 10. ág. 1919. — D. 1976.
Sigurður var fæddur á Skaftafelli við Vestmannabraut, þar sem foreldrar hans bjuggu í leiguhúsnæði, en skömmu síðar flutti fjölskyldan í eigið hús, sem þau nefndu Háaskála.
Foreldrar Sigurðar hétu Rósamunda Jónsdóttir og Eyjólfur Guðmundsson og voru til heimilis í Gerði, þegar þau giftu sig haustið 1918. Þau voru meðal þess harðduglega fólks, sem hingað fluttist frá nágrannabyggðunum á fyrstu áratugum þessarar aldar.
Sigurður var sjómaður frá 16 ára aldri og fram yfir fimmtugt, fyrst á bátum og síðast vöruflutningaskipum. Minna fiskimannaprófi lauk hann í Vestmannaeyjum 1945 og farmannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík vorið 1951 með ágætiseinkunn. Hann hlaut verðlaun fyrir frammistöðu sína þar.
Það sama vor, er hann útskrifaðist úr Stýrimannaskólanum, kvæntist hann útlendri konu og eignaðist með henni stúlkubarn. Hjónabandið varð stutt. Þær mæðgur fluttust utan, þegar dóttirin var aðeins 9 mánaða gömul. Vinir Sigurðar segja að hann hafi ekki orðið samur maður eftir það.
Mörg síðustu ár sjómennsku sinnar var Sigurður á skipum Jökla h.f. Félagar hans skrifuðu um hann látinn í Morgunblaðinu m. a. eftirfarandi:
„Ljóst er að honum stóðu þar til boða stýrimannsstöður, og var mörgum félögum hans og öðrum kunningjum hans það hrein ráðgáta, hvers vegna hann hafnaði þeim, en kaus heldur að vinna hin erfiðari störfin. Allir vissu að hann var traustsins verður og skorti hvorki kunnáttu né reynslu. Fyrir fáum árum hætti Sigurður sjómennsku, og nú síðustu árin vann hann í Söginni við Höfðatún.
Við, sem vorum með honum til sjós, vissum, að hann var enginn meðalmaður í neinu tilliti. Hann var hamhleypa til vinnu og fóru saman vel unnin verk og mikil afköst, og vann hann sér þó ekki alltaf á hægasta veg. Við vissum, hve hann var fróður um alla mögulega hluti og sérfræðingur um sumt, flóðmælskur ef því var að skipta, en fáorður um eigin málefni. Eitt vissum við enn. Hann var drengur góður og tekið var til þess, hve góður hann var við börn vina sinna. Það er einnig víst, að okkur, sem töldum okkur þekkja Sigurð allvel, var margt hulið um upplag hans og æviferil — og nú að lokum vitum við hvorki dánardægur hans né dánarorsök."
Sigurður fór í ferðalag til Norðurlanda og víðar 21. ágúst síðastliðinn. Ekkert fréttist til hans frá 28. september til 17. október, en þá fannst lík hans í höfninni í Flensborg.
Sigurður var jarðsettur frá Fossvogskapellu 1. nóvember 1976.
Þórarinn Guðlaugur Eyvindsson.
F. 11. okt. 1925. — D. 26. nóv. 1976.
Hann var fæddur hér í Vestmannaeyjum og hér ólst hann upp og hér átti hann heimili alla ævi sína.
Foreldrar hans voru Eyvindur Þórarinsson skipstjóri og hafnsögumaður í Vestmannaeyjum um áratugabil og kona hans Sigurlilja Sigurðardóttir. Þórarinn var yngstur átta systkina, og eru nú að honum látnum þrjú þeirra á lífi. Hann bjó hér alla tíð hjá foreldrum sínum, meðan þau lifðu, en Eyvindur lést 1964 og Sigurlilja 1974.
Árið 1943 settist Þórarinn til náms í Samvinnuskólann og að námi loknu stundaði hann lengst af skrifstofustörf, þar á meðal hjá Bæjarútgerð Vestmannaeyja. Við bæjarútgerðina varð Þórarinn þekktur meðal sjómanna að þeirri prúðmennsku og drenglyndi, sem ég hygg að hafi einkennt hann alla tíð.
Ég kynntist ekki Þórarni persónulega fyrr en í júnímánuði 1966, er ég tók við verkstjórastarfi á Vestmannaeyjaflugvelli. Þar var Þórarinn þá starfandi sem bifreiðarstjóri og hafði verið það í fáein ár yfir sumartímann. Af ástæðum, sem ekki verða framar raktar, varð kannski fremur fátt um kveðjur okkar í milli fyrst í stað, en úr því rættist von bráðar. Og ekki leið á löngu þar til ég fékk hugboð um, að með Þórarni Eyvindssyni leyndist óvenjulegur maður, frábær hæfileikamaður á mörgum sviðum og varla meðalmaður í neinu.
Áreiðanlega var Þórarinn Eyvindsson sá maður, sem öll verk hefðu leikið í höndunum á, sem hann hef ði snúið sér að til að inna af höndum. Mig grunar að hann hafi sjálfur þekkt hæfni sína og margvíslega yfirburði, en haft af einhverjum ástæðum óbeit á að leiða þá í ljós.
Ég er sannfærður um að á samverutíma okkar Þórarins hafi ég kynnst honum eins og hann var í raun og veru: Prúðmenni til orðs og æðis. Höfðingi í lund. Hnitmiðaður persónuleiki, stálgreindur og agaður og þrautmenntaður á sumum sviðum. Margir munu verða til að segja að gamli Bakkus hafi verið hans veika hlið, og erfitt yrði að afsanna það. Þó hefur mér einatt boðið í grun, að Þórarinn Eyvindsson hefði átt í öllum höndum við þau ógnaröfl sem skópu honum örlög langt um aldur fram, ef hann hefði kært sig um. Ég hygg að þar hafi fremur skort viljann en getuna.
Leiðir okkar Þórarins lágu saman í fá ár. Um það leyti var eins og örlagavaldur hans væri smám saman að ná yfirhöndinni, og hélt svo fram þar til yfir lauk.
Þegar lífið hafði svo loks sett þau ummerki á líkama Þórarins Eyvindssonar, sem ekki yrðu afmáð, kom fyrir að gömlu félagarnir úr flugvellinum hittu hann úti við á förnum vegi og vildu víkja að honum góðu í orði eða verki, þá sneri hann gjarnan undan og frá, af óskeikulli kurteisi en ákveðið. Það sem var að gerast var hans mál. Likaminn var að gefa sig og ýmisleg ytri kennileiti til marks um góðar gjafir Guðs voru að dofna. En innifyrir merlaði enn á glóandi gullinu. Þannig sá ég hann seinast.
Litlu seinna var hann borinn til hvíldar í kirkjugarðinn hérna í Vestmannaeyjum.
Steingrímur Arnar.
Guðmundur Jónsson, Háeyri
F. 14. okt. 1888 — D. 27. nóv. 1976
Hann fæddist í Framnesi í Stokkseyrarhreppi 14. október 1888. Foreldrar hans voru hjónin Ingibjörg Jónsdóttir og Jón Guðmundsson. Þau eignuðust 17 börn og var Guðmundur það þriðja í röðinni. Á tíunda ári fór hann til afa síns og ömmu að Gamla-Hrauni og var lengst af hjá þeim, þar til hann fluttist til Vestmannaeyja árið 1909. Og hér bjó hann æ síðan. Guðmundur hóf sjómannsferil sinn um fermingaraldur, á skútum frá Reykjavík, og sjómermska verður einnig hans starf hér. Fljótlega varð hann formaður, fyrst með Olgu VE 139, 9 tonna bát, er hann síðan eignaðist hlut í, og með þennan bát er hann í samfleytt 11 vertíðir. Vertíðina 1920 er hann svo með Faxa VE 215, er Jónsborgarbræður áttu, og 1921 tekur hann við nýjum báti — Olgu VE 239 — sem var 14 tonn að stærð og átti Guðmundur þann bát að hálfu. Með þessa Olgu er Guðmundur svo í 18 ár alls, þó eigi alveg óslitið. Margir hásetar voru með honum árum saman og það var eftirsótt að vera í skiprúmi með honum. Bæði var að hann var aflasæll og ekki voru það síður mannkostir hans, sem löðuðu menn með honum. Eins voru sömu landmenn með Guðmundi árum saman. Guðmundur á Háeyri var sérlega traustur og öruggur formaður, rólyndur, gætinn og athugull og virtur af skipsfélögum sínum. Þeim var kært að vera með honum og fundu til öryggiskenndar undir hans stjórn. Svo lánsamur var Guðmundur, að aldrei urðu slys á mönnum hjá honum á löngum formannsferli. Þó að sjósókn Guðmundar hafi aðallega verið til fiskveiða, komu þó fleiri þættir til. Þar á ég við landferðirnar, sem unga fólkið nú til dags kann engin skil á, en við hin eldri munum því betur og fylgdumst með af áhuga. Guðmundur var mikið í þessum ferðum milli lands og Eyja, eins og fleiri formenn hér áður. Þær voru ótaldar ferðirnar, sem þeir fóru á Olgu. Héðan voru miklir flutn¬ingar á vorin í vertíðarlok, varningur alls konar og vertíðarfólk, og voru oft farnar margar ferðir í lotu, ef leiði hélst. Ekki þurfti síður aðgæslu og forsjálni í þessum ferðum en við fiskveiðarnar. Svo voru það Jónsmessuferðirnar. Þá var alltaf mikið með af börnum, sem voru að fara í sveitina til sumardvalar, svo og kaupafólk. Gott var þá að hafa traustan formann, því oft var fljótt að brima við sandana. Guðmundur fór venjulega upp að Landeyjasandi, kannski vegna þess að alla hans formannstíð voru hásetar hans margir úr Landeyjum og Fljótshlíð. Á árunum 1922—1926 má segja að Guðmundur hafi haft með höndum fastar ferðir milli lands og Eyja á vegum kaupfélagsins Drífanda. Vor- og haustferðir voru árvissar og sumarferðir voru farnar eftir þörfum. Tilgangurinn var að flytja vörur til kaupfélagsins í Hallgeirsey. Til baka voru fluttar búvörur alls konar, svo sem ull og fleira. Marga ferðina var Guðmundur beðinn um að fara til Stokkseyrar með fólk og varning, sökum kunnugleika hans þar um sundin. Allt tókst þetta giftusamlega. Já, það var í mörgu að snúast þessi árin og raunar alltaf, því Guðmundur var mikill atorkumaður. Og eftir 30 ára formennsku hætti Guðmundur störfum á sjónum, eftir farsælan feril. Eftir það vann hann við bátasmíðar meðan heilsan leyfði. Hann var enginn nýliði í þeirri grein, því bátasmíðar hafði hann stundað meira og minna milli vertíða um langt árabil. Guðmundur kvæntist árið 1912. Kona hans var Jónína Sigurðardóttir frá Nýborg. Jónína er látin fyrir nokkrum árum. Þau eignuðust sex börn og eru nú tvö þeirra á lífi. Guðmundur Jónsson var sannur heiðursmaður og drengskaparmaður. Hann og hans líkar hafa ætíð verið sjómannastéttinni til sóma og byggðarlagi sínu jafnframt. Hann lést á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 27. nóvember 1976, 88 ára að aldri Heinrieh Tegeder, Háeyri F. 17. okt. 1911 — D. 21. des. 1976
Gerhard Diedrich Heinrich Tegeder hét hann fullu nafni. Fæddur 17. okt. 1911 í Wulsdorf í Þýskalandi. Hann lést hér í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 21. des. sl. 65 ára að aldri. Hann átti sitt bernskuheimili í Bremerhaven og kynntist þá þegar sjómennsku. Faðir hans var skipasmiður og var því ekki óeðlilegt, þó hugur hans hneigðist í þá áttina. Hann hóf því nám í skipatæknifræði. En örlögin vörnuðu honum framhaldsnáms, því olli heimskreppan á árunum kringum 1930. Heinz fór því ungur að árum til sjós. Réðst á togara. Fiskimiðin voru fjarlæg heimalandinu og m. a. stunduðu þeir veiðar á Íslandsmiðum. Það var í einni slíkri veiðiferð, sem Heinz varð fyrir slysi og varð að flytja hann í land hér í Eyjum. Ólafur heitinn Lárusson héraðslæknir rak þá sjúkrahús sitt að Arnardrangi. Þar var Heinz lagður inn og fékk bót meina sinna undir handleiðslu Ólafs. Meðan Heinz var hér, kynntist hann eftirlifandi konu sinni Sigurást Þórönnu Guðmundsdóttur frá Háeyri. Þau gengu í hjónaband 1938 í Þýskalandi. Þar bjuggu þau í eitt ár. Til Vestmannaeyja komu þau sumarið 1939, til að dvelja hér um hríð hjá ættingjum hennar. En í september 1939 brýst heimsstyrjöldin út og var því loku fyrir það skotið að þau kæmust aftur út til Þýskalands. Heinz gerist því sjómaður hér heima og var meðal annars á báti tengdaföður síns, Guðmundar á Háeyri, m.b. Olgu VE 239. En nú syrtir í álinn og styrjöldin teygir klær sínar hingað á norðurslóðir. Vegna þjóðernis síns er Heinz tekinn til fanga 1. ág. 1940. Hann er fluttur til Skotlands og síðan á Mön, þar sem hann bjó við bág kjör. Um síðir komst hann þó til síns föðurlands í fangaskiptum. Þar dvaldi hann til ársins 1947. Fyrr komst hann ekki heim. Nærri má geta hve átakanlegt þetta tímabil hefur verið þeim hjónum. Allan tímann vissi hvorugt um annars hag. Konan í eilífri óvissu um, hvort hann væri lífs eða liðinn. Sterkar taugar þarf til að þola slíkt, og það í 7 ár. Báðum hefur þeim þó verið gefin slík náðargjöf. En öll él birtir um síðir. Hinn 1. maí 1947 kom Heinz heim öllum á óvart. Martröðin á enda, þvílík ur fagnaðarfundur hefur það verið. Hér eftir urðu Vestmannaeyjar þeirra heimkynni. Heinz gekk nú að ýmisri vinnu. Fyrstu árin var hann á sjónum, til dæmis nokkur ár með Angantý Elíassyni á m.b. Sídon VE 29. Þá var hann slippstjóri hjá Ársæli Sveinssyni um hríð, og afgreiðslumaður á Skipaafgreiðslu Hafnarsjóðs. Allstaðar naut hann trausts, enda afburðamaður til verka. Sá sem þetta skrifar átti því láni að fagna, að fá að njóta starfskrafta hans síðustu árin sem hann lifði. Störfin sem honum voru falin voru mjög margþætt. Auk netjavinnu leysti hann af hendi nálega allar viðgerðir á hinum ýmsu munum, sem fylgja útgerð. Innti hann verkefnin af hendi með mikilli prýði og kunnáttu. Ég held að flestir, sem hér fylgjast með þessum málum, hafi þekkt verkin hans úr öðrum. Ósérhlífinn var hann og kunni sér ekki hóf. Efalaust hefur það flýtt fyrir óvelkomnum gesti. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Heinz fyrir störf hans og trúmennsku. Þær stundir, sem við áttum saman, hafa orðið mér lærdómsríkar. Þau hjónin Ásta og Heinz eignuðust fjögur börn, sem öll eru búsett hér í Eyjum. Þau eru: Edda, gift Haraldi Traustasyni; Herdís, gift Adolf Sigurjónssyni; Guðmundur, kvæntur Jólínu Bjarnarson og María, gift Þorsteini Nielsen. Við hjónin sendum Ástu og börnum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Emil M. Andersen.
Marteinn Olsen, Álfhólum.
F. 30. nóv. 1907. _ D. 18. jan. 1977.
Meðal Eyjaskeggja hafa alltaf verið nokkrir erlendir borgarar, sem fest hafa rætur. Á árunum fyrir stríð kom hér ungur sjómaður frá landi víkinganna, Noregi, sem hét fullu nafni Marteinn Kornelius Olsen. Tókust ástir með honum og Eyjasnót, Þórunni Gyðríði Reimarsdóttur. Fluttust þau út til heimaslóðar Marteins í Noregi, gengu þar í hjónaband og bjuggu þar öll styrjaldarárin. Marteinn var ekki margmáll um þau ár, en ekki fór á milli mála, að miklir erfiðleikar og áreynsla var hjá því hrjáða fólki, er lifði undir járnhæl nasistanna á hernámsárunum í Noregi. Marteinn og Gígja komust við illan leik frá Noregi undir stríðslokin og hingað til Eyja 1946, þar sem þau bjuggu alla tíð síðan, en eiginkonu sína missti Marteinn í janúarmánuði sl. Marteinn stundaði lengst af þá vinnu, sem til féll til lands og sjávar. Hann var liðtækur og lagtækur, er hann tók til höndum, og sérlega er mér minnisstæð hans fallega rithönd. Marteinn var mjög ljóð- og söngelskur og átti löngum banjo, er hann greip til á góðum stundum. Marteinn sóttist ekki eftir veraldarauði og lét hverjum degi nægja sína þjáning. Hann var orðinn heilsulítill síðustu árin. Skopskyn hafði Marteinn gott og hefur hans góða skaplyndi átt ríkan þátt í því, hversu létt hann tók áföllum í ólgusjó lífsins. Honum auðnaðist aldrei með eigin augum að sjá sitt fagra föðurland rísa úr öskustónni eftir stríðshörmungarnar, oft leitaði hugur hans heim á leið, en viljinn var í veiku gildi, og örlög Marteins höguðu því svo til, að þessi draumur hans rættist ekki. Marteinn andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 18. jan. sl. á 70. aldursári. Jóh. Friðf
Matthías G. Jónsson frá Dölum. F. 15. nóv. 1892. — D. 25. jan. 1977. Á fyrstu áratugum þessarar aldar réðst endanlega hlutskipti Vestmannaeyja sem einskonar höfuðbóls íslendinga í sjósókn og útvegi, og sér þess stað enn í dag, þó margt sé að breytast. Forsenda þessa voru fyrst og fremst aflasæl og aðgengileg fiskimið og uppgötvanir nýrra aðferða til að nýta þau til bjargar. Samfara gerbyltingum í útvegi og aflabrögðum og í kjölfar þeirra, fjölgaði íbúum Vestmannaeyja mjög. Hópar ungs og hörkuduglegs fólks tók sig upp frá heimahögum og fluttist búferlum hingað út í Eyjarnar og settist að í von og vissu um bjarta framtíð, og flest var þetta fólk úr nágrannabyggðunum á Suðurlandi: Árnes-, Rangárvalla- og Skaftafellssýslum. Og árið 1901 taka sig upp hjónin að Bólstað í Mýrdal, þau Þorgerður Hjálmarsdóttir og Jón Guðsteinsson, og flytja ásamt börnum sínum til Vestmannaeyja og setjast að í Dölum og búa þar lengi síðan. Þetta voru foreldrar Matthíasar klæðskera. Hann hét fullu nafni Matthías Guðlaugur Jónsson og var fæddur að Bólstað 15. nóvember 1892. Ungur byrjaði hann að læra klæðskeraiðn hér í Vestmannaeyjum, hjá klæðskera sem hér var starfandi þá. Hann varð fljótt þekktur að færni í iðn sinni og vandvirkni í hvívetna. Hann starfaði um skeið hjá þekktum klæðskerameisturum í Reykjavík, en fór síðan til Stavangurs í Noregi og vann þar sem klæðskerameistari í 7 ár. Árið 1930 kemur Matthías aftur hingað til Vestmannaeyja og starfar hér að iðn sinni þaðan í frá, meðan heilsan leyfði. Unnur Pálsdottir og Matthías stofnuðu heimili hér í bæ árið 1940. Þau eignuðust þrjú börn og eru nú tvö þeirra á lífi: Guðgeir sem býr hér í Vestmannaeyjum og Þorsteinn sem búsettur er á Höfn í Hornafirði. Fólkið í Dölum varð allt kunnir borgarar hér í bæ. Sérstaklega muna Vestmannaeyingar vel eftir hinum þekktu og vinsælu bræðrum frá Dölum, þó nú sé liðinn nokkuð langur tími frá því að sumir þeirra kvöddu. Þar var Matthías engin undantekning. Hann var vel þekktur borgari hér og átti stóran hóp vina og kunningja. Flestir þeirra voru sem að líkum lætur sjómenn og útvegsmenn, því þaðan og þangað sem sjórinn er og sjávaraflinn, liggja allar rætur í þessari byggð. Því er Matthías klæðskeri kvaddur hér í blaði sjómanna og með virktum. Seinustu árin var Matthías Jónsson búsettur í Hveragerði. Hann lést á Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík 25. janúar s. l. og var jarðsettur í Landakirkjugarði.
Magnús Tómasson frá Hrafnabjörgum. F. 10. sept. 18%. — D. 1. mars 1977. Hann var fæddur í Frydendal, sem seinna hét Bjarmi, 10. September 1896. Foreldrar hans voru Tómas Ólafsson, sjómaður hér í Eyjum, ættaður frá Leirum undir Eyjafjöllum og Magnúsína Magnúsdóttir, fædd á Kirkjubæ, — en þá vinnukona í Frydendal. Vikugamall var hann tekinn í fóstur af hjónunum Jóni Jónssyni og Guðbjörgu Björnsdóttur í Gerði. Hjá þeim ólst hann síðan upp í besta atlæti. Þau urðu honum sem góðir foreldrar og börn þeirra sem systkini. Magnús kvæntist 4. júní 1921 Kristínu Björgu Jónsdóttur, sem ættuð var frá Vattarnesi við Reyðarfjörð. Þau reistu bú sitt að Hrafnabjörgum við Hásteinsveg. Löngum var Magnús síðan kenndur við það hús sitt. Árið 1935 missti Magnús konu sína, stuttu eftir að hún hafði alið þriðja barn þeirra hjóna. Þetta barn var Jón Berg, sem skömmu eftir að móðir hans dó var tekinn í fóstur og ættleiddur af hjónunum Sigríði Friðriksdóttur og Halldóri Halldórssyni. Hér í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja er óþarft að rekja lífssögu Magnúsar Tómassonar mörgum orðum. Allir þekktu hann og eiga um hann góðar minningar. Hann átti, ef svo mætti segja, alla Vestmannaeyinga að vinum og kunningjum. Hér í Vestmannaeyjum átti hann heima allt sitt líf og hann var sjómaður allt sitt líf. Við sjóinn undi hann glaður við sitt. Sjórinn og sjómennskan var líf hans og yndi. Líf Magnúsar og störf hans vitna um manninn, þar birtist hann allur heill og sannur, engum háður nema Guði sínum. Magnús Tómasson var léttur í lund, kátur og gamansamur á góðri stund í góðum félagsskap. Hann hafði til að bera lifandi kímnigáfu, sem gerði mönnum glatt í geði, en særði ekki. Seinustu tuttugu ár ævi sinnar var Magnús til heimilis hjá dóttur sinni Jónu og tengdasyni Hirti Guðnasyni að Brimhólabraut 28. Hann lést í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja hinn 1. mars 1977. Það er sjónarsviptir að Magnúsi frá Hrafnabjörgum. Blessuð sé minning hans.
Einar Sigurðsson frá Heiði
F. 7. febr. 1906. — D. 22. mars 1977.
Einar Sigurðsson var fæddur á Heiði. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurfinnsson, bóndi þar og hreppstjóri og forustumaður í Vestmannaeyjum á fjölmörgum sviðum á sinni tíð, og kona hans Guðríður Jónsdóttir frá Káragerði í Landeyjum. Einar stundaði nám í Verslunarskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1924. Að námi loknu hóf hann kaupsýslustörf hér í Vestmannaeyjum með opnun sölubúðar í gömlu Boston, sem stóð á horni Njarðarstígs og Formannasunds. Síðar sneri hann sér einnig og aðallega að útgerð og rekstri fiskvinnslustöðva. Í árslok 1939 keypti Einar Garðs- og Godthåbseignirnar, sem Gísli J. Johnsen hafði átt og stóðu á besta stað í bænum. Þær höfðu þá staðið auðar og ónotaðar að mestu síðan 1930. Á grunni þessara eigna byggði Einar síðan upp Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, sem hann átti og rak fram að gosinu 1973. Einar hóf einnig útgerð 1939. Fyrsti bátur hans var Sæbjörg VE 244, 12 tonna bátur. Síðan eignaðist hann fjölda báta, ýmist einn eða í félagi við aðra. Árið 1950 fluttist Einar til Reykjavíkur og átti þar heimili síðan og rak þar umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu og víðar um landið. Einar Sigurðsson gegndi mörgum trúnaðarstörfum í samtökum á sviði útgerðar og fiskiðnaðar. Hann var varaformaður stjórnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, stjórnarformaður skipafélagsins Jökla, átti sæti í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar, var formaður stjórnar Umbúðamiðstöðvarinnar, átti sæti í stjórn Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og var stjórnarformaður Coldwater Seafood Corporation í Bandaríkjunum. Einar var mikill íþróttamaður á yngri árum og áhugamaður um íþróttir og var hann forustumaður á sviði íþrótta í Vestmannaeyjum um árabil. Hann var ágætur sundmaður og vann þau afrek í sundi, sem fræg urðu víða. Hann átti sæti í bæjarstjórn Vestmannaeyja á árunum 1942—50, og var ritstjóri blaðsins Víðis árin 1942 og 1946—1950. Hann var varaþingmaður eitt kjörtímabil og tók nokkrum sinnum sæti á Alþingi á árunum 1960—63. Einar Sigurðsson var á margan hátt á undan sinni samtíð í atvinnurekstri sínum, a. m. k. fyrstu árin. Á það einkum við hvað snerti samband hans sem vinnuveitanda við starfsfólk sitt. Um þetta efni ritar Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri, í grein hér í blaðinu 1975: „Rekstur Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja var á þessum árum um margt á undan öðrum fyrirtækjum á þeirri tíð. Á fyrsta ári fyrirtækisins, árið 1940, starfaði á vegum þess matstofa, samkomustaður og finnsk baðstofa. Einnig var gerður handboltavöllur á lóð fyrirtækisins og gróðursett tré. Þá rak fyrirtækið kvöldskóla, þar sem kennd var íslenska og erlend tungumál og íslandssaga og næstu 10 árin eignaðist fyrirtækið 3000 binda bókasafn, sem var undir umsjá Haraldar Guðnasonar. Sérstakur fimleikaflokkur starfsmanna æfði reglulega leikfimi. Á þessum tíma var þetta bylting í kjörum og aðbúnaði verkafólks, sem fram til þessa hafði víðast hvar verið lélegur og til skammar. Starfsfólkið fór í skemmtiferðir upp á fastalandið á kostnað fyrirtækisins og á góðviðrisdögum var gefið vinnuhlé og farið inn í Herjólfsdal eða und-r Löngu í sólbað og sund. Innri höfnin var þá svo til hrein og ómenguð og alltaf á góðviðrisdögum var fjöldi bæjarbúa undir Löngu. Einnig fengu starfsmenn fyrirtækisins hálfsmánaðar sumarfrí á fullu kaupi." Einar Sigurðsson var kvæntur Svövu Ágústsdóttur og áttu þau tíu börn. Frú Svava lifir mann sinn. Þórbergur Þórðarson skrifaði að hluta ævisögu Einars Sigurðssonar, sem komið hefur út í þremur bindum. Þar segir m. a. frá áræði Einars og kappgirni í stórbrotnum atvinnurekstri um áratuga skeið. Í þessu riti fara þeir víða á kostum báðir tveir: sögumaðurinn Einar Sigurðsson og meistarinn Þórbergur, og verður óvíða séð að betur hefði mátt til takast. Eigi að síður mun Einars Sigurðssonar verða minnst á mörgum óskrifuðum bókum. Og Einar Sigurðsson, maðurinn sjálfur, stórbrotinn persónuleiki og sérstæður, sem batt ekki ætíð bagga sína sömu hnútum og samtíð hans, á efalaust eftir að verða sagnvísíndamönnum framtíðarinnar merkilegt rannsóknarefni ásamt yfirgripsmiklum atvinnurekstri hans. Einar frá Heiði hefur ótvírætt haslað sér völl á spjöldum íslandssögunnar.
Jón Sveinsson, Nýlendu. F. 14. nóv. 1891. — D. 22. mars 1977 Jón Sveinsson fæddist á Grjótá í Fljótshlíð 14. nóvember 1891. Foreldrar hans voru Sveinn Sveinsson bóndi þar og kona hans Arnbjörg Guðmundsdóttir. Þegar Jón var tveggja ára deyr faðir hans, og stendur þá ekkjan ein uppi með 4 ung börn. Heimilið var leyst upp, og fjölskyldunni sundrað. Mér hefur skilist, að forráðamenn hreppsins hafi haft meiri áhuga á því að ná í jörðina og bústofninn fyrir hagstætt verð, en að rétta ekkjunni hjálparhönd. Jón var þó svo heppinn að fá að vera samvistum við móður sína í æsku. Fluttust þau að Butru og þar ólst Jón upp. Minntist hann Símonar bónda með hlýju. Símon var góður smiður og mikill bókamaður. Ekki veit ég hvenær Jón flytur frá Butru, en sem unglingur ræðst Jón sem vinnumaður að Múlakoti, og er þar í nokkur ár. Á þeim árum var það til siðs að bændur sendu vinnumenn sína í verið, og fór Jón bæði hingað út til Eyja og suður í Garð til sjóróðra. Fyrstu vertíðina hér í Eyjum er hann landmaður hjá Sigríði í Vertshúsinu, en Sigríður var móðir þeirra Johnsensbræðra Árna og Gísla konsúls. Árið 1912 ræðst Jón á m. b. Austra til Helga í Dalbæ, og mun hafa verið hjá honum í þrjár vertíðir. Vertíðina 1915 var hann á Happasæl með Guðjóni í Heklu. Næstu vertíð var hann á Hjalta hjá Jóni á Hólmi. Þá réðist Jón á Gideon til Eyvindar Þórarinssonar, og er hjá honum til 1920, en þá fer hann til Guðmundar á Háeyri, og er hjá honum í 12 vertíðir, fyrst á Faxa, svo á Gömlu-Olgu, og svo síðast á Nýju-Olgu. Eina vertíð þarna á milli, vertíðina 1921 er Jón formaður með bát sem hét Frans (9½ tonn) og var eign Tangans. Þegar Jón hætti hjá Guðmundi á Háeyri má segja, að sjómennsku væri lokið, þó sigldi hann á Skaftfellingi með Páli Þorbjörnssyni hluta af stríðsárunum. Áríð 1920 kvongaðist Jón Jennýju Jakobsdóttur frá Ásólfsstöðum. Þau byrja búskap í Dalbæ, þar sem þau voru í 4 ár. Þaðan flytja þau að Sólheimum, og eru þar í tvö ár. Árið 1926 kaupir Jón Nýlendu, og þar er hans heimili í nær hálfa öld. Jón missti konu sína 8. desember 1970, eftir 50 ára sambúð. Jón hélt áfram að búa á Nýlendu, en í gosinu flytur hann með dóttur sinni og tengdasyni, og dvelja þau í „útlegðinni", fyrst í Hafnarfirði og síðan í Kópavogi. Hugur Jóns stefndi ávallt heim til Eyja, og flytur hann vorið 1974 með dóttur sinni og tengdasyni að Hólagötu 14. en vorið 1975 flytja þau að Nýlendu. Eftir að Jón hættir sjómennsku stundar hann ýmiskonar verkamannavinnu. Hann var lengi hjá Helga Jónatanssyni, en Helgi keypti fisk og verkaði hrogn. Jón var lengi hjá Helga Benediktssyni, meðal annars mun hann hafa annast múrverk við byggingu hótelsins. Jón var góður verkmaður, bæði til sjós og lands. Hann var vel gefinn, bókhneigður og sérstaklega minnugur. Hann var sérlega ættfróður, en því miður skrifaði hann ekkert hjá sér, og mun margs konar fróðleikur hafa farið með honum í gröfina. Jón var fáskiptinn og einrænn í skapi, en ræðinn í kunningjahópi. Jón var mjög heilsuhraustur. Hann veiktist um miðjan marsmánuð sl., lá rúmfastur í nokkra daga. Hann komst á fætur aftur, en andaðist snögglega 22. mars sl. á 86. aldursári. J. B.
Guðlaugur Halldórsson, Sólbergi.
F. 20. mai 1898. — D. 2. aprfl 1977.
Guðlaugur var fæddur að Viðborði á Mýrum í Hornafirði 20. maí 1898, en fluttist fljótlega ásamt foreldrum sínum og systkinum að Stóra-Bóli í sömu sveit. Foreldrar hans voru hjónin Guðríður Guðmundsdóttir ljósmóðir og Halldór Sæmundsson bóndi. Guðlaugur var yngstur af 9 börnum þeirra hjóna. 16 ára gamall fer hann úr foreldrahúsum í atvinnuleit. Fyrst til Norðfjarðar, þar sem hann var í 4—5 ár við ýmiss störf. Þaðan fer hann á varðskipið Þór, en er þar aðeins stuttan tíma. Í Vestmannaeyjum hafði bróðir hans, Sigjón, sest að. Hann bjó lengi í Héðinshöfða við Hásteinsveg, — faðir Guðmundar vélsmiðs, sem hér býr á Bröttugötu 3 og þeirra systkina. Sigjón er látinn fyrir mörgum árum. Árið 1920 ákveður Guðlaugur að fara einnig til Vestmannaeyja, þá 22 ára gamall, og hér átti hann upp frá því heimili sitt í rúma hálfa öld, eða þar til gosið hófst. Hér kynntist hann konuefni sínu, Ragnhildi Friðriksdóttur frá Rauðhálsi í Mýrdal. Þau gengu í hjónaband 9. júní 1928 og bjuggu á ýmsum stöðum hér í bæ, þar til þau eignuðust sitt eigið hús, Sólberg við Brekastíg. Börn þeirra urðu 5, og eru öll á lífi. Strax eftir að Guðlaugur kom hingað til Eyja, hóf hann hér sjósókn, og árin á sjónum urðu yfir 40, eða svo mörg sem heilsan leyfði. Hann var fyrst vélstjóri og síðan formaður á ýmsum bátum. Hann var frábær véla¬maður, fróður um vélar og vélbúnað, enda eftirsóttur vélstjóri — fljótur að finna út hvað var að, ef eitthvað bilaði, og lagfæra það. Formaður var hann með ýmsa báta, einkum seinni ár sjómennsku sinnar, og aðallega á dragnótaveiðum, sem mikið voru stundaðar hér í Eyjum um árabil, en eru nú að mestu aflagðar. Hann var mikill og heppinn fiskimaður, enda þaulkunnugur fiskimiðum við Eyjar. Eitt sinn missti hann fyrir borð ungan mann, sem var háseti hjá honum, en var svo lánsamur að bjarga honum aftur lifandi um borð. Eftir að heilsan bilaði og hann hætti að geta stundað sjóinn, var hann oft beðinn að gera við saumavélar. Það spurðist út hve laginn hann væri við vélar. Stundum fékk hann í viðgerð vélar sem höfðu legið árum saman bilaðar og jafnvel verið taldar ónýtar. En hann hafði gaman af að glima við gripina og koma þeim í lag, jafnvel þótt hann yrði að smíða í þá hluti, sem ekki voru fáanlegir. Guðlaugur átti ekki afturkvæmt til Eyja eftir gosið. En úti í Eyjum var samt hugurinn, og hann fylgdist vel með því sem var að gerast heima. Hann hafði ánægju af að fá fréttir af uppbyggingunni, og ef heilsan hefði ekki verið farin, hefði hann hvergi fremur viljað vera en í Vestmannaeyjum. En hann hafði orð á því að það væri svo sem sama hvar hann dveldi úr því sem komið væri. Guðlaugur Halldórsson andaðist að heimili sínu, Kleppsvegi 32 í Reykjavík, að kvöldi dags hinn 2. apríl s. l. Útförin fór fram frá Fossvogskapellu þann 14. apríl að viðstöddu miklu fjölmenni. Eiginkona Guðlaugs hefur verið sjúklingur um nokkurt skeið, og dvelur nú á Borgarspítalanum. J. K.
Kjartan Hreinn Pálsson. F. 24. jan. 1938. — D. 2. apr. 1917. Kjartan Hreinn Pálsson fæddist í Bólstað, Hvammshreppi, á heimili ömmu sinnar, Hugborgar Runólfsdóttur, 24. janúar 1938. Foreldrar hans eru Sigurbjörg Böðvarsdóttir frá Bólstað og Páll Valdason frá Skógum undir Eyjafjöllum. Um sumarið það sama ár fluttist Sigurbjörg með Hrein til Vestmannaeyja og gerðist ráðskona hjá Gunnari Kristberg Sigurðssyni að Hvítingavegi 12 þar í bæ. Gunnar reyndist Hreini hinn besti faðir, og giftust Gunnar og móðir hans skömmu síðar. Eina systur eignaðist Hreinn, Guðlaugu Gunnarsdóttur, og var alla tíð mjög kært með þeim systkinum. Við Hreinn vorum systrasynir. Á æskuárum okkar var það alsiða, að börnum var komið til sumardvalar. Við Hreinn áttum því láni að fagna að alast upp 7 sumur saman í Bólstað, hjá ömmu okkar, þremur móðurbræðrum og einni móðursystur. Hjá því góða fólki, er þar bjó með bæinn sinn í fögru umhverfi; fjöll á alla vegu, áin við túnfótinn og Heiðarvatn stundargang norðan Arnarstakksheiðar. Þetta er umhverfið, er við ungir sveinar nutum í 7 sumur, og þangað röktum við jafnan flestar dýrmætustu stundir æsku vorrar. Hjá þessu góða fólki fengum við að kynnast og verða þátttakendur í öllum störfum hins heilbrigða sveitalífs, eftir því sem aldur okkar og kraftar dugðu til. Frá þessum æskudögum er margs að minnast. Okkur drengjunum urðu ógleymanlegar ferðirnar upp á Heiðarvatn, með Sigurjóni heitnum frænda okkar, til veiða í lagnet eða á spún. Þá lærðum við einnig áralagið undir handleiðslu hans. Ég held að þessi veiðiskapur, þó í smáum stíl væri, hafi verið upphafið að æfistarfi frænda míns, en hann helgaði sjómennsku og veiðiskap allt sitt lífstarf, eftir að honum óx fiskur um hrygg. Sjómennsku byrjaði Hreinn 15 ára gamall með Sigurði Ögmundssyni frá Litlalandi, á Ísleifi (gamla), 30 tonna bát Ársæls Sveinssonar, árið 1954. Með Sigurði var Hreinn um 6 ára skeið. Fékk hann sér vélstjóraréttindi og var vélstjóri til æfiloka, að loknu prófi. Af Ísleifi fór Hreinn á Ísleif III. og var þar með Sigurði, uns hann lét af skipstjórn með þann bát. Talaði Hreinn alltaf um Sigurð af hlýjum hug og taldi það mikið lán að byrja sína sjómennsku með honum. Um tveggja ára skeið var Hreinn í landi og vann þá í vélsmiðjunni Magna. Árið 1961 fór Hreinn á Ísleif IV. sem vélstjóri hjá mági sínum, Jóni Valgarð Guðjónssyni. Ísleifur IV. var mikið aflaskip og hrepptu þeir þann heiður, að verða bæði aflahæstir og að vera oft það nærri toppnum, að jafnvel seinasti róðurinn skar úr um topp og næstu sætin. Síðan fylgdi Hreinn mági sínum yfir á Gunnar Jónsson VE 500 og Gunnar Jónsson VE 555, það stóra og vandaða skip, sem áður hér Lárus Sveinsson, og þar var Hreinn til dauðadags. Það mun sjaldgæft nú til dags, að sjómenn skipti ekki oftar um skiprúm en 4—5 sinnum á rúmum 20 árum. Segir það og sýnir betur en mörg orð, hversu vel hann þjónaði húsbændum sínum, og þá ekki síst mági sínum, sem hann starfaði hjá liðlega helming starfsæfi sinnar til sjós. Um vélstjórn hans segja mér kunnugir, að þar hafi öll umhirða verið til fyrirmyndar, og smiðjumenn vart sést, er hann hafði vélgæslu á hendi. Á jóladag 1961 hófst mikið hamingjutímabil í lífi Hreins heitins, en þá gekk hann að eiga eftirlifandi konu sína, Halldóru Jóhannsdóttur frá Eyrarbakka. Reyndist hún Hreini hin ágætasta eiginkona. Þau eignuðust 3 börn, son og 2 dætur. 1959 fluttist ég með fjölskyldu mína til Eyja, og má því segja að við höfum hist að nýju eftir 10 ára aðskilnað. Áttum við ótaldar ánægjustundir á heimilum hvors annars, uns „eldgosið" tvístraði Vestmannaeyingum vítt og dreift um landið. Á Selfossi var Hreinn heitinn búinn að koma sér vel fyrir með fjölskyldu sína í nýju húsi, og allt virtist glæst og bjart framundan, þegar kallið kom. Hreinn var jarðsettur á Selfossi hinn 15. apríl, að viðstöddu miklu fjölmenni. Margir voru langt að komnir til að fylgja honum seinasta spölinn. Sýnir það best vináttutengsl hans við samferðamenn sína. Með þessum fátæklegu orðum þakka ég og fjölskylda mín frænda mínum fyrir samfylgdina. Jafnframt sendi ég og fjölskylda mín konu hans og börnum og aðstandendum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Sigurbjörn Guðmundsson.
Kristján Georgsson. F. 13. nóv. 1928. — D. 12. apr. 1977.
Hinn 12. apríl sl. andaðist Kristján Georgsson, 48 ára að aldri. Kiddi Georgs, eins og við kölluðum hann, var borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur, er fyrst sá dagsins ljós 13. nóvember 1928. Foreldrar hans voru af kunnum ættum úr Eyjum, Guðfinna Kristjánsdóttir, Ingimundarsonar frá Klöpp og Georg Gíslason, Lárussonar frá Stakagerði. Ásamt Kidda ólst einkabróðir hans, Theodór, nú lögfræðingur í Reykjavik, upp í skjóli ágætra foreldra. Jafnaldri Kidda, er þessar línur ritar, minnist með ljúfu geði bernskuminninga með þeim bræðrum og fleiri hressum strákum. Það var oft mikið fjör í Hrafnaklettum, en þar bjó fjölskylda Kidda í fallegum sumarbústað, meðan sumarsólin skein á sundin blá. Þetta var heimur út af fyrir sig, og liðnir tímar koma ekki aftur. Kiddi var ungur til forustu fallinn og tók snemma virkan þátt í íþrótta-og skátastarfi, þar sem hæfileikar hans komu vel í Ijós. Eftir veru í Barna- og Gagnfræðaskólunum lágu leiðir í Verslunarskólann, þaðan sem Kiddi útskrifaðist sem stúdent 1950. Í Verslunarskólanum varð Kiddi eins og allsstaðar vel látinn og vinmargur, og ennþá eru mér minnisstæðar auglýsingar er hann gerði af mikilli snilld og prýddu tilkynningatöflu skólans við ýmis tækifæri. Eftir stúdentsprófið gekk Kiddi að eiga Helgu Björnsdóttur frá Seyðisfirði og eignuðust þau 8 börn, sem eru nú upp komin. Kiddi átti mjög gott með að læra og var jafnan ósérhlífinn og lét sér á sama standa, hvaða verk hann tók sér fyrir hendur. Hann lauk vélstjóraprófi og stundaði sjómennsku um árabil. Áður hafði hann verið forstjóri Samkomuhússins og einnig átti hann hluti í útgerð um nokkurt skeið. Af miklum áhuga starfaði hann fyrir íþróttahreyfinguna og var í stjórn og formaður Þórs í nokkur ár. Merki félagsins, sem Kiddi gerði á sínum tíma, mun lengi halda á lofti snilligáfu hans. Sökum ljufmennsku sinnar varð Kidda allsstaðar vel til vina, og fannst það best, er hann féll frá svo löngu fyrir aldur fram, og minningarnar streymdu fram. Vestmannaeyingar hafa misst góðan dreng, sem bar ekki gæfu til að njóta sinna margvíslegu hæfileika. Mesta mein aldarinnar heimtar sína fórn. Kiddi var einn þeirra góðu drengja, sem orðið hafa undir í þeirri baráttu. Megi góður guð blessa hans minningu og líkna eftirlifandi eiginkonu, börnum og öðrum ástvinum Jóh. Friðf.