Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Bréf frá Árna frá Eiðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 14:40 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 14:40 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Bréf frá Árna frá Eiðum</big></big><br> Kæri félagi!<br> Ég rakst á þessar gömlu myndir, sem nokkuð eru komnar til ára sinna, og þar sem þú ert ritstjó...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Bréf frá Árna frá Eiðum

Kæri félagi!
Ég rakst á þessar gömlu myndir, sem nokkuð eru komnar til ára sinna, og þar sem þú ert ritstjóri Sjómannadagsblaðsins, datt mér í hug að senda þér þær. Eins og sjá má, eru þær teknar á lélega vél og af lítilli kunnáttu, en með nútímatækni má vel vera að hægt sé að nota þær.

Af mínum högum er allt bærilegt að frétta. Ég er enn vélstjóri á m. b. Ásþór RE, en á hann réðst ég um sumarið 1973.
Héðan úr Reykjavík er hábölvað að stunda sjó og það fer ekki milli mála, að Vestmannaeyjar er besta verstöðin, hvað alla aðstöðu snertir. Ég fæ ekki séð annað en við séum þegar búnir að ganga frá þorskstofninum. Það hefði einhvern tíma þótt tíðindi, að ekki væri róið á netum á laugardag fyrir páska, en svona var það nú, vegna aflatregðu. Alla vega man ég ekki til þess í þau 35 ár, sem ég hef stundað sjó.

Við erum búnir að fá 350 lestir frá áramótum (skrifað 10. apríl), og þetta er landskunnur aflamaður, svo þetta segir sína sögu.
Þetta er orðið heilmikið spjall, en átti ekkert spjall að verða, heldur nokkur orð til að skýra myndirnar, en þær töluset ég 1. — 8.
1. m. b. Frigg; 2. m. b. Freyja; 3. m. b. Nanna. Allir þessir bátar voru í eigu Einars Sigurðssonar, og allir með rautt stýrishús, sem var sérkenni báta hans.
M. b. Frigg var mikið aflaskip og var Sigurður Bjarnason fyrstur með hana og aflakóngur þá vertíð. Síðan eignuðust Geithálsbræður hana, og að lokum var hún seld vestur.
M. b. Freyja, um hana veit ég minna, en þó man ég að Hannes á Hvoli aflaði mikið og sótti fast, þegar hann var með Freyju.
M. b. Nönnu eignaðist Óskar Matthíasson á eftir Einari, og er það upphafið að velgengni Óskars, enda fast sótt. Um það get ég borið, því ég beitti þar. Mig minnir, að það hafi verið árið 1946 eða 7.
4. m. b. Víkingur: Eigandi Gísli frá Arnarhóli og fyrsti skipstjóri, að ég held síðan Óskar sonur hans. Síðan eignaðist Eiríkur frá Hruna bátinn.
5. m. b. Sigurfari: Eigendur Einar Sigurjónsson og Óskar á Garðstöðum, sem var formaðurinn. Áður átti Gunnar Ólafsson bátinn, og stýrði honum þá Kristján Einarsson. Ég var á m. b. Ver, þegar við tókum skipshöfnina á Sigurfara um borð í austan stórviðri og byl, innan við Eiðið, en þá var Sigurfari kominn að því að sökkva. Síðan rak hann upp í klettana.
6. Sjöstjarnan VE 92. Eigendur Tómas Guðjónsson og Ásmundur Friðriksson, sem var jafnframt skipstjórinn. Myndin tekin á Siglufirði.
7. Friðarhöfnin. Íslensk og færeysk skip, vel merkt, því myndin er tekin í síðari heimsstyrjöld.
8. Frá stakkasundi í Friðarhöfn á fyrstu hátíðisdögum sjómannasamtakanna.

Þessar skýringar eru gefnar eftir bestu vitund.

Kveðja. Árni Guðmundsson,
Reynigrund 81, Kópavogi.

E. s.: Sigurfari  hét  áður  Snorri goði. Til gamans má geta þess, að Snorri goði fór til fiskveiða  til V-Grænlands árið 1936.

Snið:Sjómannablað Vestmannaeyja