Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Frá Vestmannaeyjahöfn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 10:17 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 10:17 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Frá Vestmannaeyjahöfn</big></big><br> '''Í tilefni Sjómannadagsins fór blaðið þess á leit við Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumann, að hann skrifaði til bir...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Frá Vestmannaeyjahöfn


Í tilefni Sjómannadagsins fór blaðið þess á leit við Jón Í. Sigurðsson, hafnsögumann, að hann skrifaði til birtingar um tillögur sínar um breytingar á innsiglingu hafnarinnar og aukið athafnarými þar. Hann hefur nú sent blaðinu eftirfarandi grein, ásamt uppdrætti til skýringar tillögum sínum:

Bætt höfn þýðir betri byggð

Af völdum eldsumbrotanna urðu hér á Heimaey stórkostlegar breytingar, bæði til góðs og ills. Ein af breytingunum til batnaðar, ef svo má taka til orða, varð sú, að náttúruöflin skópu hér skjólbetri höfn en áður var, og endurbættu hafnaraðstöðu alla, fyrir sjófarendur og farkosti þeirra.
En það er ekki þar með sagt, að góða aðstöðu megi ekki bæta, ef góður vilji er fyrir hendi og nauðsynlegt fjármagn. En það hafa alltaf verið misjafnar skoðanir um, hvað teljast skal til úrbóta og bættrar aðstöðu í Vestmannaeyjahöfn.

Ég man það, að þegar byrjað var á framkvæmdum við Friðarhöfnina og síðar við Nausthamarsbryggju og bátakví þá, sem hún myndar, þá voru ekki allir sammála um nytsemd þeirra verka.
Þó að við njótum nú góðs af nýja hrauninu í bættri hafnaraðstöðu, þá eru samt hugmyndir uppi um að bæta enn betur aðstöðuna; byggja upp fyrir nútíð og framtíð.
Sú aðstöðumynd, sem fylgir þessum línum, skýrir sig mikið sjálf.

Kostir tillögunnar eru þeir, að eftir þessar framkvæmdir myndum við geta tekið á móti öllum íslenskum fiskiskipum með fullfermi, með fullri vissu um nægilegt dýpi.
Með því að nema af núverandi innsiglingu, með hringlaga steinkerjum, og gera nýja innsiglingu um miðjan Hörgeyrargarðinn, ykist öryggi skipa, við að losna þar með við erfiða beygju á siglingunni inn í höfnina. Þá yrði hægt að hafa viðunanlegt dýpi í innsiglingunni, þar sem þá yrðu vatnsleiðslurnar ekki til fyrirstöðu. Breytingar þessar myndu jafnframt auka rými fyrir sjávarfallastrauma inn og út úr höfninni.

Þá gerir tillagan ráð fyrir, að viðlegupláss hafnarinnar verði aukið þannig:
1. Nausthamarsbryggja verði framlengd að Hringskersgarði, og gerðir verði viðlegukantar við vesturhlið Hringskersgarðs. Bæði innan- og utanvið uppfyllt núverandi hafnarmynni verði viðlegurými.
2. Gerður verði viðlegukantur frá Hringskersgarðshaus út undir hraunranann, sem lengst gengur út í Víkina; þ. e. útundir leiðarbaujuna, sem nú er þar staðsett.
Það er æskilegt, að viðlegukantar séu gerðir úr varanlegu efni, svo sem strengjasteypustaurum.
Það fyrirkomulag, sem tillagan bendir á, eykur margfaldlega viðlegurými hafnarinnar.

Gallar tillögunnar eru ef til vill þeir, að hún leggur til framkvæmdir, sem kosta myndu mikið fé. Einnig kann að skorta trú, meðal ráðamanna a. m. k., á að hér sé velferðarmál á ferðinni, öllum til góðs.
Ytri höfnin, sem áður var allstór vík, er nú með nýja hrauninu orðin þröngur vogur. Og þar sem svo mjög hafði þrengt að, trúðu margir því, að innri höfnin yrði nú kyrrstöðuforarpollur, mengaður og fúll. Það var sem upp kæmi annað gos; einskonar mengunargos. Það var ritað í blöð. Viðtöl voru höfð við menn.

Höfnin var talin fúlmengað saurgerlabæli. Hér eftir ætti varla að vera hægt að vinna útflutningsverðmæti í Vestmannaeyjum, vegna áhrifa frá óhreinum sjó hafnarinnar.
Ástæðan fyrir þessu var talin sú, að höfnin hreinsaði sig aldrei alveg. Helst þyrfti hún að tæmast af sjó, þannig að allar leirur kæmu upp úr um lágsævi, og síðan fyllast aftur nýjum, hreinum sjó á næsta aðfalli.
Þetta er undarleg hugsun, því ef þetta færi þannig fram, þyrfti enginn framar að hafa áhyggjur af mengun í Vestmannaeyjahöfn. Þá væri hér lítil útgerð og lítið athafnalíf. Þá væri hér ca. tveggja metra meðaldýpi í smástraum og þriggja metra í stórstraum. Hér myndu tæplega gerð út stærri skip en trillur.
Staðreyndin er sú, að það er sama sjávarmagn, sem nú streymir inn og út um höfnina við sjávarföllin, og áður gerði.

Það er brýn nauðsyn að frárennsli frá holræsakerfi bæjarins og verksmiðjunum verði leitt út fyrir höfnina sem fyrst. Samt sem áður getur þessi höfn ekki fremur en aðrar hafnir orðið hrein og tær eins og drykkjarvatn

Það sjávarmagn, sem endurnýjast í höfninni við sjávarföllin á hverjum sólarhring, skiptir milljónum rúmmetra. Þetta er hægt að sanna með straummælingum. En straumur er í höfninni, þótt bylgjuhreyfingar gæti ekki að marki.
Eitt á höfnin okkar sammerkt með öðrum höfnum landsins. Hún er ekki hrein. En hún veitir öruggara skjól í illviðrum en flestar aðrar hafnir. Hún er sannkallaður griðastaður.

Það er ómaklegt og óskynsamlegt að gera hlut hafnarinnar í mengunarmálum verri en hann er. Þess háttar áróður er byggður á röngum forsendum.
Í tilefni sjómannadagsins, svo og allra annarra daga ársins, óska ég sjómannastéttinni allra heilla.

Jón Í. Sigurðsson.

Þá er lokið grein Jóns hafnsögumanns. Þar kemur fram, að einn helsti galli á tillögum hans til endurbóta í Vestmannaeyjahöfn sé sá, að breytingarnar sem hann leggur til að gerðar verði, muni kosta mikið fé.

Öllum Eyjabúum er ljóst, hver lífæð höfnin er byggðinni. Öllum sjófarendum er ljóst, að Vestmannaeyjahöfn er eina lífhöfnin fyrir allri suðurströnd landsins, frá Reykjanesi að Austfjörðum. Starfsemin, sem fram fer í Vestmannaeyjahöfn, er ekki smá í sniðum. Dæmi: Árið 1975 er útflutningur héðan á hraðfrystum sjávarafurðum 8.390 tonn; á fiskimjöli 12.690 tonn; lýsi 1.530 tonn og saltfiski 1.850 tonn.

Sem dæmi um þarfir útvegsins hér við höfnina má nefna, að árið 1975 voru flutt hingað 32.500 tonn af olíum og 3000 tonn af salti.

Skipakomur í Vestmannaeyjahöfn 1975 voru samtals 1614; hafði fækkað frá 1974 um 3,6%, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofum bæjarins.
Hvað er svo dýrt og hvað er ekki dýrt, þegar um þarfir hafnarinnar er að ræða?