Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Frá Hafsteini Stefánssyni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. ágúst 2015 kl. 12:02 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. ágúst 2015 kl. 12:02 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Frá Hafsteini Stefánssyni

Gamli kunningi!
Ég mun í þessu bréfi mínu leitast við að verða við beiðni þinni um að ég sendi Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja nokkrar línur, og þá helst í bundnu máli, eins og komist var að orði.
Það vill nú svo til, að ég geymi enn nokkrar minningar í sambandi við áðurnefnt blað, og þá ekki síst hina fyrstu útkomu þess. (En þetta var nú frávik).

Á þeim hartnær 30 árum, sem ég átti heima í Vestmannaeyjum, og reyndar bæði fyrir og eftir, hef ég stundum reynt að koma saman vísukorni. Það viðurkennist fúslega. Flestar áttu þær að vera einskonar dægurflugur, og þeim var ætlað að fljúga burtu með stundinni, sem var að líða. Því held ég nú, að það sé lítið annað en sóun á pappír að tína þær upp úr hugarfylgsnum mínum til birtingar. En í trausti þess, að þú takir viljann fyrir verkið, og að einhver finnist, er ánægju gæti haft af þessu, þá mun ég hefja tínsluna.

Það mun hafa verið á annan dag jóla 1967, að ég fór út í Klauf. Útsynningshafrót var þennan dag. Ég dvaldi um tíma í Klaufinni og setti þá saman nokkrar hendingar, sem ég lét heita: „Brim í Klaufinni." Á leiðinni heim kom ég við hjá mínum ágæta vini, séra Þorsteini L. Jónssyni, og bar undir hann ljóðagerðina. Hann sagði orðrétt: — „Þetta er gott. Þú breytir ekki um staf." Eins og þú veist, þá er séra Þorsteinn einstakt ljúfmenni, sem engan vill særa.

Seinna fór ég með kvæðið til Brynjólfs Einarssonar, sem líka er ljúfmenni og vinur minn, alla tíð. Hann sagði, að sér fyndist þetta vera hálfgert klastur, en var þó ekki frá því, að með lagi mætti takast að snyrta það til. Sýndi ég þá þriðja stórvini mínum ljóðið, en það er Jón Stefánsson, vaktmaður á Vestmannaeyjaradíó. Ég sagði honum ummæli þeirra Brynjólfs og séra Þorsteins. Út úr Jóni fékk ég ekki annað en margræðan skellihlátur. Það var nú hans framlag til míns andlega þroska.
Ég vil taka það fram sérstaklega að þessir þrír vinir mínir eru í daglegu sambandi við ljóðadísina, og ekki verður annað séð, en þeir hafi þónokkrum sinnum fengið að láni hennar fegurstu leikföng.

BRIM í KLAUFINNI.
Eg var úti í Klauf þar sem hafaldan
ólgandi æðir
upp undir berginu stórfengleg
hamslaus og tryllt.
Þar svipmikið brimið við skerin
og flúðirnar flæðir
og fjöruna lemur svo miskunnarlaust
og villt.

Nú blundar ei már út á björtum
og skínandi vogum,
því brimaldan ætlar að sýna
hið mikla vald.
Þótt göngunni ljúki með gráthljóði
og ekkasogum,
hún gengur til leiks með sinn bjarta
og háa fald.

Í rísandi báru er ómældur
kyngikraftur,
þá kreppir hún hnefana djarflega,
reið og snögg.
Dæmd til að brotna og geta
svo aldrei aftur arminum lyft til að greiða
slík voðahögg.

Hér öldurnar brotna, ólmar hendast
að landi,
endalaus leikur, en heillandi
nýr og forn.
Sverfa og mylja og gera grjótið
að sandi,
gutla svo við þessi smáu
og fínlegu korn.

Ég gekk út í Klauf til að horfa
á báruna brotna
og bylta sér aflvana síðasta spöl
upp á land.
Hún minnir á það, sem vill ráða,
ríkja og drottna, rennur svo hljóðlega ofan í
gljúpan sand.

Það má ef til vill teljast nokkuð undarlegt, að ég hafði alltaf meiri mætur á Bjarnarey en öðrum úteyjum Vestmannaeyja. Ekki get ég gefið neina skýringu á því. Þó var eins og mér fyndist hún veita Heimaey mest skjól og að hún væri staðsett þarna sem einskonar útvörður.
Eg átti því láni að fagna að koma einu sinni síðla kvölds að sumarlagi út í Bjarnarey, og varð ég þá svo heillaður af umhverfinu, að mér fannst sem aldingarðurinn Eden hefði alveg eins getað verið þar. Því heitir kvæðið:

NÓTT í PARADÍS.
Að svörtum kletti lagði lítið fley
í logni og kyrrð á björtu júlíkveldi.
Viðmótsfögur brosti Bjarnarey
böðuð litadýrð í sólareldi.
Hér greinir augað alla heimsins dýrð,
andinn þiggur kraft í friði nætur.
Og björgin eru í dögg af Drottni skýrð,
hver döpur vera óðar huggast lætur.

Húsbóndinn er enn í önnum hér,
áhyggjur og syndir finnast hvergi.
Nú sé ég hvernig Guð um garðinn fer
og geislafingur þreifa á dökku bergi.

Hið dásamlega Drottins ævintýr
dylst hér ekki vegfaranda neinum.
Ástin heit í hverju blómi býr
og börnin sofa rótt á votum hleinum.

Hér þylur lífið þúsund radda brag
og þíður blærinn kyssir hamraveggi.
Undurfagurt nóttin leikur lag,
er lítill hnoðri gægist fyrst úr eggi.

Í ljúfri bæn ég bið þér Bjarnarey
blessunar, þá akkerum ég létti.
Þegar dagar leggur lítið fley
á lífsins haf, í burt frá dökkum kletti.

Í Faxasundi snemma morguns á vesturleið:
Siglt er út á sundið frítt
síst með geði þungu.
Kyssir aldan kinnung blítt,
kemur ljóð á tungu.

Mótbyr á leið heim úr veiðiferð:
Fyrir stafni báran brotnar,
björtum skautar faldi sínum.
Upphöfin og einnig botnar
eru nærri huga mínum.

Við vorum staddir út af Mýrdal á heimleið í austan roki og rigningu. Það hafði einhver orð á því, að nú hlánaði fljótt og snjórinn í landi væri að hverfa. Austan brælan ströng og sterk starfar við að þíða snjóinn. Lækirnir fá vaxtarverk og vilja komast fljótt í sjóinn.

Við, sem vorum á Lundanum vertíðina 1968, höfðum orð á því, að Sigurgeir (Siggi Vídó) skipstjóri veldi ekki alltaf silkibotn undir trossurnar. Undirritaður var matsveinn á skipinu.

Stuðlar Hafsteinn stökuna,
stingur ýsu í pottinn.
„Gerið klára krökuna"
kallar skipsins drottinn.

Eftir orðahnippingar:
Glettin orð en græskusmá
girnist menn að heyra.
Vissulega vægir sá,
er vitið hefur meira.


Einu sinni sem oftar kölluðum við í Vestmannaeyjaradíó. Jón Stefánsson var ekki viðlátinn og gat því ekki svarað. Það kom annars sjaldan fyrir:

Ef þú heyrir einhvem són
átt þú helst að svara.
Ekki mátt þú elsku Jón
á þér túlann spara.

Einhver skipverja hafði orð á því, að sólin væri komin með báða fætur ofan í hafið, og brátt færi hún öll í kaf:

Eygló fætur baðar báða,
bráðum mun hún kroppinn lauga.
Lognvær Ægir leggst til náða
og lokar sínu glóðarauga.

Matsveinn nokkur var að koma til skips. Þegar hann var að stíga um borð, missti hann viskíflösku óupptekna niður í milli skips og bryggju.
Um þennan atburð urðu nokkrar umræður:

EFTIRMÆLI. Þú varst frjósöm móðir meina,
mannskemmandi þínir dropar.
Þó er ekki því að leyna,
að þarna fóru góðir sopar.

Sjómaður nokkur sagði mér ævisögu sína í fáum orðum: „Maður fór nú ungur til sjós. Svo gifti maður sig, og svo er maður orðinn afi":

Flestum yngri fór til sjós,
fiskinn dró úr hafi.
Nokkru síðar náði í drós
og nú er hann orðinn afi.

ANDLEG FÁTÆKT. Mig langar stundum ákaft
til að yrkja
um undurfagurt líf og
sumarblóm.
En verð þá eins og góð
og gömul kirkja,
sem grætur yfir því
að vera tóm.

OFT ER VANDRATAÐ MEÐALHÓFIÐ Einn var fyrir svartsýni
svakalega í hnakkann tekinn.
Í burtu fyrir bjartsýni
var bæjarstjóri seinna rekinn.

ÞUNGLYNDI. Rifin eru sónarsáld
sjaldan þeyst á ljóðagandi.
Fleiri hafa en fjallaskáld
ferðast eftir eyðisandi.

AÐ ENDINGU: Nú hef ég ferðast í huganum nokkur hundruð mílur, og á leið minni tínt upp sprek úr gamalli slóð. Ég veiti þér fulla heimild til að nota þau eftir vild. Þá vil ég ljúka þessu bréfi með þeirri frómu ósk, að dagur sjómanna verði bjartur og fagur, og öllum Vestmannaeyingum til ánægju.

Hafsteinn Stefánsson