Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Brot úr sögu sundkennslu í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 12:46 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 12:46 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Friðrik Jesson, íþróttakennari:

Brot úr sögu sundkennslu í Vestmannaeyjum

Sundlaug Vestmannaeyja, sú er hraunið fór yfir, var fyrst tekin í notkun 1934 í desember það ár. Það voru sjómenn, sem fyrstir fengu sundnámskeið í nýju lauginni, og mæltist vel fyrir, undirritaður kenndi á þessu námskeiði, og var nú öll aðstaða til sundkennslu mjög góð, enda mikil breyting á aðstöðu frá því sem verið hafði, t. d. árið áður kenndi ég sjómönnum í Gúanólauginni, sem aðeins var 6 m. laug, enda voru sjómennirnir vantrúaðir á að þeir kynnu að synda, þar sem aðeins hafði verið hægt að taka 2—3 sundtök.
Ég bað þá að mæta þegar nýja laugin yrði opnuð, sem þeir gerðu, og allir reyndust þeir vel syndir. Fyrir þetta tímabil fór öll sundkennsla fram í köldum sjónum og var kennt á ýmsum stöðum innan hafnar.

Árni J. Johnsen, t. d. kenndi okkur strákunum við Básaskerið, og hjálpargögn við sundnámið voru olíubrúsar bundnir á bakið, og búningsklefar voru bara klappirnar, stundum var nú nokkuð kalt þarna. Þessi aðstaða batnaði mikið þegar ungmennafélagið af miklum stórhug gekkst fyrir því, að reistur var sundskáli við Bólverkið, sem er vestan við Löngunef, samanber vísan:

Ekki vex þeim allt í augum
ungmennunum hér.
Þeir ætla að reisa sundskála,
þar, sem Heimaklettur er.
Leigja þar út sólskinið og
selja hreinan sjó,
á 60 aura pottinn, hélt
hann Steinn að væri nóg.

Já og enn er það stórhugur hjá ungmennum Vestmannaeyja, sem hið nýja og glæsilega íþróttamannvirki í Brimhólalaut sýnir og sannar, og er þar margra ára draumur nú loks að rætast, og þar sem við sjáum þróttmikla æsku þessa bæjar fá þá bestu aðstöðu til íþrðttaiðkana, sem völ verður á í landinu Sundáhugi hefur ávallt verið mikill hér í Eyjum, og þó kennt væri í köldum sjónum, var undravert hversu vel börn og unglingar mættu til sundnáms.

Ætli mörgum fyndist ekki kalt í lauginni, ef hún væri ekki nema 7—8° C, sem var mjög venjulegur hiti í sjónum inná Eiði, þar sem kennslan fór fram eftir að sundskálinn var reistur þar, og ekki voru klefarnir í skálanum hitaðir, enda kuldalegt á stundum, þegar austanvindstrengur stóð með Löngunefi, á sundskálann.
En oft voru ágætir sólskins- og logndagar. Kom þá oft fyrir að farið var í sjóinn tvisvar og þrisvar sama daginn og legið í sólbaði þess á milli.
Oftast lauk sundnámi með því að við létum nemendur keppa í sundi, og var þar oft hraustlega tekið á, þetta var nokkurskonar sundpróf.

Vegna vaxandi sundáhuga hér í Eyjum, flutti Jóhann P. Jósefsson, þá alþingismaður Vestmannaeyja, fram tillögu á alþingi, þess efnis að innleiða sundskyldu í landinu og var tillagan samþykkt. Vestmannaeyingar urðu svo fyrstir til að innleiða sundskyldu hjá sér, hér á landi. Þessar samþykktir urðu svo til þess, að farið var að tala um bætta aðstöðu til sundiðkana, því óneitanlega urðu þeir útundan við nám í kalda sjónum, sem ekki voru fullkomlega hraustir.

Þá var ákveðið að hér skyldi byggja sundlaug og var Jóhann P. Jósefsson beðinn að útvega teikningar í Reykjavík. Þegar svo teikningin lá fyrir, bauð Jóhann okkur, sem unnum að íþróttamálum hér í bæ, að líta á teikninguna.

Það skal tekið fram að við vorum ekki ánægðir með laugina eins og hún var teiknuð. T. d. var lengd laugar ekki nema 20 metrar og þar með ekki lögleg keppnislaug. Við lögðum til að bætt yrði við 5 m., en það fékkst ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ráðamenn töldu, að alltaf mætti byggja við, ef sundáhugi yrði mikill. Gleymst hafði alveg að teikna rúm fyrir framan ketilinn, sem var koxkyntur, þannig að illmögulegt var að skara í eldinn, og ekki voru ræstiböð upp á það besta.

Þó var það nú svo, þrátt fyrir nokkra galla, þá var þetta ein af bestu laugum landsins. Og þótt mikill sundáhugi skapaðist við tilkomu laugarinnar, var laugin aldrei lengd, og þannig fór hún undir hraunið. Sundkennsla hófst svo fyrir alvöru vorið 1935 og þegar í byrjun var gífurleg aðsókn. Oft voru biðraðir, klefar reyndust of fáir og smáir, þó voru kennara- og sundvarðarklefar stöðugt í notkun. Það sýndi sig þegar á fyrsta sumri að við vorum með afburða sundfólk. Við ákváðum að reyna að ná í sundmenn úr Reykjavík.

Ég snéri mér því til Jóns Pálssonar sundkennara, sem brást vel við, og sagðist koma strax og við værum tilbúnir að taka á móti þeim. Jón kom svo með fríðan hóp sundmanna, og þá ekki af lakari endanum, svo sem Jónas Halldórsson, margfaldan methafa, Jón D. Jónsson sprettsundsmann og fleiri, þeir urðu sem sagt 10, sem komu.
Hugmyndin var, að þetta yrði sundsýning hjá þeim Reykvíkingunum, en endirinn varð sá, að upp var slegið móti, þar sem okkar menn kepptu. Eyjamenn stóðu sig furðuvel, sérstaklega í stuttsundunum, þar sem oft mátti varla á milli sjá hver bæri sigur úr bítum, en í löngu sundunum var Jónas í sérflokki, þar vantaði okkar menn þjálfun.
Aðsóknin að þessu fyrsta móti hér í Eyjum var svo mikil, að færri komust að en vildu, þó var selt á þakið á búningsklefum, pöllum var slegið upp á norðurstétt, en allt kom fyrir ekki, nokkrir urðu frá að hverfa.

Fleiri sundmót voru svo haldin á þessu fyrsta sumri og aðsókn alltaf jafn mikil. Upp úr þessu var svo Sundfél. Vestmannaeyja stofnað, það fyrsta hér í Eyjum. Þetta varð til að auka mjög sundáhuga og svo góð Vestmannaeyjaafrek fóru nú að sjá dagsljósið, að 1936 var ákveðið að senda keppendur á mót í Reykjavík, því lögleg sundmet, ef næðust, var ekki hægt að staðfesta í Vestmannaeyjalauginni, þar sem hún var of stutt.
Okkar fólk stóð sig með miklum glæsibrag, og Erla Ísleifsdóttir vann þar 100 m. skriðsund kvenna, tíminn var 1,18, nýtt ísl. met.

Sumarið 1937 var svo farin keppnisferð til Akureyrar. Að af þessari ferð gat orðið áttum við Njáli Andersen að þakka, þar sem hann fékk lánaðan vörubíl föður síns endurgjaldslaust og sjálfur ók Njáll bílnum, 16 manna „boddí", sem notað var í ferðinni átti Gísli Finnsson, og ekki stóð á því hjá Gísla að lána „boddíið", sömuleiðis endurgjaldslaust.
Fjárráð sundfélagsins hefðu ekki getað staðið undir að greiða miklar Ieigur, en fljótlega lagaðist svo fjárhagur félagsins, mest fyrir fjölsótt sundmót, sem félagið stóð fyrir.
„Boddí", hvað var nú það? Jú, þetta voru yfirbyggð sæti, sem hægt var að festa á vörubílspalla og voru þetta fyrstu rútur hér á landi.
18 tóku þátt í þessari ferð, þar af 15 keppendur. Farið var rólega norður, svo að ferðin tók 5 daga, þeir á Akureyri héldu að við værum hættir við að koma. Keppnin var mjög skemmtileg, okkar menn unnu stuttu sundin, en Akureyringar unnu þau lengri.

Þarna vann svo Erla ísleifsdóttir 100 m. og setti glæsilegt íslandsmet, 1,17, sem þótti mjög gott þá. Frá þessari för eigum við ógleymanlegar minningar um vinar- og rausnarskap þeirra Akureyringa. Margt skeði skemmtilegt og óvænt hjá okkur Eyjabúum, sem of langt yrði hér upp að telja, eins og þegar við á norðurleið sváfum í Víðimýrarkirkju, sem er elsta torfkirkja á landinu. Kirkjan var hálffull af ull, svo vel fór um okkur um nóttina. En ekki voru nú allir jafn hressir á þessum helga stað, því um nóttina er ég vakinn af einum, sem var hálf smeikur, þar sem hann hafði valið sér svefnstað á, sem var undir prédikunarstólnum, hann sagði að það færi svo illa um sig þar, og hvort hann mætti ekki sofa í ullinni við hliðina á mér. Jú, jú, það var auðsótt, og eftir stutta stund hraut kappinn.
Við strákarnir sváfum svo ýmist í tjaldi eða hlöðum, en kvenfólkið svaf í „boddíinu", þar sem hægt var að leggja sætin.

Sumarið eftir, eða 1938, komu svo Akureyringar í heimsókn til okkar hér í Eyjum.
Og enn var háð bæjarkeppni, sem lauk með jafntefli. Akureyringar höfðu orð á hvað þeim fyndist létt að synda í lauginni okkar, og var ekki nema von því að þetta var hituð sjólaug og jafnframt sú eina í Evrópu, sinnar tegundar.

Sem dæmi um hollustuhætti sjólauga vil ég geta þess, að við tókum sjó úr lauginni, drykkjarvatn úr brunnum úr bænum og einnig sjó utan af Vík, og sendum á Rannsóknardeild Háskólans. Úr öllum þessum sýnum kom sama bakteríumagn, eða 150 í kúbiksentim., og var þetta glæsileg útkoma fyrir laugina, þar sem sýni úr lauginni var tekið eftir viku notkun. Þetta var svo endurtekið nokkrum sinnum og útkoman ávallt sú sama.

Að lokum þetta: Af öllum er nú viðurkennt, hve nauðsynlegt er hverjum manni að hreyfa sig daglega, sem þó verður að miðast við þrek og aldur, og þar eru íþróttir í hvaða mynd sem er, vel fallnar til að liðka liðamót og mýkja og styrkja vöðva, en tvær eru þær íþróttir sem taka öðrum íþróttum fram, en það er sund og göngur.
Í sundi getur þú reynt á þig eftir getu og löngun eða bara slakað á inn á milli, sem þú tekur smá sundspretti, eða bara syndir rólega, þið ein ráðið ferðinni, og sama er að segja með göngur, þar gengur hver eftir sinni getu.

Mörg afrek voru einnig unnin á sviði sundsins önnur en í sundkeppn-um, eins og þegar piltar tilkynntu að þeir hefðu bjargað sér á sundi, eftir að hafa dottið í sjóinn niður við höfn, eða á Urðunum. Þetta voru ánægjulegustu fréttirnar, sem við gátum fengið, því þótt við teljum sjálfsagt að heilbrigð og þróttmikil æska reyni kraftana í drengilegum leik, þá er hitt og jafn sjálfsagt að iðka íþróttir í hvaða mynd sem er, sér til heilsubóta, og þar er sundið sannkallaður heilsubrunnur, jafnt fyrir unga sem aldna.

Eitt sinn var ég á göngu hjá Friðarhöfn, sem þá var ekki fullgerð, oft voru árabátar á floti þar og Eyjastrákar að leik í bátunum, en ekki voru þeir margir í þetta sinn, aðeins sá ég einn lítinn dreng þarna í sandinum, skjálfandi og allur rennblautur. Eg spyr hann hvað sé að. Jú, sjáðu, segir hann, sérðu bátinn þarna, ég var að rugga mér á þóftunni, en allt í einu sveif ég í loftinu, og beint á kollinn í sjóinn. Og hver hjálpaði þér svo í land? varð mér að orði, þar sem ég sá engan mann þarna. Þá segir hann, manstu ekki að þú ert búinn að kenna mér að synda, og þegar ég kom úr kafinu synti ég bara í land.
En hvað ert þú að gera hérna svona blautur? Ég er nú hálfsmeikur að láta mömmu sjá mig svona blautan, og þá veit hún um leið að ég hef verið að stelast niður að sjó.
Hlauptu nú bara heim og fáðu þurr föt og ég veit, að mamma hrósar þér bara fyrir dugnaðinn að synda í land.

Foreldrar, hvetjið börnin ykkar til að læra sund í sumar í nýju glæsilegu sundhöllinni, sem er að rísa í Brimhólalaut.