Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Aflakóngur Vestmannaeyja 1974

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 10:58 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 10:58 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Aflakóngur Vestmannaeyja 1974</big></big> Skuttogarinn Vestmannaey VE 54 hefur á síðastliðnu ári borið meira aflaverðmæti að landi en nokkurt annað Vestmannaeyja...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Aflakóngur Vestmannaeyja 1974

Skuttogarinn Vestmannaey VE 54 hefur á síðastliðnu ári borið meira aflaverðmæti að landi en nokkurt annað Vestmannaeyjaskip. Þetta kom reyndar ekki á óvart, bæði hafa skuttogararnir ótvírætt sannað yfirburði sína fram yfir önnur skip og svo hefur skipstjóri bv. Vestmannaeyjar, Eyjólfur Pétursson, reynst mikill og góður fiskimaður

Það er ekki sízt þessum unga sjómanni að þakka að skipið hóf landanir í Vestmannaeyjum á sl. hausti, er mest þörf var fyrir afla skipsins í byggðarlagið.

Á sjómannadaginn þakka Vestmannaeyingar skerf Eyjólfs og áhafnar hans til byggðarlagsins á sl. ári og hlýtur Eyjólfur sæmdarheitið Aflakóngur Vestmannaeyja 1974 og Ingólfsstöngina.

Í stuttu máli var stiklað á ferli Eyjólfs í síðasta Sjómannadagsblaði. Síðan þá hefur Eyjólfur flutt á feðraslóðir og sezt að í Eyjum. Kann hann vel við sig hér og í ljós hefur komið að óvíða er jafngott að gera út skuttogara og frá Vestmannaeyjum. Ég, sem þessar línur rita, leyfi mér að endurtaka það sem áður var sagt í Sjómannadagsblaðinu, 1967 og 1972, að full þörf væri að fá fleiri skuttogara fyrir hin stóru og fullkomnu frystihús í Eyjum. Skuttogarinn Vestmannaey hefur sýnt og sannað, að héðan er unnt að reka togaraútgerð með góðum árangri og vegna öruggrar vinnu fólks er þetta mjög mikilvægt.

Fyrsta löndun skipsins í Vestmannaeyjum var 4. september 1974 og síðan þá hefur skipið landað hér.


Var þá landað 101 tonni. Aflinn skiptist milli Vinnslustöðvar Vestmannaeyja, Fiskiðjunnar og Ísfélagsins. Allur fiskur er sem fyrr settur í kassa um borð og hefur lestarrýmið verið lagfært, svo að þar er nú hægt að hafa um 2000 kassa. Fiskurinn er allur af sérstökum gæðaflokki og voru 99% í fyrsta flokki. Meðalverð aflans er kr. 30,70 á kg., en verð á þorski í í flokki er kr. 38 en ufsa kr. 25.

Löndun togarans yfir haustmánuðina var mjög mikilvæg fyrir atvinnulífið í Eyjum og landaði skipið um 1000 tonnum frá 4. september til 13. desember sl., er skipið fór vélarhreinsun, (987.799 kg.). Bezta veiðiferðin árið 1974 var 187 tonn og fékkst sá afli á 10 dögum og var landað í Vestmannaeyjum.

Heildarafli b/v Vestmannaey árið 1974 var 2.970 tonn.

Aflaverðmæti skipsins var kr. 68.777.420, en skiptaverðmæti kr. 61.802.894 kr. Hásetahlutur yfir árið var um 1,4 milljónir króna.

Af nýjungum í skipinu má nefna Decca Loran C, sem hefur reynzt mjög vel. Þá hefur verið komið upp nýju kallkerfi um allt skipið, svo að menn geta haft samband við brú hvar sem þeir eru. Einnig hefur verið settur löndunarkrani í skipið.

Ein athyglisverðasta nýjungungin er, að breytt var frá hráolíubrennslu yfir í svartolíubrennslu. Er hér um geysimikinn sparnað að ræða. Á síðastliðnu ári var olíukostnaður kr. 12 milljónir, og var t.d. í marz sl. 1800 þúsund krónur, en eftir breytinguna varð olíukostnaður 900 þúsund krónur í apríl.

Aflabrögð á vetrarvertíðinni gengu prýðilega, var mest verið á veiðum út af Surtsey og svo fyrir austan land. Heildarafli á vetrarvertíðinni er 1177 tonn, og landaði skipið 15. maí sl. 84 tonnum. Brúttóaflaverðmæeti vertíðaraflans er kr. 41.561.592 kr. en skiptaverðmæti 36.140.515 kr. Hásetahlutur á vetrarvertíðinni var rúmlega 900.000 kr.

Við sendum skipstjóra og skipshöfn á Vestmannaey beztu kveðjur og árnaðaróskir á sjómannadaginn. Bezt þætti okkur ef þeir hefðu fleiri skuttogara frá Eyjum að keppa við á næsta sjómannadegi.

Útgerð er árnað heilla með happaskip.