Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Hafís við Vestmannaeyjar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 10:01 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. ágúst 2015 kl. 10:01 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Hafís við Vestmannaeyja</big></big> ::::::::::'''eftir Harald Guðnason Bókvörð''' Oft hefur hafísinn ógnað Íslendingum og margir hafa fallið fyrir heljarhrammi h...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Hafís við Vestmannaeyja

eftir Harald Guðnason Bókvörð

Oft hefur hafísinn ógnað Íslendingum og margir hafa fallið fyrir heljarhrammi hans, bæði menn og málleysingjar*). Þá er hafþök sáust út við sjóndeildarhring, var voðinn vís. Þessi „landsins fjandi" að fornu og nýju hóf venjulega för sína niður með austurströnd Grænlands, og þá er ísbeltið nálgast Ísland er talið, að það sé að meðaltali 80-100 sjómílna breitt. Og þá er ísinn varð landfastur lagðist heljarkuldi að landinu.
-
Oft er ísbeltið nógu breitt til þess að þekja alla strandlengju Norðurlands. Þá barst ísinn oftast nær suður með Austurlandinu, og suður fyrir land til Vestmannaeyja og jafnvel vestur um Reykjanes. Stundum bar svo til, að hafísinn torveldaði Eyjamönnum sjósókn, var svo síðast árið 1902. Verður nú sagt lítið eitt frá hafísnum við Eyjar það ár og fleiru, en áður minnzt örlítið á nokkur ísaár hér sunnanlands, en þó ekki rakið lengra en til upphafs 19. aldar.

Árið 1817 var mikið ísaár. Hafísinn rak þá austur fyrir, út fyrir Eyjafjöll og Vestmannaeyjar. 1821 sást ís við Eyjar. Þetta sumar sátu 30 skip hollenzk föst í ísnum, en losnuðu loks öll óskemmd. Árið 1826 vill svo einkennilega til, að eigi er getið um ís fyrir norðan land, en mikinn ís sunnanlands. 26. maí sáust það ár frá Eyjum í hægu og heiðskíru veðri hafþök af ís. Rak ísinn með 3-4 mílna hraða frá Dyrhólaey og vestur með landi til Eyja. Þá er ísinn náði Elliðaey og Bjarnarey stóðu nokkrir jakar grunn fyrir austan og norðaustan þær á 60 faðma dýpi. Ís þakti sundið allt milli lands og Eyja, og ekki var hægt að sjá út fyrir þann ís, sem rak fyrir sunnan Eyjar. Var ísinn 4-5 klukkustundir að fara fram hjá Eyjunum. Svo mikill kuldi var á meðan á þessu ferðalagi íssins stóð, að varla var hægt að bræða hélu af rúðum. Abel sýslumaður sagði aldrei meiri kulda komið hafa þau 30 ár, er hann átti heima í Eyjum. - 1835 voru hafþök af ís. Sá þá um tíma hvergi í auðan sjó milli lands og Eyja. Frost var svo mikið, að fatnaður manna, er voru á ferð á Hellisheiði 17. júní, stokkfraus. Árið 1840 var allmikið ísaár og aftur 1866, þá um allt land. Þá var og mikið ísaár um Austfirði 1878 og sunnan.

Næst koma hinir miklu fellis- og frostavetur 1881-82 og fylgdu grasleysissumur. Gjörféll þá búfé margra bænda. Þá kom enn mikið ísaár 1888. Sást ísinn í júníbyrjun frá Lofsstöðum. Í Eyjum fyllti höfnina og flóann af ís. Hrannaís var með öllum ströndum. Gamall Landeyingur sagði mér, að ísinn hefði vakið mikla furðu hans og forvitni, en hann sást vel frá sjóbæjum. Voru strákar að leika sér að því að príla upp á landfastan jaka. ísinn var svo mikill við Eyjar, að ekki voru tiltök að komast á sjó. Var útlitið hið ískyggilegasta, skortur fyrir dyrum. Sagt er, að menn hafi þá leitað til Guðrunar Pálsdóttur (skálda, prests hér nokkur ár) og beðið hana að kveða nú hraustlega á móti ísnum. Þetta gerði Guðrún og brá þá svo við, að losna tók um ísinn og var hann horfinn eftir þrjá daga. Sumir segja, að Guðrún hafi verið síðasta ákvæðaskáld á Íslandi.

Þá er komið að síðasta ísaárinu, sem kemur við sögu hér í Eyjum - árinu 1902.

Firðir og flóar fyrir Norðurlandi fylltust af ís, barst svo austur fyrir land og rak þá vestur um. - Þann 18. apríl kom póstskipið Vesta til Reykjavíkur úr ferð austur um land. Þá er komið var móts við Ingólfshöfða sneri skipið við, því hafísinn var þangað kominn, mikil breiða og óárennileg. Var farmur skipsins settur á land í Hafnarfirði.

Ísfréttir bárust víða að: Úti fyrir Norðurlandi sá ekki yfir ísinn af háfjöllum. Lagnaðarís inni á fjörðum, hestís yfir Eyjafjörð móts við Dagverðareyri. Seyðisfjörður manngengur allur eitt sinn út í fjarðarmynni. Í Stykkishólmi var ekki hægt að koma vörum á land úr Vestu.

Þá bárust fréttir víða að um mikla erfiðleika skipa í strandsiglingum. Segir m.a. að ,Hólar" hafi farið allmikla svaðilför austur um land. 22. apríl rakst skipið á ísinn nálægt Papey. Komst skipið við illan leik inn á Fáskrúðsfjörð þar sem það lá 4 sólarhringa vegna íss og þoku. Loks varð komizt út eftir nær 20 stunda baráttu við ísinn. Var svo haldið norður og allir flóar og firðir fullir af ís. Yfir mynni Eyjafjarðar var ísspöng, en hún lónaði frá Austurlandinu um stund og Hólar komust inn. Rak nú inn hafísinn en helluís var sunnar í firðinum, svo þetta litla skip lenti í úlfakreppu. Komst skipið nú við illan leik inn í Gæsavík 29. apríl og þar var legið í 7 daga. Til Akureyrar komu svo Hólar 7. maí.

Nú er þar næst til að taka, að um miðjan apríl tók strandgæzluskipið Hekla tvo botnvörpunga í nánd við Einidrang. Þetta var nánar til tekið 16. apríl. Voru togarar þessir nær hlaðnir fiski. Hekla fór með togara þessa til Eyja, þar sem sýslumaðurinn, Magnús Jónsson, dæmdi hvorn þeirra í 60 sterlingspunda sekt, afli og veiðarfæri upptækt. Aflinn var mestmegnis þorskur, ýsa og koli. Var fiskurinn seldur á opinberu uppboði fyrir 1600 krónur. Var fiskinum skipað upp á Eiðið, þar sem uppboðið fór fram. Þetta stafaði af því, að nokkurt íshrafl rak inn Víkina og þótti ófært bátum og skipum. Landmenn voru hér margir á vertíð að venju. Þeir vildu ekki láta happ úr hendi sleppa og keyptu sér fisk á uppboðinu. Var ekki annars kostur en bera afla þennan bakinu innan af Eiði austur í Sand, sumir austur fyrir Læk, þar sem þeir höfðu bækistöð.

Afli var allgóður þessa vertíð, meðal hlutur 500 fiskar, en hæstur hlutur um 700. Voru gæftir þó stirðar. Nægar vörur voru í verzlunum. 7. júlí var allur hafís horfinn.

* Talið er, að 9 þús. manns hafi dáið úr hungri og frosið í hel á 2 árum í byrjun 17. aldar. Nú er öl liðin síðan mannfellir varð af völdum hafíss.