Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Litið til baka
Árni Árnason Litið til baka.
Vertíðinni 1951 er lokið. Þetta þýðingarmesta tímabil í árlegri sögu Vestmannaeyja er hjáliðið og vermenn allflestir farnir til heimkynna sinna. Lokin eru liðin og við höfum séð fyrir endann á baráttunni við sjó og vind úthafsins á versta tíma ársins. Nú sést líka hvað hver og einn hefir úr bítum borið fyrir allt sitt erfiði á vertíðinni og er hætt við að ekki hafi allir farið með stórfé í vasanum frá atvinnu sinni, því varast mun vertíð þessi hafa skilað meðalafla enda þótt einstaka bátar hafi náð því aflamagni. Afkoman mun þessvegna yfirleitt vera fremur slæm hjá öllum almenningi eftir vertíðina, þegar svo líka tillit er tekið til þess, að vertíðarkaupið átti helzt að nota sér og sínum til framfærslu, ekki aðeins meðan vertíðin stóð yfir, heldur og einnig þann tíma, sem ekkert eða lítið var um atvinnu t.d. frá vetrarvertíðarlokum til sumarvertíðar austan eða norðanlands og hjá mörgum vermanninum fram til sumaratvinnunnar heima í héraði hans, o.s.frv. Það er því báglegt þegar vertíðin bregst enda leiðir það af sér hina mestu erfiðleika hjá einum og öðrum, því allt stendur og fellur með útgerðinni hjá okkur eyjamönnum og ef til vill einnig hjá vermönnum sem hingað leita atvinnu. —
En þrátt fyrir lokin er ekki hætt að róa í Eyjum. Margir halda áfram með botnvörpu og dragnót en hafa að¬eins skipt um mannskap eða skiprúm. Þeir mega ekki hætta róðrum, lífsafkoman heimtar að sem allra minnst sé stoppað, ef eitthvað er í aðra hönd. Aðeins skipta um veiðarfæri, skiprúm og menn og svo aftur til starfa, svo í raun og veru eru engin „lok" hjá heimasjómönnum. Mér finnst því að heimasjómenn ættu að hætta að „halda upp á lokadaginn" en halda heldur rösklega upp á sjómannadaginn. Það er þeirra sérstaka hátíð, sem allir taka samtímis þátt í, sjómenn og landmenn. Meir að segja hreinræktaðir landkrabbar hrífast með út í hringiðu hátíðahaldanna.
Ef til vill hafa heimasjómenn unnt sér hvíldar frá störfum 1 eða tvo daga yfir lokin þ.e.a.s. rétt á meðan verið var að gera upp vertíðarkaupið; gáfu sér máske tíma til að gleðjast eina kvöldstund með mönnum sínum eða félögum er voru að fara heim í fjarlæg héruð að enduðu vetrarerfiðinu. Lokadagurinn ber þess ávallt einhver merki, að menn vilja minnast þess á sérstakan hátt að þeim reiddi vel af yfir þetta tímabil. Annars var lokadagurinn í ár ekkert frábrugðinn öðrum, fyrri ár. Menn urðu góðglaðir, gerðu sér einhvern dagamun og hylltu Bakkus gamla. Sumir vermenn byrjuðu hvíldina máske eitthvað fyrir 11. maí og höfðu svo lokið sér af þann dag. Er hætt við að einhverjir þeirra hafi getað sagt með sanni eitthvað á þessa leið og strokið ennið:
- ,,Ég hef kynnst til þrautar því
- þeim mun verri líðan
- sem menn. „Liggja lengur í
- tregð" og timbrast síðan."
Og nú eru vermenn allflestir Farnir héðan. Óskum við þeim góðrar ferðar og heimkomu með þökk fyrir samvistirnar á vertíðinni.
Fyrir nokkrum árum voru lokin einungis haldin 11. maí, haldin yfir heilu línuna svo um munaði, en ekki marga daga. Þá var líka líf í tuskunum, sleitulaust drukkið og dansað, sungið og samanspjallað fram á næsta dag. En þá var heldur enginn sérstakur sjómannadagur.
Í tíð opnu skipanna voru sumardagsveizlurnar haldnar á lokadaginn 11. maí. Þá var étið hangikjöt vellingur, hnausþykkur, drukkið kaffi með lummum o.fl. og svo auðvitað drukkið rjúkandi púns og brennivín. Þá var spilað og sungið mikið, sögur sagðar frá sjóferðum, fjalla- og fuglaferðum, menn glímdu bændaglímu o.fl. sér til gamans gert. En þar með var líka lokarumban búin og hver fór til heimkynna sinna eftir góða skemmtun og hlakkaði strax til næstu sumardagsveizlu.
Þótt nýafstaðin vertíð hafi ekki verið aflagóð og leiði af sér misjafna afkomu almennings, sem veldur mörgum áhyggjum, getum við þó glaðst yfir því, að engin stórslys urðu og við krafnir um fáar mannfórnir til Ægis. Því miður sluppum við þó ekki alveg við þennan sárgrætilega skatt, því einn maður hrökk út af bát og drukknaði. Það var Halldór sonur Einars Sæmundssonar tré smíðameistara að Staðarfelli hér og konu hans Elínar Þorvaldsdóttur og skeði sá sorglegi atburður þann 6. marz á m.b. Sæfari VE 104.
Þann 1. maí verður svo hið hryggilega slys að Grétar Karlsson vélstjóri frá Garðsstöðum ferst af kajak í Suðureyjarsundi. Hann var uppeldissonur Jóns Pálssonar og konu hans Margrétar Sigurþórsdóttur.
Báðir voru þessir menn á bezta aldri og ókvæntir, harðduglegir sjómenn og stéttinni til sóma, vel látnir af öllum er þá þekktu enda sárt tregaðir. Er þar vissulega skarð fyrir skildi á heimilum þeirra og hjá sjómannastéttinni.
Einn bátur fórst á vertíðinni, m.b. Sigurfari, þannig að óstöðvandi leki kom að honum eftir að hann hafði brotist heim undir Eiði í fárviðrinu 13-14 apríl. Manntjón varð þó ekkert því bæði var m.b. Von og Ver þarna nærstaddir og Sigurfari hafði stöðugt samband við þá og loltskeytastöðina. Þegar sýnt var að lekinn ágerðist alltaf og óráðlegt ályktað frá landi að hleypa bátnum upp á Eiðið vegna brims og myrkurs, renndi Ver sér að Sigurfara tók mannskapinn en bátnum var sleppt og rak hann litlu síðar upp í Hettugrjótin og mölbrotnaði þar eftir 2-3 daga.
Þar tókst giftusamlega til með björgun manna og má vafalaust þakka það talstöð bátsins, sem var í prýðisgóðu lngi og réttilega með farin á hættunnar stund.
Engum dylst hve þýðingarmikið starf sjómannsins er og að hættur hafsins eru miklar og margvíslegar í kringum starfið. Árlega geldur því sjómannastéttin þungar fórnir til Ægis og höfum við Eyjabúar ekki farið varhluta þar af mörg undanfarin ár. Stundum orðið að sjá á bak mörgum vöskum mönnum í einu, sem héraðssorg var af. Við fögnum því hverri vertíð, sem krefur okkur minnstra mannfórna, hvernig svo sem aflabrögðin voru, því aldrei verða menn til fjár metnir. —
Síðustu áratugina hafa farartæki sjómanna stórbatnað og allt öryggi aukist mjög mikið með nýjum tækjum, svo sem talstöðvum, dýptarmælum, miðunarstöðvum o.fl. En þrátt fyrir allar breyttar ástæður til sóknar og varnar er sjómannastéttin sá þjóðarhlutinn, sem ávalt horfist í augu við ótal hættur og hina mestu örðuleika í sambandi við starf sitt. Þess utan dvelja þeir oftast til langframa burt frá heimilum sínum og venzlafólki, en lifa og starfa mestan hluta æfi sinnar á farkosti sínum.
Hlutskipti þeirra er því ekki eftirsóknarvert fyrir aðrar stéttir mannfélagsins og getum við landkrabbarnir varast gert okkur hugmyndir um sjómannsstarfið í sinni réttu mynd.
Á togurunum er t.d. unnið í næstum hvaða veðri sem er undir beru lofti, allan ársins hring og þykir sú vinna engin sældarvinna og ekki fyrir alla. Á mótorbátunum er farið á sjóinn rétt eftir miðnætti, verið úti 12 til 15 tíma og lengur, vitanlega í æði misjöfnu veðri, stormi, þungum sjó, ágjöf og frosti og getur hver og einn ímyndað sér sér hvaða sældarkjör það eru. Og svo þegar í land er komið, þá er að landa fiskinum, svo hvíldartíminn vill stundum verða stuttur þar til kall í næsta róður dynur á rúðunni og erfiðið hefst á nýjan leik.
Nei — ég hygg að fáar stéttir mannfélagsins vildu skipta við sjómannastettina að öllu athuguðu.
Og þó eru sjómennirnir ánægðir með hlutskipti sitt og æskja þess eins að sækja björg í bú í greipar Ægis. Hafið í veldi sínu, er seyðandi fyrir þá og starfið æsandi og heillandi, enda brosir margur sjómaðurinn í kamp er hann hleypir siglujó sínu á hlemmiskeiði og full lestuðu eftir víðfeðmum brautum sjávarins:
- Til hafs – til hafs
- það heillar,
- að háskinn undir býr
- til hafsins hrynja elfur,
- á hafið mæna fjöll,
- og hafsins veldi krýpur
- hún, þögul ströndin öll.
- Svo hallast hugur þangað
- og horfir augað fram,
- úr hafsins greip skal gullið dregið
- undan föstum hramm.
Eins og ég sagði áðan hafa farartæki sjómanna hér og annarsstaðar batnað ákaflega mikið síðustu áratugina og allt öryggi aukist mjög með margskonar fengnum tæknilegum tækjum. Hrakningar báta eru því, sem betur fer, alltaf að verða sjaldnari og vafalaust þakka það bættum skilyrðum til sóknar og varnar í hvívetna.
Fyrir aðeins nokkrum árum var það aftur á móti alvanalegt að bátar hér fengju langar útilegur og væru að hrekjast um hafið varnarlausir í aftakaveðrum svo sólarhringum skipti. Upplýsingar um þá voru af mjög skorum skammti og einustu björgunarvornirnar tengdar við varðskipið og við það að loftskeytastöðinni tækist að fá erlend fiskiskip til að leita okkar. Oft fór allt vel, báturinn fannst og mannbjörg varð, en stundum fór líka svo, að þrátt fyrir langa og ítarlega leit fleiri skipa, týndust bátur og menn. Efalaust hefðu færri stórslys orðið, ef menn hefðu þá haft miðunar og talstöðvar í bátunum, dýptarmæla og fl. eins og nú er orðið, sem vitanlega hlýtur að skapa öryggi og vera til hægðarauka við starfið, séu tækin réttilega notuð.
Fyrir skömmu flutti Henry Hálfdánarson útvarpserindi og minntist m.a. á misnotkun öryggistækjanna þ.e.a.s. talstöðvanna svo sem með óþarfa málæði, bölvi og ragni og fleiru sein óheyrilegl væri. Þetta getur satt verið, en ég álit samt að hér sé mesta misnotkunin þó, að menn skuli ekki fylgja þeirri sjálfsögðu mannúðarskyldu að láta land stöðina vita um ferðir sínar í illveðrum. Það er eins og menn geti alls ekki vanið sig á það eða bókstaflega gleymi því, svo undarlegt sem það er. Hefir þetta þó verið margoft rætt á opinberum vettvangi og allir að sjálfsögðu séð réttmæti þeirrar málaleitunar.
Sjómenn — minnist þess að þegar burtverutími ykkar úr heimahöfn er orðinn óeðlilega langur og illveður gengur yfir eru þegar gerðar nauðsynlegar ráðstafanir af björgunarfélaginu við loltskeytastöðina og varðskipið til eftirgrennslunar um bát ykkar. Léttir þessa bráðnauðsynlegu starfsemi hjá öllum aðilum með því, að láta vita um ferðir ykkar ekki t.d. aðeins þegar þið eruð komnir í tryggt var af Heimaey heldur og einnig á heimleiðinni. Athugið það, að það er bráðnauðsynlegt með tilliti til varðskipsins og starfseminnar í landi.
Og síðast en ekki sízt: Gerið það fyrir ástvini ykkar í landi. Þeim líður oft miklu ver en ykkur um borð og þurfa vissulega þann styrk í sálarstríði sínu, sem fregnir af ykkur veita þeim þegar ykkar er saknað eða þið eruð úti í foráttu illviðri.
Misbrestur á þessu er kærulaus leikur með mannlegar tilfinningar þeirra og hróplegasta misnotkun hins ágæta öryggistækis — talstöðvarinnar.
Þetta er orðið lengra en ég ætlaði í fyrstu og vil ég því enda orð mín með þeim óskum, að sjómannadagurinn megi verða öllum til gleði og ánægju, og að sjómannastéttin hér og annarsstaðar njóti gæfu og gengis í framtíðinni.
Árni Árnason, símritari