Hæli
Húsið Hæli var byggt 1922 og stendur við Brekastíg 10.
Þeir Hannes Hreinsson, f. 1892 d. 1983, og Sigurður Sigurðsson, f. 1889 d. 1974, sem voru sveitungar, hófu byggingu hússins árið 1922 en húsasmíðameistari var Erlendur Árnason frá Gilsbakka. Sigurður flutti inn 1922 en Hannes 1923. Þeim kom saman um að húsið, sem var parhús, ætti að heita Hæli með það í huga að heimilin skyldu verða hæli fjölskyldnanna sem þar myndu búa.
Fæddar á þessum árum voru dætur Hannesar og konu hans Vilborgar Guðlaugsdóttur, f. 1892 d. 1932, Magnea, 1922, fædd í Breiðholti þar sem fjölskyldan bjó meðan Hæli var í byggingu, Jóna, fædd 1925, Ásta, fædd 1929. Hrönn fæddist 1939, dóttir Hannesar og seinni konu hans, Jóhönnu Sveinsdóttur frá Miðkoti í Fljótshlíð, f. 1896 d. 1949. En þrjár síðastnefndu systurnar fæddust allar að Hæli.
Hannes Hreinsson stundaði sjómennsku fyrst eftir að hann fluttist til Eyja, varð síðan verkstjóri við útgerð Kjartans Guðmundssonar ljósmyndara í Geirseyri við Strandveg og síðar fiskimatsmaður. Stjúpfaðir Hannesar, Þorsteinn Gíslason f. 1865 d. 1954, átti hlut í Hæli með Hannesi en Hannes keypti hans hlut 1937 þegar Þorsteinn flutti til sonar síns Jóhanns Kristins málara.
Þorsteinn Lúther Jónsson sem seinna varð sóknarprestur í Eyjum, var systursonur Vilborgar og bjó um tíma á Hæli. Þá starfaði hann sem „innanbúðarmaður“ í Verslun Önnu Gunnlaugsson og mun á þeim tíma hafa kynnst konuefni sínu, Júlíu Matthíasdóttur frá Litlhólum.
Þegar hinn eigandinn að Hæli, Sigurður Sigurðsson járnsmiður, flutti inn var hann einhleypur en bjó með móður sinni Guðrúnu Jónsdóttur. Sigurður kvæntist síðar Önnu Gísladóttur f. 1898 d. 1984, ekkju Margeirs Rögnvaldssonar. Þau Sigurður og Anna eignuðust Trausta f. 1932 og Brynju f. 1934. Fyrir átti Anna börnin Sigurþór, Ragnar og Guðrúnu hjúkrunarkonu.
Hæli var eitt af fyrstu húsunum á þessu svæði sem þótti á þessum tíma langt uppi í heiði. Húsið stendur lítið eitt hornskakkt, miðað við götuna sem hefur sennilega komið síðar. Heiðarbýli og Háiskáli voru þó þar fyrir. Traðir lágu að Hæli frá Þrúðvangi. Hæli var parhús á þremur hæðum, inngangar voru upp tröppur á báðar hæðir að austan og vestan, inngangar voru einnig að norðanverðu á jarðhæð og oftast gengið um þá. Eldhús, sem einnig var fjölskylduherbergi, geymsla, gangur og stigi upp á loft, voru á jarðhæð, tvö góð herbergi voru á miðhæð, svefnherbergi í fyrstu en hið stærra seinna gert að stofu. Á þriðju hæð voru loft með gluggum á gafli og smákvistum og þar voru telpnaherbergin.
Í minningum frá æskuárum sínum segir Ásta Hannesdóttir frá Hæli svo frá:
„Þeir voru mjög samhentir, Sigurður og Hannes faðir minn, að halda húsinu vel við meðan þeir voru og hétu, eins og sagt er, og snyrtimennska viðhöfð ytra sem innra og sama er að segja um konurnar í lífi þeirra sem voru mestu myndarkonur. Við ræktuðum okkar grænmeti, grænkál, spínat, salat og hreðkur, fórum til sölva og tíndum ber á haustin vestur í hrauni þó rýrt væri. Ég spilaði handbolta með Þór, var skáti og söng með Kirkjukórnum; reyndar vorum við þrjú úr okkar fjölskyldu sem sungum þar og svo með Vestmannakór. Sambúð fjölskyldnanna í„austri og vestri“ var mjög góð, aldrei bar skugga á hana í mínu minni. Það skiptust auðvitað á skin og skúrir eins og í lífi allra en við systurnar minnumst uppeldisáranna með gleði og söng í hjarta. Mikið var sungið, spilað, kveðið og dansað. Pabbi kenndi okkur fyrstu sporin í gömlu dönsunum og alltaf var eitthvað sem vakti ánægju og áhuga, þó svo að sorgin berði að dyrum um tíma. Vestmannaeyjar verða alltaf okkar heimaslóð.
Heimildir
- Ásta S. Hannesdóttir frá Hæli.
- Haraldur Guðnason, Saltfiskur og sönglist.
- Landeyjabók - Austur-Landeyjar.