Hreggviður Jónsson (Hlíð)
Hreggviður Jónsson Fæddur 11. ágúst 1909 Dáinn 22. desember 1987 Guðjón Hreggviður Jónsson, en það hét hann fullu nafni.
Hreggviður fæddist að Hlíð í Vestmannaeyjum hinn 11. ágúst 1909, sonur hjónanna Jóns Jónssonar, sem jafnan var kenndur við Hlíð og Þórunnar Snorradóttur frá Sámsstöðum í Fljótshlíð. Hreggviður var þriðji í röðinni af sjö systkinum. Auk þess tóku þau hjón þrjú fósturbörn, og komust tvö þeirra á legg. Árið 1930 giftist Hreggviður Þórunni Jensdóttur frá Árnagerði í Fljótshlíð. Hún var áður gift Tómási Albertssyni frá Teigi í Fljótshlíð, en hann fórst með togaranum Robertson í Halaveðrinu 1925.
Þórunn og Hreggviður fluttu til Reykjavíkur eftir að þau giftust. Hreggviður nam bifvélavirkjun hjá Jóhanni Ólafssyni og starfaði þar og hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, þar til þau fluttu aftur til Vestmannaeyja, árið 1937. Í Skerjafirði, við Baugsveg, byggðu þau hús, sem þau nefndu Teig og þar fæddust synir þeirra tveir, Tómas 1935 og Eyvindur 1936. Þeir námu báðir bifvélavirkjun hjá föður sínum. Í Vestmannaeyjum stofnaði Hreggviður bifreiðaverkstæði og rak það fyrst með öðrum en síðar með sonum sínum. Fyrst bjuggu þau hjónin í Hlíð, en byggðu síðar hús í Sólhlíð 10, og bjuggu þar, uns þau fluttu aftur til Reykjavíkur árið 1968.
Eftir komuna til Reykjavíkur starfaði Hreggviður sem húsvörður hjá Agli Vilhjálmssyni hf. Þórunn lést í febrúar árið 1975. Hreggviður var mikill dýravinur og hafði mjög gott lag á að laða að sér dýr. Meðan hann bjó í Eyjum, átti hann kindur, oftast var hundur á heimilinu og seinni árin höfðu feðgarnir hesta, og héldu því áfram eftir að þeir fluttu til Reykjavíkur.
Auk dýranna var tónlistin aðal tómstundaiðja Hreggviðs. Á fyrri Reykjavíkurárunum lék Hreggviður á horn með Lúðrasveitinni Svani. Í Vestmannaeyjum lék hann með lúðrasveit Vestmannaeyja, undir stjórn Oddgeirs Kristjánssonar, og tók mjög virkan þátt í starfi sveitarinnar.