Klettshellir
Klettshellir er líklega þekktasti hellirinn í Vestmannaeyjum enda einn sá stærsti.
Hann gengur inn í Ystaklett og fremst er hvelfingin geysihá en lækkar fyrir miðjum helli og hækkar aftur innst. Hellirinn er mjög langur. Sjávardýpi er svo mikið í honum að allstór vélbátur kemst inn og einnig er mjög hátt til lofts.
Fastur liður í útsýnissiglingu umhverfis eyjar er að sigla inn í hellinn og leika þar á blásturshljóðfæri. Tónarnir bergmála frá hellisveggjunum og þykir þetta hin magnaðasta stund. Þá hefur og verið fastur liður í dagskrá nemenda á svonefndum Masterclass tónlistarnámskeiðum í Vestmannaeyjum að bjóða upp á tónleika um borð í skipi í Klettshelli, við lýsingu frá kertum, og þykir mjög áhrifaríkt.
Heimildir
Ferðabók F.Í. 1948 bls. 119-124