Blik 1939, 5. tbl./Gull í lófa framtíðarinnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. október 2009 kl. 15:13 eftir ZindriF (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. október 2009 kl. 15:13 eftir ZindriF (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Síra Halldór Kolbeins:

Gull í lófa framtíðarinnar.

(Kafli úr prédikun).
     ———————

Vér nemum nú staðar við eitt aðalatriðið, er leggja skal gull í lófa framtíðar, gott uppeldi og öll þau áhrif, sem maður hefir á sjálfan sig og aðra menn til blessunar. Gott uppeldi, það er gullið, gullið mikla í lófa framtíðarinnar. Og uppeldi er ekki einungis hlutverk foreldra. Það er hlutverk allra, sem hugsa. Hvenær, sem vér höfum einhver viðskipti við eða afskipti af öðrum mönnum, er tækifæri til þess að leggja gull í lófa framtíðar.
Miklir reikningsmenn segja, að ef stofnaður hefði verið sjóður við Kristsburð, að upphæð einn eyrir, og sjóðurinn síðan verið látinn vaxa með því að leggja vexti fjóra af hundraði við höfuðstólinn árlega, þá væri sjóðurinn orðinn miklu hærri en sanngjarnt matsverð á öllum ríkjum veraldar og hverskonar verðmætum, sem þau hafa að bjóða. Það mætti kaupa fyrir sjóðsupphæðina þessa jörð með öllu, sem á henni er og marga slíka jarðhnetti. Vér dæmum ekkert um það, hvort þessi reikningur er réttur. En hitt vitum vér, að hvert vingjarnlegt orð, hvers konar gott verk og góðleikur hjartans, allt, sem gjört er, hugsað og talað af kærleika, er eins og slíkur einn eyrir, sem ávaxtast svo að áhrifin eru ómælileg. Og þetta á einkum við um uppeldi barna og alla framkomu við þau. Góðleiki í garð barna er gull, er það fé, sem sett er á vöxtu, gull í lófa eilífðar. Og eins og svo miklu sem eilífðin er lengri en jarðlífsæfin og himinninn er hærri fjöllunum, ávaxtar það gull sig betur en bankagull heimsins. Maður nokkur frægur kom í skóla. Hann leit yfir barnahópinn. Eitt barnið bar sérkennilegan svip. Kennarinn sagði, að það væri langsljóasta barnið í öllum skólanum og hann hefði mjög litla von um, að það tæki nokkurum verulegum framförum. Drengurinn verður sjálfsagt aldrei að manni, sagði kennarinn og almenningur í byggðarlaginu. Auðvitað fékk þessi drengur lægstu einkunnina og traustsyfirlýsingu hafði hann ekki fengið hjá neinum manni. En ókunni maðurinn frægi sagði: „Þessi drengur er seinþroska, en það býr samt eitthvað mikið í honum. — Misstu ekki kjarkinn, drengur minn.“ — Enginn getur mælt, hver áhrif þessi orð höfðu á drenginn, enda varð hann, er tímar liðu, mikilmenni. Ferðamaðurinn lagði þarna einn eyri á sjóð. En sjóðurinn varð að því gulli í lófa framtíðarinnar, sem engin tala getur tekið. Öll saga er saga vaxtarlögmáls þessa eina eyris, áhrifanna, sem æskan verður fyrir. Kom þú þess vegna fram í garð allra manna með sama hugarþeli og bezta móðir, og þá leggur þú stöðugt gull í lófa framtíðarinnar.