Blik 1976/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 24. nóvember 2009 kl. 14:21 eftir Birna (spjall | framlög) Útgáfa frá 24. nóvember 2009 kl. 14:21 eftir Birna (spjall | framlög) (Ný síða: '''Veður tóku að gerast válynd''' Eins og ég hef áður drepið hér á, þá voru forgöngumenn Verkamannafélagsins Drífanda og Kaupfélagsins Drífanda Alþýðuflokksmenn, a. ...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Veður tóku að gerast válynd

Eins og ég hef áður drepið hér á, þá voru forgöngumenn Verkamannafélagsins Drífanda og Kaupfélagsins Drífanda Alþýðuflokksmenn, a. m. k. að mjög miklum hluta. Sumir þeirra voru einnig bæjarfulltrúar flokksins.

Þessir sömu menn stóðu að útgáfu vikublaðs, sem þeir létu heita svo, að Verkamannafélagið Drífandi gæfi út. Það hét Eyjablaðið og hóf göngu sína 26. september 1926. Skráðir ritstjórar þess voru starfsmenn hjá Kaupfélaginu Drífanda, a. m. k. tveir þeirra þá, en þrír önnuðust ritstjórnina. Allir voru ritstjórarnir róttækir í þátíðarmerkingu orðsins. Þó töldu þeir sig einlæga fylgjendur Alþýðuflokksins lengi vel og styrktu hann í orði og verki.

En einhver breyting virtist vera í aðsigi, þó að hægt færi fyrst í stað. Og svo kom að því, að ritstjórarnir lýstu yfir því, að Kommúnistar og Bolsjevikar væru þeim gæluyrði en orðið „Jafnaðarmenn" væri skammaryrði í þeirra eyrum. Reynsla ritstjóranna af starfi Jafnaðarmanna fyrir verkalýðinn í landinu, sögðu þeir, hefði umskapað hið fagra orð jafnaðarmennska og gert það að skammaryrði. Þessa yfirlýsingu ritstjóranna tóku lesendurnir ekki alvarlega fyrst í stað, heldur meir eins og stríðni eða kerskni.

En bak við tjöldin var mikið skeggrætt og bollalagt, þó að afleiðingar þess sæju ekki ljós dagsins lengi vel, því að til skarar mátti ekki láta skríða fyrr en tryggt væri, að klofningsmenn gætu haft með sér meiri hluta innan verkalýðs og verzlunarsamtakanna, þegar til stáls syrfi og klofningurinn yrði lýðum ljós.

Um þessa starfsemi að tjaldabaki hlýt ég að fara hér nokkrum orðum, því að þessi duldu öfl með ýmsum pólitískum fyrirbrigðum urðu þess valdandi, að Kaupfélagið Drífandi varð að engu, leystist upp öllum verkalýð kaupstaðarins til óbætanlegs tjóns og trú manna á samtakamáttinn til mikils hnekkis.

Um tíma gerðist hinn þekkti blaðamaður Alþýðuflokksins. V. S. V., ritstjóri Eyjablaðsins. Við það starf hélzt hann í 10 vikur. Þá hröklaðist hann frá blaðinu. Hann skrifaði oft um störf „Jafnaðarmanna" fyrir hag verkalýðsins. Honum var vissulega ekki þökkuð störfin, þegar hann hvarf úr bænum. Jón nokkur Rafnsson gerðist þá einn ritstjóri blaðsins. Það hætti svo að koma út von bráðar eða í júlímánuði 1927. Þá höfðu „Félagar Stalíns" vaðið uppi í forustuliði Alþýðuflokksins í Vestmannaeyjum 1-2 ár og valdið þar biturleik og sundrung. Á ýmsu tók að bóla i hagsmunabaráttunni, sem allur þorri verkamanna í bænum hafði ekki látið sér koma til hugar að til mála kæmi.

Augu manna tóku að opnast fyrir ofbeldishneigðum í starfseminni innan verkalýðssamtakanna. Þær höfðu látið á sér kræla fyrr, þó að dult færi í fyrstu. Sögur tóku að ganga um fyrirbrigðin þau t. d. í kolaverkfallinu árið 1926. Þá voru ungir menn innan verkalýðshreyfingarinnar i kaupstaðnum látnir smíða sér kylfur, sem þeir földu í vinstri jakkaerminni, þegar á hólminn var gengið. Barefli þessi skyldu sjá dagsins ljós og notast, þegar vissir „foringjar" gæfu merki. Ég, sem þetta rita, var þá ekki fluttur til Eyja, en aldraðir kunningjar mínir, sem voru með í átökunum og lutu í barnaskap sínum, eins og þeir segja sjálfir. „Félögum Stalíns", hafa sagt mér þetta og leyft mér að segja frá því.

Til „bardaga" kom þarna ekki, sem betur fór.

Þetta atvik og ýmis fleiri áþekk því vöktu til íhugunar og deilna milli verkalýðsforingjanna gömlu, sem yfirleitt vildu fara fram með gát og festu ,svo sem stofnendur Verkamannafél. Drífanda og Kf. Drífanda.






(Hér vantar í greinina næstu 22 blaðsíður).