Blik 1940, 8. tbl./Heimilið
Heimilið
Heimilin eru grundvöllur alls þjóðlífs. Móðirin er eða á að vera sól hvers heimilis, og hjá henni munu jafnan dýpstu og göfugustu hugsanirnar verða til og framkvæmdar, ef réttur hennar er ekki fótum troðinn. Foreldrarnir hafa að nokkru leyti framtíð barna sinna í hendi sér, og með góðri samvinnu og glöggum skilningi í uppeldisstarfinu hefir íslenzkum foreldrum við og við tekizt að skapa mikilmenni, þar sem gáfur barnsins hafa staðið til þess. Sumum, og því miður allt of mörgum, foreldrum tekst ekki að inna hlutverk sitt af hendi í uppeldisstarfinu. Ástæðan er oft kæruleysi þeirra og skilningsskortur á hlutverki sínu. Hvernig getur t.d. móðir, sem stundar tóbaksreykingar og drekkur áfengi á sama tíma og hún gengur með barn á brjósti eða annast uppeldi barnanna að öðru leyti, búizt við glæstum árangri af uppeldisstarfi sínu. Þótt húsbóndinn sé reglumaður, en konan ekki starfi sínu vaxin, er ekki hægt að búast við glæsilegum árangri, hvað þá heldur, þegar báðir foreldrarnir eru andlegir vesalingar, sem hvorki kunna að meta réttilega líf sitt og heilsu né barna sinna. Bezta eign hvers unglings er því góð og göfug móðir. Við unglingarnir erum stundum svo blindir, að við kunnum ekki að meta fórnfýsi og umhyggju mæðra okkar. En þegar mömmu nýtur ekki við um lengri eða skemmri tíma, finnum við fyrst, hvað við höfum misst. Góð móðir fórnar öllu til að tryggja barni sínu gæfu og gengi. Í uppeldisstarfinu ríður mest á því, að foreldrarnir hafi vit og þekkingu á að rækta manngildið í barninu. Börnin og við unglingarnir getum innt af höndum mikið verk, til að skapa foreldrum okkar heimilishamingju, með skyldurækni og hlýðni. Hjúin geta með trúmennsku og fórnfýsi unnið að hamingju og velmegun heimilisins. Ef allir einstaklingar fjölskyldunnar leggjast á eitt um framkvæmd góðra og nytsamra verka á heimilinu, er stjórn þess létt. Það skapar frið og festu á heimili. En sé þar hver höndin uppi á móti annari, verður heimilislífið þreytandi, og jafnvel spillandi. Hver einstaklingur heimilisins þarf að gera skyldu sína; þá vinnast verkin auðveldlega. Ef sérhver sýnir öðrum hjálpsemi og nærgætni, fer allt vel.
- 15. nóv. 1940.
- Á. B., 3. bekk.
- 15. nóv. 1940.