Sundskálinn á Eiðinu
Árið 1911 kom til tals innan Ungmennafélags Vestmannaeyja að reisa sundskála fyrir sundnemendur í Vestmannaeyjum. Sama ár hóf Ungmennafélagið undir forystu Steins Sigurðssonar, skólastjóra, að safna fé til skálabyggingarinnar. Haldnar voru hlutaveltur ásamt því að félaginu áskotnaðist fé á annan hátt. Árið 1913 var skálinn fullgerður og tekinn í notkun þá um sumarið.
Skáldið Örn Arnarson samdi frægt gamankvæði um sundskálahugsjónina og þar er þessa þekktu vísu að finna:
- Þeim vex nú ekki allt í augum, ungmennunum hér.
- Þeir ætla að reisa sundskála, þar sem Heimaklettur er,
- og leigja þar út sólskinið og selja hreinan sjó
- á 60 aura pottinn hélt Steinn að væri nóg.