Blik 1969/Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum, III. hluti
Svo bar það við 2. marz 1949, að ég náði símtali af formanni Fjárhagsráðs, guðfræðiprófessornum. Er ég nefndi nafn mitt, tók hann símann bókstaflega í sína þágu. Svo einkennilega vildi til, að formaðurinn hafði verið í réttarhaldi út af greinargerð minni stundu áður en ég náði tali af honum. Þar hafði hann m. a. verið áminntur um sannsögli, eins og gengur.
Þarna hellti hann sér yfir mig í símanum. „Eitt viðtalsbil“, sagði símastúlkan, og formaðurinn hélt áfram að tala, svo að aldrei varð hlé á. - „Tvö viðtalsbil“, sagði símastúlkan, og formaðurinn hélt áfram að ausa og úthúða. - „Prjú viðtalsbil“, sagði símastúlkan. Þá allt í einu varð hlé á, svo að ég hugðist koma að beiðni minni um sement. En þá var formaðurinn horfinn frá símanum, - hafði lagt heyrnartólið á að loknum austrinum.
Þessi atburður vakti mér kátínu. Þarna skaut formaðurinn mér ref fyrir rass: Hann lét mig sjálfan kosta allar skammirnar á sjálfan mig! Það var þó mátulegt á mig! Seinna frétti ég, að sama kátínan hefði vaknað þar suður frá, er formaðurinn í allri sinni mekt varð að arka til réttarhalds út af nokkrum sementspokum, sem við höfðum notað í frjálsu framtaki án hans leyfis. Ég sá ekki eftir aurunum fyrir svona nýstárlega skemmtun.
Allt vorið 1949 og fram á sumar rérum við að því öllum árum að fá sementsleyfi handa Gagnfræðaskólanum. Gripið var til allra mögulega ráða. Leitað var liðsinnis, leitað eftir áhrifum hinna ólíklegustu manna. Aldrei virtist hinn þrítugi hamar vera brattari en nú eftir öll réttarhöldin. Formaður Fjárhagsráðs stóð þar fyrir eins og ljón á veginum. Enginn virtist þora að æmta eða skræmta gegn valdi hans. Allar óskir og öll orð hinna svokölluðu vinstri manna virtust verða að hjómi eða froðu, þegar prófessorinn andmælti.
Mátti nú bæn konunnar sér einskis? Höfðu áhrif hennar rokið út í veður og vind? Mátti hún sér einskis orðið gegn vilja og vild hins aldraða guðsþjóns? Enn trúði ég á máttinn þann. Einhvernveginn hlaut hún enn að bera sigur úr býtum.
Á lokadag eða 11. maí 1949 kvaddi bæjarfógeti mig fyrir sig og sýndi mér bréf frá dómsmálaráðherra, þar sem beðið var um áframhaldandi réttarhöld í sementsmálinu gegn mér og þess krafizt, að komið yrði fram ábyrgð á hendur okkur bæjarstjóra. Samkvæmt lögum um Fjárhagsráð gátu sektir numið allt að krónum 200.000,00 fyrir það að iðka frjálst framtak í landinu án efnisleyfa frá Fjárhagsráði. Þetta var mér tjáð en lögin sá ég aldrei. Hirti ekki um þau.
Hinn 20. maí var ég svo kallaður til réttarhalds.
Aldrei hafði ég fyrir rétt komið fyrr en í sementsmáli þessu og var þó nær fimmtugur að aldri. Og þó ég segi sjálfur frá, hafði ég alla tíð verið hinn löghlýðnasti þegn, aldrei brotið lög, aldrei brotið reglur, sem mér höfðu verið settar, aldrei sakfelldur fyrir eitt eða neitt. Nú fannst mér ég allt í einu vera sakfelldur fyrir að drýgja dáðir. Svona getur það verið, þegar val forustunnar mistekst.
Ég hugleiddi málið. Átti ég að bjóða þeim réttarsætt? Hún var mér ógeðfelld, já, hvimleiður skratti, því að í henni fólst nokkur viðurkenning á broti. En jafnframt var þeim nokkur vandi á höndum: Slá eða slá ekki á framrétta sáttarhönd.
Réttarhaldið hófst undir fjögur augu. Fyrst í stað ræddum við bæjarfógeti um heima og geima, m. a. um Tyrkjaránið, og svo bardagann milli Englendinga og Síðumanna hér við utanverðan hafnarvoginn sumarið 1514, líklega á túni Hafnarjarðarinnar. Vissulega vorum við báðir í essinu okkar, bæjarfógeti og ég, og þarna var Sigfús M. Johnsen raunverulega enginn dómari eða bæjarfógeti, heldur sögugrúskari og fræðaunnandi fróðleiksmaður, sem hugsaði og lagði mat á söguleg efni leitandi sannleikans í sögulegum efnum. Enn er hann mér þá minnisstæður.
Svo hófust þá réttarhöldin með bókun, spurningum og svörum, eins og gengur.
Parna bauðst ég til þess að greiða hinu opinbera, íslenzka ríkinu, sem ég var að byggja fyrir, 4 krónur í réttarsætt fyrir þessar 40 smálestir af sementi, 10 aura á smálestina, hugsaði ég, en sagði ekkert meir að sinni.
- Þögn, algjör þögn. Bókun. -
Svo kom það: „ Heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði bæjarfógeti blíðlega og sérlega hógværlega, „heyrðu nú, þetta er smánarboð.“
„Það á að vera það,“ sagði ég heldur svona gustillur.
„Vísitalan er 300,“ sagði bæjarfógeti, „á þetta að vera með vísitöluálagi?" spurði hann. „Það má vera það,“ sagði ég. „Þá fá þeir 30 aura á smálestina,“ hugsaði ég og beið framhaldsins.
„Nei, nei, heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði bæjarfógeti með óbreyttri hógværð, „ef þú gætir á það fallizt að bjóða þeim 20 krónur og svo vísitöluuppbót á þá tölu, skyldi ég mæla með því, að sættir mættu takast á milli ykkar.“
Mér varð orðfall um sinn. Ég velti þessu fyrir mér: Tuttugu krónur, fimmtíu aurar á smálestina, og svo með vísitöluuppbót, 150 aurar. Vissulega var nú þetta smánarboð, þó að sáttarboðið hefði óneitanlega hækkað æðimikið. Ég skildi, hvað bæjarfógetanum gekk til. Þarna vildi hann sigla milli skers og báru og reyna eftir mætti að fá sætt á málið með því að þoka mínu boði upp eftir föngum.
„Gátu þeir verið svona lítilþægir?“ hugsaði ég. Auðvitað stóð ég jafn eftir, þó að ég greiddi þeim 60 krónur í réttarsætt. En óneitanlega var þessi upphæð 15 sinnum hærri en upphaflega boðið mitt. Já, vissulega stóð ég jafn eftir, reiðubúinn að krafsa til mín allt það sement, allt það timbur og allt það járn, sem ég gæti með nokkrum ráðum klófest, hvað sem það kostaði mig og hvað sem öllum málsóknum og réttarhöldum liði.
„Ég fellst á þetta,“ sagði ég við bæjarfógetann.
Hann bókaði. - Upplesið. Staðfest. Rétti slitið.
Í júnímánuði sannfréttum við, að formaður Fjárhagsráðs hygðist taka sér hvíld frá störfum um stundarsakir og fara til útlanda. Þá hugði ég enn til hreyfings. Seint í þeim mánuði var hann horfinn af landi burt. Þá skrapp ég suður til þess að kanna hugarfar manna.
Ég stakk einu eintaki af blaðagrein Guðlaugs Gíslasonar, Stefnan mörkuð, í vasa minn. Hún birtist 1944, eins og ég hef drepið á.
Þrír menn höfðu róið hvað ötullegast í pólitískum leiðtogum í Reykjavík og grennd til þess að herja út sementsleyfið handa skólanum. Það voru bæjarfulltrúarnir Þorvaldur Sæmundsson, kennari, og Hrólfur Ingólfsson, bæjargjaldkeri og svo Helgi Benediktsson útgerðarmaður og kaupmaður.
Þungt var undir, þegar ég kom suður. Þó fékk ég að mæla vinstri mennina máli.
Þegar veggurinn virtist hvað brattastur, dró ég upp úr vasa mínum blaðagrein Guðlaugs Gíslasonar og sýndi þeim. Lesið var og skeggrætt. „Þú, Porsteinn, hefur auðsjáanlega átt að verða fyrsti Gyðingurinn í Eyjum, ef allt hefði farið að óskum nazistanna um sigurinn í styrjöldinni“, sagði þarna spaugsamur náungi. Við hlógum allir. Hér verða hvorki birt ljót orð né lastyrði, sem fuku.
Allir urðu þeir að lokum sammála um að hringja í hagfræðing Fjárhagsráðs. Sá var Jónas Haralz, núverandi formaður Efnahagsstofnunar ríkisins. Þeir tjáðu honum í léttum tón meginefni blaðagreinarinnar. Eftir nokkrar umræður skaut hann því að mér í lágum hljóðum, að hann vildi reyna að sameina öll öfl í Fjárhagsráði máli mínu og beiðni til framdráttar.
Svo var um talað, að ég biði við símann á Hótel Skjaldbreið, þar sem ég bjó. Þangað hét hagfræðingurinn að hringja til mín, áður en hann færi heim til miðdegisverðar. Klukkan var farin að halla í tólf. Tíminn leið og ég beið í ofvæni og hugleiddi hin dulúðugu öfl og átök, sem hér virtust eiga sér stað milli bænar og óbænar um þetta hugðarmál mitt. Annars vegar alþýðukonan, ein af minnstu þegnum þjóðfélagsins, einlæg, heiðarleg og heit í trú sinni, hjartað þrungið af góðvild og bæn. Hins vegar hálærður og hátitlaður ...
Í sannleika sagt eru þessir vegir órannsakanlegir. Enda fékk ég rétt bráðum á því að þreifa.
Klukkan var orðin 12 á hádegi og ekki lét hagfræðingurinn enn á sér kræla.
Klukkan 12,05 hringdi síminn. Það var hagfræðingur Fjárhagsráðs.
Svarið var þetta: „Þú færð sementsleyfi eftir þörfum þetta sumar.“
Jósef Jakobsson (Ísraelsson) mælti við bræður sína: Ég er Jósef. Þér ætluðuð að gera mér illt, en ...
Pannig fór um sjóferð þá, enda fór ég sjóleiðis suður, og sjóleiðis kom ég heim sigurglaður.
Nú var ætlunin að steypa undirstöður fimleikahússins á þessu sumri (1949). Til þess þurfti vinnuafl, því að mikið þurfti að grafa fyrir undirstöðuveggjunum. Jarðvegurinn ofan á föstu var æði djúpur víðast hvar.
Vélskóflur voru þá óþekkt tæki í Eyjum. Allt verk varð því að vinna með reku í hönd.
Síldarvertíð var hafin, þegar sementsleyfið fékkst loks, og þess vegna engan mann að fá, sem inna vildi þetta verk af hendi. Það varð því að ráði, að ég ynni það sjálfur. Með mér í gröftinn fékk ég bráðduglegan og þrekmikinn ungling, Guðmund heitinn Guðmundsson að Faxastíg 27 hér í bæ.
Vikur liðu og við grófum og grófum. Þó ég aldrei nema til klukkan þrjú á daginn, því að klukkan fjögur varð ég að sinna skyldustörfum mínum í Sparisjóði Vestmannaeyja, eins og ég hafði gert frá stofnun hans.
Jafnframt því, að við grófum fyrir undirstöðuveggjum fimleikahússins, slógu smiðir upp mótum fyrir miðhæð byggingarinnar.
Svo liðu 3 mánuðir og ekkert heyrðist frá dómsmálaráðuneytinu. Ætluðu þeir að láta hér staðar numið?
Í ágústmánuði 1949 skyldi Sigfús M. Johnsen skila af sér bæjarfógetaembættinu, samkvæmt eigin ósk. Hinn nýbakaði bæjarfógeti var Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður.
Hinn 20. ágúst vorum við undir það búnir að steypa undirstöðuveggi fimleikahúss skólans. En þann dag tafðist ég frá verki, því að bæjarfógetinn nýi hafði hvatt mig til réttarhalds. Hann lét ekki dragast úr hömlu fyrir sér að draga sementssökudólginn fyrir lög og dóm.
Þarna voru þá tveir bæjarfógetar í kringum mig í réttarhaldskytrunni á Tindastóli, byggingu bæjarfógetaembættisins, og nýr fulltrúi, Jón Þorsteinsson minnir mig hann héti, - stjórnaði réttarhöldunum í áheyrn þeirra.
Samtals taldi ég þarna 24 gyllta hnappa á brjóstum og magálum, sem voru svona í þykkara lagi. Þannig hugsaði ég í beiskju minni og fleira í þeim dúr, meðan á bókun stóð, og gefa þær hugsanir eilitla hugmynd um hugarástand mitt.
„Þér hafið boðið 20 krónur í réttarsætt og það er smánarboð,“ sagði hinn nýi bæjarfógeti með þjósti. Augnaráðið og svipurinn gaf til kynna, að ég væri ósvífinn maður gegn valdhöfum, lögum og rétti, og þó léttvægur fundinn.
Þá svall mér móður. Hvorki fyrr né síðar hef ég fundið hjá mér hvöt til að láta hnefa semja sátt, eins og Stjáni blái gerði. Þá hefði hinn nýi bæjarfógeti vissulega fengið ástæðu til að sakfella mig og lögsækja. Ljóslifandi stóð mér fyrir hugskotssjónum frá æskuárunum þrútinn hrokadólgur. Þetta var fulltrúi ríkisvaldsins íslenzka, sem ég var að þræla fyrir kauplaust. Því bar að kosta byggingarframkvæmdirnar að hálfu leyti gegn bæjarsjóði samkvæmt lögum. Í stað þess beitti það mig rangsleitni, hlutdrægni og dilkadrætti. Í þessari andrá stóð mér sú vissa ljós fyrir, að timburkaupmaðurí bænum, sem hafði selt mér allt steyputimbrið til byggingarinnar fyrir tugi ef ekki hundruð þúsunda króna án allra leyfa frá Fjárhagsráði, hafði síðan í óvild sinni og fávizku sagt formanni Fjárhagsráðs frá sementskaupum mínum og komið þannig málsókn þessari af stað. Vitaskuld var hann sjálfur í sök vegna hinna óleyfilegu timbursölu, en því máli öllu sleppti formaður Fjárhagsráðs til þess að timburkaupmaðurinn, flokksbróðir hans og pólitískur sálufélagi, lenti ekki í netinu með sér. Þannig voru þessi trippi öll rekin? Eru þau það ekki enn?
En hver seldi mér svo sementið? Það gerði bæjarstjórinn Ólafur Á. Kristjánsson, sem þeir töldu vera „bölvaðan bolsa“. Síðan varð hann að greiða sömu sektir og ég fyrir söluna á sementinu til skólans.
En nú gafst ekkert tóm til þess að velta fyrir sér einkennum hins spillta íslenzka þjóðfélags. Bæjarfógetanum nýja varð ég að svara: „Pið fáið ekki eina krónu í réttarsætt umfram það sem ég hef boðið“, sagði ég í sama tón og til mín var talað.
„En heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði fráfarandi bæjarfógeti með sama velvildarblænum í röddinni og hógværðinni, „þú hafðir heitið mér því að greiða þessa upphæð með vísitöluálagi“. - „Það er satt,“ sagði ég, „við það stend ég.“
„Munduð þér ekki fáanlegur til að greiða 100 krónur?“ spurði nýi fulltrúinn, sem sat þarna gegnt mér og bókaði. - „Ættu þær að greiðast með vísitöluálagi?“ spurði ég svona til þess að skemmta mér svolítið. „Það þyrfti ekki að vera,“ sagði hann. „Mikils virði eru þeim hverjar 10 krónurnar núna, þessum þjónum ríkisvaldsins,“ hugsaði ég. „Nei, alls ekki,“ svaraði ég fulltrúanum.
Þetta svar mitt heyrðu fógetarnir.
Þá hófst hljóðskraf milli bæjarfógetanna, og þó heyrði ég ávæning af því. Hinn nýi bæjarfógeti leitaði ráða hjá þeim fráfarandi. Hvað var réttast að gera gagnvart þessum sökudólg? - „Sættast við hann, sættast við hann, annað hefur aðeins meira illt í för með sér,“ heyrði ég, að hinn fráfarandi bæjarfógeti sagði. Þá lýsti Gunnar Þorsteinsson, bæjarfógeti, yfir því í heyranda hljóði að Bjarni Benediktsson (þannig orðaði hann það) hefði skipað sér að fá sem fyrst enda á þessa deilu, leiða hana til lykta. „Botninn er því hér með sleginn í mál þetta með því að stefndur greiði 60 krónur í réttarsætt.“
Ég tók upp ávísanaheftið mitt og skrifaði töluna 60 í reitinn efst til hægri á ávísanaeyðublað. „Nei, heyrðu, Þorsteinn,“ sagði hinn fráfarandi bæjarfógeti snöggt, eins og hann hefði allt í einu uppgötvað eitthvað sérlegt, sem hann hefði áður sett sér að muna, en gleymt nú um stundarsakir. „Heyrðu, Þorsteinn, það er málskostnaðurinn.“ - „Málskostnaðurinn?“ spurði ég undrandi. „Engan lögfræðing hef ég haft og engan lögfræðing hafið þið kostað.“ „Jú, málskostnað verðurðu að greiða,“ sagði hann. „Hver ætti hann svo sem að vera?“ spurði ég. „Hann má ekki vera minni en fimm krónur,“ sagði hann. Þá hló ég innra með mér, en það sýndi ég ekki á yfirborðinu þessari virðulegu samkundu til þess að særa ekki fráfarandi bæjarfógeta, sem ég bar virðingu fyrir. Ég vissi í huga hans, vissi, að málskostnaður verður að fylgja hverri málssókn eins og taglið merinni.
Með mesta alvörusvip skrifaði ég töluna 5 ofan í núllið og fyllti síðan ávísanablaðið út að fullu með þeirri hugsun að hnupla síðan ávísun þessari úr fylgiskjölum Sparisjóðsins og geyma hana vandlega til minja um einhverja allra hlægilegustu málsókn, sem ég get ímyndað mér að átt hafi sér stað í landinu. Síðan ber ég alltaf þakklætiskennd í brjósti til Fjárhagsráðs, prófessorsins, fyrir að setja þetta apaspil á svið og gefa mér þannig í elli minni tilefni til að skrá það. Og þarna var sjálft ríkisvaldið á ferðinni og þjónar þess í dýrð og mekt. Ég hins vegar vesæll þræll þeirrar hugsjónar að fá byggt hús yfir eina af uppeldisstofnunþessa sama ríkisvalds og fræðslustofnun.
Þetta blessað haust var lokið við að steypa gólfið í fimleikahús skólans. Einnig var öll miðhæð skólabyggingarinnar steypt upp. Mikið hafði á unnizt, þó að seint væri hafizt handa sökum þess, hve formaður Fjárhagsráðs tók sér seint hvíld frá störfum. Þegar á leið haustið, skorti okkur vissulega ekki vinnuaflið.
Satt að segja fannst mér eftir á, að okkur Sigfúsi bæjarfógeta hefði tekizt mæta vel að leika hlutverk okkar í þessu apaspili, sem prófessorinn hafði sett á svið að undirlagi eða áeggjan forustumanna andspyrnuaflanna í Vestmannaeyjum. Enda gnístu þeir tönnum og hugsuðu nú til bæjarstjórnarkosninganna, sem fram skyldu fara á næsta ári. Þá, þá, - ef til vill gæfist þá, eftir þau átök, kostur eða vald til að stöðva þessa „alóþörfu byggingarframkvæmd“, sem var framkvæmd á sama tíma sem togaraútgerð með milljóna tapi lamaði alla fjárhagsgetu bæjarsjóðs. Var þetta nokkurt vit ...?
Forustumenn andspyrnunnar í bænum höfðu frá upphafi baráttunnar gert byggingarmál skólans að pólitísku bitbeini. Frá mínum bæjardyrum séð hlutu því bæjarstjórnarkosningarnar 1950 að skera úr um framtíð byggingarframkvæmda skólans. Næðu andspyrnuöflin völdunum þá í bænum, þurfti ekki að spyrja um móðurhlýjuna eða örlætið til handa olnbogabarninu á heimilinu samkvæmt hinni „mörkuðu stefnu“ flokksins, því að mér flaug aldrei sú hugsun í hug að víkja úr stöðunni. Það hefðu verið svik við málstaðinn og hugsjónina.
Árið 1950. Síðasta kjörtímabilið (1946-1950) hafði Framsóknarflokkurinn í Eyjum ekki átt neinn fulltrúa í bæjarstjórn kaupstaðarins. Nú leyfðu félagar mínir mér að vera í baráttusæti á listanum, sem reyndar var 2. sætið, eins og komið var fylgi flokksins. Þar var „eldlínan“.
Svo fóru unaðslegir tímar í hönd: Kosningabaráttan.
Mörg voru framfaramálin ofarlega á baugi hjá okkur, en framtíð Gagnfræðaskólans og byggingarinnar öllu ofar í mínum huga.
Enn lifa í Eyjum þeir menn og þær konur, sem muna átökin miklu á framboðsfundinum 27. jan. 1950. Og svo rann kosningadagurinn upp.
Framsóknarflokkúrinn fékk tvo fulltrúa kosna í bæjarstjórn Vestmannaeyja, og bar með var Gagnfræðaskólanum tryggður sigurinn,með því að vinstri öflin báru gæfu til þess að sameinast um stjórn bæjarins næsta kjörtímabil.
Eftir þennan kosningasigur minn kom annað hljóð í strokk formanns Fjárhagsráðs. Nú lágu öll efnisleyfi á lausu til handa Gagnfræðaskólabyggingunni í Vestmannaeyjum. Engu var líkara, en að formanninum fyndist nú, að ég hefði fengið vald til að afráða, hverjir fylltu í framtíðinni flokkinn til hægri handar föðurnum, samkvæmt kenningum, þar sem hjörtun bærast undir sauðargærunum, og vafasamt gæti orðið, hvoru megin hann sjálfur fengi þá að vera eftir öll átökin!
Þó svo hefði verið um völd mín, þá hefði ég aldrei svift hann þar félagsskap timburkaupmanna og annarra sálufélaga. Nei, aldrei. Það vissi ég bezt af viðskiptunum við hann og Fjárhagsráð, að það er háskasamlegt að misnota vald sitt.- Sjálfum mér til handa hefði ég þá kosið að fylla flokk langskeggjanna til vinstri; þar eru eyru sæmst sem uxu, stendur þar.
Valdníðsla er viðurstyggð, og menn, sem neyta valds síns til þess að níðast á samborgurum sínum eða öðrum, eru mestu skaðræðismenn þjóðfélagsins.