Blik 1969/Endurminningar II. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. ágúst 2007 kl. 11:04 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. ágúst 2007 kl. 11:04 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Háseti gerir uppreisn; hann hýrudreginn

Í einum af fyrstu róðrunum, er ég var með bát þennan, fór ég suður með Heimaey og leitaði fisks á miði því, er Siggamið heitir. Við komumst brátt í nægan fisk. Sagði ég þá öðrum andófsmanni mínum, sem Auðunn hét, að renna, því að hinn andófsmaðurinn gæti haldið báðum árunum. Vestan kaldi var á. Hásetinn neitaði að renna færi sínu með þeim ummælum, að ég hefði víst sett sig í andófið til þess að andæfa. Þá sagði ég honum að andæfa einum, svo að Ólafur, en svo hét hinn andófsmaðurinn, gæti rennt. Þá kvaðst Auðunn ekki vera skyldur til að róa nema einni ár, enda kvaðst hann ekki róa með fleirum. Jafnframt kvaðst hann ætla að sýna mér, að hann gerði aðeins það, sem honum sjálfum sýndist. Kvaðst hann ekki sjá, að mér færist að gera mig stóran, þó að ég væri formaður með bátshorn þetta. Fleira sagði hann í líkum tón. Í róðri þessum fengum við 20 í hlut.

Þegar við fórum að skipta aflanum, kom stúlka til að hirða afla Auðuns, „draga hann úr Sandi“. Þá sagði ég henni, að Auðunn fengi engan hlut; hún gæti því farið heim.

Áður en skiptum var lokið, kom húsbóndi Auðuns og spurðist fyrir um það, hverju það sætti, að vinnumaður sinn yrði svo afskiptur. Ég sagði honum sem var, að Auðunn hefði ekki hlýtt forsvaranlegum fyrirskipunum og við liðið fiskitap sökum þess, enda gæti hann haft Auðunn sjálfur, - ég mundi ráða mér mann í stað hans.

Þegar hásetar sögðu hið sama um óhlýðni Auðuns, bað húsbóndinn mig að reyna hann einn róður enn, sem ég og gjörði.

Eftir þetta atvik var Auðunn boðinn og búinn til alls, er honum var sagt, enda sýndi hann aldrei hina minnstu óhlýðni upp frá þessu, meðan hann var með mér.

Með sexæringinn Ingólf vertíðirnar 1892, 1893 og 1894

Vertíðirnar 1892-1893 var ég formaður á skipi sem Ingólfur hét. Ólafur Magnússon í London smíðaði það og var einn eigandi þess. Þetta var sexæringur, og rérum við 14 á honum.

Fyrstu vertíðina (1892) fengum við 209 í hlut. Það var mjög rýr vertíð. Næstu vertíð (1893) fengum við 387 í hlut. Og þar næstu vertíð (1894) 420. Aldrei hrepptum við vont veður á Ingólfi þessar þrjár vertíðir.

Eins og ég gat um, þá fiskuðum við vel á Ingólfi báðar síðari vertíðirnar, eftir því sem þá taldist góður afli.

Þá ympraði Ólafur Magnússon á því við mig, hvort ég vildi ekki verða húsbóndi Auðuns og spurðist fyrir hjá sér formaður á stórum áttæringi. Hann gat þess, að svo legðist það í sig, að næstu árin yrðu aflaár. Nú vildi hann stækka Ingólf og gera hann að áttæringi, - stærsta áttæringi í Eyjum.

Ég leitaði nú ráða föður míns sem oftar, - spurði hann hvað hann legði til þessara mála. Hann latti mig mjög og sagði ýmsa formenn, sem hefðu fiskað vel á minni skip, aflað illa á þau hin stærri. Nefndi hann nokkur dæmi þessa. Þá óttaðist hann, að ég kynni ekki að stilla sjósókn minni í hóf, þegar ég væri búinn að fá eitt af hinum stærstu skipunum. Einnig ræddi ég þetta við ýmsa háseta mína, - mest við þá yngri, og hvöttu þeir mig eindregið til að taka tilboði Ólafs.

Nokkru síðar tjáði ég Ólafi í London það, að ég tæki tilboði hans um áttæringinn.

Nokkrum dögum eftir vertíðarlok (1894) byrjaði Ólafur á verkinu.

Með áttæringinn Ingólf, stærsta áraskipið í Eyjum, vertíðirnar 1895-1904 eða 10 vertíðir alls

Áttæringurinn Ingólfur var 25 fet (7,5 m) á kjöl. Millum stefna var hann 32 fet (9,6 m) og 11 feta (3,30 m) víður. Dýptin var 4-5 fet (1,20 -1,50 m) .