Blik 1969/Endurminningar Magnúsar á Vesturhúsum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. ágúst 2007 kl. 15:49 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. ágúst 2007 kl. 15:49 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

(Magnús Guðmundsson, bóndi og formaður á Vesturhúsum, skrifaði eitt sinn brot úr minningum sínum frá bernsku- og æskuárunum á Vesturhúsum, og svo minningar frá sjómennsku sinni og sjósókn, athöfnum á sjó og landi. Magnús Guðmundsson var einn af hinum þróttmiklu forustumönnum í sveitarfélaginu og atorkusömu á tímum nýbreytni og framfara, - tímum byltingar í atvinnumálum, hugsunarhætti og framtaki til aukinnar verkmenningar og betri afkomu, vaxandi fræðslustarfs og mennilegri aðbúnaði með Eyja búum í heild. Þessir kaflar úr sögu hans eru jafnframt kaflar úr sögu byggðarlagsins, svo langt sem þeir ná. Þess vegna eru þeir öðrum þræði birtir hér, endurprentaðir hér, en þeir birtust fyrst í blaðinu Víði á árunum 1933 og 1934. Ég hef skipt þessum skrifum Magnúsar Guðmundssonar í kafla og sett þeim fyrirsagnir. - Þ. Þ. V.)

Snemma beygist krókurinn

Ein hin fyrstu mynni mín frá bernskudögunum eru þau, að ég átti nokkuð margar öðuskeljar. Voru það vertíðarbátar mínir og hétu þekktum skipsnöfnum hér: Gideon, Auróra, Friður, Enok og yfirleitt öllum þeim nöfnum skipa, er í þá daga gengu til fiskjar hér á vertíðinni.

Þessa farkosti mína gerði ég löngum út á einhverjum polli eða bala. Þannig lék ég „stóru mennina“, sérstaklega formennina, sem ég leit upp til og bar mikla lotningu fyrir.

Ég hafði haft opin eyrun fyrir mörgum afreksverkum slíkra manna, bæði þeirra, er þá lifðu, og eins hinna, er dánir voru. Ég hafði heyrt sögur af snilldarstjórn, ráðsnilld og ratvísi þeirra, þegar ýmsar hættur steðjuðu að og veður voru válynd.

Þegar hagstæð voru veður og öll vertíðarskip á sjó, mátti ég helzt ekki vera að því að borða, því að allur hugur minn var úti á sjó hjá þessum vertíðarskipum. Sérstaklega var gaman að sjá þau koma í einum flota siglandi í austanvindi „undan Sandi“. Og við strákarnir hrópuðum svo hátt, sem við gátum, hver til annars, að þarna kæmi Gideon, - þarna Friður, eða þá eitthvert annað skip, - og „hlypi langt fram úr hinum“. Aðrir sögðu, að Aurora og Enok „hlypu“ mest o.s. frv. Annars var það skipið, sem faðir hvers og eins okkar strákanna var á, mesta uppáhaldsskipið. Þegar skip það, sem faðir minn réri á, kom að, fékk ég að færa honum kaffi. Það var kallað í mæltu máli, að „fara í Sandinn“. Ég hlakkaði til þess allan daginn, því að „niður í Sandi“ var margt skemmtilegt að sjá, t. d. þegar sjómennirnir voru að seila fiskinn úr skipunum. Stundum unnu 12 sjómenn við að seila úr einu skipi. En hvað þeir óðu djúpt við skipin, alveg upp í mitti! Og svo, hvernig þeir bökuðu skipin við setningu ! Sjá allt kvenfólkið um allar klappir og stíga við að draga fiskinn „úr Sandi“ upp að króm. Hver þeirra dró tvo fiska í hvorri hendi á þar til gerðum krókum. - Já, þarna var líf og fjör og gaman að vera, - já, ólíkt skemmtilegra en að vera heima undir strangri stjórn, - stundum „fyrir rétti“, þegar eitthvað var að hafzt, sem eldra fólkinu líkaði ekki.