Blik 1980/Andstæðingar Stalinismans í Vestmannaeyjum
Þessi mynd er um það bil 50 ára gömul. Hún er af virkum andstæðingum Stalinismans í Eyjum og „Félaga Stalins“. - Aftari röð frá vinstri: Þ.Þ.V., Árni Johnsen, Guðmundur Helgason, Heiðardal. - Fremri röð frá vinstri: Guðmundur Sigurðsson, verkstjóri, Heiðardal, Guðlaugur Hansson, verkamaður, Fögruvöllum, og Eiríkur Ögmundsson, útgerðarmaður, Dvergasteini.
Guðmundur Sigurðsson, Guðlaugur og Eiríkur áttu merkan þátt í sögu verkalýðsbaráttunnar í Vestmannaeyjum. Þeir voru forgöngumenn um stofnun Verkamannafélagsins Drífanda árið 1917. Og árið 1920 beittu þeir sér fyrir stofnun kaupfélags til hagsbóta verkalýðs heimilunum í kaupstaðnum. Það var Kaupfélagið Drífandi.
Fram undir árið 1930 voru þessir menn í fararbroddi í þessum félagasamtökum verkalýðsins til sjós og lands í Eyjum.
Um 1930 mynduðu nokkrir menn í Eyjum með sér pólitísk samtök innan Verkamannafélagsins Drífanda. Þeir kölluðu sig „Félaga Stalins“ og kenndu sig þannig við einvaldann í Rússlandi, sem síðar reyndist ,„morðinginn mikli“.
„Félagar Stalins“ náðu um tíma því bolmagni í Verkamannafélaginu Drífanda, að þeir megnuðu að fá þar samþykkt fyrir því á skyndifundi félagsins að reka þessa sex andstæðinga sína úr Verkamannafélaginu. Sú samþykkt leiddi til dauða Verkamannafélagsins Drífanda.
(Sjá grein mína í Bliki 1976, bls.13-44, og grein mína í Morgunblaðinu 13. maí 1977.Þ . Þ. V.)