Blik 1967/Jónas skáld Þorsteinsson, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 18. júlí 2007 kl. 15:39 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 18. júlí 2007 kl. 15:39 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Sem áður í veikindunum er það trúin, trúarneistinn, sem sendir eilitla skímu inn í sálarlífið.
Sumarið 1897 tók Jónas Þorsteinsson að hressast á ný, svo að af honum brá þunglyndið endur og eins. Í ágúst skrifaði hann Jóni mági sínum ljóðabréf.
Þar bregður enn fyrir ömurlegu sálarástandi:

Raunakliður magnast minn,
mig ég niðurbeygðan finn.
Dofna liðir, daprast kinn;
dauðann býð ég velkominn.
Hjartað dofið helzt af sting
hægt mun sofa í moldarbing,
þegar ofar aldahring
andinn lofar friðþæging.

Svo sem greint er frá í Bliki 1963 (bls. 171) fluttist Högni Sigurðsson, sonur Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra í Vestmannaeyjum, austur í Norðfjörð, er hann hafði lokið gagnfræðaprófi í Flensborgarskóla. Í Norðfirði dvaldist Högni 5-6 ár og stundaði sjósókn og fleira á sumrum og barnakennslu á vetrum.
Högni Sigurðsson og Jónas Þorsteinsson kynntust í Norðfirði. Högna gazt vel að gáfum Jónasar. Sjálfur var Högni skáld og kunni vel að meta vel kveðna vísu.
Þegar Jónas skáld raknaði smám saman úr sinnisveikisrotinu 1896-1897, naut hann hjálpsemi og mannlundar Högna Sigurðssonar og vinarhlýju hans. Högni tók Jónas Þorsteinsson til sín og leyfði honum húsrými hjá sér. Kærleikslund Högna og næmur skilningur á sálarveilu skáldsins hafði þau áhrif á sjúklinginn, að hann hresstist dag frá degi, sálarlífið styrkist. Hann tók að sannfærast um það á nýjan leik, ,,að lífið er ljós," þar sem „helgunar andi" lýsir og vermir.
Sömu hugarhlýjuna auðsýndi kona Högna, Sigríður Brynjólfsdóttir, hinu sjúka skáldi, eftir að hún giftist Högna Sigurðssyni. Síðan urðu þeir Jónas og Högni Sigurðsson aldavinir, meðan báðir lifðu.
Og nú yrkir skáldið Jónas Þorsteinsson í öðrum tón, eftir að hafa notið sálarhlýju Högna Sigurðssonar um sinn:

Nú finn ég í sálinni megin og mátt
og mæni í heiðbláan geiminn,
því guðsharpan spilar mér glimjandi hátt
á gullnótur unaðarhreiminn.
Í ,,telefon" geislanna talar ei fátt
um trúaðra vonar lífs heiminn.
Þar lýsir og vermir sem ljómandi sól
vor lífgjafi, helgunar andi,
við heilagan Sebeots hátignarstól
á himnesku sælunnar landi,
og útvaldir gleðjast við endalaus jól
í eilífu kærleikans bandi.
Um milljónir veralda fræðist ég fús
með frjósaman lífs-akurgróða,
vors himneska föðurins fjölbyggða hús
af fylkingum alheimsins þjóða,
með nægtirnar eilífu náttúru-bús,
sem næringu lífinu bjóða.
Ég sannfærist um það að lífið er ljós,
sem lifir í duftinu kalda,
það má hina indælu mynda sér rós
og margbreyttum líkömum tjalda,
Þess gullstraumar þannig um aldanna ós
að eilífðardjúpinu halda.

Jónas Þorsteinsson hirti oft lítið um kvæði sín. Krotaði þau stundum á laus blöð, þegar svo bar undir og sendi þau síðan Högna. Högna var það ljóst, að slíkt hirðuleysi mundi leiða af sér algjöra tortímingu á kveðskap Jónasar skálds, vinar hans. Þeir bundu það fastmælum, að Jónas skyldi senda Högna öll kvæði sín. Gegn því heiti skuldbatt Högni sig að skrá kvæðin í sérstaka bók og varðveita þau þannig. Þetta gerði Högni trúverðuglega. Handritið er skráð með snilldarhendi Högna sjálfs. Þetta kvæðahandrit afhenti síðan Högni Sigurðsson þeim, sem þetta skrifar, nokkru áður en hann lézt. Það er heimildin fyrir mörgum þeim kvæðum skáldsins, sem hér eru birt.

Þegar Högni Sigurðsson og fyrri kona hans, Sigríður J. Brynjólfsdóttir giftu sig (1. marz 1899), orti Jónas Þorsteinsson þetta kvæði ,,til brúðhjónanna Högna Sigurðssonar real. stud. frá Vestmannaeyjum og Sigríðar J. Brynjólfsdóttur."

Þú himnadrottning, heilög ástardís!
Þig hjarta mannsins verndarengil kýs.
Þú hefur svifið svalt um jarðarskaut,
og sigurljóma slær á þína braut.
Þú sameinaðir heiminn himnadýrð.
Þú huggar, græðir, hirnnakrönsum býrð.
Í dufti foldar dáð sem litla ber
þinn drottinlegi helgidómur er.
Þú hefur norna-sáru sverðin deyft;
að sigurhæðum þér er bjargið kleift;
og örugg vóðstu vafurloga þrátt
á vinarfund með sterkan kærleiksmátt.
Þú hjörtun græðir heilags anda náð,
og helgan styrkir veikan lífsins þráð;
þú hefur vanið mjúka móðurhönd
og manns og konu ofið tryggðabönd.
Þú hefur fundið frjóvan akur hér,
sem friðarblóm og dyggðarhveiti ber.
Í þessum hjónahjörtum vertu sterk.
Ég heiti' á þig að gjöra kraftaverk.
Ég heiti' á þig að snúa vatni í vín,
sem verði hjá þeim augljós dýrðin þín,
að þúsundfalda þeirra daglegt brauð,
og þeim að græða himins náðar auð.

Þeir stunduðu sjó saman, Högni og Jónas, og reru þá oft með handfæri. Eitt sinn var eins og Jónas gerðist kraftaskáld, er þeir Högni voru á færum á grunnmiði einu úti af Norðfirði. Sólskin og sumarblíða umlék þá vinina og hugurinn hvarflaði meir að skáldskap en „þeim gula." Þá hvetur Högni vin sinn til að yrkja erindi og krækja með því lúðu á krók Högna. Og skáldið orti:

Dragðu flyðru úr flæði,
feita, sem má heita
munnum ljúfa manna.
Mikið verði spikið.
Svinnur þá mun svanni
sýna dóttur þína
væna eftir vonum,
veit ég Gerða heitir.

Næstelzta barn Högna og Sigríðar var þá nýskírt, er þetta gerðist, stúlkubarn, sem hét Ágústa Þorgerður. Tæpast mundi þessi frásögn hafa lifað, svo lítil sem hún er, ef ekki hefði undrið átt sér stað þá þegar, sem sé það, að Högni dró stóra og feita lúðu rétt eftir að erindið var kveðið.

Sigríður Brynjólfsdóttir, kona Högna Sigurðssonar, reyndist Jónasi Þorsteinssyni umhyggjusöm og hjartahlý. Hún eins og maður hennar fann til með einstæðingnum auðnulitla. Skáldið kunni að meta mannlund hennar og drengskap og vildi svo gjarnan vera maður til að launa henni að einhverju leyti allt það, sem hún hafði honum vel gjört. Skáldið kvað til hennar vel gerða vísu:

Ég til knúður yrki óð
um þig, skrúða lilja,
hugumprúð og hjartagóð,
Högnabrúður vangarjóð.

Vísa þessi mætti gjarnan lifa með afkomendum hjónanna Sigríðar Brynjólfsdóttur og Högna Sigurðssonar hér í Eyjum og víðar.

Árið 1882 flyzt Færeyingur nokkur frá heimkynnum sínum þar ytra til Íslands og gerist vinnumaður í Hellisfirði. Sá hét Þorkell Joensen. Hann mun hafa verið fæddur 1850.
Árið 1885 er Færeyingur þessi setztur að í Norðfirði og átti síðan heimili sitt þar á Nesi um tugi ára. Ég minnist hans þar á fyrsta tugi aldarinnar, en ekki er mér enn kunnugt, hvenær hann lézt.
Sumarið 1899 reru þeir saman til fiskjar á tveggjamannafari Jónas skáld og Keli Færeyingur, eins og hann var jafnan nefndur í daglegu tali.
Þorkell var gamansamur og hrókur alls fagnaðar, þegar hann vildi það við hafa. Jónasi skáldi þótti gott með honum að vera, því að hin létta lund Kela og spaugsyrði létti sálarlíf Jónasar.
Frá þessum samstarfsstundum þeirra um sumarið er hin alkunni húsgangur í Norðfirði, eða var það a. m. k. þegar ég óx þar úr grasi:

Það ber þó til ég segi satt,
samt þó kunni að ljúga,
en úr honum Kela aldrei datt
orð, sem mátti trúa.

Oft kvað Keli þessa vísu Jónasar og hló hjartanlega, því að honum þótti auðheyrilega vænt um hana. Hann kunni að taka lífinu létt og rétt, gamli maðurinn.
Á þessum árum stunduðu margir Færeyingar sumarútgerð á Nesi í Norðfirði, reru þaðan á litlu og rennilegu árabátunum sínum með línu og færi. Margir kynntust þeim að góðu einu og þeir voru mikils metnir sjómenn og fiskimenn. Við kynningu þessa vaknaði þrá sumra til að dveljast í Færeyjum um lengri eða skemmri tíma. Svo var það með Jónas skáld Þorsteinsson.
Það varð úr, að hann fór til Færeyja líklega haustið 1899, þegar Færeyingarnir hurfu heim það haust. Þar dvaldist Jónas til sumarsins 1904 eða í 5 ár.
Þegar Jónas skáld var ferðbúinn til Færeyja, sendi hann kunningja sínum þessar vísur:

FERÐBÚINN TIL FÆREYJA
(Úr bréfi til kunningja)
Frá Íslandi fer ég og álít það synd,
svo óhappanornum að freista.
Ég hef ekki konungsins hátignarmynd,
og hvað er þá gæfunni að treysta.
Ég flana þar staflaus á flughálum ís,
og finn þó ég stofna mér vanda.
Ég býst enda við því mér bani sé vís,
en ber mig í guðsnafni að standa.

Þegar landið hvarf í sæ á leið til Færeyja, orti skáldið þetta kvæði og sendi Högna Sigurðssyni vini sínum í Norðfirði:

Á LEIÐ TIL FÆREYJA, ER ÍSLAND HVARF Í SÆ:
Fjallagyðja á fannastól,
fóstran, sem ég trega,
sittu nú við segulpól
signuð eilíflega.
Þegar ljóssins leiftur blíð
loga á þínum fönnum,
engin gyðja er svo fríð
í öllum guða rönnum.
Hjá þínu skarti hól sem hlaut
hreint svo enginn trúði,
klerka skrúði og konungsskraut
er kotungs amalúði.
Þú átt margan þrekinn björn,
þolinn böl-við-skara,
og hróðrarsvan á hverri tjörn, -
heimsins forsöngvara.
Þinna sona frægðin fer
fram með hrósi ríku,
þess er getið, gjört sem er, -
gleði er þó að slíku.
Ef mín skammvinn ævi dvín
úti' í stútungslöndum, -
blessuð dragðu beinin mín
brátt að þínum ströndum.
ÚR LJÓÐABRÉFI TIL HÖGNA SIGURÐSSONAR, NORÐFIRÐI, SENT FRÁ FÆREYJUM 1901
Högni minn, ég heilsa þér
hjartanlega glaður.
Andinn til þín sveiflar sér,
sá er óhindraður.
Hér er kynja sýn að sjá,
sem mun dável skarta;
rauðan pappír rita ég á
rúnaletrið svarta.
Að því leyti efnin góð
eru til og fengin;
Liti fala lætur þjóð,
en ljóðagáfu enginn.
En ég lengur ekki hem,
alla gengna úr skorðum,
munnhörpuna mína, sem
mér gaf Iðunn forðum.
Mikill skaði það er þó
þegni vilja knúðum,
því hér er yrkisefni nóg
eins og hang á f1úðum.
Fróðlegt væri um Færeyjar
og fólkið ljóð að syngja.
Mig þess hindra hörmungar,
hugans flug, sem þyngja.
Sætur (stúlkur) skarta á Suðurey,
samt þó helzt í Vaagi;
sýnist mér þar sérhver mey
svo sem friðarbogi.
Fjólan lúta feimin má
fyrir klæðasólum,
þeim, sem ganga glenntar á
glæstum silkikjólum.
Fátt og smátt ég fróðlegt kann
fréttaþáttinn prýða.
Dreifir ljóma á dálkinn þann
dýrðleg sumarblíða.
Ekkert frost og engan snjá
uppi á fjalli sjáum;
það er sumarsvipur á
sumarlandsins stráum.
Fiskilítið er hér enn,
og ákaft vindar korra,
en það spá því allir menn,
að aflist vel á þorra.
Það, sem nefna þegnar Gjá
það er skammt frá Eyde,
virðar sigldu vörum frá
valið óskaleiði.
Heillir reyna hvals um stig,
höfðu lund ótrega;
beittu króka og báru sig
bara veiðilega.
Eftir því sem utar dró
æstust vindaköstin;
svölu löðri á seggi spjó
sollin straumaröstin.

Hér er lítið heimskum kennt,
hafi þeir vilja og næmi.
Færeyinga félagsmennt
fagurt gefur dæmi:
Tek ég sögn úr Trangesvaag:
Tengdafeðgar einir
kærleiksbinda kunnu tog
kappar lyndishreinir.
Ólund fann þá eins og mig,
einn sem hími löngum,
svo þeir fengu sálaslig,
sárir kvaldir öngum.
En þeir héldu saman samt,
sorgum létta vildu;
þeim var orðið það svo tamt,
þeir að aldrei skildu.
Lagsmenn tala lengi tveir
launung sinna ráða,
svo í eining sömdu þeir
sig að hengja báða.
Karskir hertu kappar þor,
kvíða dauðans hrundu,
síðan snöru sína hvor
á sama strenginn bundu.
Ýmislega um sig meir
eftir þörfum laga;
síðar spyrtir sáust þeir
síðan hanga á snaga.
Hverfa lét þeim harmaland
heljar væri blundur;
þá var fáséð bræðraband
bráðast skorið sundur.
Listum tamin læknishönd
lífga báða kunni.
Mikið vísdóms mettuð önd
Mímis drakk af brunnni.
Helzt við óð ég hýrga móð.
Hvað þig, bróðir, minnir?
Eyjaþjóðin er mér góð.
Ei þó ljóðum sinnir.
Á kvenpalli er ég hér
einatt ,,valla" hljóður.
Blíðu alla bjóða mér
bröndólfs-salla-tróður.
Lengi tíðum ligg ég við
loftkastala að byggja.
Það er mesta þrekverkið
þurra ketið tyggja.
Stundum þá ég styn óvart,
styð við kinn og segi:
Ætli það verði aldrei bjart
á ævi minnar degi?
Þótt ég láti buna blóð
bitur harma skeyti,
aldrei samt ég missi móð
minn að öllu leyti.
Fyrirgefðu veikan vin
vísnasmíðið stirða.
Öll mín veiztu álögin
og þau kannt að virða.

Hugann ekkert hefur fest,
heim á klakann fer 'ann.
Þangað klárinn þráir mest
þrátt sem kvalinn er hann.
Ísafoldar er ég barn,
og það vil ég sýna.
Skrifa þú á hennar hjarn
hjartans kveðju mína.
MINNI FÆREYINGA
Ég fór að skoða Færeyjar
og fólkið hjartaprúða,
á meðan kaldur vetur var
að velkja jarðarskrúða.
En landsins tign er ætíð eins,
og andleg þjóðarblómin
sig skrýða gulli' í skauti steins,
þó skyggist sólarljóminn.
Það andans gull er orðið reynt
í eldi mannraunanna;
að það sé bæði bjart og hreint,
hin beztu vitni sanna.
Þar skyggði fagra frelsissól,
þó fögnuðu ekki blómin.
Og bak við okurs blakkan pól
enn blossar sigurljóminn.
Það barið var í börnin smá
að buldra dönskuþvaður,
og klerkur guði kynnti frá
sem Kaupinhafnarmaður.
Þau héldu mál sitt helgidóm
og heiðursöld því spáðu.
þau geymdu orð í góðum hljóm
og guð sinn með þeim báðu.
Þar hetjuæð rann í höldasveit,
sem hermir sagnaletur;
hún streymir enn svo sterk og heit,
að steinninn viknað getur.
Því lifir þrek og lifir mál .
og lifir hetjuandi,
að viljans ekki stökkt er stál
og sterkt í félagsbandi.

Hinn 28. febr. 1896 lézt Valborg Jónsdóttir, systurdóttir Jónasar Þorsteinssonar, þá 19 ára gömul. Hún var dóttir hins góðkunna manns á Nesi í Norðfirði, Jóns Davíðssonar frá Grænanesi, og konu hans Guðrúnar Þorsteinsdóttur systur Jónasar skálds. Guðrún hafði legið í rúminu í 12 ár í sinnisveiki, er dauða dótturinnar bar að höndum.
Þegar Jónas skáld frétti andlát systurdóttur sinnar, kvað hann:

Lifna blóm og líða böl,
ljósið dagsins eygja,
fljótt svo enda feigðardvöl,
fölna, hníga og deyja.

Svo gefur skáldið sér stund til að hugleiða kynni sín af þessari ungu frænku sinni, - sálarlífið, manngerðina. Sálin hennar var sumarrós, sem þoldi ekki vetrarhregg jarðneska lífsins, - laukur ættar sinnar og líknarhönd sjúkrar móður. Skáldið kveður í nafni móðurinnar:

Horfin er úr haga rós,
hel á köldu grúfir beði;
henni veittist himnesk gleði,
því hún æðra þráði ljós.
Blómgast hún í betri heim,
þar sem dýrðarljósin ljóma
lífsins yfir fögrum blóma,
sorgum fjær í sælugeim.
Minnar ættar bezta blóm
burtu hafið, syrgja má ég.
Fátt til gleði eftir á ég.
Þungum vægðu, drottinn, dóm.
Gef mér huggun, gleddu sál,
geymdu hana, sem ég þrái;
veit þú hennar fund ég nái,
þegar lýk ég lífsins skál.
Liðna systir, þökk sé þér;
þú mitt dapurt sinni gladdir.
Liðins tíma ljúfar raddir
ljóma það í hjarta mér.
Hörpu minnar heimur skal
birta ást í brjósti mínu,
blíðri rós á leiði þínu,
meðan gróa grös í dal.
Sálin þín var sumarrós,
sem ei vetrarhreggið þoldi,
það var kröm á þjáðu holdi,
hennar eilíft hæfði ljós.
Lífsins faðir líknarhönd
þér í dauðans þrenging rétti,
þjáninganna byrði létti;
hóf þig svo í himins lönd.

Og systir Jónasar, móðir stúlkunnar, er að örmagnast undir sorgarbyrðinni, sem er þyngri en allt annað, er fyrir var. Sjúkur sjálfur reynir Jónas skáld að létta byrði systur sinnar með því að yrkja saknaðarljóð í hennar nafni.

Þú þekkir einn, drottinn, minn þungbæra kross,
og þú hefur gefið mér dýrmætast hnoss
í ástvina tryggustu aðstoð og trú,
því alvís og líknsamur faðir ert þú.
En nú hefur slokknað mitt ljúfasta ljós,
því lífsins af akri er horfin mín rós.
Ég vökvaði hana, þá vorsólin skein;
nú væti ég tárum þá fölvuðu grein.
Æ, dáin, æ, horfin er dóttir mín kær,
ó, drottinn, þú veizt, að mig harmurinn slær.
Æ, réttu mér hönd þína, reistu mig nú,
ég reiði mig á þig í lifandi trú.
Þú sendir mér hana á hættunnar tíð,
og hún var mér engill og létti mér stríð,
með gleðjandi alúð og hjúkrandi hönd,
unz hana þú kallaðir nauða frá strönd.
Þó orpinn sé duftinu andi minn hér,
hann út yfir takmörkin hverfleikans sér;
og hjá henni gleður sig hugurinn því
með hersveitum englanna sælunni í.