Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Alltaf lélegur sportveiðimaður
Sigurgeir Jónsson:
Ég hef alltaf verið lélegur sportveiðimaður
Sigurjón Óskarsson, aflakóngur og Íslandsmethafi, tekinn tali
Sigurjón Óskarsson og áhöfn hans á Þórunni Sveinsdóttur Ve 401 urðu aflahæstir á liðinni vetrarvertíð eins og flestir munu vita. Ekki bara hæstir í Eyjum, heldur yfir allt landið, komu með að landi 1917 tonn af fiski og slógu þar með Íslandsmet. Að auki urðu þeir þeirrar gæfi aðnjótandi að bjarga skipshöfninni af Nönnu VE þegar báturinn sökk út af Vík í Mýrdal í vetur. Sannarlega vel að verið.
Sigurjón er á góðri leið með að verða goðsögn í lifanda lífi. Einhverjir myndu sjálfsagt hreykja sér á stall af slíkum afrekum; en ekki Sigurjón, hann virðist taka því rétt eins og daglegu brauði að koma á land nær tvö þúsund tonnum á vertíð og bjarga einni skipshöfn úr sjávarháska. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem hann verður aflahæstur á vertíð og ég minnist þess í tvígang fvrir nokkrum árum þegar ég æskti þess að spjalla við hann fyrir Sjómannadagsblaðið, sem fiskikóng á vertíð, að hann eyddi því tali. ,,Það er alltaf verið að kjafta við mig, fólk er ábyggilega orðið hundleitt á mér. Talaðu heldur við karlinn hann pabba eða hann Matta Sveins, það er miklu nær." Svo var og gert í bæði skiptin. En að þessu sinni voru Sigurjóni engin grið gefin, þegar Íslandsmet eru slegin fá menn ekki að standa stikkfrí.
Því sótti ég Sigurjón heim nú um miðjan maí og rabbaði við hann stutta stund yfir kafíibolla og mvndbandsspólu sem hann tók í vetur þegar sá ágæti ljósmyndari Sigurgeir Jónasson skrapp með í róður.
Þar var m.a. fest á filmu frækileg viðureign ljósmyndarans við heljarmikla löngu og mátti um tíma ekki sjá hvor hefði betur. Það er svo önnur saga sem ekki verður rakin hér enda ætlunin að ræða við liskikóng Vestmannaeyja 1989.
-Hvernig tilfinning var það að slá metið?
Það var bara skemmtileg tilfinning. Þetta met hans Hilmars var búið að standa lengi. Eg hitti Hilmar reyndar á balli í vetur og hann sagði við mig að það væri nú kominn tími til að slá það. Svo hringdi hann í mig þegar við fórum yfir það og óskaði mér til hamingju.
-Varstu á gamalkunnum slóðum með netin í vetur?
Við byrjuðum austur við Hornafjörð og við Ingólfshöfðann og þar hef ég aldrei verið með net áður. Það var alveg þokkalegt til að byrja með en mikil ótíð sem hamlaði veiðum fyrrihlutann. Megnið af okkar afla á þessum tíma fór út í sámum. Svo reyndi ég í Bugtinni og í Kantinum og það kom ekkert sérstakt út úr því. Fyrriparturinn af vertíðinni var ekkert sérstakur hjá okkur. Svo lærðum við okkur af Kötlugrunninu, rétt eftir að Nanna fórst, vestur af Surti og þar var mjög gott að hafa af ufsa. Þetta var svona snagafiskirí, stuttar trossur og krosslagt. Og eftir páska fórum við austur í Kant og lögðum þar í holuna hans Sigga þrjár trossur og hitt á Kötlugrunnið. Og þarna var mikill fiskur, maður var alveg hissa á þessu á hverjum morgni, alltaf bunkað, sérstaklega á þessum árstíma. komið fram í maí og þá hefur nú venjulega verið farið að tregast. En fiskurinn er smærri núna og það á sínar eðlilegu skýringar, við erum með smærri riðil. Það er svo aftur spurning hvort það er rétt stefna, ég er efins í því en hitt er annað mál að við náum ekki góðri vertíð öðru vísi.
-Var þessi vertíð erfiðari en undanfarin ár?
Já, tíðarfarið var langtum verra. Oft hrein aftakaveður. Ég man ekki eftir því fyrr að maður hreinlega ætti í erfiðleikum með að ná netunum um borð í bátinn, þyrfti svo að fara í land og bíða í nokkra daga eftir því að lagði. En þetta gerðist í vetur, alveg einstok ótíð. Ég man eftir því þegar loðnubátarnir voru þarna fyrir austan að þeir áttu í vandræðuni með að komast heim vegna veðurs. Mönnum stóð bara ekkert á sama þá, slíkt var veðrið.
-Það þarf tæplega að spyrja þig um minnistæðasta atvikið á vertíðinni?
Nei ætli það. Það hverfur flest í skuggann líka því að bjarga mannskapnum á Nönnu. Dálítið merkilegt að vera með netin þarna á Kötlugrunninu þegar þetta gerðist, venjulega hef ég verið með þau austur í Bugt á þessum tíma. Það var ekki búið að ganga neitt sérstaklega hjá okkur fram að þessu en eftir þetta fór virkilega að ganga vel. Jú, ég held að þetta komi til með að standa upp úr þegar meður rifjar upp vertíðina. Og þó að einhver met hafi verið slegin þá finnst mér það léttvægt móti því.
-Það er harðneskjulið um borð hjá þér?
Já, öðruvísi væri þetta ekki hægt. Sumir búnir að vera í fjölda ára og aðrir komnir aftur sem voru með mér fvrir mörgum árum. Auðvitað hljóta menn að verða þrevttir, annað væri óeðlilegt, þetta er púl, það er ekki hægt að segja annað. Þeir verða líka svolítið órólegir sumir þegar fer að líða að sauðburði og það er eðlilegt þegar sveitamenn eiga í hlut. En þetta er líka búið að vera spennandi seinni partinn, sérstaklega þegar metin voru slegin og mannskapurinn tekur auðvitað þátt í þeim spenningi með manni.
-hvaða veiðiskapur tekur nú við?
Við föruni á dragnót í sumar, síðan á síld. Og einhvern tíma þarf svo að taka bátinn í slipp á tímabilinu. Ég er ekki sammála þeim röddum sem heyrast um skaðsemi dragnótarinnar. Ef rétt er að staðið er þetta langt í frá hættulegt veiðarfæri enda eru svæðin ekki svo mörg sem hægt er að vera á við veiðar. Það verður seint sem við útrýmum þorski og ýsu með dragnót. En sjálfsagt væri hægt að ganga nærri kolastofninum með henni. Málið er að skipuleggja þessar veiðar vel og hleypa ekki of stórum flota á þær.
-Hvernig ver Sigurjón Óskarsson frístundum sínum?
Þær eru svo sem ekki mjög margar og mikið af þeim fer í alls kyns snöfl kringum bátnm. En ég fer í mín sumarfrí eins og aðrir, ferðast mikið, hef farið í eina heimsreisu og nokkrum sinnum á sólarstrendur. Svo hef ég farið nokkrum sinnum í veiðiskap í læk austur við Kirkjubæjarklaustur. En ég er ekki nokkur sportveiðimaður, ég er sennilega allt of latur til þess. Konan er langtum drýgri í þeim veiðiskap en ég. Ég er lélegur í allri sportveiði, hef aldrei farið í úteyjar til veiða. Einhvern tíma á síld fórum við í land í Grímsey til að veiða lunda og árangurinn varð nú ekki meiri en sá að þeir sem við veiddum flugu allir burt, við kunnum ekki að snúa þá úr. Og skotvopn eru aldrei um borð hjá mér enda er mér illa við að verið sé að hrekkja fuglana.
-Lestu mikið?
Nei, það er ekki hægt að segja. Aðallega aflaskýrslur og fiskifréttir. Jú, jólabækurnar les maður. En ég er enginn lestrarhestur.
-Hlustarðu á tónlist?
Já, já, ég er alltaf með útvarpið á og þá aðallega léttari tónlist. Mér finnst gaman að íslenskri tónlist, rokktónlist. Svo hef ég afskaplega gaman af að dansa, veit fátt skemmtilegra en fara á ball og fá mér snúning og geri það eins oft og ég get. Ég meira að segja dansa stundum við sjálfan mig í brúnni, það gengur oft vel að halda sér vakandi þannig.
-Og alltaf án áfengis?
Já, ég er enginn nautnamaður, rétt að ég get klárað hálfan bjór. Ég setti mér þetta einhvern tímann ungur að hafa þetta svona og það hefur haldist.
-Ertu mikill heimilismaður í þér?
Ekki ætla ég að hrósa mér af því. Já, ég dytta að því sem þarf að gera, mála sjálfur það sem þarf að mála, slæ blettinn og tek þátt í öðrum vorverkum. Ha, jú, jú, ég vaska upp líka. Eftir að konan fór að vinna úti finnst mér það sjálfsagt að taka þátt í heimilisverkunum, finnst það eiga að vera þannig. En ef hún vinnur ekki úti, þá vil ég líka láta stjana í kringum mig.
-Ertu áhugamaður um íþróttir?
Það er nú það. Ég var talsvert í íþróttum sem peyi og hafði gaman af því. En ég er mjög ósáttur við þá íþróttapólitík sem sums staðar er rekin í dag. Margir strákar eru til dæmis ágætir íþróttamenn og hafa gaman af að göslast á bryggjunum líka, fara svo á sjóinn. Og mér sárnaði þegar ég heyrði að sagt var við þjálfara sem hér var að það þýddi ekkert að vera að eyða tíma í þessa stráka, þeir færu nefnilega á sjó. Ef andinn er sá í íþróttahreyfingunni að þeir krakkar, sem eitthvað tengjast sjó, eigi ekkert erindi í hana og skuli sniðgengnir, þá hef ég ekki áhuga fyrir slíku, hvað þá að ég fari að styrkja það fjárhagslega. Svo finnst mér eins og áhugi og metnaður hafi farið minnkandi í íþróttum, eins og menn nenni ekki lengur að leggja að sér eins og áður var. Sjáðu bara, við á Þórunni vorum að slá Íslandsmet og urðum að leggja hart að okkur við það, það gildir sama um það og fótbolta eða aðrar íþróttir, það þýðir ekki að hlaupa út í bæ og heimta hlutina af öðrum, menn verða að leggja eitthvað á sig til að ná árangri.
-Hvernig líst þér á framtíðina?
Mér líst bara vel á hana. Ég er mest hissa á því, í sambandi við þorskstofninn, hvað mikið við getum veitt, miðað við það hvað mér finnst vera lítið af stórum fiski á þessum hefðbundnu slóðum. Það er mörgum spurningum ósvarað um það. En ég held að hrygning og klak hafi tekist vel í vetur, sjórinn var heitari, það var meiri gróður á baujunum en oft áður svo ég held að skilyrðin séu í lagi. Raunar finnst mér oft að menn séu heldur mikið að hugsa um eigin hag í fiskveiðum í stað heildarhagsmuna. Smábátaeigendur vilja t.d. láta friða allt hér í kring án þess að láta nokkuð á móti. Sama er að segja um trollarana og allir kannast við togstreituna milli togveiða og netaveiða. Þarna eru menn að hugsa um eigin hagsmuni og hagsmunir heildarinnar líða fyrir það. Það væri gott ef þetta breyttist.
-Og nú tekur þú við silfurskipinu á sjómannadag í 11. sinn?
Nei, nú ætla ég að afþakka það. Það er gott og ágætt að slá met þegar maður getur það og hefur aðstæður til þess. En mín tillaga er sú að verðlaunaskipið verði geymt í byggðasafninu meðan við fiskum eftir kvótakerfi. Menn eru ekki að fiska á jafnréttisgrundvelli meðan það er í gildi. Menn voru að taka netin upp í apríl í mokfiskiríi af því að þeir voru búnir með kvótann. Við gátum aftur á móti haldið áfram af því að við höfðum stærri kvóta og þá er ekki lengur um jafnrétti að ræða, menn eiga ekki að fá verðlaun með forgjöf. Af þeim sökum ætla ég ekki að taka á móti skipinu á sjómannadaginn. En þann dag sem allir standa jafnir að vígi, verður ekkert því til fyrirstöðu að keppa á ný.