Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Vertíðarspjall. Vetrarvertíðin 1973 og 1974

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. maí 2019 kl. 20:48 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. maí 2019 kl. 20:48 eftir Valli (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Vertíðarspjall


Vetrarvertíðin 1973 og 1974


Loðnulöndun í skugga gjósandi eldfjalls vetrarvertíðina 1973.

UNDANFARIN ár hefur verið venja að hafa hér stutt spjall um liðna vetrarvertíð og gefa þá yfirlit um gang vertíðarinnar, aflabrögð og nýtingu aflans.

Að þessu sinni eru tvær vertíðir liðnar síðan Sjómannadagsblað Vestmannaeyja kom út og fyrri vertíðin, gosvertíðin 1973, var einstæð í útgerðarsögu Vestmannaeyja og sögu islenzkrar þjóðar.
Þó að þetta rabb verði ekki eins yfirgripsmikið og stundum áður er vonandi nokkur fróðleikskorn og heimildir hér að finna og vonum við, að allir, þó einkum starfandi sjómenn og útgerðarmenn, hafi einhverja ánægju af.


Haustvertíðin 1972:
Margir Vestmannaeyjabátar voru á netaveiðum allt haustið 1972 og áttu sumir net sín í sjó yfir hátíðirnar. Á gamlársdag landaði Halkion 30 tonnum og var mikill hluti aflans lifandi blóðgaður.
Þetta var annað haustið, sem Vestmannaeyjabátar stunduðu veiðar í net. Aflinn var nær eingöngu ufsi og voru aflabrögð ágæt, en ekki fékkst neinn fiskur í önnur veiðarfæri; ördeyða var í botnvörpu. Afli var bestur í nóvember og desember. Í nóvember stunduðu 11 bátar netaveiðar og var landað til vinnslu í Eyjum 1100 lestum, en í desembermánuði var landað 1740 lestum. Þá voru 17 bátar á netum. Margir bátar sigldu til Þýzkalands með afla sinn. Aðalveiðisvæðið var austur af Eyjum; í Gjánni, út af Pétursey og Dyrhólaey, á landgrunnsbrúninni á 100 og 200 faðma dýpi.


Vertíðin 1973:
Þessi vertíð, sem átti eftir að verða einstæð í sögu Vestmannaeyja, hófst strax eftir áramót í beinu framhaldi af hinni ágætu haustvertíð margra báta.
Um miðjan janúar höfðu 23 bátar byrjað veiðar og voru þá 14 bátar á togveiðum, einn var á línu og 8 bátar voru á netum. Heildarafli 15. janúar var 780 lestir og var Halkion, sem var á netum hæstur með 173 tonn í 6 sjóferðum.
Mánudaginn 22. janúar, daginn fyrir eldgos lönduðu margir bátar og var heildarafli, sem þá var kominn á land í Eyjum 1000 lestir, sem var mun skarpari afli en í janúar 1972, en þá varð heildarafli 876 lestir allan mánuðinn.
Allar horfur voru á því, að vertíðin yrði mjög góð.
Örlaganótt Vestmannaeyja, aðfaranótt 23. janúar 1973, fara fram mestu fólksflutningar á sjó hér við land frá því sögur Íslendinga hefjast.
Bátafloti Vestmannaeyinga var allur í höfn, er gosið hófst og flutti rúmlega 4000 manns frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar á dimmri nóttu, kyrru veðri, en þungum sjó eftir fárviðri liðins dægurs. Allt fór rólega og skipulega fram; fumlaust. Frammistaða sjómanna vakti þjóðarathygli og aðdáun allra. Vestmannaeyingar settu þessa nótt sitt traust á sjómenn Eyjanna.

Næsta hálfa mánuð var bátaflotinn í flutningum húsgagna og veiðarfæra frá Eyjum til Þorlákshafnar, Grindavíkur, Keflavíkur og Reykjavíkur.

Skip að loðnuveiðum inn af Eyjum endaðan febrúar 1973.

Vertíðin varð sjómönnum í Vestmannaeyjum ákaflega hrakningssöm og erfið, þó að reynt væri að gera það, sem unnt var til að veita þeim viðlegurými í hinum ýmsu höfnum sunnanlands, en mest mæddi á Þorlákshöfn. Hafnarskilyrði og hafnir eru þó víða ekki góðar og jafnvel alls ótryggar í ofviðrum. Mikil þrengsli voru fyrir. Hér var við mikinn vanda að glíma hjá hafnaryfirvöldum í höfnum sunnanlands.
Góð tíð alla vetrarvertíðina hjálpaði mikið.
Viðbrigði sjómanna í Eyjum á ágætri og öruggri höfn í Vestmannaeyjum, svo og góðri þjónustu í landi í öllum greinum, er varða útgerðina, voru einnig mikil.
Á vetrarvertíðinni 1973 var fiskigengd ágæt og töldu sjómenn, að í Vestmannaeyjum hefði orðið sérstaklega góð vertíð, ef aðstæður hefðu verið eðlilegar og bátar hefðu geað landað í Eyjum.
Fiskur var mikill skammt frá Eyjum alla vertíðina; bestur var afli austan við Eyjar og um Dranginn.
Eftir að febrúar lauk voru gæftir ágætar út vertíðina. Í apríllok var prýðisafli á Stakkabót, alveg uppi í hraunjaðrinum, þar sem hraunið rann sjóðandi heitt í sjóinn og kraumaði. Bátar fengu þarna allt að því 50 tonn í lögn. Þetta voru sérstæðar aðstæður með spúandi eldfjallið hið næsta. Iðulega stóðu menn í grenjandi öskufall við úrgreiðslu og varð að þvo öskuna af óaðgerðum fiski vandlega áður en hann var settur í lestina.
Ráðgert hafði verið, að um 80 bátar yrðu gerðir út frá Eyjum á vetrarvertíðinni 1973. Í öllu því umróti, sem eldgosið olli, jafnt hjá útgerðarmönnum sem öðrum, urðu þeir nokkru færri og voru 62 Vestmannaeyjabátar gerðir út.
Bátarnir lönduðu í hinum ýmsu verstöðvum sunnanlands, en mestum afla var landað í Þorlákshöfn, rúmlega 13 þúsund lestum. Vertíðina 1973 lönduðu þar 130 bátar samtals 27.344 lestum, svo að oft var þröngt á þingi.
Heildarafli Vestmannaeyjabáta þessa einstæðu vertíð varð um 21.000 tonn (vertíðina 1972: 22.400 tonn). Verður þessi afli að teljast góður miðað við erfiðar aðstæður á hinum ýmsu sviðum, En það leið oft lengri tími en áður frá því sjómenn komust til heimila sinna og mörg sjómannskonan varð að ráða ein fram úr þeim mikla vanda sem steðjaði að öllum fjölskyldum frá Vestmannaeyjum í húsnæðishraki og flutningum þennan vetur.
Aflahæstu Vestmannaeyjabátar á vetrarvertíðinni 1973 voru:

Ekki hafa enn borist opinberar skýrslur af vertíðinni og var erfitt að fá öruggar tölur um afla fleiri báta.
Heildarbolfiskaflinn Suðvestanlands frá Hornafirði til Stykkishólms var frá áramótum til 15. maí 1973 135.600 lestir (1972: 150.500 lestir). Afli fjögurra minni togaranna, þar af tveir skuttogarar, eru í þessari heildartölu. (Ægir 10. tbl. 1973).

Á vetrarvertíðinni 1973 bættust margir nýir og myndarlegir bátar í Eyjaflotann. Komu þeir flestir til Vestmannaeyja haustið 1972. Þessir bátar voru nú í fyrsta skipti gerðir héðan út:

Móttaka aflans. Vinnusamar hendur í frystihúsunum flaka.

Gunnar Jónsson VE 500 (nýsmíði, 150 rúmlestir), Lundi VE 110 (áður Siglfirðingur), Hrönn VE 366 (áður Sigurborg), Ásver VE 355 (áður Jörundur III), Kristbjörg II (áður Júlíus Geirmundsson). Allir þessir aðkeyptu bátar eru yfir 200 rúmlestir. Gunnar Árnason skipstjóri á Breka byrjaði sína fyrstu vertíð sem formaður.

Vetrarvertiðin 1974:
Þegar bátar voru flestir að á vetrarvertíðinni 1974, í aprílmánuði, voru 62 bátar gerðir út frá Vestmannaeyjum. Nýir bátar á vertíðinni voru Álsey VE 502 og Bjarnarey VE 501, hvorttveggja nýsmíðaðir bátar frá Akureyri, Elías Steinsson (Áður Ásberg). Af ungum skipstjórum, sem byrjuðu formennsku á vertíðinni veit blaðið um Atla Sigurðsson á Eini.

Á haustmánuðum 1973 fluttu fyrirtækin Fiskiðjan og Ísfélag Vestm.eyja tæki og áhöld, sem höfðu verið flutt brott vegna gossins, aftur til Vestmannaeyja. Tæki Vinnslustöðvar Vestm.eyja voru undirbúin til flutnings en aldrei flutt úr Eyjum. Tæki Eyjabergs voru óhreyfð. Hraðfrystistöð Vestmannaeyja fór undir hraun og brann, svo og nýbyggt salthús Ísfélags Vestmannaeyja og hluti af austurbyggingu Fiskiðjunnar. Hraunið lá á Strandveginum að veggjum Ísfélags Vestmannaeyja og að Mandal og þrengdi sér inn í Fiskiðjusundið. Hraun fór inn í nýbyggða, mjög traustlega og rammbyggða mjölskemmu FES og braut og sprengdi alla veggi á suðurhlið. Hraunið hefur nú verið hreinsað í burtu af Strandvegi og austur að Hraðfrystistöð. Miðaði því verki vel áfram veturinn og vorið 1974.

A haustmánuðum til áramóta 1973 var tekið á móti 455 tonnum af fiski til vinnslu í Vinnslustöð Vestm.eyja. Í nóvember 1973 var tekið á móti 306 tn. af bolfiski, en 150 tn. í desember. Frystihúsið Eyjaberg tók á móti fiski allt haustið, samtals 200 tonnum. Heildarframleiðsla frystra sjávarafurða í Vestmannaeyjum árið 1973 var 478 lestir.

Hraunmassinn stöðvast við Fiskiðju og Ísfélag, 27. mars 1973. Allur austurbærinn og austureyjan horfin í hraun og eld.

Til samanburðar má geta þess, að framleiðsla frystihúsanna í Vestmannaeyjum fyrstu fjóra mánuði ársins 1974 voru 5.483 lestir, sem var 1/6 hluti af framleiðslu S.H. á þessum tíma.

Vetrarvertíðina 1974 hélt fiskur sig mest austan við Eyjar, sjómenn töldu fiskigengd mun minni en á vertíðinni 1973 og nú fékkst aldrei fiskur við Dranginn og Þrídranga. Afli var bestur á Holtshrauni. Sigurjón á Þórunni Sveinsdóttur fékk þó einn eða tvo ágæta róðra suður af Drangnum og vestur af Surtsey, var það aðallega ufsi. Sjómönnum fannst vertíðin létt, „hreint sumarfrí, miðað við vertíðina í fyrra“, sagði einn skipstjórinn.
Margir minni bátarnir (100 tonn), voru á loðnu hluta úr vertíðinni og náðu ágætis vertíð og miklu aflaverðmæti, einkum þeir sem komu loðnu í frystingu, en verð á kílói í frystingu var 13,60 til 28. febrúar. Kap II. undir skipstjórn Einars Ólafssonar fiskaði t. d. 975 tonn af loðnu og 805 tonn af bolfiski.
Vinnuaflsskortur í frystihúsunum var mikill og álag og vinna á fólki, sem þar vann, geysilega mikið. Afli var ágætur út alla vertíðina og t. d. fékk Kópur 80 tonn í net frá 1.-15. maí í 11 róðrum, og Surtsey 96 tonn í botnvörpu í tveimur túrum.
Aflinn, sem barst á land skiptist þannig eftir mánuðum; í sviga er fjöldi báta, sem var á veiðum.

Loðnuveiðar:
Hin mikla og góða loðnuveiði undanfarnar tvær vetrarvertíðir hefur sett mjög sterkan og lifandi svip á vertíðarlífið hér sunnan lands og hefur afrakstur loðnuveiðanna sífellt meiri áhrif á rekstur þjóðarbúsins og afkomu. Framleiðsluverðmæti loðnuafurða á árinu 1973 var um 3.400 milljónir króna.
Verð á loðnumjöli hefur fram á vetrarmánuði 1974 farið hækkandi, en hefur nú síðan á miðjum vetri lækkað mjög mikið, og hefur fallið um helming.
Frysting loðnu til manneldis hefur stóraukist með hverju árinu. Árið 1973 voru fryst 12.145 tonn af loðnu hjá frystihúsum S.H. og var það þrefalt meira magn en árið áður. Vertíðina 1974 frystu frystihús S.H. 13.565 tonn af loðnu, sem öll var seld til Japans eins og undanfarin ár. Frystihús SÍS frystu árið 1973 samt. 3.525 tonn af loðnu. Á vetrarvertíð 1974 frysti SIS 3.900 tn. af loðnu fyrir Japansmarkað.
Loðnuaflinn hefur aukist með hverju árinu og síðan loðnuvarpan var tekin í notkun taka æ fleiri bátar þátt í veiðunum. Þegar hinar miklu og stóru loðnutorfur ganga upp að landinu hafa stærstu skipin mesta aflamöguleika. Skortur á þróarrými hefur helst dregið úr veiðunum.
Fyrir vertíðina 1973 hafði Alþingi samþykkt sérstök lög um loðnulöndun og var stofnaður sérstakur flutningasjóður. Skipulag á löndun var nauðsyn. Dreifðist loðnulöndun því á hafnir í kringum allt landið og var landað á 24 höfnum. Hæsta löndunarhöfnin var Reykjavík með 51.252 lestir.
Heildarafli á loðnuvertíðinni 1973 var 436.800 lestir og höfðu 92 skip einhvern afla. Vertíðin stóð til 17. apríl.
Þrátt fyrir mikið gos, hraunstraum og eyðileggingu í Vestmannaeyjum vertíðina 1973 unnu starfsmenn Fiskimjölsverksmiðjunnar (FIVE) í Vestmannaeyjum það frábæra starf að taka á móti 23.300 tonnum af loðnu til vinnslu. Löndun hófst fyrir alvöru 24. febrúar og var tekið á móti loðnu til loka marsmánaðar. Þessi loðnumóttaka létti og auðveldaði Vestmannaeyjabátum veiðarnar. Samtals voru unnin úr loðnunni 3.500 tonn af mjöli og 750 tonn af lýsi og var heildarútflutningsverðmæti þessara afurða á að giska 140 milljónir króna.
Loðnuvertíðin 1974 varð enn aflasælli og varð heildarafli samtals 463.300 lestir. Þessa vertíð voru báðar fiskimjölsverksmiðjurnar í Vestmannaeyjum starfræktar og var landað í Vestmannaeyjum 76.500 tonnum.

Fyrsti löndunardagur loðnu í Vestmannaeyjum á vertíðinni 1974 var 25. janúar, en sá síðasti 3. apríl. Til bræðslu var landað:

Eyðileg og líflaus Vestmannaeyjahöfn í marsmánuði 1973. Hraunstraumur og eyðilegging náttúruhamfranna í hámarki.

Er loðnufrysing talsvert meiri en vertíðina 1972, en þá voru fryst hér 160 tonn.br> Þessa vertíð voru loðnuhrogn fryst sérstaklega og voru samtals fryst 47,4 tonn. Hrognin eru flutt út til Japans.
Aldrei fyrr hefur verið svo mikill fjöldi skipa á loðnuveiðum og á vertíðinni 1974. Héðan frá Eyjum voru 19 bátar á loðnu. Fyrsta loðnan fékkst 17. janúar 50 sjómílur austur af Dalatanga, og stóð vertíðin fram í endaðan mars. Verð á loðnu til bræðslu var 3,75 hvert kg.
Móttökurými verksmiðjanna í Vestmannaeyjun er nú meira en nokkru sinni fyrr eða samtals 22.000 tonn (FIVE 16.000 tonn og FES 6.000 tonn). Afkastageta þeirra beggja er um 2000 lestir á sólarhring.
Verkfall í loðnubræðslunum frá 23. til 27. febrúar dró nokkuð úr veiðunum, en þó minna en ætlað var.

Skipstjórar á Guðmundi voru til skiptis eigendurnir Hrólfur Gunnarsson og Páll Guðmundsson, Hrólfur þó lengst af. Skipstjóri á Óskari Magnússyni er gamall Vestmannaeyingur, fæddur í Vestmannaeyjum og alinn hér upp til fermingaraldurs, Viðar Karlsson, Guðmundssonar skipstjóra frá Viðey. Hann var með mest aflaverðmæti skipstjóra á Akranesi árið 1973.

Lýkur hér vertíðarspjalli.

Hraunið ryðst að Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, sem stendur í ljósum logum, 24. mars 1973.