Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Sjómenn
Þetta kvæði er tileinkað Sjómannadagsblaðinu.
Þið stímið bátum burt frá ströndum,
björgina sækið út í sjó.
Von ykkar flýgur vængjum þöndum,
veitist svo mörgum blessun nóg.
Komið með aflann heim um haf,
hafa þá margir gott þar af.
Biðjið guð oft um blessun sína,
bænirnar veita styrk og þrótt.
Allir um lífsins öldur stíma
aðstoðar þurfa dag sem nótt.
Englarnir veri ykkur hjá
alla tíð bæði um land og sjá.
Ísland, vort kæra ættarlandið,
er í guðs hendi hverja tíð.
Fiskimið verji bræðrabandið,
batnandi fari lífsins stríð.
Haldi óvinir heim til sín,
heyr, minn guð, það er óskin mín.