Barnaskólinn í Vestmannaeyjum 1880-1930/Barnaskólinn/Gjörðabók/Gjörðabók fyrir skólanefndina í Vestmannaeyja skólahéraði 1909-1932 texti bls. 131-140
Árið 1929, miðvikudaginn 15. maí var skólanefndarfundur haldinn kl 8 ½ síðdegis að Ásgarði. Af nefndarmönnum voru mættir: formaður Árni Filippusson, Hallgrímur Jónasson, sra Sigurjón Árnason og Jes A. Gíslason, fjarverandi á alþingi var Jóhann Þ. Jósepsson. Auk nefndarmanna var viðstaddur á fundinum skólastjóri Páll Bjarnason.
Var þar og þá tekið fyrir:
Lagðar fram prófskýrslur yfir nýafstaðið vorpróf í barnaskólanum til athugunar. Skólastjóri skýrði nefndinni frá því, að fjárhagsnefnd bæjarins hefði falið sjer að líta eptir til útvegunar í utanför sinni nauðsynlegum kennsluáhöldum handa skólanum. Og yrði það síðan lagt fyrir fjárhagsnefnd til athugunar og samþykktar, áður en kaup slíkra áhalda yrðu fullgerð.
Formaður skólanefndar skýrði nefndinni frá því, að bæjarstjóri hefði falið nefndinni að annast um kaup á skólaborðum þeim, sem þyrftu í hina nýju viðbótar-byggingu skólans. Skólastjóri skýrði frá því í sambandi við borð þessi, að húsameistari ríkisins hefði lofað að leggja til teikningar yfir slík borð og ennfr. að húsameistarinn hallaðist eindregið að eins manns kennsluborðum. Annars kvað skólastjóri tveggja manna borð vel nothæf, auk þess sem þau mundu ekki dýrari en sem svaraði þriðjungi verði eins manns borða. Hinsvegar væri æskilegt að fengin væru nokkur eins manns kennsluborð. Nefndin fól formanni nefndarinnar að sjá um útvegun kennsluborðanna, sem mundu verða allt að 60 að tölu, miðað við tveggja manna borð, þó væri æskilegt að í þeirri tölu væru nokkur eins manns borð. Skólastjóri skýrði frá því, að hann hefði í Reykjavíkurferð sinni, samkv. því sem honum var falið á hendur af skólanefndinni, átt tal við kennslumálastjóra og dómsmálaráðherra um niðurfærslu skólaskylduraldursins, og hefðu þeir báðir tekið vel í þá málaumleitan, og mundi skólanum lagðir til 2 kennarar frá ríkisins hálfu að fengnum nægilegum skýrslum þar að lútandi. Nefndin var sammála um það, að Anna Konráðsdóttir yrði skipuð í kennarastöðu þá við barnaskólann, sem hún hefur verið sett til að þjóna síðara hluta skólaársins. Nefndin fól formanni skólanefndar að sjá um, að slegið yrði upp til umsóknar kennarastöðum þeim við barnaskólann, sem lausar kynnu að verða fyrir næsta kennsluár.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Hallgr. Jónasson J. A. Gíslason
Sigurjón Árnason Páll Bjarnason
Árið 1929, miðvikudaginn 17. júlí var skólanefndarfundur haldinn að Ásgarði. Af nefndarmönnum voru mættir: Árni Filippusson formaður nefndarinnar, sra Sigurjón Árnason, Jóhann alþingismaður Jósepsson og Jes A. Gíslason. Fjarverandi utanbæjar, Hallgrímur Jónasson barnakennari.
Var þar og þá tekið fyrir:
Formaður skólanefndarinnar skýrði frá því, að samkv. símtali við fræðslumálastjóra fengjust tveir nýir viðbótarkennarar til skólans, sem leiddi af niðurfærslu skólaskyldualdursins. Samkv. því yrðu þrjár kennarastöður auglýstar við skólann, með umsóknarfresti til miðs ágústs, og lofaði fræðslumálastjóri að sjá um þá auglýsingu. Aptur á móti áleit fræðslumálastjóri óþarft að auglýsa fjórðu stöðuna, þar sem kennari hefði verðið settur í þá stöðu þegar Eiríkur Hjálmarsson, sem gegnt hafði þessari stöðu veiktist og varð að láta af embætti sínu við skólann. En þriðja staðan, sem auglýst er, er kennarastaða sú við skólann, sem Bjarni Bjarnason kennari hafð sagt lausri, er hann vjek hjeðan alfarinn til Reykjavíkur.
Þá gaf formaður nefndinni þá upplýsingu, að fræðslumálastjóri hefði ekki sjeð sjer fært að þessu sinni að mæla með því að settur yrði sjerstakur leikfimiskennari við skólann. Yrði það að bíða til næsta árs. Síðan las formaður upp brjef frá Margrjetu S. Konráðsdóttur dags. í Kaupmannahöfn 30. júní þ. á., þar sem Margrjet sækir um að sjer verði veitt handavinnukennsla við skólann næsta vetur. Sækir hún um þá stöðu með því skilyrði að launin verði ekki lægri en venjuleg byrjunarlaun kennara, að meðtaldri dýrtíðaruppbót, og að hún fái ákveðið svar við þessari umsókn sinni fyrir lok yfirstandandi júlímánaðar. Nefndin sá sjer ekki fært að svo stöddu, að taka ákvörðun um umsókn Margrjetar, og helst ekki fyrr en henni yrði fullljóst um hver afdrif leikfimiskennslan mundi fá hjá landsstjórninni, sem að sumu leyti er enn ekki ákveðið. Aptur á móti áleit nefndin í fullmikið ráðist, ef bærinn yrði að taka að sjer að öllu leyti útgjöld tveggja nýrra embætta við skólann n. l. leikfimis - og handavinnu, en áleit liggja nær að halda uppi leikfimiskennslu úr því að leikfimishúsið væri nú orðið fullgert að kalla, eða yrði það að minnsta kosti, að haustinu til. Því næst las formaður upp brjef frá skólastjóra Páli Bjarnasyni dags. 17. og 21. júní í Kaupmannahöfn um skólaborð, stóla og kennsluáhöld handa skólanum. Hvað áhaldakaupin snerti kom nefndin sjer saman um að fela Páli Bjarnasyni heimild til að verja til áhaldakaupa fyrir barnaskólann 900 krónum, og skyldi hann kaupa þau áhöld, sem skólastjóri áliti óhjákvæmilegust. Ennfremur var nefndin sammála um það að fela skólastjóra að kaupa stóla þá, sem hann getur um í brjefi sínu eða 1 stól í hverja stofu.
Um skólaborðin sá nefndin sjer ekki fært að taka ákvörðun að svo stöddu, eða ekki fyrr en nefndin hefði leitað sjer upplýsingar um það, hvort ekki væri hægt að fá jafngóð borð gerð hjer á landi, fyrir sama verð.
Þá tók nefndin til umræðu unglingaskóla Eyjanna og var nefndin sammála um, að hallast að þeim kennara, Þorsteini Víglundssyni, sem forstjóra þess skóla, með sömu kjörum og síðastliðið skólaár.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson J. A. Gíslason
Sigurjón Árnason Jóhann Þ. Jósefsson
Árið 1929, fimmtud. 1. ágúst var fundur haldinn að Ásgarði af skólanefnd Vestmannaeyjabæjar. Af nefndarmönnum mættu þrir: Formaður Árni Filippusson, sra Sigurjón Árnason og Jes A. Gíslason. Fjarverandi voru þeir Jóhann alþingismaður Jósefsson og Hallgrímur kennari Jónasson.
Var þar og þá tekið fyrir.
Efni fundarins var að ræða um kaup á skólaborðum þeim, sem getur um í síðustu fundargerð. Hafði einum nefndarmannanna, Jes A. Gíslasyni, verið falið að leita upplýsingar hjá einhverjum kunnugum manni í Reykjavík um skólaborð: hvar best mundi að fá þau gerð þar eða í nágrenninu og hvað þau mundu kosta. Í því efni hafði hann snúið sjer til Sigurðar Jónssonar barnaskólastjóra í Reykjavík, og hafði í dag meðtekið brjef frá honum dags. 31. f. m., þar sem Sigurður telur ólíklegt að hægt verði að fá smíðuð skólaborðin í Reykjavík eða nágrenninu, bæði sökum anna og eins sökum þess að ekki mundi vera til nothæft efni þar sem líklegast væri að reyna fyrir sjer, n. l. hjá Dvergi í Hafnarfirði. Brjef þetta var lagt fram og lesið upp á fundinum. Eptir nokkrar umræður varð nefndin sammála um það, að fela skólastjóra Páli Bjarnasyni, sem enn dvelur ytra, að annast útvegun á borðum þeim sem þarfnast í barnaskólann hjer. Það skal tekið fram, ráðstöfun þessari til skýringar, að skólastjóri Sigurður Jónsson telur verð á skólaborðum þeim sem hjer um ræðir 75-80 kr. í Reykjavík, en sýnishorn af borðum þeim sem hingað hafa verið send frá Danmörku kosta hingað komin rúmar 40 kr. íslenskar, og telur nefndin þau borð vel viðunandi að efnis gerð. Nefndin fól formanni sínum að síma Páli skólastjóra þessa ráðstöfun nefndarinnar hið fyrsta, með því að tíminn er orðinn stuttur og nefndinni ókunnugt um hvenær skólastjóri muni hverfa heim.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson J. A. Gíslason
Sigurjón Árnason
Árið 1929, sunnud. 4. ágúst átti skólanefnd Vestmannaeyjabæjar fund með sjer að Ásgarði kl. 8 e. h. Af nefndarmönnum voru mættir: Árni Filippusson, formaður nefndarinnar, sra Sigurjón Árnason, Hallgrímur Jónasson, kennari, Jes A. Gíslason. Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður var fjarverandi.
Var þar og þá tekið fyrir:
Að ræða um það að fá sjerstakan leikfimis- eða íþróttakennara fyrir barnaskólann og unglingaskólann ef slíkt álitist fært fyrir einn og sama kennara, og skyldi kennarinn kostaður af ríkinu á sama hátt og aðrir fastir kennarar skólans. Nefndin telur heppilegt að sá kennari sem hefði á hendi leikfimis- eða íþróttakennsluna í skólanum, gæti tekið að sjer og hefði á hendi áframhaldandi kennslu að sumrinu til í sundi og leikfimi.
Nefndin var sammála um að mæla með Friðriki Jessyni til starfans, sem hæfum leikfimis- og íþróttakennarar, bæði að því er inni- og úti- íþróttir snertir. Nefndin fól formanni nefndarinnar, að koma þessari málaleitan hið fyrsta á framfæri við hlutaðeigandi stjórnarvöld.
Fleira ekki gert. Fundi slitið.
Árni Filippusson J. A. Gíslason
Sigurjón Árnason Hallgr. Jónasson
Árið 1929, mánudaginn 26. ágúst kl. 6 e. h. var skólanefndarfundur Vestmannaeyjabæjar haldinn að Ásgarði. Af nefndarmönnum mættu: Árni Filippusson formaður, sra Sigurjón Árnason, Hallgrímur Jónasson kennari og Jes A. Gíslason. Fjarverandi var einn skólanefndarmannanna: Jóhann Þ. Jósefsson, alþingismaður í utanför.
Var þar og þá tekið fyrir:
Að veita meðmæli mð þrem kennurum í þrjár kennarastöður við barnaskólann hjer, sem auglýstar höfðu verið lausar til umsóknar í Lögbirtingablaðinu nr. 29, 18. júlí þ. á. með umsóknarfrest til 25. ágúst þ. á.
Um kennarastöður þessar höfðu nefndinni borizt eftirtaldar umsóknir:
1. Anna Matthíasdóttir frá Grímsey 2. Arnbjörn Sigurgeirsson frá Selfossi 3. Ársæll Sigurðsson frá Skammadal, Mýrdal 4. Eiríkur Einarsson, Þóroddsstöðum, Ölvusi 5. Guðný Helgadóttir frá Grund í Mjóafirði 6. Hannibal Valdimarsson ? 7. Jes A. Gíslason, Hóli, Vestmannaeyjum 8. Valdemar Pálsson, Spóastöðum, Biskupstungum
Eptir að umsóknirnar höfðu verið athugaðar hver um sig, ásamt meðfylgjandi skjölum, snéri nefndin sjer að því að veita umsækjendum meðmæli sín. Var þá fyrst gengi til atkvæða um sra Jes A. Gíslason og samþykkti nefndin með öllum greiddum atkvæðum (3) að veita honum meðmæli sín. Sjálfur greiddi sra Jes A. Gíslason ekki atkvæði. Auk þess lá fyrir skólanefndinni brjef frá þeim skólanefndarmanni, Jóhanni Þ. Jósefssyni, sem var fjarverandi, þar sem hann mælir sjerstaklega með því, að sra Jes A. Gíslason fái kennarastöðu við skólann. Þá var gengið til atkvæða um Ársæl Sigurðsson frá Skammadal í Mýrdal, og hlaut hann samhljóða atkvæði allra (4) viðstaddra nefndarmanna. Eptir nokkrar umræður var því næst gengið til atkvæða um þau Arnbjörn Sigurgeirsson frá Selfossi og Önnu Matthíasdóttur frá Grímsey. Hlaut Arnbjörn 3 atkvæði, en Anna eitt. Samkvæmt því sem nú hefur verið tekið fram, hefur það orðið samþykki meiri hluta skólanefndarinnar að veita meðmæli sín um, að Stjórnarráðið setji í hinar þrjár kennarastöður þá sem hjer segir: Sra Jes A. Gíslason, Ársæl Sigurðsson og Arnbjörn Sigurgeirsson og var formanni skólanefndar falið, að koma meðmælum nefndarinnar ásamt umsóknum viðkomandi með fylgiskjölum til hlutaðeigandi stjórnarvalda, og ennfremur, að þeim umsækjendum, sem ekki hlutu meðmæli meirihluta skólanefndar, verði sem fyrst sendar tilkynningar um það. Þá var mættur á fundinum unglingaskólastjóri, Þorsteinn Víglundsson. Lét hann í ljósi þá ósk sína, að unglingaskólinn fengi til umráða að öllu leyti að minnsta kosti eina stofu. Nefndin taldi sennilegt, að það mundi geta tekist, en vildi ekki að svo stöddu taka fasta ákvörðun um það fyrr en skólastjóri Páll Bjarnason kæmi heim úr utanför sinni. Einnig minntist hann á leikfimis og handavinnukennslu í skólanum, og ljet nefndin í ljósi það álit sitt að í því efni mætti ekki vera apturför frá því sem áður hefur verið, og ákvað nefndin í sambandi við handavinnukennsluna í unglingaskólanum, að leggja þeim skóla til eina saumavjel.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Sigurjón Árnason J. A. Gíslason
Þorst. J. Víglundsson Hallgr. Jónasson
Árið 1929, miðvikud. 18. sept. kl. 5 e. h. var skólanefndarfundur Vestmannaeyjabæjar haldinn að Ásgarði. Allir skólanefndarmennirnir mættu á fundinum og auk þess skólastjóri Páll Bjarnason.
Var þar og þá tekið fyrir:
Lagt var fram brjef frá fræðslumálastjóra dags. 26. ág. þ. á., sem tilkynnir, að ráðuneytið hafi með brjefi dags. 21. ág. s. á. skipað Önnu Konráðsdóttur til þess að vera kennari við barnaskólann í Vestmannaeyjum, frá 1. okt. þ. á. að telja.
Ennfremur lagt fram brjef frá fræðslumálstjóra dags. 9. sept. þ. á. svohljóðandi:
„Hjer með tilkynnist skólanefndinni, að ráðuneytið hefur með brjefi dags. 9. þ. m., 1.) Fallist á, að börn í skólahjeraði Vestmannaeyja skulu skólaskyld 8 ára gömul. 2.) Sett þá séra Jes A. Gíslason, Ársæl Sigurðsson og Arnbjörn Sigurgeirsson til þess að vera kennara við barnaskólann í Vestmannaeyjum um eitt ár frá 1. okt. næstkomandi að telja.“
Var því næst tekið til umræðu: handavinna í skólanum. Um þetta urðu nokkrar umræður og urðu nefndarmenn ásáttir um það, að ekki væri rjett að minnka handavinnukennslu í skólanum frá því sem var í fyrra, og að sú kennsla næði aðallega eða eingöngu til stúlkubarna í skólanum en piltunum yrði bættur upp sá halli með aukinni leikfimi. Fannst þó nefndinni að ekki gæti verið um færri handavinnutíma að ræða, en sem svaraði 2 stundum á dag eða tólf stundum á viku. Nefndin fól formanni nefndarinnar með aðstoð skólastjóra að útvega handavinnukennara handa skólanum. Nefndin var sammála um það, að skólastjóri kenndi ekki meira en sem svaraði 2 stundum á dag, og mætti sleppa tímum þegar honum þætti þörf krefja þess.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Sigurjón Árnason J. A. Gíslason
Páll Bjarnason Jóhann Þ. Jósefsson Hallgr. Jónasson
Árið 1929, mánud. 30. september kl. 5 e. h. var skólanefndarfundur Vestmannaeyjabæjar haldinn að Ásgarði.
Af skólanefndarmönnum mættu á fundinum Árni Filippusson, formaður nefndarinnar, Hallgr. Jónasson kennari, Jes A. Gíslason og Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður.
Fjarverandi var sra Sigurjón Árnason, sem tilkynnti forföll. Auk þessara mættu á fundinum skólastjórarnir Páll Bjarnason og Þorsteinn Víglundsson.
Var þar og þá tekið fyrir:
Lögð fram brjef frá eptirtöldum. Sigvalda Benjamínssyni, sem sækir um undanþágu frá skólagöngu fyrir dóttur sína Bjarney, 13 ára að aldri. Árna Sigfússyni, sem sækir um undanþágu fyrir son sinn John Árna, 9 ára að aldri. Stefáni Gíslasyni, sem sækir um undanþágu fyrir son sinn Árna, 9 ára að aldri. Kr. Linnet,sem sækir um undanþágu fyrir börn sín Henrik og Elísabet.
Fyrir tvö hin fyrstu, Bjarney og John Árna er jafnframt sótt um inntöku í unglingaskóla Vestmannaeyja. Um Árna Stefánsson er þess getið, að ætlast sje til hann njóti viðlíka fræðslu heima sem í skólanum. En sem ástæða fyrir beiðninni er sjerstakl. tekið fram að málfæri þess barns sje töluvert áfátt. Kr. Linnet tekur það fram, að ætlast sje til að Andrea Bjarnadóttir, kennslukona, sjái um kennslu Henriks og Elísabetar. Nefndin var sammála um að veita fyrrtöldum fimm börnum undanþágu þá sem farið er fram á, þó að því tilskyldu, að börnin komi til vorprófs, ýmist í barnaskólanum eða unglingaskólanum. Ennfremur lágu fyrir og voru lögð fram brjef frá þrettán sjöundadags aðventistum um beiðni að 22 börn fái undanþágu frá því að ganga í skóla bæjarins, en ætlast sje til að börn þessi njóti kennslu í nýbyggðu skólahúsi sjertrúarflokks þessa þar sem sami kennari og sá í fyrra, Sigfús Hallgrímsson, hafi kennslu á hendi við skóla þennan á kennsluári því, sem í hönd fer.
Eptir nokkrar umræður varð skólanefndin sammála um að veita fyrir sitt leyti undanþágu þá, sem sjertrúarflokkur þessi fer fram á, fyrir þessi 22 börn.
Þá tók nefndin til umræðu salerni í barnaskólanum, og voru allir sammála um það að þeim var svo áfátt, að ekki mætti viðunandi heita. Nefndin samþykkti að láta gera bót á þessu nú þegar og fól formanni sínum í samráði við skólastjóra að koma salernum skólans í viðunandi horf, svo að börnunum stafaði ekki hætta af þeim hvað heilsuna snertir.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Jóhann Þ. Jósefsson J. A. Gíslason
Þorst. J. Víglundsson Hallgr. Jónasson Páll Bjarnason
Árið 1929, fimmtudaginn 31. október kl. 5 ½ e. h. var skólanefndarfundur haldinn í Ásgarði.
Allir skólanefndarmennirnir voru mættir á fundinum nema sra Sigurjón Árnason sem var í Reykjavíkurferð. Auk nefndarmanna var mættur á fundinum skólastjóri Páll Bjarnason.
Var þar og þá tekið fyrir:
Lagt fram brjef frá Jóni Sverrissyni dags. 31. okt. þ. á., þar sem hann fyrir hönd Fiskifjelagsins sækir um, að fá ljeða kennslustofu í barnaskólanum til afnota fyrir námskeið í bátavjelafræði. Nefndin var sammála um, að ljá umsækjendum eina stofu og lúti þeir algerlega eptirliti skólastjóra og Hallgríms kennara Jónassonar að því er kennslustofuna snertir, bæði hvað viðkemur tíma og meðferð.
Þá var lagt fram brjef dags. 29. okt. þ. á. frá þeim Sveinbirni Gíslasyni byggingarfulltrúa bæjarins og Jóni A. Gissurarsyni. Þier sækja um að fá lánaða eina kennslustofu í barnaskólanum „á hverju virku kvöldi fram eptir vetrinum“ til þess að halda þar iðnskóla fyrir nokkra iðnnema, og að húsnæðið verði lánað endurgjaldslaust. Nefndin var sammála um að lána umsækjendum eina kennslustofu, og skuli þeir lúta algerlega eptirliti skólastjóra, þó skal kennslunni ávallt lokið fyrir kl. 8 að kvöldi. Ennfremur voru lögð fram tvö brjef, annað frá Georg Gíslasyni, dags. 22. okt. þ. á. fyrir hönd íþróttafjelagsins „Þór“. Sækir hann um að fá aðgang að leikfimissal barnaskólans 2 kvöld í viku t. d þriðjudagskvöld og fimmtudagskvöld, til glímuæfinga og ef til vill fleiri íþrótta. Hitt brjefið var frá Gísla Finnsyni f. h. Knattspyrnufjelagsins „Týr“, dags. 25. okt. þ. á. Sækir hann um að fá aðgang að leikfimissal skólans í vetur, þrjú kvöld í viku, mánudag, miðvikudag og föstudag, til glímu og leikfimisæfinga. Nefndin var sammála um að leyfa þessum fjelögum aðgang að leikfimissalnum tvö kvöld í viku hvorn, á tímabilinu frá kl. 6 – 8., þó með því skilyrði, að einhver sá, sinn úr hvorum flokki, sem formaður skólanefndar og skólastjóri taki gildan, hafi umsjón með allri umgengni fjelaganna í salnum og ábyrgist gagnvart skólanefnd alla misfellur og skemmdir, sem þar kynnu að hljótast af veru þeirra þar. Skólanefndin var sammála um að leyfa skólastofurnar og leikfimissalinn umsækjendunum ókeypis til afnota með þeim skilyrðum, sem fyrr eru tekin fram og að því viðbættu, að engar reykingar, sjeu um hönd hafðar í skólahúsinu, hvorki í kennsluherbergjum eða göngum.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson J. A. Gíslason
Hallgr. Jónasson Páll Bjarnason
Árið 1929, laugardaginn 16. nóvember kl. 5 ½ e. h. var fundur settur í skólanefnd Vestmannaeyjabæjar að Ásgarði. Allir skólanefndarmennirnir voru mættir á fundinum nema sra Sigurjón Árnason, sem hafði boðað forföll. Auk þess var mættur á fundinum fræðslumálastjóri Ásgeir Ásgeirsson og Páll Bjarnason skólastjóri.
Var þar og þá tekið fyrir:
Minnst var á undanþágu þá, sem skólanefndin hafði veitt aðventistum bæjarins og ýmislegt í sambandi við þá undanþágu. Leit fræðslumálastjóri svo á að sú undanþága væri á valdi skólanefndar, skyldi litið á árangurinn og reyndist hann verri en í barnaskóla bæjarins, væri ástæða til að veita aðvörun. Þá minntist fræðslumálastjóri á væntanlegan unglingaskóla bæjarins. Sagði hann, að þegar til kæmi mundi ríkið sennilega leggja fram 2/5 af byggingarkostnaði móts við 3/5 frá bænum, en reksturskostnaðurinn mundi helmingur frá beggja hálfu. Taldi hann víst að þessir væntanlegu unglingaskólar mundu verða álikir starfandi gagnfræðaskólum og sýndi fram á í hverju sá mismunur mundi verða fólginn. Mundi námið í slíkum skólum aðallega verða sniðið eptir því sem menn ætluðu sjer að gera síðar, mundi t. d. slíkur skóli í Vestmannaeyjum hljóta að verða með sjerstöku sniði, ólíkt að sumu leyti því, sem annarsstaðar gerist, þar semnVestmannaeyjar hefðu sjerstöðu bæði að því er snertir landfræðislega og eins hvað atvinnurekstri viðkemur sem er að mörgu leyti ólíkt því sem annarsstaðar á sjer stað á landi þessu. Skýrði fræðslumálastjóri mál þetta frá ýmsum hliðum, en kvaðst eftir nýár mundi senda skólanefnd ýtarlegri greinargerð um það, sem hann hafði tekið fram á fundi þessum og jafnframt láta fylgja frumdrætti til byggingarinnar frá húsameistara ríkisins bæði að því er húsið snertir og væntanlega sundlaug.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Jóhannn Þ. Jósefsson J. A. Gíslason
Ásg. Ásgeirsson Hallgr. Jónasson Páll Bjarnason
Ár 1930, mánudaginn 3. febrúar kl. 5 e. h. var fundur settur í skólanefnd Vestmannaeyja að Ásgarði.
Allir skólanefndarmennirnir eru mættir að undanteknum Jóh. Þ. Jósefssyni.
Þá var tekið fyrir
Að gera sjerstakar ráðstafanir um nokkra drengi í barnaskólanum sem eru sumpart óknyttasamir eða gengur mjög illa að læra. Nefndin er sammála um að drengir þessir skuli eftir því sem skólastjóri telur þurfa hafi sérkennslu fyrst um sinn um mánaðartíma og lætur skólastjóri nefndina vita um árangurinn.
Skólastjóri var staddur á fundinum.
Fleira ekki tekið fyrir. Fundi slitið.
Árni Filippusson Sigurjón Árnason Kr. Linnet
Páll V. G. Kolka Páll Bjarnason