Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Hrafnarnir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. mars 2016 kl. 14:39 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. mars 2016 kl. 14:39 eftir StefánBjörn (spjall | framlög) (Ný síða: '''Pétur Steingrímsson:'''<br> <center><big><big>'''Hrafnarnir'''</big></big></center><br> Margt spaugilegt getur komið fyrir á sjónum sem menn, sem í því lenda, gleyma oft s...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Pétur Steingrímsson:

Hrafnarnir


Margt spaugilegt getur komið fyrir á sjónum sem menn, sem í því lenda, gleyma oft seint. Mig langar að segja frá atviki sem kom fyrir á Sæbjörgu VE 56 er við vorum á loðnu haustið 1981.
Við fórum héðan frá Eyjum í byrjun september og var stefnan sett á loðnuflotann sem var á veiðum við Jan Mayen. Alla vertíðina gekk alveg prýðilega hjá okkur, lítið um að við rifum nótina. Yfirleitt voru fá köst tekin til að fylla bátinn þó að aðrir væru að berja á loðnupeðrum í tíma og ótíma, og oft að rífa. Er líða tók á vertíðina fór loðnan að færa sig nær landinu. Voru bátar að finna loðnutorfur frá Vestfjörðum og alveg austur að Langanesi. Við á Sæbjörginni vorum á veiðum við Kolbeinsey og fengum í bátinn í tveimur eða þremur köstum. Þegar farið var að athuga með þróarpláss kom í ljós að allt nærliggjandi rými var fullt og ákvað karlinn að sigla til Bolungarvíkur þótt Iangt væri að fara, en leiði var þá mjög gott.
Yfirleitt var það þannig að þeir, sem voru með koju stjórnborðsmegin, voru saman í löndun og öfugt. Í þetta sinn átti ég löndunarfrí og sat við einn gluggann í brúnni og horfði á strákana sem voru að basla í lönd-uninni. Það var snjór á Bolungarvík. Ég tók eftir því að á eftir hverjum löndunarbíl sem ók að þrónni við gúanóið voru alltaf tveir og þrír hrafnar sem gleyptu í sig loðnupöddurnar sem duttu af pallinum á götuna. Þeir voru greinilega matarþurfi, aumingja krummarnir, því að þeir virtust ekki gefa fólki, sem gekk þar hjá, minnsta gaum.
Það var lengi búinn að vera draumur hjá mér að eignast uppstoppaðan hrafn sem stáss inni í stofu hjá mér. Bað ég því Tedda (Theodór Ólafsson) vélstjóra um borð að koma með mér upp í bæ og skjóta fyrir mig hrafn. Ég vissi að hann var mikil gæsaskytta og þetta mundi ekki vefjast fyrir honum. Hann var alveg til í þetta og á meðan hann var að undirbúa sig fór ég út á dekk og fyllti lítinn plastpoka af loðnu til að hafa sem agn fyrir hrafnana. Síðan fórum við upp að saltfiskverkunarhúsi sem var þarna ofar á bryggjunni, lögðum loðnuna á vegg þar við og biðum svo upp undir húsveggnum eftir bráðinni. Þurftum við ekki að bíða lengi því að tvö hrafnsgrey komu til að seðja hungrið. Þau steinlágu eftir að Teddi hafði tæmt tvíhleypuna. Þetta voru fallegir fuglar, annar var þó nokkru stærri en hinn og var ég farinn að sjá hann fyrir mér uppstoppaðan í stofunni heima. Þegar við komum um borð var sjálfsagt hjá kokknum að ég fengi að geyma fuglana í frystinum þangað til við kæmum til Eyja.
A útleiðinni eftir löndun heyrðum við í talstöðinni að það voru miklar loðnutorfur og mikil veiði nokkrum mílum austan við Kolbeinsey. Kom mikill veiðihugur í karlinn við þessar fréttir og sagðist hann ætla að fylla dallinn um nóttina. Lét hann stýrimanninn fá stjórnina og fór síðan í koju, en bað um að hann yrði ræstur þegar 20 mílur væru eftir í loðnuflotann. Einhvern tíma um nóttina vöknuðu menn er öskrað var ,,klárir". Þegar við komum út á dekk blasti við okkur stór hluti loðnuflotans og allir í mokveiði, og karlinn með góða torfu inni á astikinu. Það er kastað og torfan vel inni allan hringinn. Allt virtist í stakasta lagi þegar fyrstu snurpuhringirnir komu úr sjónum og við sáum að það var hellings loðna vaðandi í nótinni. Byrjað var að hífa nólina inn fyrir borðstokkinn og inn í nótakassa. En mitt í allri ánægjunni fóru menn um borð að heyra mikið riss-hljóð frá nótinni. Sáum við brátt að það var komin mikil rifa á hana frá blökk og langt út í sjó. Haldið var áfram að draga inn í þeirri von að ná einhverju af allri loðnunni sem í nótinni var.
Allt í einu öskrar karlinn út um brúargluggann að helvítis torfan sé öll farin úr nótinni, hann hafði fylgst með henni í astikinu þegar hún synti úr henni. Er þá spólað út því sem komið var inn af nótinni og byrjað að gera við. Var þetta það mikil rifa að mannskapurinn var alla nóttina að gera við og misstum við því af þessari veiðinótt.
Næstu nótt var haldið áfram að leita og kasta. Í fyrsta kastinu fengum við ein 250 tonn. Næst var kastað á mikla torfu og virtist allt ætla að ganga vel þó að það væri farið að bræla lítillega. Í miðju kastinu sjá menn hvar loðnutorfan bókstaflega tætir nótina ísundur og sleppur út. Var nótin þá tekin inn og sáum við að hún var mikið rifin og eitthvað virtist vanta af garni í hana. Ákvað karlinn að halda til Siglufjarðar og láta yfirfara nótina og gera við. Fór ég þá í koju eins og flestir aðrir.
Einhvern tíma á leiðinni í land er ég ræstur og mér sagt að karlinn vilji hafa tal af mér. Þegar ég kem inn í klefann til hans sé ég að hann er í æstu skapi. Snýr hann sér snöggt að mér og hálf öskrar: „Annar vélstjóri var að segja mér það að þú værir með tvo dauða hrafna í frystinum hjá kokknum. Hver gaf þér leyfi til þess? Ertu algjörlega brjálaður? Veistu ekki að það er óheillatákn að drepa hrafna, og hvað þá að koma með þá um borð í fiskibát? Það er ekki furða þó að illa hafi gengið hjá okkur síðustu daga! Annaðhvort hendir þú þessum óþverra í sjóinn eða losar þig við þá um leið og við erum komnir í land".
Þar sem mér þótti orðið hálfvænt um hrafnskrattana, sem þó voru búnir að gera okkur allt þetta sem á undan var gengið, þá sagði ég karlinum að ég mundi senda þá heim frá Siglufirði með fyrstu ferð. Er í land kom gat ég útvegað frystigeymslu hjá vinafólki á staðnum þangað til ferð yrði með skipi suður um land og til Eyja.
Eftir að hrafnarnir voru farnir frá borði gekk allt vel hjá okkur á Sæbjörginni og vorum við fljótir með restina af kvótanum, en hvort þetta var hröfnunum að kenna skal ósagt látið.
Þegar heim var komið lét ég stoppa fuglana upp, gaf bróður mínum minni fuglinn, en stillti hinum upp í stofunni.
Þegar ég var búinn að eiga hrafninn í ár, heimtaði konan hann út af heimilinu. Á þeim tíma var hún búin að brjóta í tiltekt tvær postulínsstyttur sem stóðu nælægt krumma. Seldi ég þá einum skipsfélaga mínum af Sæbjörginni fuglinn en hann gaf bróður sínum hann í brúðargjöf. Veit ég ekki annað en að það hjónaband gangi vel og sé mjög hamingjusamt, þrátt fyrir óheillakrákuna.
Að lokum vil ég óska sjómönnum til hamingju með daginn.
Pétur Steingrímsson háseti á Sæbjörgu VE 56 loðnuvertíðina 1981.