Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Ömpustekkir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 11:51 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 11:51 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Ömpustekkir</big></big><br> Í norðaustur frá Lyngfelli, sunnan flugvallar, eru fáeinir hraunhólar sem nefndir hafa verið Ömpustekkir. Ekki vita menn lengur af hverj...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Ömpustekkir

Í norðaustur frá Lyngfelli, sunnan flugvallar, eru fáeinir hraunhólar sem nefndir hafa verið Ömpustekkir. Ekki vita menn lengur af hverju það nafn er dregið. Sagt er að Vilborgarstaðabændur hafi haft þar stekki þann tíma, sem fært var frá í Vestmannaeyjum, en það stóð aðeins skamma hríð. Sumir segja, að Ampa kerling, er búið hafi í Ömpuhjalli nálægt þar sem Mandalur er nú, hafi haft þar i stekkjum og séu hraunhólarnir leifar þeirra.

Það er haft fyrir satt, að einhverjar verndarvættir ættu hæli í hraunhólum þessum, því að sú var reyndin að öll ásókn hætti er komið var að Ömpustekkjum á leiðinni sunnan úr Klauf eða Höfðavík. Á þeim slóðum hafði jafnan verið reimt, og ágerðist það mjög eftir að útlendingar voru dysjaðir í Erlendarkróm á fyrri hluta 19. aldar.

Einhverju sinni voru menn á þangfjöru suður í Höfðavík. Reiddu þeir heim þang á mörgum hestum að þangskurði loknum. Á leiðinni áttu þeir fullt í fangi með að halda böggunum á hestunum, jafnvel þótt þeir legðust á þá, svo þeir færu ekki um þvert bak. Áttu þeir í þessu stríði þar til þeir komu að Ömpustekkjum, þá hætti ásóknin með öllu og þurfti ekki að lagfæra á hestunum úr því. Héldu mennirnir, að vættirnir í Ömpustekkjum hefðu lagt þeim lið.

Svo var trú manna sterk á afturgöngum og ásóknum þeirra á þessari fornu slóð suður í Klauf, að varhugavert þótti að vera á ferli eftir dagsetur fyrir sunnan Ömpustekki. En norðan þeirra mundi engan saka.

(Heim.: Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum, o. fl.).