Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Einu sinni rérum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 11:42 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 31. ágúst 2015 kl. 11:42 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big>Einu sinni rérum</big></big><br> Einu sinni rérum<br> einskipa á sjó<br> fyrir austan Eyjar,<br> sátum þar í ró.<br> Við vorum að reyna að veiða<br> væna keil...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Einu sinni rérum


Einu sinni rérum
einskipa á sjó
fyrir austan Eyjar,
sátum þar í ró.
Við vorum að reyna að veiða
væna keilu úr sjó.

Þennan sannkallaða sjómannasöng kann svo að segja hvert mannsbarn í Vestmannaeyjum. Einhver fann ágætt lag við vísuna, og síðan er hún sungin við öll hugsanleg tækifæri.

Nú orðið er „Einu sinni rérum" venjulega kynnt sem íslensk þjóðvísa, og fer reyndar vel á því. Það væri samt Vestmannaeyingum vansæmd að gleyma því með öllu, hver samdi þessa vísu, sem efalaust mun um mörg ókomin ár lifa á vörum fólksins hér um slóðir. Einkum verða það sjómenn í Vestmannaeyjum, sem lengi enn munu minnast þessarar hversdagslegu sjóferðar, sem vísan lýsir, og ekki síst þegar þeim er glatt í geði.

Höfundur vísunnar er Ólafur Magnússon, sem lengst var kenndur við Nýborg í Vestmannaeyjum. Hann var fæddur á Vilborgarstöðum og voru foreldrar hans búendur þar. Ólafur fór ungur í vinnumennsku til Gísla Bjarnasen verslunarstjóra. En þegar Gísli flutti burt frá Vestmannaeyjum árið 1883, varð Ólafur vinnumaður hjá Sigurði Sveinssyni trésmið í Nýborg. Hjá honum var hann til dauðadags.

Snemma byrjaði Ólafur sjómennsku eins og títt var í Vestmannaeyjum þá, ekki síður en nú. Og sjómennsku stundaði hann fram á efri ár. Hann varð formaður á vertíðarskipi rúmlega tvítugur, og varð fljótt annálaður sjómaður og afburða fiskimaður. En 28. mars 1891 varð hann fyrir því óláni að hlekkjast á í útsiglingu í róður. Snarpur norðanvindur var á, og hvolfdi skipinu skammt frá Klettsnefi og drukknaði einn maður af áhöfninni, en hinum varð bjargað af árum og kili. Ólafi varð svo mikið um þetta áfall, að hann hætti formennsku með öllu og réri eftir það sem háseti.
Ólafur kvæntist aldrei, en eignaðist son, sem mun hafa farið til Ameríku og dáið þar.
Ólafur Magnússon í Nýborg andaðist 4. október 1927.