Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2005/Guðjón Einarsson frá Fornusöndum
Guðjón var fæddur 29.júlí 1886 í Neðradal, V- Eyjafjallahreppi, Rangárvallasýslu, einn í hópi 11 systkina en af þeim komust 6 upp. Guðjón fluttist með foreldrum sínum að Fornusöndum, og ólst þar upp, ásamt 4 systrum og einum bróður, Páli, sem fórst tæplega 21 árs gamall, með m/b Íslandi VE 118, ll.apríl 1912.
Systurnar störfuðu allar í Vestmannaeyjum; Kristín kom að Laufási 1906 og var þar nær óslitið til 1941, Sigrún var í áratugi hjá Leifi Sigfússyni tannlækni, Anna var tugi ára hjá Matthíasi Jónssyni klæðskera en Margrét var í Eyjum 20-30 ár, frá hausti til vors, lengi hjá Pétri Lárussyni bónda á Vestri-Búastöðum.
Á sumrin var hún hjá Guðjóni og Guðríði og hjá þeim var hún í Berjanesi eftir að hún hætti að fara til Vestmannaeyja og dó þar 1973.
Guðjón tók við búi á Fornusöndum 1914 en flutti að Berjanesi í V-Landeyjum vorið 1931 og bjó þar til dauðadags, 30.ágúst 1968. Kona hans var Guðríður Jónsdóttir, fædd 20.júní 1886 í Reynishólum í Mýrdal, V-Skaft., dáin 17.apríl 1974. Hún var vinnukona á Heiði í Vestmannaeyjum, haust og vetur. 1912-13 og 1913-14. Þar kynntust þau Guðjón en hann var á Heiði 14 vertíðir, hjá Sigurði Sigurfinnssyni hreppstjóra og formanni.
Guðjón og Guðríður eignuðust 8 börn: Pálínu 1914, Einar 1916, Jón 1917, Sigurð 1918, Egil 1921, Sigríði 1923. Elínu 1926 og Guðlaugu 1929. Bræðurnir Einar og Sigurður stunduðu báðir sjó frá Eyjum og lærðu þar til vélstjórnar 1941. Var Einar vélstjóri á m/b Pipp og Sigurður á m/b Öldu en hafði áður verið með Sighvati Bjarnasyni bæði á vertíðum og á síld. Egill var eitt síldarsumar, 1943, á m/b Þorgeiri goða með Júlíusi Sigurðssyni frá Skjaldbreið.
Guðjón byrjaði 13 ára að róa á vetrarvertíð, með Bergsteini á Fitjarmýri, sem hálf- drættingur. Það gengu 9 skip, þegar flest var, úr Sandavörum sem þótti betri lending en Holtsvarir en vanalega voru öll skipin í sömu vör. Þau voru nær alltaf sett upp á kamp og hvolft þar svo þau fylltust ekki af sandi. Á vetrarvertíð var fiskað mest með sandinum en á vorin var leitað lengra út, á Sandahraun og Holtshraun, en þangað var 45 - 50 mínútna róður. Þar fékkst aðallega langa og sumar það stórar að þær tóku niður sitt hvoru megin á hesti.
Guðjón var á sautjánda ári þegar hann fór á vertíð til Vestmannaeyja árið 1903. Þar lenti hann í skipreika 22. maí þegar bátur, sem hann var á, sökk út af Klettsnefi. Þeir voru að koma úr róðri í sæmilegu veðri, austan kalda og fremur sjólitlu. Báturinn var þunghlaðinn því verið hafði uppgripaafli. Úti af Klettsnefi hugðust þeir draga upp segl en skakkt var dregið í blökk á siglutrénu og meðan verið var að laga það, lenti báturinn þvert fyrir. Þegar svo einn skipverjinn fór aftur í bátinn, tók hann inn sjó og skipti það engum togum að hann sökk. Slysið sást úr landi og fór bátur þegar á vettvang en þegar hann kom á staðinn, voni þar þrír bátsverjar sem héldu sér uppi á árum og braki úr bátnum og tókst að bjarga þeim en þrír höfðu drukknað. Þeir voru: Þorvaldur Jónsson frá Jómsborg i Vestmannaeyjum. formaður, 21 árs, Þorsteinn Olafsson frá Búðarhólshjáleigu í Austur-Landeyjum, 40 ára, Markús Einarsson frá Kúfhól í Austur-Landeyjum.
Þeir sem björguðust voru: Högni Sigurðsson, Vegamótum í Vestmannaeyjum. (síðar í Baldurshaga). Sigurður Jónsson frá Skarðshlíð. Austur-Eyjafjöllum og Guðjón Einarsson frá Fornusöndum, Vestur-Eyjatjöllum.
Nafns bátsins, sem þeir félagar voru á, er ekki getið en það hefur verið svokallaður „vorbátur." Vorbátar voru litlir bátar, feræringar, eða sexrónir bátar en það var ekki sama og sexæringar sem voru mun stærri bátar. Vertíðarskipin, bátarnir, sem róið var á vetrarvertíð, voru sex og áttæringar á seinnihluta nítjándu aldar en voru á öldum áður mun stærri, tíæringar eða tólfæringar.
Þegar vetrarvertíð lauk, 11. maí voru vertíðarskipin sett í geymslu undir Skiphellum, nema tvö skip, sem voru höfð í Hrófunum, aðaluppsátrinu, tiltæk ef slys bæri að. Eftir lokadag (11.maí voru vorbátarnir teknir í notkun enda ekki eins mannfrekir.
A sexæringi voru t.d. 14-15 menn en á sexrónum báti voru 5-6 menn. Á áttæringi voru 18-19 menn.
Báturinn, sem fórst við Klettsnef 1903, gæti hafa verið Önd VE 23, sexróinn bátur, sem Jón Sighvatsson í Jómsborg átti, faðir Þorvaldar formanns.
Eftir vertíðarlok 1906 kaupa nokkrir Eyfellingar áttæringinn Ingólf sem var smíðaður í Vestmannaeyjum 1904 og Magnús á Vesturhúsum átti og var formaður með. Ingólfi var róið úr Vestmannaeyjum vetrarvertíðirnar 1907-1909.
Guðjón rær á Ingólfi 1909 og kannski einnig 1907 og 8. Að beiðni Sigurðar Sigurfinnssonar skráir hann tölu allra fiska sem á skipið koma og afhendir honum í lokin.
Formaður með Ingólf var Jón Eyjólfsson í Moldnúpi. Þeir komu til Eyja 2. mars, fara í fyrsta róður 9. mars og alls 8 róðra í þeim mánuði. Þeir tvíróa þann 27. og fá þá 326 þorska, 2 löngur, 84 ýsur, 22 keilur og 2 stútunga, alls 438 fiska, sem var 25 fiskar í hlut. Síðasti róður er 29. apríl, 7. róður í þeim mánuði og 15. róður á vertíðinni.
Þeir fara „til Landsins" 1. maí og lenda í Sandavörum.
Yfir vertíðina fá þeir 2123 þorska, 169 löngur, 428 ýsur, 19 skötur, 6 ufsa, 85 lúður, 26 keilur og 55 stútunga, samtals 2911 fiska. Þeir hafa veitt mest á línu en eitthvað á handfæri því Guðjón kaupir 1 krók sem kostar 50 aura.
Fyrir vertíðina kaupir hann buxur (skinnbrók) á 7 krónur, skinnstakk á 5 kr, 3 (pör) sjóvettlinga á 1,95 og sjóskó „brúkaðir" á kr 2,50.
Þeir fara aftur til Eyja 8. maí. Reyndu að komast út daginn áður en sló þrisvar upp. Dagana áður var mikið brim, segir í dagbók Guðjóns.
Eyfellingarnir seldu Ingólf til Vestmannaeyja, vorið 1909, sem uppskipunarbát.
Milli róðra á vertíðinni hefur Guðjón verið í vinnu, t.d. kolum, „vinna við timbur í fjörunni, kr. 2,00, vinna við Miðbúðina, kr. 2,75, sama st. kr. 3,70, og sama, kr. 0,40. Mótorísetning kr. 2,10."
Guðjón réri vorvertíðina á Láru, vorbát, sem Guðjón Björnsson bóndi á Kirkjubæ, seinna á Kirkjubóli, átti. Formaður var Jón Magnússon á Kirkjubæ, seinna í Vallatúni.
Guðjón réri næstu vertíðir á útvegi Sigurðar á Heiði en hann átti þá 1/3 part í m/b Skeið VE 78 sem hann hafði smíðað upphaflega sem stórt áraskip en breytti í vélbát haustið 1906.Sigurður var formaður með bátinn 3 næstu vertíðir. Þá tekur við formennsku einn af hásetum hans, Sigurður Sæmundsson, seinna á Hallormsstað, og er með m/b Skeið árin 1910 og 1911 en vélamaður, eða mótoristi eins og þá var sagt, er Guðjón frá Fornusöndum.
Árið 1912 er Sigurður Sæmundsson formaður með m/b Siggu en ekki er vitað hver var formaður m/b Skeiðar en 1913 er formaður norskur maður, A.Förland, sem kom til Vestmannaeyja með Sigurði Sigurfinnssyni á m/b Knerri árið 1905. A.Förland tók bátinn á leigu og þessa vertíð 1913 hófust á m/b Skeið þorskanetaveiðar með ágætum árangri. Eftir þessa vertíð sést Skeiðarinnar ekki getið, segir í Aldahvörfum í Eyjum.
Ekki er vitað hvort Guðjón var áfram á m/b Skeið 1912 eða fór yfir á nýjan bát, sem Sigurður átti 2/5 parta í, m/b Freyju VE 158, sem var smíðuð í Vestmannaeyjum 1911 af Ástgeiri Guðmundssyni í Litlabæ. Freyja var súðbyrðingur úr eik og furu, 10,58 tonn, með 10 hestafla Scandíavél. Formaður með Freyju fyrstu vertíðina, 1912, var Þorsteinn H.Sigurðsson frá Snotru í Landeyjum, sem verið hafði áður með m/b Siggu. Næstu vertíð er Þórður Tómasson í Vallnatúni, V-Eyjafjöllum formaður og Guðjón mótoristi. Vetrarvertíðirnar 1914 til 1916 er Sigvaldi Benjamínsson í Hjálmholti formaður með Freyju og Guðjón mótoristi en hættir þá að vera á vertíðum í Eyjum.
Árið 1917 er Jón Magnússon í Merkisteini formaður og hafði keypt 1/10 hlut í m/b Freyju af dánarbúi Sigurðar Sigurfinnssonar sem lézt 8.sept. árið 1916.
Eftir vetrarvertíðina 1918 var Freyju lagt og hún rifin skömmu síðar.
Jón Magnússon fór úr Eyjum að vertíð lokinni og til Ameríku.
Guðjón varð formaður við sandinn 17 eða 18 ára gamall og réri úr Sandavörum. Báturinn var áttæringur og hét Vinur. Endalok hans voru að hann fauk og brotnaði. Haustið 1917 fékk Guðjón, Ástgeir í Litlabæ í Eyjum til liðs við sig og smíðuðu þeir áttæringinn Baldur heima á Fornusöndum. Eigendur voru 5 og var Guðjón formaður, vetur og vor, og eigandi að 1/3. Guðjón réri Baldri til 1929 en þá fór hann að fara aftur á vetrarvertíðir í Vestmannaeyjum.
Eftir vertíðina 1916 fór Guðjón ekki til Eyja á vertíð fyrr en elstu börn hans komust það á legg að þau gátu annast gjafir kúa og kinda yfir veturinn. Það var árið 1929 sem hann fer aftur á vetrarvertíð og er þá í aðgerð hjá Gísla J. Johnsen, í „Eilífðinni." Eilífðin var stórt aðgerðar - og fiskgeymsluhús sem stóð á Edenborgarbryggju og varð síðar Hraðfrystistöðin og var stækkuð mikið er árin liðu. En þegar húsið var byggt, þótti það svo stórt að það var kallað Eilífðin.
Árið 1930 er Guðjón á vetrarvertíð og er þá skipverji á m/b Nonna sem Auðunn Oddsson á Sólheimum var skipstjóri á en eigandi var Kristinn Jónsson í Drangey. Ahöfnin var 5 menn.
M/b Nonni hafði verið keyptur til Vestmannaeyja fyrir þessa vertíð, frá Siglufirði, en þar hafði hann heitið Marz SI 18. Hann var smíðaður í Noregi 1917, úr furu, 23 brl. með 24 ha. Alpha vél. M/b Nonni var „óskrásettur" í Vestmannaeyjum.
Þriðjudaginn 11. mars voru þeir nýbúnir að leggja línu sína SV af Geirfuglaskeri þegar stór færeysk skúta sigldi á m/b Nonna. Kom skútan aftan á bátinn og braut hann stórkostlega. Fimm menn voru á bátnum. Fjórir þeirrra brugðu við og stukku upp á skútuna en hinn fimmti mun sennilega hafa orðið hræddur og honum fatast eitthvað því að hann komst ekki upp á skipið með félögum sínum. Skipti þetta engum togum og sökk báturinn eins og steinn á svip stundu og þessi maður með honum. Var það Færeyingur, maður um tvítugt."
Þannig segir í grein í Morgunblaðinu daginn eftir. Maðurinn sem fórst með bátnum hét Meinhard ? en þeir sem björguðust voru:
Auðunn Oddsson Sólheimum, formaður.
Vilhjálmur Guðmundsson, vélstjóri.
Eggert Oddsson Þykkvabæjarklaustri V.-Skaft.
háseti. Bróðir Auðuns.
Guðjón Einarsson Fornusöndum V-Eyjafjöllum,
Rangárvallasýslu. háseti.
Skipverjar Nonna sögðu að enginn maður hefði verið uppi á færeyska skipinu og þeir seinir upp til hjálpar. Skútan kom á Nonna um stýrishúsið en þar voru þeir Vilhjálmur, Eggert og Guðjón. Þeir sluppu ómeiddir en Auðunn formaður fór úr axlarliði. Hann var í lúkarnum ásamt hásetanum sem fórst og komust báðir upp.
Vélstjórinn, Vilhjálmur Guðmundsson, var 32 ára Skagfirðingur sem tók vélstjórapróf í Vestmannaeyjum haustið 1929.
Guðjón Einarsson frá Fornusöndum mun hafa verið síðast a vertíð í Vestmannaeyjum árið 1934, þá bóndi í Berjanesi í Vestur-Landeyjum, frá 1931.
Helztu heirnildir:
Þrautgóðir á raunastiind XII. Aldahvörf í Eyjum. Björgunaifélag Vestrnannaeyja (10 ára starf) 1931. Páh'na Cuðjórisdóttir Berjanesi. Sigurjón Auðunsson. Dagbók Guðjóns árið 1909.