Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Síðasti róðurinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 14. mars 2016 kl. 14:53 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 14. mars 2016 kl. 14:53 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Síðasti róðurinn</center></big></big><br> Svitinn streymir niður andlit gamla mannsins. „Taka lagið“, hugsar hann og beinir bátnum í milt brotið. Hendu...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Síðasti róðurinn


Svitinn streymir niður andlit gamla mannsins. „Taka lagið“, hugsar hann og beinir bátnum í milt brotið. Hendur hans ljúkast um árahlummana er hann knýr bátinn til móts við hinn ólgandi dauða. Róa, róa, tuldrar hann fyrir munni sér, yfir háttbundnu marri keipanna. Báturinn ríður yfir, veltur sem ölvaður sé og tekur inn á bæði borð. Allt hylst löðri og hinu lemjandi slagviðri, sem skollið er á.
Skyndilega kyrrist allt. — Hvað er nú?
Kvíði fyllir hug gamla mannsins. Á andartaki gerir hann sér grein fyrir ástandinu. Fyrir framan bátinn rís grænn múr af sjó, með freyðandi faldi og birta hins dvínandi dags sytrar í gegnum hann.
Svikalogn, vatnsmúrinn skýlir kænunni stutta stund fyrir storminum, þar sem hann kemur æðandi með drynjandi náhljóði.
Jæja, svona átti það þá að fara, hugsar gamli maðurinn. Á örskotsstundu koma minningar liðinnar ævi í huga hans, víst hafa skipzt á skin og skúrir, en í heild hefur þetta verið nokkuð gott.
Í sæ- og svitastorknu andliti gamla mannsins er nokkur beygur við örlögin. Með heljarmætti hvolfist brotið yfir hina veikbyggðu bátskel. Maður og bátur eru horfnir.
Dökkt skammdegið grúfir brátt yfir, haf og himinn renna saman í eina heild. Náttúran stígur trylltan nornadans við hinar Ægi girtu Færeyjar.

Eftirmáli
Þetta eru nokkur fátækleg þankabrot um mann, sem týndist er hann var einn á báti við Færeyjar, en eyjar þær rísa úr hafi um 450 km. suðaustur frá Eystra-Horni. 18 að tölu og eru allar byggðar nema ein. Litli-Dímon.
Fyrr meir var sjór sóttur á opnum bátum og víða langróið, en gæftir fremur stopular. Færeyingar eru góðir sjómenn, enda kemur þeim það, því að sjólag þykir illt kringum eyjarnar, veðráttan misfeilasöm, landvar lítið og straumar harðir fyrir nesjum og eyjasundum. Sem hafa verið tíð við Færeyjar.

Kolbeinn Ólafsson (ritgerð í 2. bekk Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum).