Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Bernskuminning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 13. nóvember 2015 kl. 13:29 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 13. nóvember 2015 kl. 13:29 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><center>EINAR SIGURFINNSSON:</center></big><br> <big><big><center>Bernskuminning</center></big></big><br> Meðal ýmsra annarra atburða sem tollað hafa...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
EINAR SIGURFINNSSON:


Bernskuminning


Meðal ýmsra annarra atburða sem tollað hafa í minni mér frá bernskuárum er einn sem stendur mér svo glöggt fyrir augum, eins og nýlega væri skeð. En þó eru liðin 70 ár síðan þetta var.
Undan Meðallandsfjörum var um þessar mundir mjög margt útlendra seglskipa, sem voru þar að fiskiveiðum þegar líða tók á vetur. Mest eða nær eingöngu voru þetta frönsk skip. Fögur voru þau og tignarleg til að sjá þegar sólin skein á fannhvít seglin. Stundum voru siglutrén sem sáust uppfyrir fjörukampinn svo ótrúlega mörg og þétt sem á skóg sæi. Ströndin er lág og slétt og langt til fjalla. Hvergi var ljós eða nein leiðarmerki, en oftast margfaldur brimgarðurinn „ólgandi sogandi“ með hátt gnæfandi, hvæsandi holskeflum. Það var því sívofandi hætta yfir þessari skipamergð ef snögglega skall á álandshvassviðri og jafnvel lognið var þeim hættulegt, þá gat straumur borið þau inn í brimgarðinn áður en varði.
Það var einn morgun, síðla vetrar 1891, að ég var vakinn með þessum orðum: „Það koma 8 strandmenn hér suður í mýri“. Ég var víst fljótur að rísa upp og klæðast í þetta sinn þó venjulega væri ég rúmlatur. Fljótt var ég kominn út á hlað og sá strax til mannanna, einn var spölkorn á undan, hinir nokkuð dreifðir á eftir. Þegar þessir menn voru komnir heim undir túnið, stanzaði sá er fyrstur fór. Húsbóndinn sem var Guðmundur Einarsson afi minn gekk á móti þeim og veifaði hendi til þeirra, þeir greikkuðu þá sporið og voru komnir til afa mjög fljótlega, heilsuðu þeir með handabandi og hneigðu höfði. Innan stuttrar stundar voru þeir komnir úr ytri flíkum og inn í baðstofu, þeir drifu sig strax upp í rúmin sem heimafólk var nýkomið úr. Í einu rúminu svaf Sigurður bróðir minn 3ja ára, var greinilegur ánægjusvipur á þeim sem varð rekkjunautur barnsins. Efalaust hafa þeir orðið mjög fegnir að hvílast og njóta skjóls og hlýju, þó hús væru ekki rúm né ríkmannleg.
Rennblaut voru öll föt þessara manna enda þótt þeir væru í olíukápum yzt klæða, allir munu þeir hafa verið í stígvélum sem sum a. m. k. voru aðeins tréklossar með áfestum boldangs- eða leðurhólk, sumir voru sokkalausir í stígvélunum, allir berhentir, yfir höfuð var klæðnaður þessara vesalings hröktu og þreyttu manna mjög lélegur.
Hreppstjórinn, Ingimundur Eiríksson, góðurmaður og gáfaður, bjó að Rofabæ örskammt frá Kotey en þangað voru strandmennirnir komnir. Fljótt var honum tilkynnt hvað skeð var og gerði hann tafarlaust ráðstafanir til að menn færu að leita strandsins og manna sem kynnu að vera einhversstaðar að hrekjast og þyrftu hjálpar við.
Þegar gestirnir vöknuðu var tínt til það sem handbært var af fatnaði handa þeim, sumt af þeirra eigin fötum var búið að þvo og þurrka, svo að allir gátu þeir komizt á fætur og þegar þeir voru „klæddir og komnir á ról“ settust þeir að máltíð sem þeim var búin og borðuðu með beztu lyst, þó ekki væri margréttað - aðeins kindakjöt og kartöflur og borðáhöld af allra einföldustu gerð.
Með undrun og forvitniskenndum áhuga virti ég þessa gesti fyrir mér, þurfti ég margs að spyrja í sambandi við þá og komu þeirra og varð móðir mín helzt til að leysa úr spurningum mínum, þótt hún væri mjög önnum kafin, svo sem skiljanlegt er. Um mörg atriði sem mig langaði til að vita varð ég að láta eigið ímyndunarafl nægja.
Meðal strandmanna voru 2 unglingar. Urðu þeir ótrúlega fljótt kunningjar mínir og þótti mér mikið til koma, þegar þeir komu með mér út og léku við mig. Seinna um daginn komu menn þeir sem farið höfðu á fjörur. Komu þeir með 10 strandmenn sem höfðu hafzt við nálægt skipinu við eitthvert smáskýli sem þeir höfðu gert sér. Einhverju var víst bjargað úr skipinu þennan dag, helzt fatnaði og matföngum. Sagt var að skipið væri talsvert brotið og væri farið að reka úr því spýtnarusl o. fl. Um kveldið voru mennirnir sem komu um morguninn heim til okkar, fluttir út að Rofabæ því þar átti öll skipshöfnin að dvelja næstu daga. Auðséð var, að þeim var óljúft að hafa vistaskipti. En vilji þeirra var að engu virtur, enda skildi enginn mál þeirra fyrr en sýslumaður kom.
Á meðan skipbrotsmenn þessir dvöldu á Rofabæ komu einhverjir þeirra daglega austur að Kotey og alltaf þegar þeir komu í dyrnar, kölluðu þeir: „Mammo“, það var amma mín Kristín Einarsdóttir sem átti þessa kveðju. Á sunnudegi bar það við er afi var að lesa húslestur að 2 strandmenn komu í dyrnar og heilsuðu á venjulegan hátt, en fljótt hafa þeir skilið að hér fór fram einhver helgiathöfn því þeir tóku ofan höfuðföt sín hneigðu höfuð og signdu sig og sátu þögulir unz lestrinum var lokið.
Ekki fékk ég að sjá skipið sem strandað var en þess í stað veitti ég eftirtekt því sem ég heyrði. Sagt var að skipið væri að brotna meir og meir og allt sem í því var væri blautt og skemmt það sem skemmzt gæti. Heyrði að m. a. væri rekið upp á fjöruna talsvert af kexi og fengu menn leyfi til að hirða það ef vildu. Man ég, að nokkuð af þessu sjóblauta brauði kom heim til okkar, það var afvatnað og soðið í mjólk. Þótti þetta sælgæti, þó að brakaði í sandkornum, þegar tuggið var. Ég heyrði talað um koníak, ákavíti ,rauðvín o. fl. Heyrði og að þessi eða hinn hefði verið kenndur, drukkinn eða blindfullur. Einu sinni var mér gefið að súpa á þessum metal. Ekki fannst mér bragðið gott, en þóttist víst vaxa við að hafa smakkað vín!! Ég reyndi að harka af mér þótt flökurt yrði og þungt yfir höfði og upp í húsasund komst ég áður en maginn gat losnað við þetta góðgæti! En síðan hef ég verið sannfærður um að allt þess konar væri eitur, sem bezt væri að láta ósnert og við 70 ára eftirtekt hefur það álit ekki breytzt.
Þetta strandaða skip var frönsk fiskiskúta, hún strandaði í austan stormi og regni og stórbrim var við sandana. Menn björguðust allir 18 talsins ómeiddir en mjög hraktir.