Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1960

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. október 2015 kl. 14:51 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. október 2015 kl. 14:51 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: <big><big><center>Aflakóngur Vestmannaeyja 1960</center></big></big><br> Dugmikil og tíðast harðsnúin sjómannastétt er lífsskilyrði fólksins, sem byggir þetta land, til a...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Aflakóngur Vestmannaeyja 1960


Dugmikil og tíðast harðsnúin sjómannastétt er lífsskilyrði fólksins, sem byggir þetta land, til að fá staðizt sem þjóð meðal þjóða.
Í verstöð, þar sem gerðir eru út nálega 100 fiskibátar, er sá formaður, sem mestan afla færir á land hverja vertíð fvrir sig, talinn hafa unnið afrek sein vert sé að minnast sérstaklega.
Því er það venja hér á sjómannadaginn að heiðra aflakónginn frá næstliðinni vertíð með ýmsum hætti, en hann er að þessu sinni Helgi Bergvinsson formaður á v.b. Stíganda Ve. 77. Hann færði á land 1076 tonn af fiski og skilaði hásetahlut er nam rösklega 64 þúsundum króna.
Helgi Bergvinsson er fæddur 26. ágúst árið 1918 að Grund á Svalbarðsströnd, S-Þingeyjarsýslu. Þar og á Svalbarðseyri ólst hann upp til fullorðinsára.
Svalbarðsströnd liggur innan til við miðjan Eyjafjörð að austan, og dregur nafn af hinu forna höfuðbóli Svalbarði. Kauptúnið Svalbarðseyri stendur á litlu nesi, sem skagar út á fjörðinn frá miðri strönd og er þar verzlunarstaður næstliggjandi héraðs. Eyjafjörður er og hefur verið um áraraðir þjóðbraut báta og skipa. Útgerð hefur verið stunduð þar af rausn frá því að sögur hófust af þeim atvinnurekstri hér á landi og líf fólks í kauptúnum fjarðarins er bundið sjónum og gjöfum hans ólýsanlegum böndum, sem þeir einir þekkja er flest sitt sækja undir kjöl. Það þarf því enginn að furða sig á því, þótt úr þeim jarðvegi spretti upp sporléttir vegfarendur til þeirrar virðingar, sem veglegust er í augum allra sjómanna, að verða aflakóngar.
Foreldrar Helga eru Rósa Magnúsdóttir og Bergvin Jóhannsson. Þau eru vel þekkt í sinni sýslu fyrir dugnað og drengskap og Bergvin sér í lagi fyrir barnakennslustörf, en þeim gegndi hann um áratugaskeið fyrir hérað sitt. Þau hjón eru nú á efri árum búsett með vanda, fólki sinu á Svalbarðsströnd.
Helgi mun ekki hafa lokið við að slíta barnsskónum þegar hann fór að fást við sjósókn á opnum báti með Jóhanni bróður sínum, sem var nokkru eldri en Helgi og elztur sjö systkina, enda mun Jóhann hafa borið veg og vanda af þeirri sameiginlegu útgerð þeirra bræða. Helgi telur sjálfur að hann hafi ekki byrjað að stunda sjó svo mark sé á takandi fyrr en hann 16 ára gamall réðst til línu- og handfæraveiða á 12 tonna þilfarsbátinn Fálka, sem þá var gerður út frá Raufarhöfn. Síðan er sjómannsferill Helga nær óslitinn.
Frá Vestmannaeyjum réri Helgi sína fyrstu vertíð árið 1938 og þá sem háseti á v.b. Mugg. með þeim þjóðkunna aflamanni Páli heitnum Jónassyni frá Þingholti. Eftir það réri hann héðan frá Eyjum, fyrst sem háseti og síðan stýrimaður allt til vorsins 1945 að hann hóf skipsstjórn á v.b. Hilmi við síldveiðar fyrir Norðurlandi. Árið 1947 tekur hann við v.b. Mugg og er með hann í eitt ár, en þá ræðst hann fyrir v.b. Skaftfelling og er með hann óslitið þar til hann tekur við v.b. Kára 1951.
Sumarið 1955 ræðst hann í að láta byggja 73 smál. fiskibát úr stáli í félagi við þá Gísla Þorsteinsson og Ágúst Matthíasson. Báturinn var byggður í Elmshorn í V-Þýzkalandi, og er sá Stígandi, sem Helgi hefur nú unnið sitt afrek á.
Árið 1941 kvæntist Helgi Leu Sigurðardóttur. og hófu þau búskap hér það sama ár. Hún á ætt og uppruna hér í Eyjum. Þau eiga 4 börn, son og 3 dætur.
Helgi Bergvinsson er með hæstu mönnum að vallarsýn og þrekinn. Hann er afburðahraustmenni að burðum, og það svo, að margir sem með honum hafa starfað trúa því að honum verði aldrei afls vant, ef í það fer. Hann er ljúfmenni í viðkynningu og því vinmargur, manna mestur gleðimaður á góðri stund en alvörumaður við störf sín á sjó, gætinn, og keppir með forsjá, enda farsæll sjómaður og nýtur virðingar sinna undirmanna.
Trúlega mun Helgi Bergvinsson enn um mörg ókomin ár róa til fiskjar úr Vestmannaeyjahöfn með mönnum sínum, með fullan hug á því að verja sinn sæmdartitil. Tugir annarra manna munu etja við hann kappið með þá staðreynd í huga, að vertíðin 1960 var aðeins ein af óslitinni röð. Enginn veit hvað framtíðin ber í skauti sínu á þessum vettvangi fremur en öðrum, en eitt vita þó allir Eyjabúar með fulrri vissu, að til þess afreks að sækja verðlaunagrip aflakónganna heim í stofu í Miðstræti 25 skal þurfa annað og meira til en orðin tóm.

Sjómannadagsblaðið óskar Helga til hamngju með sína verðskulduðu sæmd og þann titil, sem henni fylgir.