Nýibær

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. janúar 2013 kl. 14:20 eftir Þórunn (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. janúar 2013 kl. 14:20 eftir Þórunn (spjall | framlög) (bætt við mynd)
Fara í flakk Fara í leit
Nýibær, Norður-Gerði, Hvassafell og Stóra-Gerði.
Nýibær
Nýibær, Svava Torfadóttir frá Víðvöllum og Kristbjörg Kristjánsdóttir frá Kirkjubóli
Nýjibær þegar húsið var grafið upp eftir gos.

Bærinn Nýibær stóð skammt í vestur frá Ólafshúsum, norðan og vestanundir lágum grasivöxnum hól, Frið. Túnin í Nýjabæ lágu að Helgafellsbraut í vestur og suður, að Vesturhúsatúnunum í norður og að Ólafshúsartúnunum í austur. Einng átti jörðin töluvert beitarland í suðausturhlíðum Helgafells og garðlönd inn í Botni, auk nytja í Álsey.

Jörðin gaf af sér tvö kýrfóður. Nýibær var Álseyjarjörð með sömu hlunnindi og Ólafshús. Nýibær er eldri jörð en Ólafshús. Hennar er fyrst getið í jarðabók 1587 og sennilega hefur hún þá verið nýbyggð jörð. Þá var jörðin talin 4 kýrfóður. Það er því sennilegt að Ólafshúsum hafi verið skipt út úr landi Nýjabæjar.

Friður

Við Nýjabæ voru tengdar þjóðsögur í sambandi við Frið, þar átti að vera huldufólk. Það mátti leika sér og ærslast allstaðar í kringum Nýjabæ, nema við Frið. Bændur í Nýjabæ létu aldrei slá Frið. Nafnið á hólnum mun vera komið af því að í kringum hólinn varð að vera friður og ró, því ekki mátti raska friðhelgi huldufólksins. Í vestanverðum Frið var kartöflukofi og hænsnakofi.

Friður er ennþá á sínum stað þrátt fyrir að hafa minnkað aðeins vegna ösku. Norðan í Frið var lítill hellir sem hefur sigið dálítið saman.

Nýjálsa

Í Nýjabæjartúninu norðanverðu, safnaðist oft á vetrum, þegar frost leysti, töluvert vatn, sem var kallað Nýjálsa. Vatnið fraus iðulega aftur og þá voru krakkarnir úr nágrenninu á skautum þarna.

Örnefni kennd við Nýjabæ

Niður við höfnina voru nokkur örnefni kennd við Nýjabæ; Nýjabæjarhella, Nýjabæjarlón og Nýjabæjargrjót. Á Nýjabæjarhellu voru hús Ísfélagsins reist, inn í Nýjabæjarhellu gekk samnefnt lón. Nýjabæjagrjót voru norðan við Skildingafjörur, þar sem dráttarbrautin og vélsmiðjan Magni voru síðar. Þar innfrá, sem kallað var inn í Sandi, voru kálgarðar frá Nýjabæ og Ólafshúsum.

Hesthús

Austan til í túnjaðri Nýjabæjar var kofi er hafði verið notaður sem hesthús. Þar varð vart við draug og segir frá því í bók Jóhanns Gunnars, Sögur og sagnir úr Vestmanneyjum, kaflinn heitir Beri maðurinn í Vestmanneyjum. Um miðja 20. öldina hafði þessi saga færst í kofa sem var norðan og vestan til í í túnjaðrinum, við Helgafellsbrautina og urðu börn oft ansi smeyk þegar þau gengu heim í myrkri framhjá þessum kofa, því þá voru götur ekki eins vel upplýstar og nú.

Ábúendur

Framan af 19. öldinni var oftast þingað hjá hreppstjórum, bæði á Miðhúsum, en einkum í Nýjabæ, en þar var allvel hýst, hjá Jóni Einarssyni hreppstjóra, er þar bjó, og síðar Magnús Austmann stúdent og hreppstjóri. Í Nýjabæ þingaði Bonnesen sýslumaður 1825. Um miðja 19. öld má sjá af reikningum, að Magnúsi Austmann var greidd húsaleiga fyrir húslán til þinghalda.

Þorsteinn Jónsson kvæntist ekkju Magnúsar, Kristínu Einarsdóttir, hann var alþingismaður Eyjanna frá 1875-1886 og bjó í Nýjabæ til æviloka.

Eins og hér sést sátu Nýjabæjarjörðina á árum áður margir merkismenn. Skömmu fyrir aldamótin 1900 tóku við jörðinni Steinvör Jónsdóttir fædd í Hallgeirsey í Landeyjum 5.jan.1868 og Jónas Helgason fæddur í Kornhól, Vestmanneyjum 26.09.1851.
Jónas mun áður hafa verið vinnumaður hjá Þorsteini og konu hans Kristínu og séð um búskapinn í Nýjabæ. Eftir lát Þorsteins var hann áfram hjá Kristínu og hún í heimili hjá þeim, eða þau hjá henni, þar til Kristín lést.

Steinvör og Jónas eignuðust 3 dætur; Jóhönnu Guðrúnu fædd í Nýjabæ 29.10.1898, Kristínu fædd 3.jan. 1901 og Soffíu fædd 06.07.1904. Auk þess ólust a.m.k. tvær vandalausar stúlkur upp hjá Steinvöru í Nýjabæ, Jóhanna Björnsdóttir sem giftist til Hornafjarðar og Kongordía Konráðsdóttir sem giftist og bjó lengstaf í Danmörk.
Einnig var bróðir Steinvarar Jón, í heimilinu, hann var ekki heill heilsu og lést 1930.

Magnús Magnússon smiður frá Vesturhúsum (f.1905) segir að barngæska hjónana í Nýjabæ hafi verið sér minnistæð, þeir strákar hafi alltaf átt skjól hjá Steinvöru ef þeir voru í vandræðum út af einhverjum strákapörum. það kom ósjaldan fyrir að þeir strákarnir urðu óþreyjufullir að fá sér bragð úr eggjakoppi á vorin og fóru þá á eigin spýtur og nældu sér í svartfuglsegg, slíkt var að sjálsögðu stranglega bannað, fóru þeir strákar þá heim að Nýjabæ og sauð Steinvör fyrir þá eggin, stundum úr sínum eigin leigumála. Sömu sögu sögðu bræðurnir frá Ólafshúsum, Jón Bergur Jónsson og Guðni, fæddir um aldamótin 1900, þeir misstu móðir sína mjög ungir og leituðu oft í Nýjabæ þegar þegar eitthvað bjátaði á.

Jóhanna giftist Sigurði Þorsteinsyni sem fæddur var 02.02.1888 í Rómaborg, Sundastræti 23, Ísafirði. Þau kynntust í Hrísey, þar sem Sigurður var formaður á bátum og Jóhanna fór þangað í sumarvinnu. Sigurður byrjaði sjómennsku ungur en til Vestmannaeyja kom hann árið 1922. Hann hóf formennsku árið 1925 á Kára I. Síðar var Sigurður með Glað, Hjálpara og Auði allt til ársins 1938.

Þau eignuðust 5 dætur sem allar eru á lífi í dag 04. ágúst 2012 og koma hér í aldursröð: Elísabet Steinvör -Beta f. 03.07.1924, Kristín Jónasína- Stína f. 02.09.1925, Marta Sigríður f. 22.01.1927, Helga Sigríður f. 10.11.1929 og Geirþrúður f. 30.03.1935.

Jóhanna og Sigurður hófu sinn búskap í heimilinu hjá Steinvöru og eignuðust þau 3 dætur sínar þar, en tvær þær yngstu í nýja húsinu sem þau byggðu við hliðina á því gamla og fluttu í 1929. Steinvör og Soffía fluttu fljótlega yfir til þeirra. Eftir það var eldra húsið alltaf kallað Gamlibær og það nýja Nýibær. Eftir að þær fluttu yfir var gamli bærinn leigður út, þar bjuggu t.d. í 12 ár Þóra og Kristján Kristófersson með sín 3 börn. Þau keyptu síðar Kirkjuból.
Steinvör lést 06.02.1942

Þrjár af dætrum hjónanna í Nýjabæ eignuðust sín fyrstu börn meðan þær voru enn í heimahúsum. Elísabet eignaðist Kjartan Tómasson 1945, Marta eignaðist Þórð Ben 1945 og Kristín eignaðist Sigurð Jóhann 1946. Þessir ungu herrar voru mislangan tíma í Nýjabæ. Lengst var Sigurður Jóhann þar með móður sinni og síðar Kjartan og hans fjölskylda.

Um 1950 var búskapi hætt í Nýjabæ og fóru túnin stuttu síðar undir götur og hús. í gegnum túnið lá Búastaðabraut frá austri til vesturs og Nýjabæjarbraut frá norðri til suðurs.

Jóhanna lést í Mars 1955 og flutti þá Elísabet dóttir þeirra í Nýjbæ en Sigurður flutti út í Gamlabæ, hann fór á Hrafnistu í Reykjavík 1968 og lést þar 23. okt. 1970.

Elísabet giftist Ármanni Höskuldsyni og bjó í Nýjabæ meðan þau hjónin voru að byggja sitt hús í Nýjabæjartúninu. Það varð Helgafellsbraut 29. Þá tók Kristín við Nýjabæ. Maður hennar var Theódór Jóhannsson og bjuggu í Nýjabæ meðan þau voru að byggja sér hús að Nýjabæjarbraut 6. Þau fluttu úr Nýjabæ haustið 1971 og var húsið þá selt Kristjáni Sigfússyni og fjölskyldu hans, sem bjuggu í því fram að gosi.

Nýibær stóð við Helgfellsbraut 25 áður en byggðin færðist þarna uppeftir en eftir að túnin byggðust stóð Nýibær við Búastaðabraut. Í gosinu 1973 hvarf Nýibær alveg undir ösku og soðnaði í sundur svo ekkert var eftir af honum þegar búið var að hreinsa öskuna. Þegar byrjaði að gjósa bjuggu í húsinu hjónin Krisján Sigfússon og Sigga María Sigfússon, synir þeirra Róbert og Martin. Einnig bjó þar Jenný Guðmundsdóttir. Húsið fór undir ösku í gosinu.


Heimildir

  • Geirþrúður Sigurðardóttir, munnleg heimild 04. ágúst 2012
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1. desember 1972.