Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Kirkjuskip í Landakirkju
Kirkjuskip Landakirkju
Á sjómannadaginn verður sett upp kirkjuskip í Landakirkju. Er það líkan af hinum kunna Vestmannaeyjateinæringi, afla- og björgunarskipinu Áróru, sem gert var út frá Vestmannaeyjum áratugum saman á síðustu öld og fram á þessa öld.
Aðdragandi að smíði Áróru sem kirkjuskips er sá, að þeir feðgar Bjarnhéðinn Elíasson skipstjóri og útgerðarmaður og Árni Johnsen blaðamaður hétu á Landakirkju í eldgosinu 1973.
Þegar hraunflóðið bullaði inn Víkina og var að leggjast að hafnargarðinum, hétu þeir á Landakirkju að láta smíða líkan af gömlu Eyjaskipi til þess að hafa það sem kirkjuskip í Landakirkju. Áður höfðu hjónin Guðbjörg Björnsdóttir og Sigurður Sæmundsson á Hallormsstað stofnað sjóð í Landakirkju til þess að stefna að smíði kirkjuskips og einnig hafði sóknarnefnd Landakirkju látið fé í sjóðinn.
Eftir ítarlega könnun varð happaskipið Áróra fyrir valinu og Árni fékk Helga S. Eyjólfsson Faxaskjóli 14 í Reykjavík til þess að smíða skipið, en Helgi er kunnur hagleiksmaður og módelsmiður. M.a. smíðaði hann fyrir Þjóðminjasafnið líkan af hinu fræga hákarlaskipi, Ófeigi frá Ströndum. Mál voru til af Áróru hjá Lúðvík Kristjánssyni sagnfræðingi og smíðaði Helgi skipið eftir þeim upplýsingum, en hann hóf smíði þess haustið 1974 og lauk við það í maílok 1975. Sem dæmi um hin vönduðu og nákvæmu vinnubrögð Helga má nefna, að þegar hann var búinn að byrða upp skipið líkaði honum ekki hallinn á afturstefninu, taldi hann skeika um nokkra millimetra miðað við gömlu málin. Smíðaði hann því nýtt skip. Þegar hann hafði sett þófturnar í nýja skipið, líkaði honum ekki blærinn á timbrinu í þóftunum, tók þær því úr og aflaði áferðarfallegri viðar í þófturnar. Þannig hafa öll vinnubrögð verið í sambandi við smíði þessa skips, aðeins það bezta og réttasta var nógu gott.
Kona Helga, Ragnheiður Jóhannsdóttir, saumaði seglin á Áróru, en hún hefur saumað seglin á þau skip sem Helgi hefur smíðað.
Það er tímafrekt og nostursöm vinna að smíða skipslíkön og stundum, þegar eitthvað bjátaði á hjá Helga settist hann við planóið sitt og samdi laglínu. Meðan skipið var í smíðum samdi hann lag við sálm eftir Stefán frá Hvítadal og þetta lag hefur hann sent Landakirkju með skipinu.
Áróra er á margan hátt dæmigerð fyrir áraskip frá Vestmannaeyjum og einnig er hún sérkennilega tengd Landakirkju, því einn af formönnum Áróru var í áratugi organisti kirkjunnar og einn af eigendum hennar var einnig í áratugi sóknarnefndarformaður. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja bað Árna Johnsen um upplýsingar um smíði skipsins og vitneskju, sem hann aflaði um Áróru. En Árni kvað þær allar að finna í bréfi sem Eyjólfur Gíslason frá Bessastóðum sendi honum þar um og sendi Árni afrit af bréfinu til birtingar.:
„Gerðum Lokadag 11. maí 1975
Sæll og blessaður, góði kunningi.
Nafnið Aróra mun þýða morgunroði. Ekki er mér kunnugt um hvar Áróra var smíðuð en ég get mér til, að það hafi verið, í Vestmannaeyjum eða Landeyjum, því þar voru mörg af þeim gömlu góðu Eyjaskipum smíðuð.
Fyrsti formaður á Aróru var Brynjólfttr Halldórsson bóndi í Norðurgarði og mun hann hafa átt skipið ásamt fleirum. Var hann skipstjóri á Aróru til dánardægurs. Brynjólfur var formaður með áttæringinn Langvinn áður en hann fékk Aróru.
Brynjólfur Halldórsson fluttist til Eyja úr Landeyjum Hann var faðir Margrétar í Miðhúsum, konu Hannesar lóðs og sonur hans var Halldór í Gvendarhúsi, síðar Sjávargötu og síðast í Hafnarfirði. Hann var blindur og var ætíð kallaður Dóri blindi. Þau systkini voru fjölda mörg. Kona Brynjólfs hér Jórunn.
Áróra kom mikið við sögu í útilegunni miklu árið 1869 en hútt hefur ávallt verið í minnum höfð og mikið var hún umtöluð allt fram á annan tug þessarar aldar af eldri og elztu Eyjamönnum, sem hana mundu. Árið 1869 þann 25. febrúar, lágu 14 áraskip úti við Eyjar í fárviðri, sem stóð í tvo sólarhringa; 13 skipanna Iágu austan undir Bjarnarey, en eitt í Drengjabót austan undir Yztakletti.
MÁL ÁRÓRU VORU*:
Kjalarlengd:
12 álnir og 13 tommur.
Lengd milli hnífla:
17 álnir.
Dýpt á skipinu:
4-5 fet.
Breidd um andófsrúm:
11 fet.
Á þessum 14 skipum voru alls 218 manns. Þrjú þeirra skipa, sem reru þennan dag, náðu lendingu norðan á Eiðinu og var Aróra eitt þeirra og það eina sem sett var yfir Eiðið af fjölda manns og róið af harðfylgi undir öruggri stjórn með fram landi og síðan austur í Læk við illan leik. En upp í sitt eigið hróf komst Áróra eitt skipa þennan óveðursdag. Daginn eftir, þann 26. febrúar, var Áróra gerð að björgunarskipi og var þá bætt fjórum árum á skipið, tveimur á hvort borð og settir á það fjórir nýir keipar, tveir í barka og tveir í miðskut. Þar með var Áróra orðin tólfæringur. Að því loknu voru valdir hraustustu mennirnir úr hópi þeirra sjómanna, sem í landi voru og voru tveir menn um hverja ár á skipinu. Þvi næst voru bornir í Aróru matar- og fatabögglar, ásamt brennivíni og hoffmannsdropum, hinum sjóhröktu mönnum til hressingar.
Hélt svo Áróra af stað austur fyrir Bjarnarey undir stjórn Brynjólfs í Norðurgarði til þess að leggja lið skipaflotanum , sem barðist þar við dauðans dyr, menn allir þjáðir af hungri, kulda og vosbúð.
Mörg skipanna, sem lágu í vari á Haganefsbótinni austan undir Bjarnarey höfðu átt skammt eftir ófarið til lands þegar fárviðrið skall á. Gideon með Árna Diðriksson bónda í Stakkagerði sem formann, var kominn inn undir Miðhúsaklett þegar veðrið skall svo skyndilega á, að ekki varð við neitt ráðið. Fuku árarnar upp úr keipunum á Gideon og varð að sigla skipinu ásamt hinum skipunum undan vindi til Bjarnareyjar á árum, því vonlaust var að hemja segl. Á áttæringnum Najaden var reist mastur, en það brotnaði samstundis niðri við þóftina. Nokkurra stiga frost með miklu fjúki og skýjafari mun hafa verið þessa tvo sólarhringa sem fárviðrið stóð, en allan þennan tíma urðu sjómenn að sitja undir árum. Brim var svo mikið að gengið mun hafa yfir Haganefið í Bjarnarey og er það þó hátt.
*1 alin (dönsk) - 24 tommur - 62,8cm 1 fet - 1/2 alin - 31,4 cm. þ.e. kjalarlengd 7,85 metrar..
Þegar Áróra hafði fært hinum sjóhröktu skipshöfnum þurran fatnað og mat, sneri Áróra aftur til lands og var skipið allan daginn og fram á kvöld að berja til lands, þótt vegalengdin væri ekki nema 4 km. Fjögur stórskipanna náðu einnig landi um miðnætti þennan dag, en önnur ýmist reyndu ekki að berja til lands eða sneru aftur við í var við Bjarnarey. Einu skipanna, Blíð, sem sneri aftur við hvolfdi við Brekaflá á Bjarnarey og fórst þar öll skipshöfnin, 13 menn, en formaður var Jón Jónsson lóðs á Vilborgarstöðum. Boðinn Breki hafði verið uppi og féll hann austur að þessu sinni, en slíkt gerist aðeins í mestu aftökum. Einnig létu lífið af vosbáð og kulda þrír aðrir menn í þessari miklu útilegu.
Eftir lát Brynjólfs í Norðurgarði hafa þessir eftirtöldu menn verið nefndir sem formenn á Áróru að ég bezt veit:
Lárus Jónsson Vestri-Búastöðum. Einar Árnason Vilborgarstöðum var eina eða tvær vertíðir með Áróru, en hætti formennsku sökum aflaleysis. Jón Árnason, bróðir Einars, var nokkrar vertíðir með Áróru eða þar til hann fluttist búferlum til Reykjavíkur og varð þar kaupmaður. Hann hafði verið mikill fiskimaður og ágætur sjómaður, sem var dáður af sínum hásetum. Sigfús P. Scheving Vilborgarstöðum var formaður með Áróru eina eða tvær vertíðir. Sigurður Sigurfinnsson Vilborgarstöðum, síðar á Heiði, var formaður með Áróru og þar næst var formaður með skipið, Sigfús Arnason Löndum, fyrsti organisti Landakirkju, en það starf hafði hann á hendi um 30 ára skeið. Sigfús var einn af sjö Vilborgarstaðabræðrunum.
Hann hætti formennsku eftir eina vertíð, en þá tók við formennsku á Áróru, stuttu fyrir aldamótin, Guðjón Ingimundarson frá Draumbæ, ungur og mjög efnilegur maður og varð hann fljótlega mjög mikill fiskimaður. „Um og í toppnum", sem nú væri sagt. En hann fluttist alfarinn til Ameríku ásamt fleira Eyjafólki á þessum árum.
Friðrik Benónýsson í Gröf var síðasti formaðurinn með Áróru í Eyjum í byrjun 20. aldar, en stuttu seinna var skipið selt til Víkur í Mýrdal og notað þar sem uppskipunarbátur.
Það er vitað um 9 formenn, sem stýrðu Áróru meðan hún var í Eyjum og ef til vill hafa þeir verið fleiri?
Áróra þótti erfið til setnings og þung til róðra, því hún var svo burðarmikil, en gott sjóskip þegar í vont var komið og ágæt undir farmi. Aróra var mikið afla- og happaskip þær 40 vertíðir sem ætla má að Áróra hafi sótt sjóinn frá Vestmannaeyjum. Ekki er víst hverjir voru eigendur Áróru, en ekki er ólíklega til getið, að Árni Einarsson hreppstjóri og bóndi á Vilborgarstöðum hafi átt í henni stóran hluta eftir að Brynjólfur formaður lézt, þar sem þrír af sonum Árna og einnig nábúar hans urðu formenn á Áróru. Árni Einarsson var mikill mektarmaður í Eyjum alla sína manndómstíð. Hann var meðlhjálpari í Landakirkju um tugi ára, fram á elliár, en það þótti í þá tíð mikil virðingarstaða.
Ég læt hér til gamans fljóta með eina sögu úr tíð Áróru, en hana heyrði ég oft sagða á mínum uppvaxtarárum:
Brynjólfur í Norðurgarði var kunnur sem mikið hraustmenni, en þótti nokkuð vínhneigður í landlegum. Eina vertíð í austan roki, nauðlentu í Stafnesvík þeir Brynjólfur á Áróru og Árni Diðriksson í Stakkagerði á Gideon. Settu þeir skipin upp í Stafnesvík og gengu síðan heim til bæja yfir Dalfjallshrygg. Var þar beðið eftir því að austanrokið hegði. Um kvöldið varð Árni þess var, að Brynjólfur var orðinn æði drukkinn, en þó á heimleið upp að Norðurgarði. Leiðin „Upp fyrir Hraun" var þá farin eftir götutroðningum, sem voru fast við Stakkagerðistúngarðana að austan. Var Brynjólfur þá að baka túngarðinn og hvetja háseta sína til að standa vel að, svo Áróra kæmist á flot. Þegar Árni sá og heyrði hvernig Brynjólfur var á sig kominn, varð honun að orði, ,,Á, ekki þarf að stóla mikið á þig ef hann lygnir bráðlega".
En klukkan tvö um nóttina bankar Brynjólfur harkalega í gluggann á svefnhúsi Árna og kallar til hans þessum orðum: „Ef þú vilt ná honum Gideon heilum, þá skaltu vera fljótur að kalla þína háseta".
Það mátti víst heldur ekki seinna vera að þeir næðu skipunum heilum út úr Stafnesvík, því snögglega gekk hann í falan útsynning. Sagt var, að Árni hefði þakkað Brynjólfi algjörlega, að þeir höfðu skipin heil. Brynjólfur Halldórsson mub hafa látizt á góðum aldri úr lungnabólgu, sem þá var nefnd taksótt.
Bið þig að taka viljann fyrir verkið og lesa í málið eins og fyrrum var komizt að orði.
Vertu ætíð blessaður og sæll. Þinn gamli kunningi.