Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993/Kjærstine

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. október 2015 kl. 14:06 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. október 2015 kl. 14:06 eftir Kristinsigurlas (spjall | framlög) (Ný síða: '''BRYNDÍS JÓNSDÓTTIR''':<br> <big><big>KJÆRSTINE</big></big><br> <big>„EKKI ER ALLRA GETIÐ SEM KARLMANNLEGAST STÓÐU SIG</big>“ Sunnudaginn 9. júlí 1989 fór ég...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

BRYNDÍS JÓNSDÓTTIR:

KJÆRSTINE

„EKKI ER ALLRA GETIÐ SEM KARLMANNLEGAST STÓÐU SIG

Sunnudaginn 9. júlí 1989 fór ég og eiginmaður minn, Jón Björnsson, frá Reykjavík norður yfir heiðar og náðum við Akureyri um kvöldmatarleyið. Ástæðan fyrir þessu ferðalagi var að taka myndir af vélbátum og einnig að leita eftir myndum í Skipadagbókina af þeim bátum sem heyra nú sögunni til. Ég fór hins vegar með til tilbreytingar og einnig fróðleiks og hafði því í farteskinu ýmsar góðar bækur mér til stuðnings og ætlaði jafnframt að sækja söfn.

Ég varð brátt niðursokkin í lestur í öðru bindi Skútualdarinnar (útg. 1977) eftir Gils Guðmundsson sem fjallar um Norðurland, því nokkuð var um það í byrjun þessarar aldar að í gömul skip væru settar vélar og eftir það tilheyrðu þau vélbátaflotanum. Ég skráði því öll þau skip sem nefnd voru í þessum kafla ásamt lýsingu ef hún lá fyrir. Komið var að miðnætti þegar Jón fór að sofa en ég sat ein eftir við lestur.

Hin norðlenska sumarnótt var kyrr og hljóð og aðeins heyrðist straumniðurinn í læknum sem rann rétt utan við húsgaflinn. Rökkrið læddist að því drungi var í lofti. Er á nóttina leið fannst mét eins og eitthvað væri á flökti í kringum mig og þá sérstaklega er ég leit fram í ljóslausa stofuna og kenndi því um að ég væri orðin syfjuð og þreytt eftir ferðalag dagsins.

Þegar ég lagðist til svefns var mér efst í huga þrautseigja og karlmennska ýmissa hákarlaformanna í eyfirska flotanum því margir þeirra voru nafngreindir ásamt skipum sínum. Út frá þessum hugrenningum sofnaði ég. Um nóttina dreymir mig að komi til mín maður sem ég vissi að var látinn, þó ég þekkti engin deili á honum. Hann var í dökkum fötum og með dökkt hár og kynnti sig sem Jóhann Jónssson skipstjóra á Kristine. Honum virtist vera nokkuð niðri fyrir ei hann sagði að þeirra sjómanna væri ekki allra getið sem karlmannlegast hefðu staðið sig og mesti þrekvirkin unnið. Eitthvað töluðum við saman sem ég í vöku hef að mestu gleymt.

Morguninn eftir fór ég yfir það sem ég hafði skráð kvöldið áður um eyfirska flotann, en fann ekkert skip með þessu nafni og las því aftur yfir þann kafla í Skútuöldinni sem ég sótti heimildina í, en án árangurs, og því taldi ég alveg eins að ímyndunaraflið væri að hlaupa með mig í gönur.

Nú líður fram til hausts og af og til er draumurinn að koma upp í huga minn og engin vissa fengin fyrir tilvist manns né skips. Þá er það að Sæmundur Rögnvaldsson kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti kemur til Jóns með mynd af báti. Þar sem ég vissi af þekkingu hans og áhuga fyrir sjómennsku þá barst draumur minn í tal. Svaraði Sæmundur því að bragði að Jóhann Jónsson væri langafi sinn og hefði verið skipstjóri á hákarlaskipinu Kristine. Þetta þótti mér athyglisvert, en frekari upplýsingar fékk ég ekki að því sinni.

Enn leið og beið þar til í eitt sinn þegar ég var að glugga í spjaldskrá slysasögunnar að ég staldra við hið sérkennilega bátsnafn „Kjærstine“ og tek einnig eftir því að Jón hefur ekki merkt við það sem tákn þess að hafa fært bátinn inn í sína skrá. Í spjaldskrána hafði ég skráð eftirfarandi:

„Kjærstine. 7. júní 1910 fórst hákarlaskipið Kjærstine á veiðum á svonefndu Strandagrunnshorni og með því öll áhöfn þess, 12 menn. Skipstjóri þess var einn fárra manna sem numið hafði sjómannafræði. Skipið var í eigu Gránufélagsins.“

Ég fletti síðan upp í heimildaritinu „Þrautgóðir á raunastund“, bls. 171. Þar var ítarlega skýrt frá slysinu og getið nafns skipstjórans, Jóhanns Jónssonar. Nú fannst mér ég vera komin á sporið og hringdi í Sæmund sem staðfesti að þetta væri langafi sinn og skipið sem hann kenndi sig við. Með þessu var áhugi minn vakinn í alvöru og fletti því upp í nafnaskrá „Skútualdarinnar“ og fann þar nafn manns og skips í V. bindi. Þar á bls. 231 er m.a. svo skrifað um Jóhann:

„Jóhann var góður aflamaður og mikill sjómaður. Hann var stór vexti og að sama skapi þrekinn, enda talinn einhver mesti kraftamaður við Eyjafjörð á sinni tíð. Fór hann þó mjög dult með afl sitt og lét lítið á því bera því að Jóhann var stilltur maður, hógvær og prúður í allri framkomu. Var hann vinsæll og vel látinn.“

Hógvær og prúður var sá maður sem birtist mér í draumnum. Einnig fann ég mynd af Jóhanni Jónssyni og konu hans í 1. bindi Skútualdarinnar, en hún hafði farið fram hjá mér, enda einungis bátamyndir virtar viðlits!

Í bókinni „Virkir dagar“ ævisögu hákarlaskipstjórans Sæmundar frá Látrum, sem Guðmundur G. Hagalín skrásetti, bls. 426, er afdrifum Kjærstine lýst svo:

„Hinn sjöunda júní lágu eyfirzku hákarlaskipin Kjærstine og Erik á djúpmiðum úti af Norður-landi, Kjærstine var eign Gránufélagsins, en Erik átti Hoëfnersverzlun. Skipstjóri á Erik var Kristinn Ásgrímsson, hinn mesti sjógarpur. Nú hvessti skyndilega, og þar sem Kristinn vissi, að skip hans var lélegt, leysti hann þegar og sigldi til lands. En það sá hann seinast til Kjærstine, að hún lá kyrr við stjóra. Síðan fréttist ekkert til hennar, en seinna fannst af henni skipsbáturinn á reki. Hann var allmikið brotinn.“

Og síðar á sömu bls. er ástandi skipsins lýst nánar:

„Það er annars af Kjærstine að segja, að talið var að hún hefði hreint og beint liðast í sundur undir stjóra. Hún var orðin gömul og léleg, en slík skip þola ekki þá áreynslu sem því er fylgjandi að liggja við stjóra í vondum veðrum og verða fyrir geysiátaki, hvenær sem sjór ríður undir. Og Kjærstine var svo sem ekki fyrsta skipið, sem fórst af þeim ástæðum, að það var ekki nægilega sterkt. Skipaskoðun var engin lengi vel og eigendur skipanna höfðu sjaldan nokkra verulega hugmynd um, hvernig skipin voru, en vildu hins vegar, vegna gróðavonarinnar, halda þeim úti í lengstu lög.“

Nú lá næst við að líta í blöð frá þessum tíma og urðu að sjálfsögðu Norðri og Norðurland fyrir valinu. Norðri getur þess meðal smáfrétta inni í blaðinu þann 2. júlí 1910 að farið sé að óttast um „Kestine“ og getur formannsins, Jóhanns Jónssonar. Sennilega er nafn skipsins stafsett eftir framburði. Þann 9. júlí 1910 birtist í Norðurlandi frétt inni í blaðinu undir fyrirsögninni: Hákarlaskip ferst. Þar eru taldir upp allir þeir sem fórust og talið að það hafi farist í því mikla veðri þann 7. júní þegar Hektor frá Siglufirði var nærri farinn og missti tvo menn. Sömuleiðis getur Þjóðólfur þessa 15. júlí s.á. og nafngreinir alla þá sem fórust. Norðri skýrir svohljóðandi frá sjóslysinu er Kjærstine fórst (hér ritað Kerstine), þann 23. júlí 1910, með smáu letri inni í blaðinu:

„Mannskaðar. 4. þ.m. kom fiskiskipið „Jakob“ hingað inn. Á leiðinni að vestan fann það skipsbátinn af hákarlaskipinu „Kerstine“ nokkuð brotinn. Er því enginn vafi á að skip þetta hefir tínst og er gizkað á að það muni hafa farist í vestanroki 12 f.m. fram á hákarlamiðum. Með skipi þessu hafa farist 12 góðir sjómenn, og voru þeir þessir:

Jóhann Jónsson skipstjóri bóndi í Litlaárskógi 50 ára, giftur maður og hafði lengi verið hákarlaformaður (átt 2 börn ófermd). Ólafur Jónsson í Litlaárskógi bróðir Jóhanns, ógiftur maður 46 ára. Stefán Hansson á sama bæ giftur maður 59 ára gamall (átti 3 börn ófermd). Sigurbjörn Gissursson á Hjalteyri giftur 42 ára (átti 4 börn). Arngrímur Jónsson Jarðbrúargerði í Svarfaðardal giftur 43 ára. Jón Friðriksson Tjarnargarðshorni giftur 59 ára. Jón Skarphéðinsson Litlaárskógssandi giftur 26 ára. Jóhann Jóhannsson samastað, giftur 35 ára (átti 3 börn). Gunnlaugur Jóhannesson Litlaárskógi, giftur. Jóhann Þorvaldsson Árbakka Árskógsströnd giftur milli 40 og 50 ára (átti 4 börn). Sigurpáll Guðmundsson Hauganesi ógiftur 17 ára, Jakob Jónsson Birnunesi ógiftur 27 ára.“

Nú fletti ég áfram norðanblöðunum allt fram undir lok septembermánaðar 1910 í þeirri von að sjá minningargreinar eða ljóð um þennan hryggilega atburð þegar svo margir menn úr sama héraði falla frá og skilja eftir sig konur og börn og aldraða foreldra. En því var ekki fyrir að fara. Hins vegar voru tvö harma- og tregaljóð birt á forsíðu Norðra, annað í ágúst með stóru letri og hitt í september s.á. um burtför tveggja embættismanna og fjölskyldna þeirra úr byggðarlaginu í annan landshluta og úr einu embætti yfir í annað!

Þegar látinn maður kemur í draumi til að minna á sig, skip sitt og þá sem aldrei verður getið sem vert væri hlýtur það að vera skylda dreymandans að koma þeim boðum á framfæri. Til að boðin verði sem skýrust þurfti að draga upp sem gleggsta mynd af samtíð hins látna og sjávarháttum þess tíma. Því miður er þekking mín lítil, en með hjálp góðra bóka hef ég fest eftirfarandi á blað og reynt að fara fljótt yfir sögu, þá sögu sem ég held að fáir leiði nú hugann að.

Brautryðjandi í þilskipaútgerð var Bjarni Sívertsen kaupaður í Hafnarfirði þegar hann um 1800 keypti litla danska skútu og fór að gera hana út með þeirri farsæld að þilskipaútgerð hans var rekin í 30 ár með tíu skipum alls. Fleiri fylgdu á eftir og ruddu brautina og skrifar einn þeirra m.a. svo í tímaritið Ármann á Alþingi árið 1832:

„Á bátum má kalla að maður hafi annan fótinn í fjörusteinunum, en á þilskipum hefir maður hús og heimili á sjónum; þá er maður og eigi bundinn við vissan stað á landinu, heldur fer maður og flýgur umhverfis landið og útá reginhaf, eftir ásigkomulagi og geðþekkni. Maður þarf því eigi að vera fisklaus í einni veiðistöð þó að veiðiskapur leggist þar frá um tíma, því þá leitar maður þangað sem veiðiskapur er fyrir.“

Skútuútgerðin stóð með hvað mestum blóma á árunum 1881-1905, mest var veitt af þorski en minna af öðrum bolfiskum. Hákarlaveiði var stunduð í þeim eina tilgangi að hirða lifrina sem lýsið var brætt úr. Hákarlalýsi var notað sem eldsneyti í götuljósker Kaupmannahafnar og fleiri erlendra borga og var því eftirsótt útflutningsvara fram til 1890, en þá tók olían við og eftirspurnin hraðminnkaði. Flestar urðu skúturnar árið 1906, um 170, einmitt þegar tæknin í íslenskum sjávariðnaði var að ryðja sér til rúms með vélbátum og togurum sem gerðu þær fljótt úreltar.

Við hákarlaveiðar þurfti mikla krafta, þrek, snarræði og góða verkkunnáttu. Völdust því tápmiklir og hraustir menn á hákarlaskip, sem sum hver voru tæplega sjófær, og töldu sig heppna og menn að meiri þegar plássið var fengið. Aðbúnaður um borð var heldur nöturlegur. Hásetaklefinn var aðeins lítil kytra með þröngum fletum og eldavél sem allur matur var soðinn á. Sum skipin voru svo illa þiljuð að lifrarfitan smitaðist inn í káetuna úr lestinni og blandaðist saman við reyk og matarlykt svo úr varð hinn versti ódaunn og ekki gerði dekkleki, ef hans var vart, kytruna vistlegri, hvað þá þegar rakinn breyttist í klaka.

Hafísinn lónaði oft við strendur landsins á seinni hluta síðustu aldar og veðráttan því ærið óblíð á köflum. Svarf þá hungrið sárast, of oft með þeim afleiðingum að efnalitlar fjölskyldur flosnuðu upp frá kotum sínum. Foreldrarnir eða foreldrið réðst e.t.v í húsmennsku, stundum með eitt barn eða tvö, þegar best lét, en annars sett á sveitarframfæri. Börnunum sem og fullorðnum var þá holað niður á bæi sem hreppsómögum hingað og þangað við misjöfn skilyrði. Þetta varð oft hlutskipti ekkna og föðurlausra barna, sjúklinga og umkomulausra gamalmenna. Það var því mikið lagt undir og teflt djarft þegar ýtt var frá landi, enda uppgripin mikil þegar vel gekk.

Mörg hryggileg sjóslys leiddu til þess að bátaábyrgðarfélög voru stofnuð og var Hið Eyfirzka Ábyrgðarfélag stofnað 1868. Auk bótagreiðslna beitti það sér m.a. fyrir betri skipakosti, aukinni menntun skipstjóra og gerði meiri kröfur til skipasmiða. Eftir 1898 er ábyrgðarfélagsins ekkert getið og lítið vitað um endalok þess.

Þrek skútusjómanna er hreint með ólíkindum, ekki síst þeirra sem hákarlaveiðar stunduðu. Aldrei verða störf þeirra ofmetin og aldrei verður þeim þakkað sem vert væri. Sennilega er þeirra þætti í uppbyggingu lands og þjóðar hvergi betur lýst en með eftrirfarandi orðum Gils Guðmundssonar:

„Kynslóð skútualdarinnar tók við litlum og lélegum kænum, en kom sér upp fríðum flota. Sú kynslóð tók við atvinnuvegunum örsnauðum og niðurníddum, en skilaði þeim bjargálna. Hún tók við landinu í áþján, skilaði því frjálsu. Hún tók við tungunni spilltri, skilaði henni hreinni. Hún tók við þjóðerniskenndinni í svefni, skilaði henni vakandi. Á fáum áratugum var hinum ægilegu vágestum skorts og kvíða bægt frá íslenzkum dyrum. Á skömmum tíma var sinnulítil og sofandi þjóð glaðvöknuð og tekin að sinna verkefnum, sem hvarvetna biðu. Margt hjálpaðist að til að skapa þessar miklu og snöggu breytingar. En þilskipaútgerðin var hin hagræna undirstaða alls þessa.“ (Skútuöldin 1. bindi, bls. 10.)

Ýmsar efasemdir hafa sótt á mig eftir að ég féllst á að birta þessa frásögn, sem með nánari eftirgrennslan hafa fjarað út. Nafn skipstjóra og skips fóru saman, en hvorugs var getið í umræddum kafla. Í draumnum varpaði ég fram einni spurningu til draumamanns míns sem hann svaraði í einlægni. Eftir að ég skrásetti svar hans datt textinn úr tölvunni og reyndi ég eftir ýmsum leiðum að kalla hann fram, en fékk alltaf auðan skjá þar til að mér hugkvæmdist að fara í orðaleit, þá birtist textinn aftur á skjánum. Ég felldi því þann hluta samtalsins niður.

Guð blessi minningu Jóhanns Jónssonar og skipshafnar hans á Kjærstine og gefi þeim frið.