Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1994/Áhrif friðunar á fiskgengd
Hafsteinn Guðfinnsson:
Áhrif friðunar á fiskgengd við Vestmannaeyjar
1. INNGANGUR
Eins og mörgum mun kunnugt var þriggja mílna svæði kringum Vestmannaeyjar lokað með reglugerð fyrir tog og dragnótaveiðum í ársbyrjun 1992. Tvær undanþágur hafa verið fyrir veiðum á svæðinu þau tvö ár sem lokunin hefur verið í gildi. Í fyrsta lagi er opið svæði norðan og vestan við Þrídranga og Einidrang á tímabilinu 15. febrúar til 15. maí til kolaveiða, og í öðru lagi hefur verið opið svæði til veiða vestan við Heimaey á tímabilinu 16. maí til 31. júlí.
Þau tvö ár, sem lokuninn hefur verið í gildi, þ.e. 1992 og 1993, hefur verið haldið áfram rannsóknum á fiskgengd við Vestmannaeyjar, einkum með tilliti til þeirrar þriggja mílna landhelgi sem sett var á svæðið í febrúar 1992. Niðurstöður byggjast einkum á mælingum úr tilraunatogum í botnvörpuleiðöngrum sem farnir hafa verið á tb. Álsey VE á svæðið eða systurskipi hennar Bjarnarey VE. Togað hefur verið um svæðið með botntrolli með karfapoka (135 mm möskvi).
Í þessari grein er ætlunin að segja frá helstu niðurstöðum þessara rannsókna frá árinu 1991 til 1993. Rætt verður um breytingar á afla, sýndar verða lengdardreifingar ýsu og þorsks og birt gögn um aldursskiptingu aflans. Þá verða aflabrögð á tímaeiningu borin saman, þ.e. sem ýsuafli á togtíma. Athuganir hafa þó ekki verið staðlaðar hvað varðar togstöðvar og togtíma. Hins vegar hefur verið togað á svipuðum slóðum, þó ekki hafi verið fetað í sama farið hvað eftir annað. Togtími er hafður frekar stuttur (ca. 1 til 2 klst).
Rannsóknarsvæðinu er skipt í tvennt, í norður og suðursvæði, um línu sem hugsast dregin úr Heimakletti í Þrídrangavita og áfram. Verður vísað í þessa svæðisskiptingu í texta hér síðar.
2. NIÐURSTÖÐUR
Enginn vafi leikur á að fiskgengd hefur aukist á svæðinu eftir að lokunin tók gildi. Á þetta einkum við um ýsu en einnig um ungþorsk. Aukinn afli á línu og handfæri hjá smábátum bæði árin og ýsuafli í net í lok sumars 1993 sýnir einnig svo ekki verður um villst að fiskgengd hefur aukist verulega. Þá virtust ætisskilyrði mjög góð á svæðinu sumarið 1993 og voru átulóðningar miklar upp í sjó. Umtalsverð síldargengd hefur verið í kringum Eyjar síðustu tvö sumur.
2.1. Afli á hinu lokaða svæði 1991 til 1993.
Ástandið á svæðinu árið 1991 áður en til lokunar kom var þannig að mjög hafði dregið úr afla þá um sumarið og um haustið fékkst nauðalítið á svæðinu nema þá helst tveggja ára ýsa. Á árinu 1992 varð strax vart við ýsu á svæðinu (einkum tveggja og þriggja ára) og fór afli vaxandi er leið á haustið. Hér var þó aðallega um smáa ýsu að ræða. Á árinu 1993 jókst afli enn frá fyrra ári, einkum sunnan til á svæðinu, þ.e. í kringum Heimaey og suðureyjarnar. Í sumar- og haustleiðangri var afli mjög góður í mörgum tilraunatoganna. Samantekt á meðalafla á togtíma á suðursvæðinu og á norðursvæðinu (sjá skilgreiningu á svæðum að framan) gefur fróðlega mynd af breytingum á ýsuaflanum (mynd 1). Þar kemur fram að ýsuafli hefur aukist verulega á suðursvæðinu frá árinu 1991 til 1993 og nær um 2,4 tonna meðalafla á togtíma haustið 1993. Aflinn er hins vegar áfram lélegur á norðursvæðinu eða innan við 100 kg á togtíma (mynd 1) og breytingar á afla fyrst og fremst milli sumars og hausts fremur en milli ára.
Jafnframt auknum afla á suðursvæðinu hefur stærðarsamsetning ýsunnar orðið mun betri en var á árunum 1991 og 1992 þó að hlutfall undir viðmiðunarmörkum (<48 cm) sé enn 50-60%. Þess ber þó að minnast að hér er veitt með smáriðnari poka en gerist við venjubundnar togveiðar á ýsu á grunnslóð.
Þorskafli á svæðinu hefur farið vaxandi, bæði í þessum rannsóknaleiðöngrum og hjá línu- og handfærabátum. Hefur afli í togi, t.d. í sumarleiðangri 1993, komist upp í um 800 kg sem gerir um 400 til 500 kg á togtíma. Er hér aðallega um ungþorsk að ræða úr árgöngunum frá 1990 og 1991. Í hólfi, sem opið var í tvo og hálfan mánuð samkvæmt reglugerð vestur af Heimaey sumarið 1993, fengu tog- og dragnótabátar allgóðan þorskafla í júní.
Afli á króka fer einnig vaxandi á árunum 1992 og 1993. Úrvinnsla á gögnum úr veiðiskýrslum fyrir línu og handfæri sýnir að þorsk- og ýsuafli á sóknareiningu fer vaxandi síðastliðin tvö ár ( mynd 2 ) þ.e.a.s. eftir að lokunin kom til framkvæmda.
2.2. Lengdardreifing ýsu árin 1991 til 1993.
Uppistaðan í ýsuveiðinni sumarið 1991 við Vestmannaeyjar var ýsa úr 1985-árganginum af stærðinni 40 til 55 cm en einning var vart við tveggja ára ýsu í aflanum. Afli á togtíma var fremur slakur (mynd 1). Er leið fram á haustið hurfu allir eldri ýsuárgangar úr aflanum og nær einungis fékkst 30 til 40 cm ýsa í leiðangri í nóvember það ár sem var úr árgangi frá 1989. Svipaðar niðurstöður fengust með allri suður-ströndinni þetta haust.
Í tilraunatogum sumarið 1992 var uppistaðan í lengdarmælingum ýsu við Eyjar af stærðinni 25 til 30 cm og 35 til 45 cm og var þetta tveggja og þriggja ára ýsa. Sömu árgangar voru til staðar á norðursvæðinu en þar var þó mun hærra hlutfall af tveggja ára ýsu og ýsan þar því í heildina tekið smærri. Er kom fram á haust fór afli á suðursvæðinu vaxandi og ýsan stækkandi. Sömu árgangarnir voru áfram yfirgnæfandi í aflanum í tilraunatogunum sem tekin voru í október eins og í júlíleiðangri.
Sumarið 1993 fór magn ýsu í tilraunatogum mjög vaxandi (mynd 1) á suðursvæðinu en fremur litlar aflabreytingar komu fram á norðursvæðinu. Lengdardreifing ýsuaflans sýndi að mest var af 40 til 54 cm ýsu á suðursvæði en 30 til 44 cm á norðursvæðinu (mynd 3). Lengdardreifing ýsuaflans fyrir þessi tvö svæði er því mjög mismunandi og endurspeglar í rauninni árgangaskipanina. Uppistaðan í aflanum á suðursvæði er þriggja og fjögurra ára ýsa (mynd 4). Á norðursvæðinu er yfirgnæfandi hluti ýsuaflans þriggja ára (mynd 4) en einnig fæst eins og tveggja ára ýsa á svæðinu. Það eru sem sagt árgangarnir frá 1989 og 1990 sem eru hér í aðalhlutverki, enda eru þeir taldir mjög sterkir í skýrslum Hafrannsóknastofnunar.
Munur á lengd ýsu miðað við aldur hefur komið fram milli þessara tveggja svæða undanfarin ár. Þessi munur er ákaflega skýr milli þeirra árganga sem mest er af í aflanum (mynd 5), þ.e.a.s. hjá þriggja og fjögurra ára ýsunni. Ekki er hægt að fullyrða af hverju þessi munur stafar, en benda má á að munur á fæðuframboði og gæðum fæðunnar virðist vera mikill milli þessara svæða samkvæmt lauslegum athugunum sem gerðar hafa verið í þessum rannsóknum.
Mjög svipaðar niðurstöður og hér hafa verið raktar fyrir sumarið 1993 komu fram í tilraunatogum haustið 1993 nema hvað aflinn á suðursvæði var enn betri (mynd 1). Þá sýndu mælingar úr línuafla í haust að meir en helmingur aflans var fjögurra ára ýsa og meðallengd hennar kringum 50 cm.
2.3. Lengdar- og aldursdreifing þorsks.
Allt frá sumrinu 1991 hefur orðið vart við smáþorsk í aflanum á suðursvæði og hefur magnið farið vaxandi síðan. Lengdardreifing þorsks á suðursvæði í júlí 1992 var fremur þröng. Uppistaðan í mælingunum var af stærðinni 30 til 70 cm en lítið var af stærri þorski. Tveggja og þriggja ára fiskur var mjög áberandi í aflanum.
Lengdardreifing þorsks í aflanum í júlí 1993 er frá 30 til 70 cm með toppi við 50 til 60 cm (mynd 6). Hér er aðallega um ókynþroska fisk að ræða og er langmest um þriggja ára fisk, en einnig sést tveggja ára og fjögurra til sex ára (mynd 7). Aldurslengdarsamband þorsksins í júlímælingunni er sýnt á mynd 8. Í mælingum haustsins var magnið mun minna en í sumarmælingunni en lengdardreifing er ekki ósvipuð og þá. Sem fyrr ber mest á þorski frá 40 til 70 cm að lengd. Lítið er af stærri fiski en vart verður við smærri fisk. Árgangaskipan er svipuð og í niðurstöðum sumarsins, mest af þriggja ára þorski, þá tveggja ára en lítið af öðrum aldurshópum (mynd 7).
Mælingar á línuþorski haustið 1993 sýna að meira en 80% aflans er þriggja ára fiskur og meðallengd er um 62 cm, sem kemur mjög vel heim við meðallengd þriggja ára þorsks úr tilraunatogunum (mynd 7).
3. UMRÆÐA
Ýsumagn á suðursvæði hefur stóraukist á þeim tveimur árum sem þriggja mílna lokunin við Eyjar hefur verið í gildi. Einnig hefur þorskafli farið vaxandi. Afli á togtíma í tilraunatogum hefur margfaldast (mynd 1) og afli á línu og handfæri fer vaxandi samkvæmt aflaskýrslum, hvort sem litið er á ýsu eða þorsk (mynd 2). Aukið ýsumagn má fyrst og fremst rekja til tveggja árganga sem eru í uppvexti á svæðinu, þ.e. árganganna frá 1989 og 1990. Á árinu 1993 var heldur hærra hlutfall af 1990-árganginum í mælingunum. Þetta er í samræmi við að 1990-árgangurinn er talinn heldur sterkari í stofnúttekt Hafrannsóknastofnunar en 1989-árgangurinn. Má búast við enn frekari þyngdaraukningu þessara tveggja árganga á svæðinu á næstu árum og þar með auknum afla, ef svæðið fær þá verndun sem það þarf áfram. Yngri árgangar (1991 og 1992) hafa einnig komið fram í togararaflinu á svæðinu í kringum eyjar í mars sem bendir til að vænta megi frekari uppbyggingar á næstu árum (myndir 9 og 10).
Þorskafli hefur einnig glæðst í kringum Eyjar, bæði í tilraunatogunum og á línu og handfæraveiðum. Mest ber á fiski úr 1990-árganginum (mynd 8), en hann hefur gert vart við sig víða við suðurströndina á síðustu tveimur árum. Svo virðist sem stærra hlutfall af klaki þessa árgangs hafi orðið eftir við suðurströndina og Eyjar en raun hefur borið vitni um aðra árganga á síðustu sex árum. Í grein, sem rituð var í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993 benti ég á að slíkur ung þorskur gæti gefið aukna veiði á tilteknum svæðum eins og við Eyjar á næstu árum, þó ekki væri um mikla breyting að ræða fyrir stofnstærð þorsks. Sú virðist líka ætla að verða raunin.
Um aðrar tegundir er erfitt að ræða þar sem gögn um þær vantar. Þó virðist keiluafli á króka fara hægt vaxandi (mynd 2). Af aflabrögðum á línu haustið 1993 má ráða að steinbítur geri meira vart við sig en verið hefur árin á undan en um þetta liggja þó ekki fyrir nein gögn. Skarkolaafli við Drangana varð minni vorið 1993 en vænst var vegna ótíðar á því tímabili sem það svæði var opið fyrir veiðum með dragnót og botnvörpu. Einnig setti páskastoppið strik í reikninginn fyrir þær veiðar.
Uppbygging ýsustofnsins á svæðinu norðan Eyja að Þorlákshöfn (norðursvæði) virðist ganga mun hægar fyrir sig en gerist á suðursvæðinu. Segja má að ástandið þar sé í samræmi við það sem er að gerast með fjörum austur með suðurströndinni en þar hefur bati látið á sér standa. Á það skal þó bent að á norðursvæðinu er nokkuð um ýsu úr 1990-árganginum og þar finnst einnig ýsa úr 1991- og 1992-árganginum. Hér virðast því allra yngstu árgangarnir halda sig og gögn úr togararafli hafa einnig sýnt að svo er. Smáþorskur fæst varla í tilraunatogum á þessu svæði.
Þegar upphaflega var farið af stað með þessar rannsóknir fyrir sex árum voru mjög skiptar skoðanir um það meðal sjómanna og útvegsmanna hvort svæðið kringum Vestmannaeyjar væri uppeldissvæði fyrir þorsk og ýsu og fleiri tegundir. Þær niðurstöður, sem hér hafa verið settar fram, sýna svo ekki verður um villst að bæði þorskur og ýsa eiga sér uppeldissvæði kringum Eyjar. Þessar tegundir komu strax fram í tilraunatogum sem eins árs og tveggja ára fiskur og niðurstöður aldursgreininga, sem hér er byggt á, sýna að þriggja til fjögurra ára ýsa á árinu 1993 og tveggja til þriggja ára þorskur á árinu 1993 eru orðin veigamikill hluti í afla tilraunatoganna. Þorskur virðist vaxa afar hratt á svæðinu árin 1992 og 1993 eins og kemur fram á aldurslengdarsamböndum. Af þessum sökum kemur hann mun fyrr inn í veiðarnar hér sem nýtanlegur fiskur en á svæðum fyrir austan og norðan land.
4. LOKAORÐ
Lokun veiðisvæða kringum Vestmannaeyjar (suðursvæði) fyrir dragnóta- og togveiðarfærum hefur nú þegar skilað svo miklum árangri. Það er engum vafa undirorpið að líf á svæðinu í kringum Vestmannaeyjar (suðursvæði) hefur farið mjög vaxandi á síðustu tveimur árum og hefur í rauninni gjörbreyst til hins betra. Því tel ég mjög nauðsynlegt að halda áfram þeim lokunum sem verið hafa í gildi gagnvart veiðum með botnvörpu og dragnót. Það væri mikil skammsýni að opna svæðið fyrir veiðum stórtækra veiðiskipa og gæti á skömmum tíma lagt í rúst þá uppbyggingu sem orðið hefur á svæðinu. Enda hefur sjávarútvegsráðuneytið ákveðið að svæðið skuli vera lokað áfram fyrir veiðum með botnvörpu og dragnót. Útibú
Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum mun halda áfram reglubundnum rannsóknum á fiskgengd á svæðinu.
HEIMILDIR:
Ó.K.Pálsson og fleiri. Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum 1993. Hafrannsóknastofnun, fjölrit nr. 35. Nytjastofnar sjávar og umhverfisþættir 1992/1993. Aflahorfur fiskveiðiárið 1993/1994. Hafrannsóknastofnun fjölrit nr. 34. Hafsteinn Guðfinnsson. Vertíðarþorskur við Vestmannaeyjar. Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1993.