Blik 1967/Grænlandsför Gottu 1929
Grænlandsferð 1929
Gottu-leiðangurinn
Einu sinni kom Íslendingum til hugar að tök mundu á að rækta sauðnaut á landi sínu og hafa tekjur af. Þess vegna var það veturinn 1929, að ég bezt veit, sem heir stofnuðu félag í Reykjavík og nefndu það „ Eirík rauða“. Tilgangur félags þessa var að koma af stað Grænlandsleiðangri til að veiða sauðnaut. Leitað var til alþingis um styrk til fararinnar. Það veitti kr. 20 þúsundir. Þá var tekinn á leigu vélbátur frá Vestmannaeyjum, vb. Gotta, eign Árna Böðvarssonar, útgerðarmanns og rakarameistara hér í bæ. Tveir kunnir borgarar hér í Eyjum þá, Þorvaldur Guðjónsson, skipstjóri frá Sandfelli, og Baldvin Björnsson gullsmiður, réðust héðan til fararinnar. Það er einmitt vegna þeirra, sem Blik óskar að geyma nokkur orð um för þessa með mynd, sem Morgunblaðið hefur góðfúslega lánað ritinu.
Vb. Gotta lagði af stað til Grænlands frá Reykjavík 4. júlí 1929 kl. 5 e. h.
Að ísröndinni kom báturinn um 20 sjómílur norður af Horni á Ströndum. Hinn 7. júlí eða eftir 3 daga var Gotta stödd á 73. gr. n. br. þar var leiðin lögð inn í ísinn. Í 11 daga sat báturinn síðan fastur í ísnum og rak með honum. Þá hittu Íslendingarnir fyrir norskt selveiðiskip, Heimland I, sem hjálpaði þeim upp undir land á austurströnd Grænlands. Ekki er hægt að leiða getum að því, hvenær eða hvernig Íslendingarnir hefðu náð landi, ef þeir hefðu ekki notið Norðmannanna við.
Þegar landi var náð á austurströndinni, var haldið eftir ísvökum norður með henni, norður á 75. gr. og 44. min. n. br. Þar festist Gotta aftur í ísnum og sat þar föst í 8 daga.
Loks náðu Íslendingarnir höfn við Vonarhöfða norðan við „Myggebukten“, þar sem Norðmenn höfðu loftskeytastöð. Þetta var að kvöldi 4. ágúst. Höfðu þeir þá verið einum tíma betur en einn mánuð vestur til hafnar á Grænlandi.
Frá Vonarhöfða sigldu Íslendingarnir suður að Franz-Jósefsfirði. Þar skerst fjörður inn. Sá heitir Dusensfjörður. Innarlega í honum veiddu þeir fyrstu sauðnautin, 5 kálfa. Þar öfluðu þeir einnig fóðurs handa sauðnautunum, heyjuðu handa þeim.
Hinn 20. ágúst voru leiðangursmenn komnir út úr ísnum heim á leið. Þá skall á þá norðan rok, svo að þá hrakti suður á bóginn í 4 sólarhringa. Þá slotaði loks rokinu og birti til. Kl. 10 um morguninn 23. ágúst sáu þeir til lands, greindu Reykjafjarðarhyrnu á Ströndum.
Vb. Gotta sigldi inn Reykjavíkurhöfn aðfaranótt 26. ágúst og hættuför þessari var lokið giftusamlega.
Vissulega var Gotta hætt komin um tíma í för þessari. Eitt sinn í þéttum ís skekktust skrúfublöðin og borðstokkur bátsins brotnaði. Þá misstu leiðangursmenn mikið af skotfærum og minnstu munaði, að tveir af skipshöfninni færust. Annar þeirra var Baldvin Björnsson. Norðmennirnir, sem aðstoðuðu þá (björguðu þeim?), birgðu þá upp af skotfærum í staðinn.
Þrýstingur sá, sem báturinn varð fyrir í ísnum, laskaði hann svo að þilfarið varð hriplekt. Það kom berlegast í ljós í norðanveðrinu mikla á leiðinni heim. Þá lak þilfarið svo ferlega, að skipsmenn fengu ekki eldaðan mat fyrir þilfarsleka og urðu að hýrast í rúmum sínum matarlausir og holdvotir sólarhringum saman.
Gotta flutti með sér 7 sauðnautskálfa frá Grænlandi. Þeir voru þegar fluttir á Austurvöll eftir komu bátsins til Reykjavíkur og látnir spóka sig þar til sýnis almenningi í bænum. Þetta voru 4 karldýr og 3 kvendýr. Enn muna eldri Reykvíkingar kálfana þar á vellinum.
Sauðnautaræktin lánaðist ekki Íslendingum, svo sem við hinir eldri minnumst. Eftir nokkurn tíma höfðu allir kálfarnir látið lífið, gefizt upp við að lifa á íslenzkum gróðri við frónskt veðurfar.