Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2008/Jean Baptiste Charcot

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 6. nóvember 2019 kl. 14:13 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 6. nóvember 2019 kl. 14:13 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
FRIÐRIK ÁSMUNDSSON


Jean Baptiste Charcot


Árið 2006 gaf JPV útgáfa út bókina Jean Baptiste Charcot, heimskautafari, land könnuður og læknir eftir Serge Kahn. Þýðandi hennar á íslensku er Friðrik Rafnsson.
Jean Baptiste Charcot (1867 - 1936) var meðal fyrstu landkönnuða sem könnuðu og kortlögðu haf - og landsvæðin við bæði heimskautin í byrjun siðustu aldar.
Skip hans hét Pourquoi - Pas ? (Hvers vegna ekki?, á íslensku). Nafnið kom til vegna orðatiltækis sem Charcot notaði mikð og var: „Allt gengur vel - hvers vegna ekki?“
Það var eitt fullkomnasta rannsóknarskip síns tíma, með þremur rannsóknarstofum og bókasafni. Hinn 16. september 1936 strandaði þetta glæsilega skip, í aftakaveðri, á skerinu Hnokka úti af Álftanesi á Mýrum í Borgarfirði. Alls fórust 39 manns, þar á meðal Jean Baptiste en einn skipverjanna, Eugeno Gonidec, stýrimaður, komst af. Þetta er eitt átakanlegasta slys Íslandssögunnar. Bókin kom því út 70 árum síðar. Þar er lýst ævi þessa fræga vísindamanns og leiðöngrum hans til skautanna í norðri og suðri. Þetta er stórglæsileg bók með á fjórðahundrað ljósmynda, korta og skjala. Alls er hún 190 blaðsíður í stóru broti. Mjög falleg og góð bók. Um veðrið, þegar Pourquoi - Pas ? fórst, segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur, í bók sinni Veður á íslandi í 100 ár: „Aðfaranótt 16. gerði fárviðri um allt v - vert landið með stórrigningu sa-lands. Miklir skaðar urðu bæði vegna hvassviðris, sjávarflóðs og úrkomu. Þá fórst franska rannsóknarskipið Pourqoui - Pas ? með 39 mönnum við Mýrar og 17 menn af bátum fórust“.
Jean Baptiste Charcot þótti skemmtilegur og uppátækjasamur í æsku og verða hér sagðar sögur af honum sem eru fremst í bókinni. Fyrst og fremst var hann þó talinn mikill mann - og dýravinur alla tíð.
„ Á Saint - James vatninu í Neuilly - sur - Seine, steinsnar frá húsinu þar sem fjölskyldan bjó, var Jean Baptiste að róa á lítilli bátskænu ásamt glæsilegri ungri konu. Skyndilega staðnæmdust vegfarendur til að fylgjast með rifrildi milli elskendanna ungu, rifrildi sem endaði með því að Jean Baptiste hrinti ungu konunni út í vatnið. Lögreglan var kölluð til, fólk þyrptist að en þá heyrðust hlátrasköll frá hinum unga Charcot þar sem hann dró fórnarlamb sitt upp úr vatninu, það reyndist vera gína úr hálmi.“
„Þegar Jean Baptiste Charcot var læknanemi, stóð hann oft fyrir alls kyns gríni, fáránlegu gríni sem varð aldrei nokkrum manni til skaða. Á Salpetriere - sjúkrahúsinu voru öll herbergi læknanemanna nákvæmlega eins. Kvöld eitt ákvað einn félaginn, sem var fremur heimakær, að þiggja boð úti í bæ; þá fór fremur kvikindisleg hugmynd að gerjast í kollinum á Jean Baptiste - að flytja hafurtask læknanemans, sem bjó á þriðju hæð, niður á aðra hæð í herbergi félaga þeirra. Seint um nóttina kom læknaneminn heim og knúði dyra hjá sjálfum sér: „Fyrirgefðu að ég er að trufla þig svona... en herbergið mitt er víst hérna á þriðju hæðinni.“ Jean Baptiste fylgdi honum föðurlega og þolinmóður niður á aðra hæð. „Þú hefur greinilega fengið þér aðeins neðan í því, það er greinilegt að þú ert óvan- ur því.““
Eins og áður kom fram, var Charcot mikill mann - og dýravinur og krafðist þess að menn sínir höguðu sér vel við mörgæsir, seli og hvítabirni, aldrei að drepa að óþörfu. Af mörgum talinn göfugasti vísindamaður heims. Honum fannst óþægilegt að tína egg í matinn og vorkenndi mörgæsunum þegar þær gátu ekki varið eggin sín. Vorið 1904 yrði þeim dapurlegt í minni þegar dýrmætum fjársjóði þeirra var rænt.
Á siglingu við suðurskautið átti eftirfarandi samtal sér stað: „Með því að koma í veg fyrir að ég dræpi þennan björn berið þér ábyrgð á dauða margra tuga sela,“ sagði samstarfsmaður hans. „Með því að leyfa yður að halda lífi,“ svaraði Charcot, „er ég að dæma ansi margar kanínur og kjúklinga til dauða. En er það næg ástæða til að drepa yður ?“

Pourqui - Pas? Fjórða skipið, sem Jean Baptiste Charcot átti með þessu nafni, var smíðað í Saint Malo í Frakklandi. Smíðin hófst 1907 og því var hleypt af stokkunum 18. mars 1908. Pourquoi - Pas? var 825 tonn þriggja mastra rásiglt barkskip með gufuvél. 40 metrar á lengd og 4,2 metrar á breidd. Skrokkurinn var allur styrktur með stál- og sinkþynnum. Þessi mynd, síðasta myndin sem tekin var af Pourquoi - Pas?, var tekin h. 15. september 1936 kl. 15:30 af yfirmanni á varðskipinu Ægi. Hún sýnir skipið rúmum tveimur tímum eftir að það lagði úr höfn í Reykjavík áleiðis til Kaupmannahafnar. Skömmu eftir myndatökuna fór að hvessa. Snemma næsta morguns fórst það á skerinu Hnokka. Pourquoi - Pas? var stolt Frakka, skipið sem gerði þeim fært að flagga franska þjóðfánanum á báðum heimskautunum. Greinilegt er að það er verið að brenna lélegum kolum.

SÍÐASTA FERÐIN
Í ágúst 1936 var Pourquoi - Pas ? við rannsókir við Grænland. H. 10. var ákveðið að halda til Íslands daginn eftir. Meðal þeirra sem kvöddu Charcot var vísindamaðurinn Paul Emil Victor. Það síðasta sem Charcot sagði við hann var: „Veistu það, gæskur, ef ekki væri fjölskyldan, vildi ég einna helst drepast á hafi.“
Hinn 29. ágúst varð gassprenging í gufukatlinum og h. 3. september kom Pourquoi - Pas ? í togi til Reykjavíkur. Hvidbjörnen, danska eftirlitsskipið, dró skipið þangað. Meðan Pourquoi lá í Reykjavík, vegna viðgerðar á katlinum, gaf kaþólski biskupinn á Íslandi Charcot gjöf. Það var búr fyrir máv sem Charcot kallaði Ritu og hafði komið um borð á Grænlandi. Biskupinn tók fram að búrið væri ekki fyrir hann heldur fuglinn. Charcot svaraði: „Þegar Rita verður komin í það, verður hún eins og abbadís.“
Klukkan 1300 h. 15. sept, þegar viðgerð var lokið, lagði Pourquoi - Pas ? úr höfn áleiðis til Kaupmannahafnar. Veðurspáin var hagstæð. Veðrið var alskýjað, logn og sléttur sjór. Kl. 1500 sendi Veðurstofan út viðvörun um að stormur mundi skella á vestanverðu landinu um nóttina. Um kl. 1600 fór að hvessa og það bætti meira og meira í vindinn eftir því sem á daginn leið. Um nóttina, þegar komið var suður fyrir Garðskaga, var komið fárviðri, þá var snúið við til að leita vars. En svo hörmulega tókst til að skömmu eftir kl. 0500, að morgni, h. 16. sept. 1936, lenti skipið á skerinu Hnokka við Álftanes, brotnaði í spón, 39 skipverjar létu lífið en einn komst af. Skömmu áður en skipið lenti á skerinu og séð varð hvað verða vildi, fór Charcot í káetu sína, náði í búrið með vini sínum, fór með það upp á þilfar og opnaði. Þá, í fyrsta skipti síðan fuglinn kom um borð, flaug hann í burtu. Fram að því yfirgaf hann ekki skipið eftir hann kom um borð á Grænlandi þótt hann væri daglangt, laus, að spígspora um dekkið.

Fuglinn á myndinni gerði sig heimakominn um borð í Pourquoi - Pas? við Grænland í ágúst 1936 og yfirgaf skipið, fyrst, þegar útséð varð um örlög þess 16. september 1936. Þarna er charcot að færa vini sínum eitthvert góðgæti að borða.

Bóndinn í Straumfirði á Álftanesi á Mýrum, Guðjón Sigurðsson og fóstursonur hans, Kristján Þórólfsson, fóru snemma morguns h. 16. að gæta heyja. Í þeirri ferð sáu þeir að skip hafði strandað á Hnokka. Guðjón fór þegar heim og hringdi í Slysavarnafélagið og tilkynnti um strandið. En Kristján hélt áfram til sjávar. Þá sá hann rekald sem maður hékk á. Það var 2. stýrimaður skipsins, Eugeno Gonidec, hangandi á landgangi þess. Tókst Kristjáni að koma honum á land eftir mikla þrekraun. Að lítilli stundu liðinni kom Guðjón og saman komu þeir honum heim í bæ þar sem hlúð var að honum á sem allra besta máta.br> Tuttugu og tvö lík fundust þar á meðal lík Charcots. Hinn 30. sept. fór fram minningarathöfn í Landakotskirkju. Meulenberg, biskup, söng sálumessu. Var henni útvarpað hér á landi og send á stuttbylgju til Parísar. Úr kirkju báru sjóliðar kisturnar og síðan var þeim ekið niður að höfn. Margt manna var við göturnar sem líkfylgdin fór um og vottuðu þannig hinum látnu virðingu sína. Við bryggju lágu tvö skip sem franska ríkisstjórnin hafði sent eftir þeim. Flutningaskip sem tók kisturnar um borð og herskip sem flutti Gonidec, stýrimann, til síns heima í Frakklandi.

VEÐRIÐ
Í Veðráttunni, mánaðaryfirlit, samið af Veðurstofu Íslands kemur eftirfarandi fram fyrir september 1936:
„Næsta dag (þ.e. 15. september 1936) lygndi í bili en þegar kvöldaði, gekk á ný í S - ofsaveður vegna stormsveips, sem myndaðist suðvestur í hafi og fór með um 100 km hraða á klst. norður eftir skammt fyrir vestan Ísland. Morguninn eftir var stormsveipurinn kominn norður fyrir Vestfirði og var þá SV - an rok víða um land, einkum á Vesturlandi. Um nóttina, þegar hvassast var, komst vindhraðinn upp í 34 m/sek. þ.e. 12 vindstig. Dagana 17. og 18. sept. hélst svo enn SV - átt og hvassviðri með rigningu vestanlands og hlýindum. Austanlands var þá þurrt veður og hiti óvenju- mikill.“
Ennfremur í Veðráttunni. „Þá týndist vélbátur frá Ólafsfirði með 6 mönnum og opinn vélbátur frá Bíldudal með 3 mönnum. Ennfremur drukknuðu 3 menn af 2 vélbátum úti af Siglufirði og 5 af norsku skipi á Faxaflóa. Veður þetta olli miklum skemmdum á bátum, heyjum, húsum og öðrum mannvirkjum um allt land nema sunnan til á Austurlandi. Bryggjan á Skagaströnd brotnaði mjög. Sjóvarnargarður brotnaði á Eyrarbakka og á Siglufirði laskaðist bryggja. Hey fuku af túnum og engjum svo skipti þúsundum hesta í sumum sveitum, sumstaðar allt að 200 - 300 hestum á bæ. Á Snæfellsnesi og Rauðasandi hrakti fé í sjó.“
Annar bátanna sem missti mann úti af Siglufirði, í þessu veðri, var Gotta héðan frá Vestmannaeyjum. Hún hefur trúlega verið á reknetum þarna. Í bókaflokknum Þrautgóðir á raunastund eftir Steinar J. Lúðvíksson kemur eftirfarandi fram um þennan atburð, í 2. bindi: „Vélbáturinn Gotta frá Vestmannaeyjum lá yfir netum sínum úti fyrir Siglufirði er óveðrið gekk þar yfir. Fékk báturinn þá á sig mikinn brotsjó er færði hann að mestu í kaf og skolaði öllu lauslegu út af þilfarinu. Tók 2 menn fyrir borð, þá Guðmund A. Guðmundsson og Svein Björnsson. Náðist Guðmundur um borð í bátinn aftur og var þá mikið meiddur á höfði en Sveinn drukknaði. Hann var um tvítugt og átti heima á Kirkjuhóli í Vestmannaeyjum.
Við skrif þessarar greinar var stuðst við frásagnir úr fjórum bókum: Jean Baptiste Charcot, heimskautafari, landkönnuður og læknir eftir Serge Kahn, þýðandi Friðrik Rafnsson, Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson, Veðráttuna rit Veðurstofu Íslands og Þrautgóða á raunastund, 2. bindi, eftir Steinar J. Lúðvíksson.

Friðrik Ásmundsson