Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Kiwanis gefur neyðarsíma

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. september 2019 kl. 14:43 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. september 2019 kl. 14:43 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Kiwanis gefur neyðarsíma



Fyrir allmörgum árum voru settir upp nokkrir neyðarhnappar á völdum stöðum umhverfis Vestmannaeyjahöfn í því skyni að auka öryggi sjófarenda og annarra er leið eiga um höfnina. Þetta var gert að frumkvæði félaga í Kiwanisklúbbnum Helgafelli og fjármagnaði klúbburinn verkið. Framtakið vakti talsverða athygli því slík öryggistæki var hvergi að finna í íslenskri höfn og þróunin varð síðan sú að slíkur búnaður, eða svipaður, yrði skylda við stærri hafnir, samkvæmt reglugerð.

Neyðarsíminn á Básum á Básaskersbryggju

Fyrir rúmu ári var ákveðið að endurnýja búnaðinn hér í Eyjum og setja upp neyðarsíma í stað hnappanna, svo að sá sem kallaði eftir hjálp gæti þá talað beint við neyðarlínuna. Notkun símanna er einföld, þeir eru í rauðum áberandi kössum, sem þarf að opna og ýta síðan á hnapp sem þar er og fæst þá beint samband við neyðarlínuna sem leiðbeinir um viðbrögð og kallar til aðstoð. Símarnir eru einnig auðkenndir með áberandi SOS merki. Rétt er að minna á það, að ef maður fellur í sjóinn þá eru mjög víða við höfnina björgunarhringir sem grípa skal eins fljótt og hægt er og koma til þess er í nauðum er.

Frá afhendingu neyðarsímanna 8. maí 2006. Frá vinstri Hörður Þórðarson, form. hafnarstjórnar, Ólafur M. Kristinsson, hafnarstjóri, Ólafur H. Sigurjónsson, forseti Kiwanis, Kristján Björnsson, kjörforseti og Ólafur Guðmundsson, féhirðir

Þegar farið var að huga að uppsetningu símanna gáfu Kiwanismenn í Helgafelli strax loforð um að fjármagna hlut okkar heimamanna í þessu verki en ríkið greiðir 60% kostnaðar. Um áramótin var lokið uppsetningu nýju símanna og eftir prófanir og smávægilegar bilanir í byrjun hafa þeir leyst eldri neyðarhnappa af hólmi.
Félagar úr Kíwanisklúbbnum Helgafelli mættu síðan í góða veðrinu í byrjun maí og afhentu hafnarstjóra og hafnarstjórn 310 þúsund krónur sem er okkar hlutur í þessum nauðsynlegu neyðartækjum, sem allir vona þó að aldrei þurfi að nota.

Staðsetning neyðarsíma Vestmannaetjahafnar

Kiwanismenn ætla einnig að láta dreifa meðfylgjandi korti, sem sýnir staðsetningu neyðarsímanna, til báta hér í Eyjum og í stofnanir og hús næst höfninni.
Kiwanisklúbburinn Helgafell sendir sjómönnum og öðrum er leið eiga um höfnina kveðju með ósk um slysalausa vegferð.

Ólafur H. Sigurjónsson