Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Skipslíkön
Óskar Pétur Friðriksson: Skipslíkön
Í síðasta tölublaði Sjómannadagsblaðsins er grein eftir Hermann Einarsson þ.v. ritstjóra blaðsins um skipasmíðar hér í Eyjum á 4. og 5. áratug þessarar aldar, mjög athyglisverð grein og fræðandi, alla vega fyrir okkur sem ekki vorum fædd á þessum árum. Mörg þeirra skipa sem smíðuð voru þá, eða öll voru teiknuð eftir skipslíkönum sem voru smíðuð fyrst, en nú eru breyttir tímar, þ.e. fyrst kemur teikningin.
Svona í nokkuð beinu framhaldi af grein Hermanns langar mig að hripa nokkrar línur um skipslíkön, sem menn eru að smíða núna í dag, því sjaldnast fer mikið fyrir þeim mönnum, sem þá iðju stunda, í fjölmiðlum, hver og einn er að dudda við smíðar í heimahúsum og hefur afrakstur erfiðis síns útaf fyrir sig.
Sjálfsagt hafa skipslíkön verið smíðuð í gegnum aldirnar, og allir strákar hafa einhvern tímann smíðað skip, sín eigin skip, einnig er hægt að kaupa plastmódel og líma saman. allt frá einföldum skipum til háþróaðra skipa.
Í grein þessari ætla ég eingöngu að skrifa um þá sem fást við það að smíða skipslíkön úr við. Áhugi minn fyrir skipslíkönum er gamall og man ég það þegar ég var peyi að oft fór ég til Guðmundar í Landlyst til þess að skoða líkan af skútu sem hjá honum var, síðan blundaði þetta alltaf í mér þar til í fyrra að ég keypti frá „Billing boat" efni í tappa togara, b/v Nordkap frá Kaupmannahöfn. Ég reyndi að smíða bátinn sem nákvæmast eftir teikningu og bæklingi sem fylgdi, fyrst kom kjölur, bönd og síðan var dekkið klárað. Eftir það var byrjað að klæða skrokkinn ofan frá og niður. S.l. sjómannadag hafði ég verið búinn að smíða í u.þ.b. mánuð og las áðurnefnda grein og þar var greint frá smíði á m/b Tý VE 315 og einnig var mynd með af honum, og mér til nokkurrar undrunar og einnig ánægju sá ég að smíði á raunverulegum bát er eins háttað.
Smíðatími líkananna er eflaust mismunandi, fer það eftir stærð skipanna og einnig hvað menn hafa mikla þolinmæði fyrir smíðinni. Ég gerði mér það til gamans að taka saman tímana sem fóru í Nordkap og eru þeir um 450 klst.
Nordkap er 40 m langt og 9,30 m breitt, smíðað í Englandi árið 1970 fyrir útgerðarfyrirtækið Nordtramo i/s, hann er 185 brt. Nordkap stundaði veiðar við Ísland og Grænland.
Lengd líkansins er 81,5 cm, breidd 19,5 cm og mesta hæð 43 cm (frá kili til masturstopps) hlutföll 1:50.
Hér á íslandi voru nokkrir togarar svipaðir og Nordkap en þeir voru byggðir í A-Þýskalandi, t.d. Mánatindur SU 95 o.fl., einnig var Einir GK 475 sem Fúsi í Holti var með s.l. haust svipaður og Nordkap, þótt Einir sé mikið breyttur, með nýja brú og yfirbyggður. Ég var sjálfur á Eini og fannst mér ég kannast við margt í Eini frá Nordkap.
Nordkap var smíðaður árið 1970, útbúinn með síðutog og nánast eins og togarar gamla tímans, þó svo að skuttogaraöldin hafi verið byrjuð af fullum krafti með sínum fullkomnu skipum og tækjum.
Nú í vetur gekk ég til þeirra manna sem ég frétti af og vissi um að voru að smíða skipslíkön, og átti tal við þá, virti fyrir mér líkönin og myndaði og árangurinn varð þessi:
Sigmund Jóhannsson
Sigmund teiknari o.fl. hefur smíðað einn bát, líkanið er af Kára Sölmundarsyni RE 39, hann var landssmiðjusmíðaður bátur samskonar bátur og m/b Jökull VE 15, hann var 60 brt. Líkanið er 1,20 m langt og 24 cm breitt, hlutföll 1:20.
Sigmund var skipverji á Kára Sölmundarsyni á sínum yngri árum, og stunduðu þeir veiðar á trolli og nót.
Sigmund er listasmiður eins og hans er von og vísa, allt sem hann tekur sér fyrir hendur er hrein og klár list, allt sem er í líkaninu, bæði smátt og stórt, smíðaði hann sjálfur. Skipsskrokkurinn er tálgaður úr massívum við, og notaði Sigmund „skapalok" til þess að finna út rétt lag á skrokkinn, og þegar skrokkslagið var komið þá holaði Sigmund skrokkinn að innan.
Á líkaninu eru ljós í landternum, sigluljós og skutljós, einnig eru ljós í lúkar og brú, Sigmund hefur sett mótor við skrúfuna. Sigmund setti á skipið svokallaðan Sigmundsgálga, og sagði Sigmund mér það í trúnaði að hann hefði pantað Olsens-gálga, en Olsens-menn hefðu ekki haft undan að framleiða gálga, svo að hann sæti uppi með Sigmundsgálga.
Líkanið er geymt í fallegum glerskáp, með speglum á þrjá vegu og gleri fram, framaná skápnum er Sigmund með takka til þess að kveikja á ljósum og skrúfu, í skápnum er ljós til þess að lýsa á líkanið.
Ég gæti skrifað mikið enn um líkanið hjá Sigmund, en læt staðar numið í frekari lýsingum, en tel að skipið myndi sóma sér vel á hvaða stað eða safni sem er.
Einar Guðmundsson
Einar á Vigtinni er mjög laghentur maður, og hefur hann lengi stundað þá iðju að smíða litla rokka og strokka o.fl. sem minnir á gamla tíð, og eru þetta gripir sem sóma sér hvar sem er.
Einar hefur lokið smíði tveggja skipslíkana af Billing boat gerð, og eru þetta hvort tveggja skútur. Það fyrra sem hann lauk við er af Harvey. Harvey er tvímastra. Skipið er með fallbyssum. Skrokkurinn er 70 cm langur, en 90 cm með trjónu. Sjá nánari skýringu síðar.
Hitt skipið er skólaskipið Denmark frá Danmörku. Skipið er af Billing boat gerð; þrímastra. Denmark var stálskip 777 brt, 65 m langt og 10 m breitt, frá dekki 6 m og sjólína 4,5 m. Skipið var með 250 ha hjálparvél. 16 yfirmenn voru á skipinu og 120 nemar á aldrinum 15-18 ára. Denmark var skólaskip og átti að manna ungmennin, skipið fórst með allri áhöfn árið 1958.
Lengd líkansins er 90 cm, hlutfall 1:75.
Eins og áður er sagt er Einar mjög handlaginn og má hann vera stoltur af skipum sínum sem sóma sér hvar sem er.
Sigurjón Guðnason
Sigurjón er að smíða stærsta skipið sem ég hef séð hingað til, það er þrímastra skúta og er samskonar skip og Denmark.
Lengd líkansins er 1,75 m og breidd 27 cm, dýpt 11 cm og hæð frá kili að hæsta masturstoppi er 1,26 m. Sigurjón byrjaði fyrir gos að smíða líkanið, smíðin lagðist sjálfkrafa niður í gosinu og fram á mitt ár 1974, og síðan þá hefur hann verið að dudda öðru hvoru í skipinu. Hver einasti hlutur í skipinu er smíðaður af honum sjálfum, og er unun að horfa á skipið og handbragð hans, t.a.m. eru möstur og siglutré unnin úr sjóreknum jólatrjám, og skrokkurinn er úr afgöngum af dyrakörmum, þannig að ekki þarf efniviðurinn alltaf að vera dýr, ef hugmyndaflugið fær að ráða ferðinni. Sigurjón hefur mótor við skrúfu skipsins og rafdrifna ankerisvindu. Sigurjón getur verið stoltur af skipi sínu sem sómir sér hvar sem er. Hlutfall ca. 1:37.
Sigurbergur Jónsson
Siggi á Kirkjubæ vann á sínum árum við það að smíða skip þegar mest var að gera á 4. og 5. áratug þ.a. Eftir það gerðist hann bóndi og dekkjarviðgerðarmaður, eftir gos gerðist hann vörubílstjóri og er enn að keyra, en í sínum frístundum hefur Siggi smíðað skip sem hvergi hefur verið til nema í hans eigin kolli, og hefur skipið hlotið nafnið Eldfell VE 1988. Eldfell er ekta vertíðarbátur, 130-150 tonn. Siggi getur alls ekki túlkað á betri hátt en hann hefur gert hvernig fallegir vertíðarbátar eigi að vera að hans áliti, þ.e. opnir vertíðarbátar. Eldfell er búið ýmsum nútímatækjum sem teljast nauðsynleg fyrir þessa báta s.s. skrúfuhring, trolltrommu, kraftblökk og nýtísku togspil.
Eldfell er raflýst, þ.e.a.s. ljós í brú, sigluljós, landternur og skutljós, einnig er sterkt ljós í ljóskastara, að mínu áliti er þetta mjög smekklega unnið og gefur bátnum líf.
Hugmyndaleysi hefur ekki háð Sigga þegar hann var að smíða Eldfell því efnið í brúna fékk hann úr gömlum blikkbjórdollum, hér er enn eitt dæmið um að það er hægt að nota nánast hvað sem er til smíðanna ef svo ber við.
Eldfell er 55 cm langt og 12 cm breitt, það er erfitt að segja til um stærðarhlutföll, en miðað við báta um 130-150 brt þá sýnist mér að hlutföllin gætu verið um 1:60 eða þar um bil.
Eldfell er í smekklegum plastskáp, plastið er lagað til og lagt á hillu, þannig að það þarf engan lista í skápinn eins og í glerskápum.
Siggi getur verið stoltur af skipi sínu, og er vonandi að hann haldi áfram á sömu braut, því ekki finnst mér nauðsynlegt að skipin þurfi endilega að vera smíðuð eftir öðrum skipum, því ef hugmyndaflugið er nóg þá er komið fallegt skip áður en menn vita af eins og Eldfell sannar.
Tryggvi Sigurðsson
Tryggvi er sennilega afkastamesti líkanasmiður Eyjanna í dag, hann á svo sem ekki langt að sækja smíðakunnáttuna, langafi hans var enginn annar en Gunnar Marel skipasmiður, afi hans Tryggvi Gunnarsson, þekktur fyrir handlagni og snyrtimennsku. Faðir Tryggva er einnig líkanasmiður, sem sagt heill her laghentra manna. Tryggvi byrjaði að smíða m/b Frigg VE 316; skemmtilega smíðaður bátur. Vonin II VE 113 var næstur, 68 cm langur og 17 cm breiður, hlutföll 1:33, Gunnar Marel smíðaði fyrirmyndina.
Tryggvi er nú þegar þetta er skrifað að smíða m/b Helga VE 333, 90 cm langan og 20,5 cm breiðan, hlutfall 1:30.
Helgi VE sigldi öll stríðsárin til Englands með ísfisk, alltaf kjaftfullur af fiski, og á heimleiðinni kom hann með kol.
Ásmundur Friðriksson afi minn tók við skipinu nýju og var með það í þrjú ár. Helgi fórst árið 1951 er það rak vélarvana uppí Faxasker með allri áhöfn. Tryggvi er einnig að smíða tappatogara af Billing boat gerð. eftirmyndin er af Nordkap, en Tryggvi hef'ur látið hugmyndaflugið ráða ferðinni og breytt honum eftir sínu höfði, nú heitir hann Toggi VE 10.
Tryggvi hefur tjáð mér að hann sé með margt á döfinni, og ætlar hann að fara að smíða báta sem nú eru hér í Eyjum s.s. DalaRafn og fleiri. Handbragð hjá Tryggva er gott að mínu mati, og er hann öfundsverður af aðstöðunni sem hann hefur til smíðanna, sem er vinnustofa afa hans, þar sem úir og grúir af alls kyns verkfærum og tólum, snyrtilega frá gengið og vel hirt eins og afa hans er von.
Fáa hef ég hitt jafn áhugasama um líkanasmíðar og Tryggva, og er það von mín að hann haldi áfram á sömu braut og hingað til.
Pétur Sigurðsson
Pétur Sigurðsson hefur smíðað nokkra báta, og þá báta af Billing boat gerð, og allt byrjaði það fyrir tilviljun. Þannig var að sonur hans, Erling á Freyju RE, hafði keypt módel handa syni sínum í siglingu og taldi að það væri plastmódel en þegar módelið reyndist vera úr við var afinn látinn fá það, svo Pétur byrjaði að smíða skip frá Billing boat, sem var tappatogarinn Nordkap, sem fyrr hefur verið greint frá.
Þegar ég heimsótti Pétur voru fjögur skip fullsmíðuð hjá honum, eitt í endurbætningu og ein lystisnekkja úr plasti. Skipin eru af öllum gerðum og stærðum, hann hefur smíðað skólaskútuna Denmark sem fyrr hefur verið greint frá um fyrirmynd líkansins og læt ég það nægja, en líkanið er mjög vel smíðað og auðséð að mikil vinna hefur verið lögð í skipið. Annað skútulíkan er hjá Pétri og er það af skútunni Lille Dan, sem var dönsk skúta. Pétur sagði mér að sú skúta hefði verið fyrirmynd að m/b Skaftfellingi VE sem smíðaður var hér í Eyjum, og skrokklagið leynir sér ekki, bogalaga stefni og fleira sem minnir á Skaftfelling. Lille Dan var um 200 brt. Líkanið er um 90 cm langt hlutföll 1:75. Lille Dan er tvímastra skúta. Pétur hefur útbúið úr einangrunarplasti statíf undir skútuna þannig að það er eins og hún fljóti á sjó, skemmtilega gert hjá honum.
Pétur hefur einnig smíðað skonnortu sem líka er dönsk og heitir Marie Jeanne og er hún tveggja mastra. Lengd líkansins er 57 cm, breidd 13 cm, hæð 50 cm, hlutföll 1:50; mjög skemmtilegt líkan.
Fjórða skipið er þýskt dráttarskip. Líkanið er 99 cm langt og hlutföll 1:75. Pétur er sá eini sem hefur smíðað dráttarskip hér í Eyjum, svo ég viti. Öll skipin sem Pétur hefur smíðað eru húsbónda sínum til sóma og má hann vera stoltur af þeim.
Alfreð Einarsson
Alferð (í lifrarsamlaginu) var sá síðasti sem ég heimsótti, og hefur lokið við eitt skip og er langt kominn með annað, bæði skútur að Billing boat gerð. Skútan sem Alfreð hefur lokið við er af Harvey anno 1847, sama skútan og Einar á vigtinni gerði, handbragðið er lista gott og faglega unnið. Harvey er af svokallaðri Klipper gerð og hófst smíði þeirra uppúr 1840. Við smíði skipa þessara var öllu fórnað fyrir hraðann sem kom niður á burðargetu þeirra, skrokkurinn var V-laga í stað U-laga áður, möstur voru aftursveigð. Um 250 Klipperum var hleypt af stokkum í skipasmíðastöðvum á vesturströnd Bandaríkjanna.
Á meðan Klipperinn var uppá sitt besta, var hann hraðskreiðasta skútan sem nokkru sinni hafði siglt á sjó. Meðan gullæðið geisaði í Kaliforníu var algengt að Klipper sigldi fyrir Horn, milli New York og San Fransisco á minna en 100 dögum. Þegar greiðast var siglt, sýndi loggið allt uppí 21 hnút. Tímabil Klipperanna í hinni löngu sögu seglskipanna varð tiltakanlega stutt, um 1860 tók að halla undan fæti og þegar járnbraut hafði verið lögð yfir þver Bandaríkin fáum árum eftir lok Þrælastríðsins, var sögu þeirra lokið.
Skútan sem Alfreð er langt komin með er af Santa Maria, flaggskipi Columbusar, sem hann sigldi frá Palos á SV-Spáni hinn 3. ágúst 1492 og eftir 70 daga siglingu eða hinn 12. október 1492 fann Columbus Ameríku.
Lengd skútunnar var 21,3 m, breidd 7,8 m og dýpt 3 m. Lengd líkansins er 42,6 cm og breidd 15,6 cm.
Líkanið af Söntu Maríu er hreinasta listaverk og af Harvey og þau sýna að Alfreð er listasmiður, og mætti hann vera stoltur af verkum sínum. Alfreð byrjaði að smíða fyrst árið 1984 og er að ljúka við sitt seinna skip, og það var að heyra á honum að hann sé ekki á því að hætta skipasmíðum og er það vel, ég hvet Alfreð svo og alla aðra til þess að halda áfram á sömu braut, ég hafði mikla ánægju af því að heimsækja þessa menn og skoða verk þeirra, hafið þið þökk fyrir.
NIÐURLAG
Þau líkön sem ég sá eru af nánast öllum gerðum og stærðum, skútur og bátar og togarar, stærðir frá 55 cm til 1,75m. Hlutföll frá 1:20 til 1:75.
Til þess að vel eigi að takast með smíði líkans verða menn að gefa því góðan tíma, flýtir er mesti óvinur líkansins, einnig er mjög gott að hafa nóg af þolinmæði.
Eins og fyrr er getið er nánast hægt að nota hvaða efni sem er til smíðanna, allt frá sjóreknum jólatrjám, spækum úr lundaháf og bjórdollum úr blikki, nánast hvað sem er. Balsaviður er mjög góður viður, kvistlaus, þjáll og mjúkur, hann er t.d. hægt að fá úr kössum utan af tómötum o.þ.h.
Fyrir byrjendur mæli ég með að menn byrji á líkönum frá Billing boat. Billing boat er danskt fyrirtæki sem framleiðir efni til líkanasmíða, og reyna þeir að hafa líkanið sem nákvæmast eftir fyrirmyndinni, hægt er að fá allt frá litlum fiskibátum uppí stórar skútur. Billing boat er ekki eingöngu fyrir byrjendur heldur fyrir alla, hvar sem þeir standa í byggingarstiganum. Umboðsaðili fyrir Billing boat á Íslandi er verslunin Handíð í Reykjavík, þar er einnig hægt að fá ýmiss konar verkfæri sem koma að góðum notum við smíðarnar, lítil og fíngerð rafmagnsverkfæri og handverkfæri, sem sagt allt til skipasmíða.
Til að smíða skipslíkan er best að hafa góða aðstöðu s.s. smíðaherbergi, en það er ekki nauðsynlegt, undirritaður notaði stofuna og eldhúsið heima hjá sér til smíðanna.
Ég vil hvetja sem flesta til að reyna þetta, því þetta er góð og þroskandi tómstundaiðja og einnig ódýr, maður er í sjálfu sér aldrei bundinn yfir smíðinni, hægt er að fara í þetta þegar manni sýnist og hætta einnig ...
- Óskar P. Friðriksson