Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2007/„Fjölskyldan skiptir mig öllu máli“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. apríl 2019 kl. 14:48 eftir Valli (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. apríl 2019 kl. 14:48 eftir Valli (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
BERTHA I. JOHANSEN:


„Fjölskyldan skiptir mig öllu máli“


Bertha I. Johansen

Svava Gunnarsdóttir fæddist á Siglufirði 1959. Hún kemur úr stórum systrahópi þar sem þær eru sex systurnar. Líf Svövu og systra hennar breyttist mikið á örfáum árum en 1969 misstu þær föður sinn, sem þá var aðeins 32 ára og fjórum árum seinna misstu þær systur einnig móður sína. Þá var Svava nýfermd. Þar með stóðu sex ungar systur, þær elstu 17 ára og sú yngsta 7 ára, móður- og föðurlausar. Heimurinn var stór og óvissa hlýtur að hafa ríkt í hjörtum þessara ungu systra.
Bertha Johansen heimsótti Svövu og fékk að skyggnast inn í líf hennar, hvernig það þróaðist hjá henni, hvernig leið hennar lá til Vestmannaeyja, hvers vegna hún festi rætur einmitt hér og margt fleira.
Ég mætti á Kirkjubæjarbrautina einn sunnudag í apríl þar sem Svava býr ásamt manni sínum Stefáni Birgissyni og fimm börnum þeirra. Sólin gældi glettin við Heimklett sem ber við hús þeirra hjóna. Heimaklettur brosti á móti sólinni og mér þótti engu líkara en hann kappkostaði að fylla skuggarákir klettaskor með geislum sólarinnar. Þar sem ég gekk inn að húsi Svövu furðaði ég mig enn og aftur á margbreytileika þessa náttúruundurs.
Svava tók á móti mér glaðvær og við fætur hennar stóð hundurinn Nala og mældi út þennan gest. Gunnar sonur Svövu var nýkominn úr keppnisferðalagi í körfunni og lét gestinn lítið trufla sig heldur hélt áfram að segja móður sinni úrslit helg arinnar og auðséð var að hann var vanur því að móðir hans sýndi þessum málum áhuga.
Svava býður mér inn í eldhús þar sem nýlagaðar pönnukökur eru á boðstólnum en hún hafði einmitt verið að baka til að taka á móti Gunnari eftir Herjólfsferðina. Þegar við erum sestar, hún með te og ég kaffi, kemur Hrafnhildur dóttir hennar ásamt vinkonu sinni og biður um svartan plastpoka því þær séu að fara á leynistað uppi á hrauni.
Þá bætist í hópinn Kolbrún, dóttir Svövu, með vinkonu sína og kíkir inn í skápana eftir einhverju að borða. Greinilegt að það er mikið fjör á þessu heimili og nóg að snúast í kringum krakkana og vini þeirra. Mér verður strax ljóst að fjölskyldan skiptir Svövu öllu máli og hana munar ekkert um að bæta við sig nokkrum vinum barnanna sinna. Hún brosir við þeim öllum og nýtur þess augljóslega að hafa þessa geisla í kringum sig. Ég er strax farin að hlakka til að forvitnast um lífshlaup þessar vingjarnlegu móður sem þó býr alltaf yfir einhverju óræðu bliki í augum. Aftur varð mér hugsað til Heimakletts sem nú blasti við mér út um eldhúsgluggann.
Þegar um hægist í eldhúsinu beinum við Svava tali okkar að lífshlaupi hennar og bernsku. „Ég er fjórða í systrahópnum. Mamma og pabbi eignuðust tvíbura 1955, þær Möggu og Oddnýju. Pabbi var þá aðeins 19 ára og mamma 21. Svo kom Silla 1956 og ég fæddist 1959. Þá áttum við heima á Siglufirði. Síðan fluttum við til Hafnarfjarðar 1963. Þá eignuðust mamma og pabbi Kollu 1965 og Siggu 1966. Þremur árum seinna dó pabbi og mamma dó fjórum árum á eftir honum.“ Svava dregur djúpt andann og bliki bregður fyrir augu hennar enda tekur skiljanlega mjög á hana að ræða þessi mál. En hún brosir vingjarnlega til mín og heldur síðan áfram: „Ég var í báðum tilfellum síðust okkar systra til að tala við þau áður en þau dóu. Þegar pabbi dó, vorum við að koma úr afmæli hjá vini hans seint um kvöld. Við bjuggum í tvílyftu timburhúsi og það voru nokkrar tröppur upp að dyrunum. Pabbi var búinn að drekka og mamma kom honum ekki ein inn og kallaði á mig og bað mig um að hjálpa sér. Við komum honum ekki upp stigann svo við hjálpuðum honum inn og upp í sófa á neðri hæðinni. Nokkrum dögum áður hafði pabbi verið að vinna við bíla og fékk bíl ofan á brjóstið á sér. Hann lét aldrei kíkja á það. Daginn eftir kom ég að honum látnum í sófanum þar sem ég hafði lagt hann um kvöldið áður en ég fór að sofa. Ég var þá 9 ára.
Aður en mamma dó, höfðum við farið með Kollu og Siggu á BSÍ. Þær áttu að fara í sveit svo mamma gæti unnið meira. Þetta átti að verða fyrsta sumarið í langan tíma sem við mamma ætluðum að verja saman því undanfarin sumur hafði ég farið til ömmu á Siglufjörð. Þetta sumar var Silla fyrir norðan hjá ömmu, Magga og Oddný nýtrúlofaðar og voru mikið hjá kærustunum og þær yngstu fóru í fyrsta skipti í sveit. Mér er það svo minnisstætt að þennan dag var margt fólk og mikið líf í Reykjavík vegna heimsóknar Nixons, Bandaríkjaforseta, og Pompidou, Frakklandsforseta, hingað til lands. Við mamma fórum aðeins á Laugaveginn og það var varla þverfótað fyrir fólki. Við tókum síðan strætó í Hafnarfjörð og vorum nýkomnar inn heima þegar vinkona mömmu hringdi og spurði hvort hún vildi koma á ball með sér um kvöldið. Hún ákvað að gera það og ég átti að passa fyrir vinkonu hennar. Um nóttina var hringt og þá hafði mamma slasast alvarlega og varð það henni að aldurtila fimm dögum seinna. Við fengum hvorki að heimsækja hana né sjá þennan tíma. Þetta var það síðasta sem ég hafði af mömmu að segja.“

Fjölskyldan 2001. Fremri röð: Stefán, Kolbrún Inga, Gunnar Þór, Svava heldur á Hrafnhildi. Aftari röð: Birgir og Hilmar Jón.

Amma á Sigló fasti punkturinn í tilverunni
Í ljósi þess hve ungar þið systur voruð þegar þið misstuð foreldra ykkar þá velti ég fyrir mér hvort lögð hafi verið sérstök áhersla á að þið systur fengjuð að vera saman og þar með fá stuðning hver frá annarri? „Mér finnst það einmitt alltaf skrýtið þegar fólk, sem ekki þekkir fjölskyldusöguna, spyr mig hvernig það hafi verið að alast upp sex systur saman. Í sannleika sagt þá veit ég ekki hvernig það var að alast upp saman, allar sex, því í rauninni fengum við svo stuttan tíma saman. Það var enginn sem gat tekið okkur allar að sér. Ég bjó t.d. fyrsta sumarið eftir að mamma dó hjá ömmu á Sigló. Ég var einhvern tíma hjá vinkonu mömmu og svo fór ég í 3. og 4. bekk á Laugarvatni. Amma á Sigló reyndi þó alltaf að hafa okkur systurnar hjá sér á sumrin. Amma bjargaði okkur, svo einfalt er það, hún var eini fasti punkturinn í lífi okkar. Hún gerði allt fyrir okkur, átti sjálf lítið en allt, sem hún aflaði, fór í okkur. Líf hennar snerist um okkur systurnar. Hún bjó í elsta húsinu á Siglufirði þar sem aldrei var heitt vatn og ekkert bað. Svo var það rifið þá fór amma út á leigumarkaðinn. Þegar Silla var 18 ára, tók hún út sparimerki sín og keypti íbúð sem amma gat verið í. Amma vann sjálf í fiystihúsinu á Sigló frá morgni til kvölds. Fjárráð ömmu voru lítil og veraldlegi auðurinn fátæklegur en hún gerði allt fyrir okkur. Við vorum til dæmis alltaf vel til fara og liðum engan slíkan skort.“ Svava bar sterkar taugar til ömmu sinnar á Sigló og sem vott um þá römmu tilfinningataug sem á milli þeirra var og sem dæmi um þakklæti Svövu þá lofaði hún sjálfri sér því að búa á Siglufirði á meðan amma hennar væri á lífi. Við það stóð hún.

Barn að ala upp barn
Allir, sem þekkja Svövu, vita að hún er kvenkostur mikill. Hvar sem hún fer, gustar af henni og ekki þarf annað en að mæta henni á göngum íþróttamiðstöðvarinnar eða hitta hana í biðröð í verslun til að finna þessa orku og sjá þá röggsemi sem ein kennir hana. Hún er greinilega ekki óvön því að hafa fyrir hlutunum „Eftir að pabbi dó, lenti það á mér að hjálpa mömmu með yngri stelpurnar og heimilisstörfin. Ég taldi það alls ekki eftir mér. Lífið leggur okkur í hendurnar verkefni og það er okkar að leysa þau. Svona var þetta bara. Eldri systur mínar voru þá komnar með kærasta og minna á heimilinu en ég. Ég hef einhvern veginn alltaf verið í þessu hlutverki og hefur líkað það vel. Það byrjaði þarna þegar ég var 9 ára þegar pabbi dó því þá þurfti mamma að vinna meira og ég fékk því aukið hlutverk á heimilinu. Eftir að mamma dó, reyndi enn meira á okkur enda gat amma ekki tekið okkur að sér nema við værum duglegar að hjálpa til. Við gengum því í öll heimilisstörf, þvoðum þvotta, hengdum út, elduðum og fleira. Þetta fylgdi mér alltaf sem krakka og mér leiddist það aldrei. Svo byrjaði ég með Stebba ung og við stofnuðum okkar eigin fjölskyldu þegar ég var 18 ára. Hann hefur alltaf stundað sjóinn svo að þetta hlutverk hefur elt mig. Ég hef alltaf þurft að redda mér og gæti ekki hugsað mér neitt annað.“ Svava brosir sínu fallega brosi þegar hún segir þetta en hnefinn er krepptur og enga lognmollu að sjá, hvorki í brosinu né augnaráðinu.

Systurnar þegar föðuramman á Sigló, Oddný varð 80 ára árið 1987. Frá vinstri: Oddný, Silla, Svava, Kolla og Sigga.


„Ég var mjög ung þegar börnin fóru að boða komu sína. 18 ára var ég orðin ófrísk að Birgi, Hilmar Jón fæddist 1981 og Kolbrún 1990. Þegar ég var ófrísk að Birgi má eiginlega segja að fjölskyldan hafi part úr ári verið fjögurra manna enda tók ég Siggu alltaf að mér á sumrin. Silla tók alltaf Kollu til sín á sumrin. Á veturna voru þær hins vegar hjá Möggu og Oddnýju eftir að þær fóru að búa. Ég sé það nú að ég var bara barn að ala upp börn en svona gekk þetta í 4 eða 5 ár. Svo keypti Sigga sér lítið hús sjálf þegar hún var 17 ára.
Ég var líka heppin að því leyti að ég kynntist Stebba ung og flutti inn til tengdaforeldra minna í einn vetur. Þeir eru alveg yndislegir og hafa reynst mér eins og þeir væru mínir eigin foreldrar. En Sigga systir var til dæmis ekki eins heppin hvað þetta varðar því hún kynntist manni sem hafði líka misst foreldra sína og því ekki þennan stuðning að hafa af tengdaforeldrum sem ég hafði.“

Vinkonurnar Gyða Steingrímsdóttir á Hoffelli og Kolbrún Inga Karlsdóttir móðir Svövu, komu til Eyja á vetrarvertíð 1951.
Gunnar Þór, faðir Svövu, með hana í fanginu sumarið 1960 á Siglufirði.

Átti strax samleið með Eyjamönnum
Tengsl Svövu við Eyjarnar komust snemma á í lífi hennar en hún var aðeins 12 ára þegar hún kom á þjóðhátíð með mömmu sinni og systur. Vestmannaeyjar hrifu hana strax. Í fyrsta skipti í viðtalinu þekki ég á eigin skinni lýsingu hennar þar sem ég varð sjálf ástfangin af Vestmanneyjum í fyrstu heimsókn. Leið Svövu lá svo aftur til Eyja 1977, þá nýorðin 17 ára. „Þá ákveðum við Erla Gull, systir Sverris Gunnlaugssonar, að fara á vertíð í Vestmannaeyjum. Erla hringdi í bróður sinn sem þá var strax orðinn málsmetandi sjómaður í Eyjum og hann útvegaði okkur starf í Ísfélaginu. Við, ásamt þremur strákum, fórum í febrúar 1977 og vorum fram yfir þjóðhátíð. Við fengum inni á verbúðunum hjá Ísfélaginu. Ísfélagið taldist góð verbúð. Aðbúnaður þar var mjög góður og ákveðnar reglur sem fylgja þurfti. Þar voru t.d. húsverðir og þeir pössuðu upp á að engin partý væru eftir ákveðinn tíma. En stemmningin var góð, mikið djammað og mikil vinna. Unnið var eftir bónuskerfi sem var alveg nýtt fyrir mér en ég kunni því vel. Unnið var öll kvöld og við fengum fínan bónus þegar vel gekk. Ég hafði aldrei kynnst svona mikilli vinnu. En það merkilega var að þarna var fólk hvaðanæva að af landinu saman komið til þess að vera á vertíð í Eyjum en ég var mest með krökkunum úr Eyjum, tengdist þeim og átti strax samleið með Eyjafólkinu. Við gerðum ýmislegt skemmtilegt saman. Til að mynda man ég eftir að hafa farið til lundaveiða í Stórhöfða með bræðrunum Jóni og Úlfari. Í kjölfarið slógum við upp veislu og buðum fólki í fuglinn. Það var mjög gaman. Við fórum einnig oft í fótbolta á Breiðabakka, fórum í sund og margt fleira. Ég er þess fullviss að hluti skýringarinnar á því að ég festi rætur hér síðar er sú að ég fann mig svo vel með fólkinu héðan.“
Eins og áður hefur komið fram, hét Svava sjálfri sér því að flytja ekki frá Siglufirði á meðan amma hennar lifði. Ári eftir að amma hennar kvaddi þennan heim, flutti Svava til Vestmannaeyja. Hvað varð til þess? „Það má segja að þetta hafi byrjað 1989. Þá var Sigga systir að hugsa um að flytja til Vestmannaeyja og ég hálf öfundaði hana. Mér fannst svo frábært að hún væri að flytja hingað. Mér leið alltaf svo vel hérna og það gladdi mig að systir mín skyldi ætla að setjast hér að. Þau fluttu þetta sama ár og gerðu út lítinn bát héðan. Stebbi fór fyrst einn til þeirra með bátinn sinn, Sóma 800 sem hét Svava og gerði út héðan þangað til að báturinn bilaði. Þá ákváðum við að selja bátinn og Stebbi kom aftur norður. Síðan ákváðum við að heimsækja Siggu til Eyja sumarið eftir og vera hjá henni í tvær vikur en vorum í fimm vikur í Eyjasælunni. Aðdráttarafl Eyjanna var óviðjafnanlegt þá rétt eins og nú og Stebba langaði að prófa að fara einn túr á bát hér. Hjól gæfunnar létu ekki á sér standa og snúningur komst á þegar ég var stödd í kaffi hjá Eygló Stefáns en ég hafði kynnst henni þegar ég var á vertíð hérna. Þar sem við sitjum yfir kaffibolla, kemur Haukur, maðurinn hennar, heim og fer að segja okkur frá því að Simmi Gísla hefði verið að tala um að hann vantaði einn mann á Katrínu. Stebbi var þar með sjanghæjaður þar um borð, fékk síðan í framhaldinu pláss á Katrínu. Stebbi fylgdi þá mér og krökkunum norður en stundaði sjóinn héðan og kom norður til okkar í fríunum sínum þangað til í september að við fluttum hingað.“

Þessi mynd er tekin á Sigló sumarið 1961. Talið að ofan: Tvíburarnir Oddný og Magga, Silla og Svava.

Sjómannskona í 30 ár
Nú í sumar hefur Svava verið sjómannskona í 30 ár. Sú, er hér skrifar, er sjómannsdóttir og veit því að það er aukið álag á slíkum heimilum. Ég spyr þvi Svövu út í þetta álag. Eins og fyrr er Svava dugnaðurinn uppmálaður og gerir lítið úr því en bætir svo við: „Ég þekki náttúrulega ekkert annað og hef enga aðra viðmiðun. Auk þess held ég að það sé öðruvísi hjá fjölskyldum þar sem heimilisfaðirinn er lengi í burtu í einu. Það gæti ég aldrei hugsað mér. Stebbi kemur alltaf heim tvisvar í viku og er heima á öllum hátíðum og tekur sér góð frí inn á milli. En auðvitað, eins og á öðrum sjómannaheimilum, geng ég í öll hlutverk. Ég er vön að gera allt sjálf, ég slæ blettinn, þvæ bílinn, fer í bankann, fer með bílinn í viðgerð og er í rauninni bæði mamman og pabbinn. Ég man t.d.að þegar við fluttum hingað, var mikill hörgull á húsnæði. Bæði var erfitt að fá leigt og keypt og við þurftum að flytja fimm sinnum á tveimur árum. Þá var ég með þrjú börn, Stebbi alltaf á sjó og hann gat þá rétt hjálpað mér með kassana og búslóðina milli húsa svo sat ég uppi með að taka upp úr öllu auk þess að halda heimilinu gangandi. Mér fannst þetta ekkert mál þá en ég veit ekki hvað mér fyndist um þetta í dag. Auk þess finn ég að þegar Stebbi kemur í land þá leita krakkarnir eðlilega meira til mín af því þeir eru vanir því. Ég hef líka verið svo heppin að hafa getað verið heima síðastliðin átta ár, síðan sú yngsta, Hrafnhildur, kom í heiminn og sinnt börnunum og öðru sem þarf að sinna. Ég nýt þess,“ segir Svava sem er augljóslega sátt við hlutskipti sitt og stöðu sína i fjölskyldunni.
„Ég hef tekið þátt í sjómannslífi Stebba. Að vera í sjómannsfjölskyldu er lífsstíll sem öll fjölskyldan tekur þátt í. Tilhlökkun allrar fjölskyldunnar þegar Stebbi er að koma í land er krydd í tilveruna og skerpir ástina,“ segir Svava og ekki laust við að roði hlaupi í kinnarnar. „Ég legg áherslu á að vera heima þegar Stebbi kemur í land og þurfa þá ekki að fara í vinnu. Ég kann líka að meta svo mörg smápúsl í þessu sjómannslífspúsluspili. Það er svo margt líflegt sem fylgir því að vera sjómannskona, t.d. þegar Stebbi er í landi, koma margir vinir okkar í kaffi og er þá oft þétt setið í eldhúsinu."
Þar sem ég sit, með þessa sterku sjómannskonu fyrir framan mig, detta mér skyndilega í hug allir þeir minnisvarðar sem sjómönnum réttilega hafa verið reistir víða um landið. En hvert er hlutskipti sjómannskvenna sem sannarlega hafa á liðnum öldum gert eiginmönnum sínum kleift að sinna þessu krefjandi starfi? Telur Svava ástæðu til þess að reisa sjómannskonunni minnisvarða? Svar Svövu einkennist af lítillæti og hógværð: „Nei, mér finnst það ekkert merkilegt, sennilega af því að ég er sjómannskona. Ef ég væri það ekki, fyndist mér örugglega ástæða til þess. Ég er samt mjög stolt af því að vera sjómannskona og gæti alveg ráðlagt dætrum mínum að verða það, öfugt við það sem mamma vinkonu minnar fyrir norðan sagði: „Stelpur, ekki ná ykkur í sjómann.“ Ég hef aldrei skilið það.“ Í fyrsta skipti í viðtalinu er ég Svövu ósammála. Mér þykir það löngu tímabært að reisa sjómannskonum verðugan minnisvarða og enginn staður á Íslandi er betur til þess fallinn að hýsa slíkan minnisgrip en höfuðstaður íslenskrar útgerðar, Vestmannaeyjar.

Ógnarvald Ægis
Þessar vangaveltur okkar Svövu um stöðu sjómannskvenna leiða hug minn nú óneitanlega að bernsku minni. Minnug þess þegar ég, sem lítið barn, leit yfir ólgandi hafið og hafði áhyggjur af föður mínum einhvers staðar þarna úti spyr ég Svövu hvort hún hafi einhvem tímann verið hrædd við sjóinn.
Án þess að hika segist Svava aldrei hafa fundið fyrir því. Svo er eins og hugurinn flakki lítið eitt og hún bætir við: „Ég var reyndar mjög hrædd þegar Birgir var á Ófeigi þegar hann sökk.“ Þá rekur mig skyndilega minni til þess að hafa séð Svövu í sjónvarpinu þar sem hún faðmaði elsta son sinn að sér á bryggjunni eftir að honum hafði verið bjargað úr bráðum sjávarháska. Enn á ný er ég minnt á hversu stórbrotið lífshlaup þessarar kjarnakonu hefur verið. „Ég var samt mjög þakklát fyrir það að slysið varð að nóttu til og þegar ég fékk hringingu kl. eitt, var Birgir þegar kominn úr hættu og um borð í Danska Pétur heill á húfi. Ég hefði ekki viljað upplifa það að þurfa að bíða eftir hvað hefði orðið eða frétta það úti í bæ að slys hefði orðið. Auk þess lét það mér líða vel að bróðir tengdamömmu, Hilmar Stefánsson, var skipstjóri á Danska Pétri og það var hann sem tók á móti Birgi.
Ég hræðist ekki sjóinn þótt ég virði ógnarvald hans. Hins vegar er ég mjög meðvituð um hversu mótuð ég er af þeirri lífsreynslu að missa báða foreldra mína svona ung því ég er alltaf mjög hrædd um krakkana mína og í raun hrædd við að ég skilji við þau. Ég vil ekki að þau upplifi það sem ég þurfti að upplifa. Þetta á sérstaklega við um þegar þau eru lítil en síðan þegar þau eru orðin fullorðin eins og strákarnir eru í dag þá finnst mér ég hafa skilað mínu í þeim skilningi þá eru þau betur í stakk búin að geta bjargað sér sjálf.“

Fjölskyldan er mér allt
Rauði þráðurinn í öllu spjalli okkar Svövu hefur verið fjölskyldan. Það kristallast nú fyrir mér hvernig bros Svövu til barna sinna, þegar fjörið var sem mest í eldhúsinu, er í raun þakklætisvottur hennar til forlaganna. Þakklæti hennar fyrir að fá að gefa börnum sínum þá bernsku sem hún þráði. „Þar sem ég fór á mis við venjulegt fjölskyldulíf, legg ég mikið upp úr fjölskyldunni. Ég met það mikils og þakka guði fyrir fjölskylduna sem mér var gefið að stofna. Ég er svo lánsöm að hafa átt sama manninn í 30 ár og eiga með honum fimm börn. Ég þakka fyrir stóru jafnt sem smáu atriðin, t.d. þegar við sitjum öll saman við matarborðið. Ég man ekki eftir slíkri stund frá því þegar ég var lítil. Öll þessi hversdagslegu atriði met ég mikils. Börnin eru aldrei fyrir mér. Ég hef þau alltaf með mér hvert sem ég fer og ef þau eru með einhverjum vinum sínum, tek ég þá líka með ef þeir vilja. Það er sjálfsagður hlutur að foreldrar gefi börnunum sínum það eina sem þau þurfa, tíma. Ég veit hins vegar að það er ekki sjálfsagt að foreldrar og börn fái tíma saman. Þess vegna legg ég mikið upp úr því að nota þennan dýrmæta tíma vel. Þegar ég fer upp í hesthús eða í sund, er ég því yfirleitt með kippu af börnum með mér,“ segir Svava og hlær. „Þannig líður mér best. Ég hef líka lagt áherslu á að innræta börnum mínum trú enda er ég trúuð og trúin hefur hjálpað mér mikið og leitt mig í gegnum lífið. Mér hefur hingað til gefist best að láta almættið um stjórnartaumana og það hyggst ég gera áfram.“
Kvöldsólin teygir nú geisla sína inn um gluggann á þessu fallega heimili og þeir lenda á andiliti þessara sjómannskonu sem reynt hefur svo margt. Svava leggur frá sér bollann og snýr andlitinu beint mót geislum sólarinnar.

Fylgt úr hlaði
Ég vil að lokum þakka þér, Svava, fyrir að leyfa mér og lesendum að fá að sjá inn í lífið og tilveruna í gegnum þinn glugga. Ég get ekki annað en brosað að hæversku þinni þegar ég innti þig eftir viðtali og svo aftur þegar ég mætti á Kirkjubæjarbrautina þennan apríldag þá fannst þér þú ekki hafa neitt merkilegt að segja - en það var öðru nær.

Bertha I. Johansen