Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2009/Nýsmíði Ísfélags Vestmannaeyja
Þann 1. nóvember árið 2007 var undirritaður smíðasamningur á milli Ísfélags Vestmannaeyja hf. og skipasmíðastöðvarinnar ASMAR í Talcahuano í Chile. Í febrúar árið eftir var svo undirritaður samningur við sömu skipasmíðastöð um smíði á öðru nákvæmlega eins skipi. Skipin eru af nýrri kynslóð uppsjávarfiskiskipa sem norska skipahönnuarfyrirtækið Rolls-Royce Marine hannar og eru þau af gerðinni NVC-352. Héðinn hf. er umboðsaðili skipahönnunaraðilans á Íslandi og sáu þeir um undirbúning verkefnisins.
Þróun skipanna hófst fyrir rúmlega fimm árum og er þegar búið að sjósetja fimm skip þessarar gerðar. Má þar nefna norska skipið Knester sem er stórglæsilegt og hefur reynst afburðavel.
Markmið Rolls-Royce Marine við hönnun skipsins var að hanna skrokk sem væri hagkvæmur og færi vel í sjó, bæði á siglingu og við veiðar. Einnig var vélbúnaður, aðalvél og skrúfubúnaður, hannaður sem hagkvæmastur fyrir siglingu, veiðar og fiskleit. Útkoman reyndist vera mjög gott og hagkvæmt skip sem notar 10-20% minna eldsneyti en sambærileg eldri skip.
Skipin verða 71,10 metrar að lengd og 14,40 metrar að breidd og ganghraði þeirra um 16 hnútar. Lestarrými skipana er 2,150 m3 sem tekur 2000 tonn í 10 tönkum, útbúnum öflugu RSW kælikerfi með afkastagetu upp á 1,2 milljón kílókaloríur. Skipin verða útbúin til nóta- og flottrollsveiða og er aðalvél af gerðinni Bergen-Díesel, 4500 kw eða 6.120 hestöfl.
Engin vinnsla verður í skipunum en með smíði þeirra er verið að styrkja landvinnslu félagsins með það að markmiði að nýta betur hráefni, bæði í landfrystingu og bræðslu. Með þessu er Ísfélag Vestmannaeyja hf. að stíga stórt og metnaðarfullt skref í endurnýjun á uppsjávarflota félagsins.
Gert var ráð fyrir því að fyrra skip félagsins kæmi á vordögum 2010 en í kjölfarið á alþjóðlegri fjármálakreppu seinkar komu fyrra skipsins til landsins þar til í árslok 2010, seinna skipið ætti þá að koma um ári seinna. Vinna við fyrra skipið er svo til nýbyrjuð svo að engin mynd er komin á skrokk skipsins. En skipasmíðastöðin ASMAR, sem smíðar skipin, ætti að vera okkur Vestmannaeyingum kunn því Huginn VE 55 var smíðaður í þeirri stöð og kom hann til landsins árið 2001. Í stöð þessari hafa auk Hugins verið smíðuð fjögur skip fyrir Íslendinga Ingunn AK, Árni Friðriksson RE, Hákon EA og nú síðast nýja varðskipið okkar. Auk þess var hin færeyska Norðborg KG smíðuð í þessari stöð.
Nánari upplýsingar um skipin og búnað þeirra má finna á heimasíðu Héðins hf.