Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Íþróttamiðstöðin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 22. júní 2017 kl. 11:38 eftir Mardis94 (spjall | framlög) Útgáfa frá 22. júní 2017 kl. 11:38 eftir Mardis94 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Íþróttamiðstöðin

Menntamálaráðherra, Vilhjálmur Hjálmarsson.
Friðrik Jesson, íþróttakennari

Vígslur mannvirkja eftirminnilegir atburðir í sögu bæjarins, og byrjunar rekstur lofar góðu fyrir framtíðina.

Vígsla sundhallarinnar fór fram laugardaginn 10. júlí 1976 í einmuna góðu veðri, að viðstöddum um 1000 vígslugestum. Troðfullt var inni í laugarsalnum og á göngum, og fjöldi fólks var fyrir utan húsið og fylgdist þaðan með því sem gerðist.

Ræðu flutti menntamálaráðherra, Vilhjálmur Hjálmarsson, sóknarpresturinn, séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson, flutti blessunarorð og forseti bæjarstjórnar, Einar H. Eiriksson, þakkarávarp til allra sem að húsinu unnu á einn eða annan hátt. Samkór Vestmannaeyja söng, og formaður framkvæmdanefndar um byggingu íþróttamiðstöðvarinnar, Stefán Runólfsson, þakkaði góðar gjafir, sem bárust.
Friðrik Jesson, íþróttakennari, stjórnaði því næst hópsundi skólabarna og lýsti laugina formlega tekna í notkun.
Páll Zophoníasson bæjarstjóri stjórnaði vígslunni.

Sunnudaginn 11. júlí tók svo sundlaugin til starfa með tímum fyrir almenning og sundnámskeiðum. Þess má geta til marks um áhuga fólks fyrir sundinu, að mánudaginn 12. júlí fóru 1329 manns í laugina, og fyrstu vikuna urðu baðgestir samtals 6274. Aðsókn hefur síðan verið jöfn og góð, og til áramótanna urðu baðgestir um 75000 talsins.

Frá því að laugin var opnuð, hafa sundæfingar farið fram af miklum krafti. Tvisvar hefur landsliðsþjálfarinn í sundi, Guðmundur Harðarson, komið hér og haldið námskeið fyrir leiðbeinendur í sundi. Sjö sundmót hafa verið haldin og mjög góður árangur náðst.
Vestmannaeyjameistaramót í sundi var haldið 19. des. 1976. Slíkt mót hafði þá ekki verið haldið síðan 1939.
Fjöldi Vestmannaeyjameta hafa verið sett.

Sundlaugin er opnuð kl. 0700 á morgnana. Þá eru venjulega fjölmargir bæjarbúar — ungir og aldnir — mættir til að fá sér sundsprett. Laugin er opin fyrir almenning til kl. 2100, en þá taka við sundæfingar til kl. 2300.

Íþróttahúsið var svo formlega vígt 12. sept. s. l. Vígsluathöfnin hófst með leik Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Síðan gengu 160 unglingar í íþróttasalinn og fór fánaberi fyrir með íslenskan fána. Að lokinni fánahyllingu voru fjölmargar ræður fluttar. Þar á meðal talaði Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi ríkisins, og rakti sögu íþróttanna í Vestmannaeyjum.

Að ræðuhöldum loknum sýndi listir sínar fimleikaflokkur frá Ollerup í Danmörku, alls 32 piltar og stúlkur. Sýning þessi þótti takast mjög vel og létu áhorfendur hrifningu sína óspart í ljós. Loks þakkaði bæjarstjóri gestum komuna, og þar með lauk vígslu þessa glæsilega mannvirkis, þar sem m. a. öll leikfimikennsla í Eyjum mun fara fram og æfingar og keppnir íþróttafélaganna.

Sundflokkur vlð vígsluhátíð sundhallar.
Bæjarstjóri og nokkrir bæjarfulltrúar prófa nýju sundlaugina. Frá v.: Páll Zophoniasson, Jóhannes Kristinsson, Sigurgeir Kristjánsson, Sigurbjörg Axelsdóttir, Einar H. Eiríksson, Garðar Sigurðsson og Jóhann Friðfinnsson.
Landleguráðstefna í lúkarnum á Frá.