Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1996/ Tækifæri í sjávarútvegi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 10:46 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög) Útgáfa frá 12. apríl 2017 kl. 10:46 eftir Karibjarna2 (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Sigurður Einarsson


TÆKIFÆRI Í SJÁVARÚTVEGI


Því heyrist oft fleygt að nú séu engin tækifæri í íslenskum sjávarútvegi og ekkert hægt að gera. Það sé búið að ákveða kvótann og veiðiheimildir og deila þeim út. Þeir sem eru fyrir í greininni sitji þar að öllu og engin tækifæri séu fyrir unga menn eða nýliða sem vilja hasla sér völl í sjávarútvegi. Ég held að þetta sé alrangt og það eigi við í sjávarútvegi eins og víða annars staðar í þjóðlífinu að möguleikar séu ekki síðri en áður. Enn gildir stakan:

„Tækifærið gríptu greitt,
giftu mun það skapa,
járnið skaltu hamra heitt,
að hika er sama og tapa."
(Steingrímur Thorsteinsson.)


Það þarf að grípa tækifærin þegar þau gefast og það skiptir máli að sjá hvar möguleikarnir liggja.

Möguleikar í veiðum.
Oft heyrist það að þar sem ákveðið er hvernig veiðunum skuli háttað séu ekki tækifæri fyrir aðra að komast inn í þær. Sú stjórnunaraðferð að stýra fiskveiðum með kvótakerfi var tekin upp 1984. Það kemur hins vegar í ljós að það hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar á veiðunum. Fyrirtæki, sem voru lítil 1984, hafa stækkað og önnur hætt.
Ég held að þetta sé ekkert öðruvísi en áður. Menn verða að minnast þess að oft gekk á ýmsu í útgerð á árum áður, útgerðir urðu gjaldþrota og skip gengu kaupum og sölum. Fiskiskip hafa alltaf verið mjög dýr og það hefur aldrei verið fyrir hvern sem er að vera í útgerð þó að margir hafi byrjað en síðan hætt. Ég held þess vegna að tækifærin séu fyrir hendi eins og þau hafa alltaf verið en það var dýrt og er dýrt að kaupa skip.
Einnig má hafa í huga að nú eru veiddar ýmsar fisktegundir sem voru lítið eða ekki veiddar fyrir nokkrum árum. Þeir sem hafa snúið sér að veiði annarra tegunda hafa oft staðið sig betur en þeir sem hafa haldið sig við hefðbundnar tegundir.

Stærð fiskvinnslufyrirtækja og tæknibylting.
Það eru örugglega fjölmörg tækifæri í vinnslu sjávarafurða. Þróunin virðist annars vegar stefna að tiltölulega litlum fyrirtækjum, þar sem fáir vinna, fyrst og fremst fjölskyldufyrirtækjum, og hins vegar stórum og öflugum fyrirtækjum. Ég fullyrði að það eru miklir möguleikar fyrir þá sem eru að byrja í vinnslu. Það er m.a. hægt að vinna fiskinn ferskan fyrir erlendan markað, finna nýja markaði, en auðvitað er hörð samkeppni þar eins og annars staðar.
Sjávarútvegsfyrirtæki hafa ekki hikað við að taka í notkun nýja tækni, hvort sem um er að ræða hugbúnað eða vélbúnað, til þess að ná sem bestum árangri. Sjávarútvegurinn hefur lagað rekstur sinn að þeirri tækni sem er best á hverjum tíma og það hefur skilað sér. Þarna liggja mikil tækifæri fyrir ungt og menntað fólk til að hasla sér völl þar sem fyrirtækin eru djarfari við að fjárfesta í nýrri tækni því að þau sjá að þessi nýja tækni borgar sig oft á skömmum tíma.

Tækifæri erlendis, samkeppni og fjármagn.
Möguleikarnir í sjávarútvegi eru bæði innan lands og erlendis. Það virðist sem þekking Íslendinga á veiðum og vinnslu sé svo góð að þeir séu mjög vel samkeppnishæfir í sjávarútvegi erlendis. Fyrirtæki og einstaklingar hafa gripið tækifærin erlendis og virðist ekkert lát á möguleikum þar.
Áður fyrr seldu stór sölusamtök megnið af fiski Íslendinga en nú eru fjölmargir sem selja íslenskar sjávarafurðir. Þarna eru tækifæri fyrir ný fyrirtæki að hasla sér völl en allt er þetta barátta og mikil samkeppni er á þessu sviði. Þarna eru eigi að síður miklir möguleikar að gera eitthvað og láta til sín taka. Þarna er hröð þróun eins og annars staðar.
Hlutabréfamarkaðurinn er orðinn miklu almennari en var áður og fyrirtæki útvega sér þar töluvert áhættufé. Jafnframt er orðið miklu léttara að fá lánsfé en áður þannig að fyrirtækin geta fengið lán ef þau hafa góðar hugmyndir eða heilbrigðan rekstur. Þetta gerir það að verkum að hægt er að fjármagna sig betur og það býður upp á meiri möguleika fyrir nýliða í greininni.

Tækifærin í Vestmannaeyjum.
Allt það sem sagt hefur verið hér um tækifæri í sjávarútvegi gildir að sjálfsögðu í Vestmannaeyjum. Ég tel að það séu betri möguleikar í Vestmannaeyjum til þess að vinna við sjávarútveg og ná árangri heldur en víða annars staðar á landinu. Frá fornu fari hafa Vestmannaeyjar verið stærsta verstöð landsins og það virðist ætla að verða þannig um ókomin ár.
Ég held að það sé ekki ofsagt að möguleikarnir eru alls staðar, menn verða bara að nýta þá. Hér gildir það sama og oft áður að það veldur hver á heldur og hver er sinnar gæfu smiður. Það gerist ekkert ef menn sitja með hendur í skauti og kvarta endalaust meðan tækifærin fljúga framhjá.

Sigurður Einarsson.